HM: Sex – Núll!!!

team_argentina.jpg

Ég veit hverjir verða heimsmeistarar í knattspyrnu. Fékk vitrun fyrr í dag.

Málið er ekki bara það að Argentínumenn hafi á að skipa mjög reyndum og færum markverði í Abbondanzieri. Málið er heldur ekki það að þeir séu með einn mesta markaskorara í heiminum, Hernan Crespo, í fremstu víglínu. Málið er heldur ekki það að þeir séu með mjög leikreynda, skipulagða og illvíga vörn. Málið er heldur ekki það að á miðjunni séu tveir leikmenn, Cambiasso og Mascherano, sem eru algjör mulningsvél.

Og málið er heldur ekki það að þetta sé landslið sem býður upp á hvorki fleiri né færri en fimm töframenn: Javier Saviola, Leo Messi, Carlos Tevez, Pablo Aimar og Maxi Rodriguez.

Málið er það að í hjarta þessa liðs er leikmaðurinn sem mun að öllum líkindum verða stjarna þessarar heimsmeistarakeppni. Það er að segja, ef Argentínumenn endast mótið með sama hætti og þeir hafa spilað fyrstu tvo leiki sína. Við sáum marga leikmenn skora í dag og marga leikmenn leggja upp mörkin, en glöggir menn hafa líka séð að allar sóknirnar þeirra fara í gegnum sömu gatnamótin.

Þessi gatnamót heita **Juan Roman Riquelme** og þau eru einn besti leikmaður í heiminum. Ekki af því að hann getur tekið leikmenn á eins og Leo Messi getur, ekki af því að hann skorar jafn mikið og Hernan Crespo, og ekki af því að hann vinnur varnarvinnuna sína jafn vel og Javier Mascherano. Heldur af því að í huganum er hann einn snjallasti leikmaður sem ég hef séð. Við höfum einn svona hjá okkur í Liverpool, hann heitir Xabi Alonso og er að fara á kostum með Spánverjum. Riquelme er leikmaður sem Alonso ætti að líta upp til, því hann er sennilega sá eini í heiminum í dag sem er betri í sínum sérflokki en Alonso er.

Riquelme er svo snjall leikmaður að hann þarf ekki að hlaupa hratt eða vera snöggur í hreyfingum. Hugurinn hans vinnur á öðrum hraða en hugur annarra leikmanna, þannig að það er eins og hann sé með sekúndu í forgjöf á alla aðra þegar kemur að því að senda boltann frá sér. Hann sér möguleikann, sendir í svæði sem við hin þurfum þrjár endursýningar til að bera kennsl á, og svo sekúndu síðar rennur upp fyrir varnarmönnum það ljós að það sé búið að spila þá upp úr skónum.

Ef Riquelme heldur áfram að sýna okkur af hverju Maradona segir að hann sé mikilvægasti leikmaður Argentínu síðan hann sjálfur var að spila, af hverju José Pekerman kaus að byggja liðið sitt upp í kringum það að Riquelme gæti spilað sína bestu stöðu (ertu að hlusta, Sven Göran?), þá verða Argentínumenn heimsmeistarar. Það getur ekkert lið stöðvað þá eins og þeir spiluðu í dag!

7 Comments

 1. Rosalegur leikur, og að geta sett inn menn einsog Leo Messi & Carlos Tevez inná þegar allir eru búnir á því vegna hita er magnað. Kannski England ætti að byrja með Gerrard á bekknum, taka hann úr ísbaði og setja hann ferskan inná á sjötugustu mínútu, hann gæti öruglega skorað þrennu.

 2. Vá! segi ég nú bara. Frábær knattspyrnuveisla í boði hjá Argentínumönnum og ég bara man ekki eftir jafn skemmtilegu liði. Ég hef alltaf haldið meira upp á Brassana heldur en Argentínu, en í dag féll ég algjörlega fyrir þeim: ég man ekki eftir að hafa séð jafn flottan leik hjá einu liði í HM á allri minni ævi. Argentína ætti að rústa Hollendingunum um toppsætið í riðlinum því Hollendingar voru rosalega heppnir með að vinna Fílabeinsströndina í dag. Ég held ekki að Tevez og Messi hafi komið inn á dag vegna þreytu hinna leikmannanna … þeir áttu bara að fá sín tækifæri.

  Þrátt fyrir að tölfræði segi að Ameríku-lið vinni ekki HM þegar keppnin er haldin í Evrópu (fyrir utan Brasilíu í Svíþjóð 1958), þá sé ég ekki hvernig á að vera hægt að stoppa Argentínu í þessum ham. Mér fannst hreinlega allir vera frábærir hjá þeim! Það er enginn egóisti þarna, flottasta liðsheild sem ég hef séð og fögnuðurinn alltaf jafnmikill hjá öllum – tvo close-up af Heinze og Abbondanzieri hljóta að vera merki um það.

  Það er að vísu ekki víst að Argentína geti spilað alltaf svona, en af hverju ekki? Þetta lið er byggt á mönnum sem hafa unnið HM titla sem lið … hvað var það aftur … þrisvar sinnum í yngri HM keppnum? Ólympíumeistarar, var það ekki?

  Ég hef ennþá taugar til Englands, en miðað við spilamennsku sem liðin hafa sýnt, þá dettur mér helst kannski Spánn í hug sem gæti stoppað Argentínu. En væri það ekki annars ultra-frábær úrslitaleikur – Spánn:Argentína???

 3. Sá ekki leikinn….. enn pælið í einu Riquelme var eitt sinn leikmaður Barcelona en því miður þá höfðu þeir ekki not fyrir hann (EKKI vegna þess að hann er brasilíumaður og var/er ekki með evrópskt vegabréf, bara vegna þess að hann passaði ekki leikskipulagið hjá þeim)…….. :confused:
  Á þeim tíma sem liðið hefur síðan hann fór hefur hann gjörsamlega sprungið út og á bara eftir að verða betri….. Ég gjörsamlega dýrka þennan mann !

  Annars verð ég að taka í sama streng og Kristján að Argentínumenn eiga eftir að fara langt í þessari keppni (mín von er að þeir mæti Brössunum í undanúrslitum) 😉

 4. Mig langaði bara að benda á það að Arjen Robben var spjaldaður í dag fyrir leikaraskap….hann var að reyna að fiska vítaspyrnu. Þetta ætti svosem ekki að koma neinum á óvart enda ekki í fyrsta skipti sem fí**ið stundar leikaraskap á knattspyrnuvellinum. Hver man ekki eftir Liverpool – Chelsea í vetur þegar Reyna var rekinn af velli?

 5. Mér finnst að Englendingar ættu að líta upp til Argentínu og fara að þeirra fordæmi. Þeir eru með MARGA snjalla sóknarmenn og fleiri en einn frábærann “playmaker” en þir eru samt skynsamir og byggja lið sitt í kringum besta leikmannninn, Riquelme. England ætti að gera það sama með Gerrard í staðin fyrir að kaffæra honum í varnarsinnuðu hlutverki. Gerrard er TÍFALT betri leikmaður en Frank Lampard og hefur sannað það á nánast öllum stigum. Frank Lampard hefur aðeins leikið vel þegar að hann hefur 2 leikmenn til að covera fyrir hann, England hefur ekki þessa tvo leikmenn en þeir hafa Michael Carrick og ég held að hann sé góður “anchor” til að spila með Gerrard og ég held að það væri meira jafnægi í liðinu. Gerrard er besti miðjumaður í heimi og getur unnið heimsmeistaratitilinn fyrir England upp á eigin spítur en það er aðeins einn maður í heiminum sem að spilar honum ekki í sinni bestu stöðu og þess vegna munu Englendingar ekki vinna HM.

 6. Mínir menn í Argentínu voru rosalegir í þessum leik. Ein besta frammistaða liðs sem ég hef séð á HM. Ef þeir halda þessu áfram verða þeir heimsmeistarar, spiluðu miklu betur en Brassarnir í sínum fyrsta leik.

Cisse til Marseille?

Kuyt mál að klárast?