HM: Ekvador!

Jæja, Ekvador voru að skella liði Kosta Ríka í annarri umferð A-riðils. Þeir unnu auðveldan og sannfærandi 3-0 sigur sem þýðir að þeir eru á toppi riðilsins með sex stig ásamt Þjóðverjum, á meðan Kosta Ríka-menn og Pólverjar sitja eftir án stiga. Það er því ljóst að Ekvador og Þýskaland eru örugg áfram í 16-liða úrslitin, en leikur þessara tveggja liða í lokaumferðinni gæti hins vegar orðið rosaleg.

Málið er þetta: þriggja marka sigur Ekvadora í dag þýðir að þeir eru með betri markatölu en Þjóðverjar. Sem setur þá í fyrsta sæti í riðlinum, og þar munu þeir enda ef leikurinn við Þjóðverja endar í jafntefli (eða ef Ekvadorar vinna, að sjálfsögðu). Sem þýðir að Þjóðverjar verða að vinna Ekvador til að vinna riðilinn.

Af hverju er þetta svona mikilvægt? Jú af því að sigurliðið í þessum A-riðli mætir liðinu í öðru sæti í B-riðli, og svo öfugt. Og miðað við fyrstu umferðina í B-riðli verður að teljast líklegt að Englendingar vinni B-riðil, úr því að Svíar töpuðu stigum gegn Trínídad & Tóbagó. Þannig að ef Þjóðverjarnir ná ekki að sigra Ekvador gætum við verið að horfa upp á **Þýskaland – England** í 16-liða úrslitunum.

Sem yrði geggjaður leikur! 🙂

Annars leggst þetta Ekvador-lið feykivel í mig. Þeir hafa komið liða mest á óvart í keppninni hingað til og miðað við spilamennsku þeirra í þessum tveimur leikjum myndi ég ekki útiloka það að þeir fari lengra en í 16-liða úrslit. Sérstaklega ef þeir forðast Englendinga í 16-liða úrslitunum, því ég tel möguleika Ekvador gegn Svíþjóð eða Paragvæ bara nokkuð góða. Þá væru þeir komnir í átta liða úrslitin og þar geta öll lið unnið alla. Þannig að ekki afskrifa þetta lið, þeir eru feykigóðir, þrátt fyrir að þeirra frægasti leikmaður sé varaliðsmaður hjá Aston Villa.

Fimmtíu mínútur í England – T&T og byrjunarlið Englendinga í dag mun líta svona út:

Robinson

Carragher – Ferdinand – Terry – A. Cole

Beckham – Gerrard – Lampard – J. Cole

Owen – Crouch

Jább, Jamie Carragher er að fara að spila á Heimsmeistaramóti í knattspyrnu fyrir England. Ef það er ekki ástæða til að brosa í allan dag þá veit ég ekki hvað er. Þrír púllarar í liðinu í dag, þannig að maður verður að segja *áfram England!* 🙂

2 Comments

  1. Jæja, þá er ekkert annað að gera en að setjast fyrir framan skjáinn og öskra áfram Liver… ö ég meina England :biggrin:

  2. Þeir eru nú eiginlega fjórir elskan.
    Owen villtist bara á M5 eftir spánarveruna og endaði á vitlausu exiti nálægt njúkastle.
    Það þarf bara að láta hann fá kort þá kemur hann til baka. :biggrin:

HM: Spánverjar í banastuði!

HM: “Liverpool” 2 – T&T 0