Tógó?

Smáríkið Tógó frá Afríku hefja leik á HM klukkan 13 í dag gegn Suður-Kóreu, og eru einnig með Frökkum og Svisslendingum í riðli en þau lið mætast síðar í dag. Ég hef tekið þá ákvörðun að halda ekki með Tógó í þessari keppni, þvert á móti ætla ég að vona að þeir tapi öllum leikjum stórt og hundskist aftur heim til sín sem fyrst.

ÞETTA ER ÁSTÆÐAN!

>”Players have pressed their demands for 155,000 euros (£105,900) each to play in the World Cup plus 30,000 euros (£20,500) each per win and 15,000 euros (£10,000) per draw.

>Officials from a country with an average per-capita income well below £500 have said the demands are too high and negotiations are still underway.”

Þjálfari liðsins hætti sl. föstudag eftir að leikmennirnir höfðu skrópað á þremur æfingum í röð, í mótmælaskyni við það að knattspyrnusamband þjóðarinnar hafði ekki fallist á að borga þeim þessa bónusa sem þeir heimta fyrir að spila fyrir land sitt og þjóð á HM í knattspyrnu.

Lesist: **ÞEIR FÓRU Í VERKFALL!!! VIKU FYRIR HM!!!**

Ef Eyjólfur Sverris hringdi í mig í dag og segðist þurfa fá mig til Þýskalands til að spila með Íslandi á morgun, en hann gæti ekki borgað mér neitt fyrir, þá myndi ég fara í frá vinnunni minni, versla mér miða til Þýskalands á kredit og gera það sem ég gæti til að hjálpa landsliðinu mínu.

Ég myndi ekki fara í verkfall og heimta sem nemur **211 sinnum hærri upphæð** en meðal-samlandi minn þénar á mánuði fyrir þann heiður að fá að spila fyrir mitt landslið á HM í knattspyrnu.

Fyrir þessa græðgi ætla ég að hvetja Suður-Kóreumenn ákaft til dáða á eftir. Og svo Sviss og svo Frakkland. Ef það er eitthvað lið sem á ekkert betra skilið en að tapa þremur leikjum sínum 5-0 og vera svo látnir labba heim til sín berfættir frá Þýskalandi, þá eru það þessir aumingjar. Allir sem einn.

e.s.
Jú, ég geri mér grein fyrir því að Tógó eru ekki eina landsliðið þar sem leikmenn fá bónusa fyrir að spila með landsliði sínu og aukabónusa fyrir hvert stig/sigur. Ég er ekki fæddur í gær. Enda eru það ekki launagreiðslurnar per se sem fara í taugarnar á mér. Þessir gæjar eru með vonir og bænir heillar þjóðar á bakinu, þjóðar sem hefur aldrei áður fengið að vera hluti af HM í knattspyrnu, og þeir fara í verkfall vegna þess að þeir fá ekki peningana sína. Peninga sem knattspyrnusambandið þeirra á augljóslega ekki til, og er í engu samræmi við efnahag þjóðarinnar.

10 Comments

 1. Hvað eru annars 211 faldar meðaltekjur Íslendings? Svona svo ég viti hvað ég á að biðja um þegar Jolly hringir …

 2. Miðum bara við lágmarkstekjurnar.

  70.000 x 211 = 14.770.000 kr. Og það er bara fyrir að spila í mótinu – svo eru sér bónusar fyrir hvert stig og hvern sigur og hvert mark …

  Þannig að þú sérð hvað þetta eru óraunhæfar kröfur hjá Tógó-mönnum. Heldur þú að KSÍ færi að borga hverjum landsliðsmanni 15 milljónir króna fyrir það eitt að fara til Þýskalands og taka þátt? Ég held ekki.

 3. Þetta voru meðal árstekjur þ.a. við erum að tala um rúmar 177 milljónir (14.770.000 * 12 = 177.240.000). 😯

 4. Þetta er mjög einstrengingsleg afstaða hjá þér Kristján Atli. Málið er mun flóknara en svo að hægt sé að saka leikmenn um græðgi. Að mér vitandi ætlast leikmenn ekki til að almenningur í landinu greiði þeim “ofurlaun” fyrir að spila á HM.

  Í fyrsta lagi ríkir ekki lýðræði í landinu heldur er landinu stjórnað af elítu í skjóli hervalds. Þetta virðist kannski snúast um peninga en hér gæti eitthvað allt annað verið í gangi, svipað og te-partýið í Boston sem kom sjálfstæðisstríði Bandaríkjanna af stað.

  Svo finnst mér líklegt að þeir peningar sem leikmenn eru að krefjast eigi ekki að koma frá almenningi heldur úr sjóðum elítunnar sem gætu verið ansi digrir eftir áratuga arðrán hennar en við vitum reyndar ekkert um það. Er eðlilegt að bera saman launakröfur Chelsea leikmanna og meðaltekjur í Rússlandi – skamm, skamm, Eiður Smári???

  Allt tal um að íbúar í fyrsta heims lýðræðisríki telji nægilegt að spila fyrir þjóðarstoltið eitt og því ættu íbúar þriðja heims herveldis að gera það líka fellur auðvitað um sjálft sig.

  En líklegasta ástæðan fyrir þessum deilum er sú að Stephen Keshi þjálfari liðsins hefur lagt gríðaráherslu á liðsandann hjá leikmönnum sínum og meðal annars gert þeim að klæðast liðsbúningum öllum stundum. Ekki síst í þeim tilgangi að þjappa saman ríkari leikmönnum liðsins sem leika í Evrópu og fátækari heimamönnum. Ætli kröfur leikmanna séu ekki einmitt settar fram þar sem ríkari leikmönnum hefur blöskrað aðstæður heimamanna. Finnst það í raun frekar aðdáunarvert að þeir séu tilbúnir til að fórna eigin HM draumum til að geta bætt aðstæður félaga sinna. Einn fyrir alla, allir fyrir einn?

  Ég mun fylgjast mjög spenntur með spilamennsku Togo.

 5. Seðill, þú rökstyður þína skoðun ágætlega fyrir utan eitt. Þú ert að gefa þér allt of mikið að þú vitir hvað leikmenn Tógó eru að hugsa. Við vitum ekkert hvort þetta er góðgerðarstarfsemi hjá ríkari leikmönnunum, við vitum ekkert hvaða ástæður þeir hafa fyrir að hegða sér svona.

  Við vitum það hins vegar að þeir eru fulltrúi heillar þjóðar og þeir kjósa að eyðileggja þetta tækifæri allrar þjóðarinnar með persónulegum ágreiningi um fjármál (sem virðast, allavega á yfirborðinu, vera algjörlega þeim að kenna – sem sagt græðgi). Það er það sem er svo ömurlegt við þetta. Ef einhver gæti komið með betri útskýringu á því af hverju þeir fóru í verkfall og settu allan undirbúning sinn úr skorðum fyrir viku síðan myndi ég glaður þiggja hana, því ég græði ekkert á því að vera á móti þeim (finnst ef eitthvað er gaman að halda með minnimáttar á HM).

  En á meðan engar aðrar ástæður koma í ljós verðum við að horfa á þær breytur sem við þekkjum til að skilja formúluna. Þeir eru fulltrúar lands síns, fara í verkfall viku fyrir HM vegna peningaágreinings, og fyrir vikið er allt í uppnámi og öll þjóðin líður. Hún gerir það, það er ekki bara rómantískt bull í mér heldur staðreynd, við værum í öngum okkar ef við værum búnir að hlakka til í tíu mánuði að sjá Ísland á HM og svo viku fyrir mót myndi allt fara til fjandans. Við værum líka eyðilögð sem þjóð yfir slíku máli.

  Og ekki reyna að segja mér að af því að ég bý í fyrsta heims lýðræðisríki að þá megi ég ekki segja neitt um þriðja heims einræðisríki. Það er alveg sama hvort við erum að tala um Brasilíu eða Tógó, Ísland eða England, eða hvaða annað land sem er í heiminum, menn eiga að vera stoltir yfir því að fá að spila fyrir sína þjóð og ef knattspyrnusamband þjóðarinnar einfaldlega hefur ekki fjármagn til að borga mönnum þær háu bónusgreiðslur sem þeir krefjast, þá einfaldlega lækka menn kröfur sínar og reyna að hafa það í huga að þeir eru að spila **fyrir hönd þjóðar sinnar** en ekki öfugt. Þjóðin er ekki að þessu til handa leikmönnunum, þeir eru að þessu handa þjóðinni.

  Áfram Suður-Kórea. 🙂

 6. Nei Kristján, ég gef mér akkúrat ekki neitt. Ég bendi á að þú er með mjög einstrengingslega afstöðu þess eðlis að þú gefur þér að ástæðan sé græðgi. Ég nefni nokkrar aðrar ástæður sem gefa verkfalli leikmanna töluvert annan blæ og væru frekar þess eðlis að vekja aðdáun einhverra frekar en að vera uppnefndir aumingjar. En það er allt vangaveltur hjá mér fyrir utan að ég tel ómögulegt að yfirfæra gildismat okkar íslendinga yfir á aðrar þjóðir, hvað þá þriðja heims þjóðir. Og þá skiptir engu þótt um fótbolta sé að ræða.

  Og það er líka rétt að ástæðan gæti einfaldlega verið grægði sem væri gagnrýnisvert og ömurlegt af leikmönnum. En meðaltekjur þjóðarinnar koma því máli samt ekkert sérstaklega við þegar við vitum ekki alla söguna varðandi hvaðan þeir peningar kæmu sem leikmenn ásælast.

  Ég tel einfaldlega ólíklegt að leikmenn eins og Adebayor sem Arsenal keypti síðasta vetur á 7 milljónir punda vilji sverta feril sinn á þennan veg fyrir bónusgreiðslur sem samsvara 3-4 vikna launum og vil því bíða með að fella dóm um málið.

  p.s. held að allar þjóðir borgi einhverjar bónusgreiðslur. Er munurinn s.s. sá að Tógó sé svo fátækt land? En ef það er bara fyrirsláttur hjá elítunni og það sé til nægir peningar sem stolið hefur verið af þjóðinni (sem oft hefur verið raunin, því miður, þótt ég þekki það ekki í þessu tilviki) – hvað þá?

 7. Ok! Fair enough, Kristján. Mundu samt eitt að ef leikmaður einhvers landsliðs meiðist og verður frá í marga mánuði (Lesist: Cissé), þá hefur félagslið viðkomandi leikmanns (lesist: Eigandinn) enga tryggingu um að landsliðið borgi laun leikmannsins á meðan hann er frá. Einnig er þetta slæmt fyrir leikmanninn sjálfann (Lesist: Cissé) að framtíð hans er óráðin í framhaldinu. Þetta er gott dæmi um hvernig landsliðin misnota leikmenn sem þeir eiga ekkert í og svo ætlast menn til alls af þessum leikmönnum þeas stökkva til þegar þeim hentar. Það er sjálfsagt toppurinn hjá fótboltamanni að spila á HM fyrir sitt land en mér finnst samt mega aðeins slaka á varðandi þessa einokun. Leikmennirnir eru að sinna sína eigin vinnu hjá sínum vinnuveitanda allt árið í kring og svo ætlast landsliðin til að þeir geri allt fyrir sig. Nei, Kristján Atli. Ég hef sko fengið meira en nóg af þessari einokun landsliðanna. Þetta kemur ekkert málinu við hvort menn spila fyrir hönd þjóðarinnar eða ekki. þetta er spurning um sanngirni.

 8. Ég er ekki með komment gagnvart Tógó og þeirra liðsmönnum – þeir töpuðu í dag og misstu mann út af …

  En ég verð að lýsa yfir furðu minn á ummælum #8 frá eikafr … ég hef aldrei orðið var við það að landslið séu að misnota leikmenn eða séu með einhverja einokun!!! Auðvitað er það draumur flestra (vil ekki alhæfa of mikið) að fá að spila fyrir landið sitt, og mér finnst það eðlilegt. Ég er ekki með einhverja tilbúna lausn á vandamálum þeirra liða og leikmanna, þegar leikmenn meiðast í landsleikjum. En þetta er því miður hluti af þessu. Mikilvægur leikmaður gæti líka meiðst í félagsliðaleik og ekki verið tilkippilegur fyrir landsliðið og það haft óbein áhrif á gengi landsliðsins… er það ekkert mál?

  Hvort sem landsliðsmenn fái bónus eða ekki fyrir að spila í HM eða annars staðar finnst mér ekki skipta mestu máli. Það er ískyggilegt hversu mikið peningarnir eru hins vegar farnir að hafa áhrif á hugarfar leikmanna. Finnst þér eðlilegt að góðir leikmenn vilji ekki fara frá liðum eins og Chelsea, vegna þess að þeir hafa það svo gott þótt þeir sitji langmest tímabilið á bekknum? Finnst þér metnaður ekki skipta máli?

  Cisse meiddist já í landsleik og Rafa vill bætur … en hann hefur ótrúlegan metnað og hefur ekki farið leynt með það að hann vilji spila með landsliðinu. Við töluðum meira að segja um það hér á síðunni hversu óheppinn drengstaulinn væri. Heldurðu líka að maður eins og Dudek sé ánægður með að vera ekki í landsliðshópnum?

  Þú talar um sanngirni – hver er hún? Gagnvart hverjum?

 9. Ég er sammála Seðill hvað varðar Tógó. Peningarnir í þessum fótboltaheimi er náttúrulega aldrei í samræmi við neitt hjá hinum almenna borgara. Ekki það að ég hafi eitthvað fyrir mér í því en ég gef mér að sama hvaða þjóð á HM við myndum skoða, þá væru greiðslur og bónusgreiðslur margfalt það sem fólkið í heimalandinu hefur á milli handannal.

HM dagur 4: Socceroooooooooos!

Daniel Alvés biður um sölu!