HM í dag: Holland og Mexíkó

bravo_netting.jpgÍ dag spiluðu tvö uppáhaldsliðin mín á HM leiki, Holland og Mexíkó.

Ég hef haldið með Hollandi verulega lengi. Ég man að þegar ég var pínulítill þá hélt ég uppá Michel Platini og franska landsliðið. Sú aðdáun dó þó á einhverjum tíma niður. Í stað hennar þá varð Ruud Gullit átrúnaðargoðið mitt. AC Milan var mitt uppáhaldslið í Evrópuboltanum og veggirnir heima hjá mér voru þaktir plakötum af Gullit, van Basten og Riikjard. Þegar ég var 11 ára sá ég svo Hollendinga vinna EM keppnina á eftirminnilegan hátt. Síðan þá hafa mín landslið ekki unnið á stórmóti.

Ég hef haft sterkar taugar til Hollendinga síðan þá og þeir hafa verið mitt helsta lið á stórmótum. Allavegana, ég horfði á þá [vinna Serbíu og Svartfjallaland](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/world_cup_2006/4852670.stm) (SOS) í dag. Leikurinn var sæmileg skemmtun, en þó olli hollenska landsliðið mér að vissu leyti vonbrigðum í þessum leik. Í raun má segja að Arjen Robben hafi verið allt í öllu í sóknarleik liðsins. Mér fannst miðjan og þá sérstaklega van Bommel og Cocu aldrei ná sér neitt sérstaklega á strik í leiknum. En það var samt fínt að ná sigri gegn þessu sterka liði SOS.

Fyrir okkur Liverpool menn, þá var Jan Kromkamp á bekknum allan tímann. Dirk Kuyt kom inná fyrir van Nilsteroy og virkaði ágætlega. Hann vann talsvert mikið aftur og átti góðan þátt í spilinu. Hann kom sér líka nokkrum sinnum í ágæt færi, en Arjen Robben var full markagráðugur í dag.


Hitt liðið mitt, sem spilaði í dag er Mexíkó. Þegar ég var tvítugur vann ég hjá Chupa Chups í Mexíkóborg. Eftir það hef ég ávallt haft ákaflega mikið álit á Mexíkó og íbúum þess frábæra lands. Áhugi þeirra á fótboltalandsliðinu hreif mig líka með og síðan þá hef ég alltaf haft sterkar taugar til Mexíkó.

Allavegana, þeir [unnu Írani](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/world_cup_2006/4852682.stm) 3-1 í dag. Íran kom talsvert á óvart í leiknum og þeir voru sterkir í fyrri hálfleik. Í þeim seinni kom þó á endanum í ljós styrkur Mexíkóa og þeir unnu á endanum góðan sigur. Rafael Marquez var algjörlega frábær í leiknum. Hann spilar á miðjunni fyrir Mexíkó og var undirstaðan í flestöllum aðgerðum þeirra. Þvílíkur leikmaður. Lofar góðu fyrir framhaldið. Mexíkó ætti að fara ásamt Portúgal áfram úr þessum riðli.

Svo horfði ég með öðru auganu á Portúgal-Angóla, sem var skemmtilegur leikur. Ég hélt með Angóla í leiknum og það lið kom mér á óvart með að taka áhættu. En auðvitað voru Portúgalar of sterkir fyrir þá.

5 Comments

 1. Ég tek undir með þér varðandi Holland. Sá þann leik í slitróttu formi og eftir því sem ég gat best séð var Arjen Robben að eiga stórleik, og allir aðrir að skila svona la-la frammistöðu. Þeir voru frábærir fyrsta hálftímann, en svo bara dó þetta út.

  Ég sá svo ekki annan leikinn en það er gott að Mexíkó vann, því ég mun núna halda með þeim í þessum riðli. Af því að …

  Portúgalir eru með eitt sterkasta liðið í þessari keppni. Þeir eru með góða breidd, frábæran þjálfara og munu fara langt nema eitthvað hneysklivert gerist. Þeir eru hins vegar einnig með LEIÐINLEGASTA LIÐ Í HEIMI!

  Ég skal útskýra nánar hvað ég á við:

  Paulinha: leikari.
  Luis Figo: leikari.
  Simao Sabrosa: leikari.
  Tiago Mendes: leikari (og ég er ekki búinn að fyrirgefa honum hendina á Anfield fyrir 18 mánuðum síðan).
  Cristiano Ronaldo: ómægod er til leiðinlegri knattspyrnumaður í heiminum?!?

  Með öðrum orðum: þetta stjörnuprýdda, egómaníska lið Portúgala er svooooo yfirþyrmandi leiðinlegt á að horfa að ég mun sennilega halda með öllum þeim liðum sem þeir mæta í þessari keppni. JAFNVEL ÞÝSKALANDI, sem ég hef aldrei þolað sérlega vel. Það er einfaldlega óþolandi að horfa upp á svona leikaraskap og undirferli í svona stórkeppni og hvergi er þetta jafn ömurlega áberandi og hjá liði Portúgala. Það er keppninni í hag að þeir fái annað hvort nokkur rauð spjöld fyrir leikaraskap í næstu leikjum, eða þá flengingu frá Mexíkó í lokaleik umferðarinnar og verði svo dömpað út strax í 16-liða úrslitunum af einhverju skemmtilegra og heiðalegra liði.

  Já, ég er pirraður. Þetta var hundleiðinlegt á að horfa. Cristiano Ronaldo lét sig falla strax á þriðju mínútu og dómarinn frá Úrúgvæ féll fyrir því. Bingó! Portúgalir sáu að þarna höfðu þeir komist í feitt og eyddu næstu 90 mínútum í að detta niður skotnir, tví-fótbrotnir og með krabbamein, alnæmi, berkla og hitasótt í hvert sinn sem leikmenn Angóla komu nálægt þeim. Ég hóf leikinn sem hlutlaus áhorfandi en undir það síðasta var ég farinn að biðla til guða allra trúarbragða heimsins um að hjálpa Angóla-mönnum að jafna þennan leik. Þeir hefðu átt það skilið.

  Ég vona að Portúgal tapi fyrir Íran í næsta leik, og svo fyrir Mexíkó í lokaumferðinni. Ég vona, ég vona, ég vona …

 2. Pirradur uti Portugal? Mer fannst teir toluvert skarri en Argentinumennirnir sem voru otolandi a ad horfa i gaer. Gaman ad sja ad Figo er enn a lifi.

  En annars er eg ad spa, hvad er i gangi med hvad menn eru ad renna mikid a vellinum? Alveg faranlegt.

  Siggi

 3. Já, Argentínumennirnir voru reyndar leiðinlegir í þessu líka en mér fannst þeir samt vart komast með tærnar þar sem Portúgalirnir hafa hælana.

  Það verður spennandi að sjá hvort Ítalirnir geta toppað þennan leikaraskap á morgun …

 4. Ég varð eins og aðrir fyrir miklum vonbrigðum með Portúgalana í gær. Liðið hefur potential til að skora mikið af mörkum, en sjálfumgleðin er rosaleg. Arjen Robben og Cristiano Ronaldo gætu aldrei leikið saman, því þá mundu þeir hafa boltann sjálfir allan tímann. Samt – þá fannst mér leikur Portúgalana detta niður í algjör leiðindi síðasta þriðjunginn, eftir að Ronaldo fór út af. Angóla var með mjög skemmtilegt lið.

  Hollendingarnir eiga að geta miklu betur. Kætinn átti ekki sérstaka innkomu finnst mér, en þetta virtist bara vera Arjen Robben ásamt litlu hjálparhellunum … ef Arjen væri ekki í hópnum – hvernig væru Hollendingarnir þá?

  Mexíkó er með feykiskemmtilegt lið og Marquez er bara snillingur. Mér fannst leiðinlegt að lesa um pólitísk mótmæli einhverra þýskra fyrir leikinn vegna ummæla forseta Írans, og það mátti greina baul á Íranana í byrjun aðallega. En þeir spiluðu vel í fyrri hálfleik en töpuðu þessu í seinni hálfleiknum. Mexíkóar vinna riðilinn, spái ég.

 5. Ég hef sagt þessa setningu nokkrum sinnum hérna en segi hana enn og aftur….”ég er sammála þér, Kristján Atli”. Portúgalir eru alveg hreint verulega mikið i jörðinni og láta sig detta vinstri hægri út af engu. Ég vil að dómarar gefi spjald fyrir hvert skipti sem leikmenn eru að leika sér. Því fyrr sem dómarar gera eitthvað í málunum því fyrr minnkar þessi viðbjóður.

  Það eru svo mörg lið sem ég vil að detti út og komist helst ekki í riðlakeppnina og þ.á.m. eru Englendingar, Portúgalir, SOS, Svíar, Holland sem og fleiri sem ég man ekki í augnablikinu. Ég er hlynntur því að það verði hellingur af óvæntum úrslitum en mér finnst það einhvern veginn ekki vera á kortunum í ár þar sem flestir riðlar eru útreiknanlegir.

  Já, talandi um Arjen Robben….fullmarkagráðugur? Neeeeeeeeeeei!! Ég þakka fyrir að hafa hann ekki hjá LFC því þá gætum við bara alveg lagt niður alla aðra leikmenn því hann gefur aldrei boltann!

Þáttur um Gerrard á Sky One.

Hamann hugsanlega til Bolton