HM í dag: Þýskaland og Ekvador unnu

HM í Þýskalandi hófst með háværum hvelli í dag. Í opnunarleik mótsins í ár unnu Þjóðverjar 4-2 sigur á Kosta Ríka í stórskemmtilegum leik, sennilega einhverjum skemmtilegasta opnunarleik í marga áratugi. Það var mikil pressa á heimamönnum sem voru án fyrirliða síns, Michael Ballack, en þetta fór þó vel fyrir þá. Sumir vilja segja að þetta hafi verið lítið annað en skyldusigur fyrir Þjóðverjana en það verður satt best að segjast að þótt það hafi verið klassamunur á þessum tveimur liðum voru þeir alls ekki öruggir með sigur. Jú, þeir skoruðu fjögur mörk í fjarveru Ballack sem er jákvætt en þeir leyfðu Kosta Ríka-mönnum að fá allt of mikið pláss og mikinn tíma með boltann nær allan leikinn að mínu mati.

Og svo sáu allir hversu veik vörnin þeirra er. Ég meina ef Kosta Ríka með Paulo Wanchope sem sinn aðalmann geta afhjúpað þessa vörn heimamanna nokkrum sinnum getið þið ímyndað ykkur hvað Englendingar með Michael Owen, Frakkar með Thierry Henry, Argentínumenn með Hernan Crespo, Ítalíumenn með Luca Toni og Hollendingar með Ruud van Nistelrooy geta gert þeim. Svo ég minnist nú ekki á heimsmeistara Brasilíu sem virðast stundum sækja á allt að átta mönnum í einu og geta snúið nauðvörn í stórsókn á heimsmetahraða.

Með öðrum orðum; góður sigur í dag hjá Þjóðverjum í stórskemmtilegum leik en betur má ef duga skal!

Í seinni leik dagsins unnu Ekvadorar nokkuð óvæntan 2-0 sigur á Pólverjum í Schalke Arena í Gelschenkirchen. Ég verð að viðurkenna að frammistaða Ekvadora kom mér ekki eins mikið á óvart og hún virtist koma þulunum á Sýn í opna skjöldu, en ég var hins vegar virkilega hissa að sjá hversu hrikalega slappir Pólverjarnir voru. Ekvadorar unnu m.a. Brasilíu og Argentínu í undankeppninni í S-Ameríku og voru því sýnd veiði en ekki gefin í þessari keppni, og á daginn kom að þeir eru með feykisterkt lið; líkamlega mjög sterkir, góðir í loftinu, ofurvel skipulagðir og teknískir. Þeir halda boltanum mjög vel innan liðsins og eru mjög yfirvegaðir í öllum sínum aðgerðum. Þjóðverjarnir munu eiga í miklum vandræðum með þá í síðustu umferðinni, en staðan er samt sú að sá leikur gæti verið hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum.

Pólverjar eru í mjööög slæmum málum eftir daginn í dag. Eftir tapið gegn Ekvador þurfa þeir að gyrða sig strax í brók og nú dugir hreinlega ekkert annað en sigur gegn Þjóðverjum í næstu umferð. Ef þeir tapa fyrir Þjóðverjum og Ekvadorar vinna Kosta Ríka, sem ég geri fastlega ráð fyrir, þá eru þeir á leiðinni heim eftir aðeins tvo leiki. Þetta lið sem olli Englendingum verulegum vandræðum í undankeppninni átti bara aldrei séns í þennan leik; það segir sína sögu að þeir áttu **fyrsta skot á mark andstæðinganna** á 82. mínútu! Svoleiðis frammistaða fleytir mönnum bara ekki neitt áfram í HM.

Þannig að Ekvador fær þann heiður að vera lið dagsins í mínum bókum, en Pólverjar sitja eftir með sárt ennið og eru fyrstu vonbrigðin í sumar.

Á morgun eru síðan tveir stórleikir og ein skotæfing, eða það ætti allavega að vera svo. Strax upp úr hádeginu er stórleikur Englendinga og Paragvæ, en við munum að sjálfsögðu ræða aðeins um þann leik þar sem okkar menn munu eflaust eitthvað koma við sögu. Svo munu Svíar væntanlega vinna stórsigur á Trínídad & Tóbagó en síðar um kvöldið er stórleikur á milli Fílabeinsstrandarinnar og Argentínu, sem eru í dauðariðlinum ásamt Hollendingum og Serbíu & Svartfjallalandi sem spila á sunnudag.

Sem sagt, tveir flottir leikir í dag og þrír enn flottari á leiðinni á morgun. HM er hafið og ég brosi út að eyrum!

Ein athugasemd

 1. Byrjunarlið Englendinga á móti Paraguyayæææ (fjárans!! Carra ekki með!):

  Robinson

  Neville – Ferdinand – Terry – A.Cole

  Gerrard – Beckham – Lampard – J.Cole

  Crouch – Owen

  Djöfull er ég sammála Fowler um það sem hann sagði um Neville vs. Carra … hreint út sagt ótrúlegt að Carra byrji ekki, en svona er þetta … ég hef taugar til enska landsliðsins en ég hefði haft þær sterkari í dag hefði Carra byrjað.

Ókeypis miði á HM!!!

Crouchy og Gerrard með, Carra á bekknum