Leikmenn Liverpool á HM

Jæja, nú eru opinberlega aðeins **tíu dagar** þangað til Heimsmeistarakeppnin í fótbolta hefst. Hún fer fram í Þýskalandi þetta árið, þannig að ólíkt síðustu keppni fær maður að horfa á leikina á mannsæmandi tímum. Allavega, vegna gríðarlegs fréttaleysis af Liverpool FC í dag ákvað ég að henda inn smá grein, eða samantekt.

Við hér á Liverpool blogginu höfum ákveðið að fylgjast náið með HM í knattspyrnu og munum vera duglegir að skrifa um allt það sem okkur þykir áhugavert á meðan á keppninni stendur. Við verðum kannski engin fréttasíða, en munum hafa skoðun á hlutunum. Það á ennþá eftir að fastnegla niður hvernig við ætlum að hafa þetta okkar á milli, en ljóst er þó að við munum gefa sérstakan gaum að þeim leikmönnum Liverpool sem eru fulltrúar landa sinna á HM í knattspyrnu í sumar.

Þeir leikmenn eru sem hér segir:

**ENGLAND: Steven Gerrard, Peter Crouch, Jamie Carragher, Scott Carson:** Englendingar eru í B-riðli ásamt Paragvæ, Svíþjóð og Trínídad & Tobagó. Gerrard verður lykilmaður í liði Englendinga í sumar á meðan þeir Jamie Carragher og Scott Carson verða varaskeifur; Carson þriðji markvörður á eftir Paul Robinson og David James, og Carra varaskeifa fyrir þá John Terry og Rio Ferdinand í miðri vörninni og hugsanlega líka sem vinstri bakvörður fyrir Ashley Cole. Hlutverk Peter Crouch verður kannski það áhugaverðasta, en þátttaka hans veltur mikið á því hversu lengi Wayne Rooney verður frá vegna meiðsla, og hvort hann missir af keppninni í heild. Crouch gæti spilað talsvert mikið, og jafnvel einhverja leiki sem byrjunarmaður, sem yrði frábært að fylgjast með fyrir okkur Púllarana.

**HOLLAND: Jan Kromkamp:** Þessi hollenski bakvörður mun nær örugglega spila einhverja leiki, þar sem hann hefur verið fastamaður í liði Marco Van Basten síðustu tvö árin eða svo. Hvort hann spilar alla leiki sem byrjunarmaður verður að koma í ljós, en hann verður þarna og því er vert að gefa Hollendingum gaum. Einnig mun athygli okkar Púllara vafalítið beinast að þessu liði þar sem Dirk Kuyt, sem hefur verið margorðaður við Liverpool, verður í eldlínunni með samlöndum sínum. Holland er í C-riðli með Argentínu, Fílabeinsströndinni og Serbíu & Svartfjallalandi.

**ÁSTRALÍA: Harry Kewell:** Ástralir eru í ‘Group Of Death’ þetta árið, F-riðli ásamt heimsmeisturum Brasilíu, Japan og Króatíu. Fjögur stórlið úr fjórum heimsálfum, vægast sagt athyglisverður riðill þar á ferðinni. Kewell hefur átt við meiðsli að stríða síðan í úrslitaleik FA bikarkeppninnar um daginn en verður skv. nýjustu fréttum orðinn heill fyrir fyrsta leik Ástrala gegn Japan. Enda er það vel, því Kewell er algjör lykilmaður fyrir Ástrali í þessari keppni. Það besta sem gæti komið fyrir Liverpool í þessari keppni væri það að Kewell myndi blómstra og sneri aftur til Englands sem stórstjarna á heimsvísu, leikmaður sem sló í gegn á HM í sumar. Ég kem allavega til með að halda með Áströlum í sumar, í þeirri von að Kewell nái sér á strik. Þetta verður feykiskemmtilegur riðill, mikið af sókndjörfum og léttleikandi liðum.

**FRAKKLAND: Djibril Cissé:** Frakkar eru í G-riðli ásamt Svisslendingum, Kóreubúum og Tógó frá Afríku. Á pappírnum er þetta riðill sem fyrrum Heims- og Evrópumeistarar Frakka ættu að valta yfir, en þó veit maður aldrei. Það var líka búist við að þeir völtuðu yfir Senegala í opnunarleik síðustu Heimsmeistarakeppni. Okkar maður í þessum riðli verður framherjinn Djibril Cissé, en þó er aldrei að vita nema að hann verði búinn að semja við eitthvað annað félagslið eftir 10 daga þegar keppnin hefst. Hvað sem verður um framtíð hans komum við til með að fylgjast með honum, og hinum stórstjörnum franska liðsins, í keppninni í sumar. Cissé verður kannski ekki byrjunarmaður hjá Frökkum, enda hinir ótrúlegu Thierry Henry og David Trezeguet fremstir í flokki og Louis Saha með honum á bekknum, en hann mun koma eitthvað við sögu.

**SPÁNN: Xabi Alonso, Pepe Reina, Luis García:** Spánverjar eru í H-riðli ásamt Túnis, Sádi-Arabíu og Úkraínu. Eftir að Xavi hjá Barcelona missti af mestum hluta tímabilsins vegna meiðsla er búist við því að Xabi Alonso taki stöðu sína í byrjunarliði Spánverja í sumar, við hlið David Albelda frá Valencia og/eða Xavi frá Barca. Hann verður að mínu mati lykilmaður Spánverja í sumar. Pepe Reina verður varamarkvörður á eftir Iker Casillas og því ólíklegt að hann komi mikið við sögu. Spurningin er síðan hversu mikið Luis García verður notaður. Eftir frækna frammistöðu hans í undankeppninni kæmi mér ekkert á óvart þótt hann byrji þessa keppni í byrjunarliði Spánverja í sumar, á hægri kantinum, og ég vona það eiginlega. Hann gæti orðið ein af stjörnum þessarar keppni ef hann fær séns, því við vitum allir hversu gaman litli Luis hefur af því að skora eftirminnileg mörk í stórleikjum. 🙂

Það er því ljóst að við munum fylgjast með Englendingum, Hollendingum, Áströlum, Frökkum og Spánverjum í sumar þar sem þessi lönd eru með leikmenn frá Liverpool innan sinna raða. Þess að auki munum við örugglega gefa fleiri liðum gaum, svo sem stórliðum Brasilíu, Argentínu og Þýskalands, og liðum eins og Tékklandi og Svíþjóð sem skarta leikmönnum sem við þekkjum vel. Þá þykist ég vita að Einar Örn muni leiða okkur í allan sannleik um gengi Mexíkóa í þessari keppni, en það er hörkulið sem gæti hæglega farið langt í sumar. 😉

Það eru aðeins tíu dagar í HM í knattspyrnu, veislan er að hefjast. Hverjir verða meistarar? Flestir veðja á Brasilíumenn en Englendingar, Argentínumenn, Spánverjar, Ítalir og jafnvel Hollendingar gera sér góðar vonir um sigur í sumar. Þetta verður spennandi! 🙂

Ein athugasemd

  1. Persónulega finnst mér “Group Of Death” þetta árið vera riðill C þar sem eru Argentínumenn, Hollendingar, Fílabeinsströndin og Serbía/Svartfjallaland.
    Annars eru þetta allt flottir riðlar og ég get varla beðið eftir að HM byrji 🙂

Crouchy

Miðjumaðurinn