Uppgjör Liverpoolbloggsins á tímabilinu 2005/06

LEIKMAÐUR ÁRSINS: FERNANDO MORIENTES!

gerrardshot400.jpg

Nei djók.

Það er erfitt að segja til um það hvenær nákvæmlega það gerðist, í vetur, að áhugamenn um knattspyrnu almennt hættu að sleikja skóförin eftir Frank Lampard og áttuðu sig á því sem við Púllararnir höfðum haldið fram lengi, að **STEVEN GERRARD** væri einfaldlega svo miklu, miklu betri leikmaður. Var það í Istanbúl, þar sem fyrirliðinn okkar gaf tóninn með stórkostlegu marki og sýndi það að hann er leikmaður sem stendur undir pressunni þegar hún er sem mest? Var það þegar hann hélt snakki á lofti með tánum og gaf það svo á Roberto Carlos í Pringles-auglýsingu? Eða var það kannski þegar Lampard hvarf, enn og aftur þegar Chelsea þörfnuðust hans mest, í undanúrslitum FA Bikarsins í vor, þar sem Gerrard var einn þeirra sem fór á kostum? Eða var það þegar hann skoraði *mark ársins* og gerði nánast allan heiminn agndofa með stórleik sínum í úrslitaleiknum gegn West Ham?

Hvenær sem það var, þá er ljóst að leikmennirnir áttuðu sig á því fyrr en hlutlausir áhugamenn. Þeir kusu víst í kringum áramótin og þá var það Stevie G sem hlaut kosningu þeirra sem leikmaður ársins. Ekki Thierry Henry, ekki Wayne Rooney, ekki John Terry … já og ekki einu sinni “leikmaður númer tvö í heiminum,” Frank Lampard. Það segir mikið um það hvernig þeir sem spila gegn honum tvisvar á ári meta fyrirliðann okkar.

Það segir líka kannski mikið um ofurmennsku hans á knattspyrnuvellinum að ég held að við hér á Liverpoolblogginu höfum ekki fjallað um neinn annan leikmann nokkurs liðs jafn mikið og Stevie G. Ég hugsa að ef við gætum talið færslurnar væru þær sennilega hátt í svipað margar bara um hann og um alla hina leikmenn Liverpool til samans. Og jafnvel þótt við höfum fjallað svona mikið um hann, svona ótrúlega oft, þá þarf yfirleitt lítið til að mig klæji í fingurna og ég hrökkvi inná þessa síðu í leit að nýrri leið til að lýsa því fyrir ykkur lesendunum hversu HROTTALEGA GÓÐUR knattspyrnumaður Steven Gerrard er.

Hvað sem því líður, þá er tilefni til að segja það, skrifa, hrópa ofan af húsþökum og jafnvel syngja það sem oftast: STEVEN GERRARD ER LAAANGBESTUR, og hann er Liverpool-maður í gegn! Stundum er eins og menn gleymi því hversu heppnir þeir eru að njóta snilli hans í okkar tíð og tíma, því þegar börnin okkar og/eða barnabörn vaxa úr grasi munu þau nær örugglega spyrja okkur um Gerrard, ef þau á annað borð hafa áhuga á fótbolta. “Pabbi, hvernig leikmaður var Steven Gerrard? Var hann góður? Skoraði hann þá mikið? Hvernig leit hann út?”

Og við munum brosa og taka okkur góóóóðan tíma í að lýsa honum, eins og gömlum vini sem hefur veitt okkur endalaust margar gleðistundir og góðar minningar. Sem er einmitt það sem hann er. 🙂

p.s.
Ef einhver er til í að veðja við mig um að hann hljóti þessi verðlaun Liverpoolbloggsins líka að ári þá er ég til. Hver ætti mögulega að geta hirt þetta af honum? 🙂

**STIGIN FÉLLU SVO:**
1. Steven Gerrard – 12 stig (fullt hús)
2. – 3. Momo Sissoko og Jamie Carragher – 4 stig hvor

**EINSTAKLINGSLISTAR:**

**Einar Örn:**
1. Steven Gerrard
2. Momo Sissoko
3. Harry Kewell

**Kristján Atli:**
1. Steven Gerrard
2. Momo Sissoko
3. Pepe Reina

**Hjalti:**
1. Steven Gerrard
2. Jamie Carragher
3. Xabi Alonso

**Aggi:**
1. Steven Gerrard
2. Jamie Carragher
3. Xabi Alonso

Hvert er svo ykkar álit?

12 Comments

 1. Sérstakt að aðeins 1 af ykkur ritstjórunum setja Pepe Reina í efstu 3, mér finnst það ákaflega sérstakt að mínu mati.

  1. Björn Tore Kvarme
  2. Michael Thomas
  3. Torben Piechnick

  nei smá grín.

  Annars Á þetta að vera svona.

  1. SG
  2. Carragher
  3. Reina
  4. Xabi

 2. ég vill alls ekki sjá kewll á þessum lista, alls ekki búinn að sýna sitt besta takk fyrir.

 3. Skrítið líka að sjá ekki Steve Finnan á þessum lista.

  1. Gerrard
  2-5. Finnan, Carra, Sissoko og Reina

 4. Þetta er svo skemmtilega erfitt val að það hálfa væri nóg. Menn sem ég tel að valið standi á milli:

  Stevie (að sjálfsögðu)
  Finnan
  Carra
  Xabi
  Momo
  Reina

  Þetta er ekki í neinni röð hjá mér, en ef eitthvað er, þá held ég að ég myndi raða þeim Finnan og Carra í sætin á eftir Stevie.

  Var sammála því að Kewell hafi sýnt mestar framfarir, en yfir allt tímabilið, þá get ég ekki séð hvernig hann ætti að slá þessum mönnum við sem nefndir eru hér að ofan.

 5. Gerrard er hiklaust maður tímabilsins, en á eftir honum kæmi Xabi Alonso, Carragher og svo Reina (að mínum dómi alla vega 🙂 )

 6. Jamm, ég var í vafa með Gerrard alveg þangað til að ég sá þessa Pringles auglýsingu. Þá sannfærðist ég. 🙂

 7. SSteinn – að valið standi á milli FINNAN og hinna sem þú nefndir vil ég bara segja – eru menn ekki með öllum mjalla? Þú hlýtur bara að hafa ætlað að orða þetta öðruvísi. 😉

  Sama má segja um að Finnan og Carrager séu í sama sætinu.

  Ekkert persónulegt í gangi – en eru menn ekki aðeins að missa sig í Finnan-æðinu?

  Ég vil samt taka fram að ég veit að skoðanir manna á einstökum leikmönnum eru mismunandi og að sjálfsögðu virði ég það.

  Hvað Morientes varðar þá vona ég að honum gangi vel hjá Valencia. Ég vil líka benda á að hann átti fína spretti með liðinu þó að hann hafi yfir heildina valdið vonbrigðum. Ég held samt að hann eigi helling inni og ef hann fái að spila reglulega komi hann til með að sýna sitt rétta andlit.

 8. Neibbs, ég er alveg með fullum fimm. Finnan að mínum dómi einn sá allra besti hjá okkur á tímabilinu og í rauninni sá besti í sinni stöðu í deildinni.

  Hvernig er það Hössi, gafstu upp á að svara Arsenal dæminu í hinum þræðinum? :biggrin2: Rökin þar kannski svipuð og rökin sem búa að baki Finnan hatrinu 😉

 9. SSteinn – búinn að svara Arsenal dæminu. Ég bara tók ekki eftir svarinu frá þér. Hafði svosem engu við það að bæta enda snérist spjallið um allt annað en þetta atriði.

  Stundum held ég að þú nennir ekki að leggja á þig að lesa pósta frá öðrum. Ef þér finnst rökin mín við Finnan ” hatrinu” (sem reyndar eru ekkert hatur) léleg þá þú um það – en ég samt sem áður reynt að útskýra það á eins málefnanlegan hátt og ég get – og það all ýtarlega meira að segja.

  Mér er ekki illa við Finnan. Mér finnst hann bara slakasti leikmaðurinn í sterkasta byrjunarliðinu okkar og þá er ég að tala um liðið sem Rafa stillti upp á móti Chelsea í undanúrslitaleik bikarkeppninnar. Crouch kemur svo þar á eftir.

  Nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun minni:

  – ég vil sókndjarfan bakvörð.
  – ég vil bakvörð sem skorar mörk.
  – ég vil bakvörð sem leggur upp mörk og þá fleiri en Finnan. (Það væri gaman ef þú tækir þessa tölfræði saman eða einhver).
  – ég vil bakvörð sem bara stundum er valinn maður leiksins.
  – ég vil bakvörð sem bara stundum pakkar saman frábærum vinstri kantmanni hins liðsins.
  – ég vil bakvörð sem er á sama leveli og Babbel var þegar hann spilaði með Liverpool.

  Ég vil samt taka það fram að ég vil fyrst sjá senter stöðurnar betur mannaðar áður en ég vil fá nýjan bakvörð. Ég held að nýr senter komi til með að hafa meiri úrslitaáhrif á leik liðsins en nýir bakverðir.

  En svona í alvöru SSteinn – finnst þér Finnan hafa verið jafn góður og Gerrard og Carrager og betri en allir hinir leikmennirnir í liðinu? Þú segir þetta ekki bara til að ergja mig – er það nokkuð 😉

 10. Já Hössi, mér finnst Finnan eiga heima í þessum hópi og það er ekkert grín hjá mér. Hann hefur átt eitt tímabil af síðustu 5 þar sem hann hefur ekki verið neitt sérstakur, annars spilar hann nánast óaðFINNANlega :biggrin:

  Sammála þér með Babbel, annan eins snilling er vart að finna í boltanum í dag og var ég mikill aðdáandi hans.

  Segðu mér þá eitt Hössi. Þar sem ég tel Finnan vera besta hægri bakvörð á Englandi í dag. Hvern sérð þú fyrir þér að myndi sóma sér betur í þessari stöðu hjá Liverpool. Fyrst bið ég þig um að nefna einhverja sem spila á Englandi, og svo einhverja sem spila utan Englands.

25.maí

Le Tallec vill fara en Garcia fer hvergi.