Uppgjör Liverpoolbloggsins á tímabilinu 2005/2006

Mestu framfarirnar: Harry Kewell

Að mínu mati voru verðlaunin um mestu framfarirnar á milli Steve Finnan og Harry Kewell. Ég kaus Steve Finnan sjálfur og mun útskýra það betur á eftir. En við á Liverpoolblogginu hefjum í dag uppgjör tímabilsins og mun koma einn pistill á dag með verðlaununum okkar, sem við höfum verið að kjósa um í vikunni.

Rétt upp hendi sem man eftir því að Leeds var á meðal bestu liðum á Englandi? aðalmaðurinn hjá þeim þá var Harry Kewell. Hann sýndi frábæra takta hvað eftir annað, æddi upp kantinn, var með frábærar sendingar, mikla tækni og hafði auga fyrir markinu.

Leeds fór síðan í ruglið eins og allir vita, og dró það Kewell niður. Að lokum kom hann til Liverpool, eitthvað sem gladdi mig gríðarlega mikið á sínum tíma. Kewell var einmitt leikmaðurinn sem okkur vantaði á vinsti kantinn á þeim tíma og maður gladdist yfir því að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af honum þegar Liverpool mætti Leeds.

Kewell kom árið 2003 og valdi Liverpool framyfir Man U og fleiri félög. Hann var stuðningsmaður liðsins í æsku og því rættist draumur hans að koma yfir á Anfield, en á tímabilinu 1999/2000 var hann valinn besti ungi leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni.

Kewell byrjaði mjög vel, skoraði mikið í byrjun tímabils en svo tóku ökklameiðsli sig upp sem hafa haft mikil áhrif á feril hans hjá Liverpool. Hann kláraði tímabil ekki nógu vel en segja má að tími hans hjá okkur hafi verið meiðslum hrjáður.

Kewell kom aftur á móti betur til leiks í ár. Hann sýndi og sannaði úr hverju hann er gerður, þá sérstaklega á síðari hluta tímabilsins. Hann fann loksins aftur gamla góða Harry Kewell sem hafði þor í að sprengja upp kantinn og negla boltanum fyrir. Kewell skoraði þrjú mörk á tímabilinu og ef hann heldur áfram sem horfir, þá er hann hvorki á leiðinni út frá Anfield í sumar né úr byrjunarliðinu í haust.

Ég kaus sjálfur Finnan í fyrsta sætið. Ég gerði það af því hann hafði aldrei sannfært mig um að hann ætti sæti sitt í liðinu 100% skilið. Sú skoðun var fljót að breytast þegar hann sýndi ótrúlegan stöðugleika, og minnir um margt á Jamie Carragher þegar hann var í hægri bakverðinum. Finnan á stórt hól skilið, líkt og Kewell, og ég er mjög ánægður með tímabilið hjá báðum tveimur.

Atkvæðin:

Harry Kewell 9 stig
Peter Crouch 5 stig
Steve Finnan 4 stig

Einar:

1. Harry Kewell
2. Peter Crouch

Kristján Atli:

1. Peter Crouch
2. Djibril Cisse
3. Harry Kewell

Aggi:

1. Harry Kewell
2. Robbie Fowler
3. Steve Finnan

Hjalti:

1 Steve Finnan
2. Harry Kewell

Við hvetjum ykkur til að segja hvað ykkur finnst 🙂

6 Comments

 1. Einar og Kristján hvernig í ósköpunum dettur ykkur í hug að segja að Crouch hafi tekið mestum framförum (Einar 2).

  Crouch fer úr því að skora 16 mörk með slöku liði Southampton í 9 mörk skoruð með einu af bestu liðum Englands Liverpool, þetta kalla ég ekki framfarir. Hann spilaði heila 8 leiki í meistaradeildinni án þess að skora eitt mark. Í hverju liggja framfarir hans????????

  Varðandi Finnan þá spilaði hann jafnvel á þessu tímabili og því síðasta. En á því tímabili tók hann mestum framförum í harðri baráttu við Josemi um sæti í liðinu.

  Kewell á þetta svo sannalega skilið, hann er búinn að vera eins og nýr leikmaður fyrir liðið á þessu tímabili. Og hefur ráðið úrslitum í nokkrum leikjum. Vonandi helst hann heill á því næsta svo við gerum haldið áfram að njóta snilli hans.

  Annars sakna ég þess að sjá ekki Sissoko nefndan hjá neinum ykkar. En Benitez og þjálfaraliðið hafa einmitt talað um það hversu miklum framförum hann hefur tekið á þessu tímabili. Í mínum huga er Sissoko næstur á eftir Kewell í framförum á tímabilinu.

  Kveðja
  Kristján

 2. Ég er sammála þessu með Kewell, eins hefur Sissoko tekið miklum framförum að mínu áliti.
  Kv.Hallur

 3. Kewell tvímælalaust með mestu framförin miðað við síðasta tímabil þar á undan, einnig Cissé en það er svo sem ekki að marka það, þar sem hann var fótbrotinn mestallt tímabilið í fyrra. Sissoko kom skemmtilega á óvart og Fowler kom sterkur inn.

 4. Ég hef haldið uppi nokkrum áróðri fyrir því að Finnan sé slakasti leikmaður liðsins. Þá meina ég byrjunarliðið. Að mínu mati var sterkasta lið vetrarins það sem byrjaði á móti Chelsea. Það hefur ekkert breyst varðandi álit mitt á Finnan.

  Ég vil samt taka það fram að Liverpool liðið er mjög sterkt um þessar mundir.

  Ef það á hins vegar að styrkja liðið – sem ég tel fulla þörf á – þá mundi ég byrja á að fá nýjan hægri bakvörð síðan tvo nýja sentera og svo nýjan vinstri bakvörð. Ég vona því að fréttir að komu Aurelio og Alves standist sem báðir myndu gera tilkall til sætis í byrjunarliðinu.

  Kewell er frábær leikmaður sem á að mínu mati skilið nafnbótina mestu framfarirnar. Reyndar átti hann í afar erfiðum meiðslum að stríða sem vissulega hafði áhrif á getu hans. Í dag er hann algjörlega ómissandi byrjunarliðsmaður hjá Liverpool.

  Ég get hins vegar ómögulega séð framfarirnar hjá Finnan. Að mínu mati er hann sá leikmaður sem ræður hvað sjaldnast úrslitum fyrir liðið. Það að hann gerir fá mistök og sé traustur er v.þ. að mínu mati að hann reynir aldrei að ráða úrslitum. Ég viðurkenni þó fúslega að hann er betri en Josemi.

  Mér fannst reyndar athyglisvert að hann skyldi borinn saman við Carrager þegar Carrager spilaði sem bakvörður. Ég tel að báðir séu jafn slakir fram á við (Carrager hefur reyndar stórbætt sig í þeim efnum) en Carrager er mun betri varnarmaður – miklu mun betri. Ég held að Carrager eigi slíkan samanburð ekki skilin.

  Mér finnst svo allt liðið hafa bætt sig mikið frá því á síðasta ári fyrir utan sóknina sem hefur farið aftur með tilkomu Crouch.

  Áfram Liverpool!

 5. Að velja Harry er einsog að velja Sammy Lee eða jafnvel Houllier………!

  Kewell tók ROSALEGUM framförum yfir heilt tímabil en hann hefði getað tekið það fyrir tveimur árum þar sem að hann hafði áður leikið í deildinni…… Hann hefur ekki verið sannfærandi og maður hálf kvíður fyrir því að það gerist líka núna…….

  Þeir sem hafa tekið mestum framförum er aðallega Tumi Þumall sem og Alonso……

  Á þessari leiktíð eru mestu framfarirnar hjá Sissoko…… Ég held að enginn geti efast þann sannleika………..!

 6. Átta mig ekki alveg á því við hvað er miðað – er verið að tala um framfarir frá fyrstu leikjum á tímabilinu eða frá síðasta tímabili? Ef þetta er frá síðasta tímabili er ekki hægt að meta nýja menn eins og Sissoko, Reina, o.s.frv.
  Mér finnst að Kewell hafa sýnt mestu framfarirnar frá síðasta tímabili enda var hann ekki svipur hjá sjón þá. Einnig er hann búinn að vera betri eftir áramót en fyrir. Sissoko finnst mér vera búinn að spila mjög vel frá því að hann kom – kannski sýnt og sannað að hann er maður framtíðarinnar á miðjunni hjá okkur, örugglega agalega erfitt að spila á móti honum! Einnig finnst mér Reina búinn að standa sig mjög vel – mun meira öryggi í markinu en áður.
  Skil ekki alveg hvað Hössi hefur á móti Finnan en samt er gaman heyra skoðanir annarra. Það að hann er traustur og gerir fá mistök, þ.e. hægri bakvörður sem heldur sínu svæði afar öruggu, er einmitt það sem maður (a.m.k. ég) krefst af manni í hans stöðu. Það er nefnilega oft það sem ræður úrslitum líka, að spila hörkuvarnarleik á meðan hinir sækja! Við spilum með kantmenn (eða menn í kantstöðum) sem eru meira í að sækja en maður sér nú Finnan samt koma í overlap endrum og sinnum. Jæja, missti mig aðeins á lyklaborðinu.

Henry áfram hjá Arsenal

Verður Traore fyrstur til að kveðja?