West Ham í bikarnum á morgun!

Jæja, þá er komið að því. Á morgun leika okkar menn í úrslitum FA bikarkeppninnar ensku gegn nýliðum West Ham á Millennium Stadium í Cardiff. Þótt West Ham-menn séu nýliðar í Úrvalsdeildinni og Liverpool sé fyrirfram spáð sigri eru Hamrarnir stór klúbbur með flotta sögu og þeir hafa staðið sig rosalega vel í vetur, þannig að það er ljóst að þetta verður einfaldlega hörkuleikur.

Við höfum unnið þá tvisvar nú þegar í vetur; fyrst unnum við 2-0 sigur á slöku West Ham-liði á Anfield í október sl. og svo unnum við þá 2-1 fyrir tveimur vikum síðan eða svo á Upton Park. Þar léku þeir enn verr en á Anfield gegn okkur, ef það var þá hægt. Það er eiginlega skrýtið hvað þeir hafa verið slakir gegn okkur í vetur því þess utan hafa þeir spilað mest allt tímabilið í fantaformi, verið með skemmtilegt, léttleikandi og stórhættulegt lið sem hefur á góðum degi getað unnið hvaða lið sem er og eru búnir að tryggja sér þátttökurétt í Evrópukeppni Félagsliða á næsta vetri, sem er ekki slæmt hjá nýliðum.

Nú, hjá **WEST HAM** eru margir góðir leikmenn en þó nokkrir sem standa upp úr. Í markinu verður eflaust hinn margreyndi Shaka Hislop en fyrir framan hann eru leikmenn á borð við Anton “litla brósa” Ferdinand, Danny Gabbidon og fyrrum enska landsliðsmanninn Paul Konchesky, sem hefur skorað nokkur gegn Liverpool í gegnum tíðina. Á miðjunni státa þeir mönnum eins og Nigel Reo-Coker, sem hefur verið frábær í vetur, og Yossi Benayoun, hinum snjalla ísraelska leikstjórnanda sem Gérard Houllier reyndi víst að kaupa til Liverpool á sínum tíma. Frammi er svo öldungurinn Teddy Sheringham ásamt þeim Marlon Harewood og Dean Ashton. Ashton á þó í einhverjum meiðslavandræðum, en skv. nýjustu fréttum gátu hvorki hann né vængmaðurinn Matthew Etherington æft með Hömrunum í Cardiff í dag.

Hjá okkar mönnum hefur Rafa Benítez úr nær fullu liði á að skipa. Xabi Alonso meiddist um síðustu helgi en ætti skv. nýjustu fréttum að vera heill fyrir leikinn á morgun. Þá eru þeir Robbie Fowler (ólöglegur), Luis García (í banni) og Bolo Zenden (meiddur) einu leikmennirnir sem munu missa af þessum leik, ef mig misminnir ekki. Ég hef pælt svolítið vandlega í þessu síðustu daga og ég get ekki séð annað en að Rafa sé í mikilli klemmu varðandi liðsval. Það vilja náttúrulega *allir* taka þátt í stórleik ársins hjá félaginu og miðað við liðsval Rafa í vetur held ég að maður geti gert sér í hugarlund hvaða leikmenn hefja leik á morgun.

Nema frammi. Þar stendur Rafa nefnilega frammi fyrir örlitlum vanda; hann þarf að velja á milli þess að nota það sóknarpar sem hann hefur oftast treyst í vetur eða að brjóta það upp fyrir heitasta framherjann sinn um þessar mundir. Þetta myndi útleggjast einhvern veginn svona á morgun:

REINA

FINNAN – CARRAGHER – HYYPIÄ – RIIISE

GERRARD – SISSOKO – ALONSO – KEWELL

FM/DC – CROUCH

Með öðrum orðum, hvort á hann að velja Fernando Morientes eða Djibril Cissé frammi við hlið enska landsliðsmannsins Peter Crouch? García er í banni, Fowler er ólöglegur þannig að valið stendur á milli þessa þriggja, og af þeim tel ég að Crouch sé pottþéttur byrjunarmaður. Sjálfur hallast ég að því að hann noti Cissé, einfaldlega af því að hann skoraði tvö gegn Hömrunum fyrir tveimur vikum og þeir eru því eðlilega skíthræddir við hann. Þá á hann alltaf Morientes inn af bekknum ef hitt gengur ekki upp, og við vitum vel að Morientes kemur með betra hugarfar til leiks sem varamaður heldur en hinn sífúli Cissé.

**MÍN SPÁ:** Eins og oft er með bikarleiki þorir maður varla að spá, því þetta getur farið á alla vegu. Okkar menn þykja líklegri fyrir leikinn en eins og við kynntumst sjálfir í Meistaradeildinni í fyrra getur það oft verið lítilmagnanum í hag. West Ham-liðið er skemmtilegt og getur á góðum degi unnið okkar menn hæglega, en þó hallast ég að því að ef Rafa nær að samstilla liðið og menn mæta rétt stemmdir ættu okkar menn að landa þessu.

Fyrst og fremst vonast ég til að fá skemmtilegan leik og hraðan sóknarbolta á báða bóga, og því spái ég **3-1 sigri fyrir Liverpool eftir að West Ham komast óvænt yfir**. Þá spái ég því að það muni knattspyrnumenn í takkaskóm skora mörkin. 🙂

Annars vona ég bara að þetta verði skemmtilegur leikur og að við getum fagnað í leikslok, um leið og við förum brosandi inn í sumarmánuðina og slúðrið sem er vafalaust framundan. **ÁFRAM LIVERPOOL!!!** 😀

12 Comments

  1. Sífúli Cisse? :laugh: Ekki fannst mér hann vera fúll þegar hann kom inná á sunnudaginn…

  2. Nei…ég held að hann farinn að elska félagið…Hann vill ekki fara.óg á ekki eftir að fara…ef einhver annar leikmaður á hans caliber væri buinn að spila svona lítið einsog hann er buinn að gera þá væri sá farinn og hættur að æfa…hann verður og á eftir að spila stóran part af næsta seasoni

  3. þegar Liv spilaði við Portsmouth um síðusu helgi fanst mér leikurinn breitast til hins betra þegar Crouch kom inná, held að Crouch og Cissé verði frammi og Morientes komi inná ef Crouch stendur sig ekki, annars veit maður ekki hvað Benitez gerir . Annars hefur mér fundist Liv vera betra lið eftir að Fowler gekk til liðs við það, hann kemur með eitthvað sem peppar liðið saman . Hvað haldi þið um það

  4. Góðan daginn púllarar nær og fjær.

    Þegar ég vaknað nú í morgunsárið með dóttur minni fór ég ósjálfrátt að hugsa um leikinn einsog ég gerði áður en ég fór að sofa. Ég leit út um gluggan og sá hvað það er fallegt veður og hugsaði með mér að þetta verður góður dagur, þessi dagur finnst minnir mig mikið á annan mjög góðan dag í maí í fyrra, nánar tiltekið þann 25. maí í fyrra, heiðskýrt, Liverpool að fara að spila úrslita leik og svo vonum við að hann endi jafn vel og 25. maí í fyrra.
    Liverpool menn **þetta verður góður dagur**
    :biggrin2:

  5. Jæja 2-1 í háfleik… og þvílik mistök… hvað er verið að gera með þenna markvörð í markinu… markvörður í 5 flokk hefði ekki mist þetta frá sér….. nei auðvita langar manni altaf að kenna einhverjum um þetta… en jam þetta skrifast á reina… veit ekki með fyrra markið.. voða lítið hægt að segja.. óhepni hjá carra!… flottar tvær sendingar hjá Gerrard.. góða afgreiðslur frá senterunum… við vinnum þetta í seinni!

  6. Þvílík jöfnunar markkkkkkkkkk

    en reina….. fari hann í helvíti 🙂 sjáum til í vító 🙂

  7. Rólegur með Reina. Ekki hans leikur en hann er samt fínn/góður…..
    Gerrard er aftur á móti yfirburðamaður.

  8. Vá hvað reina brjargaði rassinum sínum undir lok framlengingarinnar.. ég skal éta alt ef hann ver 3 og við vinnum 🙂 jæja þá er það vítiakepnin

  9. Vá hvað reina brjargaði rassinum sínum undir lok framlengingarinnar.. ég skal éta alt ef hann ver 3 og við vinnum 🙂 jæja þá er það vítiakepnin

  10. úfff.. þvílíkur leikur… já ég er búinn að éta þetta..

    Geggjaður leikur 🙂 reina reddaði.. þetta var svipað og þegar dúddi varði í istanbúl…

    Til hamingju strákar

  11. Verði þér að góður Kristján R. Reina gerði ein mistök með að halda ekki skotinu sem leiddi til marks nr. 2 hjá West Ham. Hin 2 voru heppnismörk hjá West ham. Reina bjargaði hins vegar þrisvar mjög vel í leiknum sjáfum svo ekki sé minnst á vító!v

    En þvílíkur leikur! Okkar menn kunna svo sannarlega búa til alvöru úrslitaleiki. Til hamingju öll!

Reina og Bolo

Liverpool 3 – West Ham 3 (6 – 4 eftir vítaspyrnukeppni)