Liverpool 3 – Aston Villa 1

Jæja, síðasti heimaleikurinn endaði með sigri og núna erum við komin uppað hlið Manchester United í 2-3. sæti – en Man U hefur enn hagstæðara markahlutfall en við – og þeir eiga leik til góða.

En þetta var ekki skemmtilegasti leikur tímabilsins. Ég lenti í veseni með ADSL sjónvarpið mitt frá Símanum (ótrúlegt en satt – það bilar ekki nema svona 3svar í viku), þannig að ég missti af fyrstu 10 mínútunum í leiknum á meðan ég keyrði niðrí Ölver.

Allavegana, Rafa stillti þessu svona upp:

Reina

Kromkamp – Carragher – Hyypiä – Traore

Cisse – Gerrard – Alonso – Riise

Morientes – Crouch

Semsagt, óhefðbundnir bakverðir, en annars sæmilega sterkt byrjunarlið. Ég missti einsog ég sagði af fyrstu mínútunum en á 4. mínútu gaf Xabi Alonso góða sendingu inná **Fernando Morientes**, sem að lék glæsilega á varnarmann og sendi boltann í markið.

Eftir markið ákvað Liverpool að spila ekki fótbolta í sirka klukkutíma. Æ, það er kannski fullmikið sagt. Liverpool var ekki lélegt, en bæði lið voru bara eitthva slöpp og Liverpool virtist ætla að fara í gegnum leikinn á hálfum hraða.

Það gekk í fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik þá kom Angel (sem kom inná fyrir hinn hræðilega Milan Baros) með auka kraft í sóknarleik Villa. Það fór svo á endanum að Villa menn jöfnuðu eftir klaufaskap í Liverpool vörninni. Gareth Barry skoraði markið eftir að boltinn hafði farið í gegnum klofið á nokkrum mönnum.

Við það vaknaði Liverpool hins vegar og fyrirliðinn okkar sá um að klára þetta. Fyrra markið hans kom eftir hornspyrnu, þar sem hann laumaði sér framfyrir alla og skoraði fínt mark á nærstöng.

Seinna markið var hins vegar eitt af bestu mörkum tímabilsins. Gerrard fékk boltann rétt fyrir framan miðjuhringinn, keyrðu í átt að marki Villa og skaut að lokum frábæru langskoti, óverjandi fyrir Sorensen í markinu.


**Maður leiksins**: Þetta er nokkuð auðvelt í dag. **Steven Gerrard** var um síðustu helgi útnefndur besti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni og í dag sýndi hann að það er engin tilviljun með tveimur góðum mörkum.

Að öllum líkindum skiptir þessi leikur engu stórkostlegu, þar sem að mig grunar að Manchester United eigi eftir að vinna annanhvorn af síðustu tveimur leikjum sínum (á heimavelli gegn Charlton og Boro) og það mun að öllum líkindum duga þeim til að ná öðru sætinu. En maður heldur þó auðvitað í vonina.

Næsta sunnudag klárast svo tímabilið með leiki á útivelli gegn Portsmouth, sem tryggðu sér í dag áframhaldandi sæti í ensku úrvalsdeildinni á kostnað fyrrum Man U mannsins Steve Bruce og félaga í Birmingham.

7 Comments

  1. Svaðalegt seinna markið hjá Gerrard….
    Mér fannst Liverpool vera að spila svona lala bolta samt ekkert leiðinlegur leikur á að horfa. Voru að láta boltann rúlla nokkuð vel, og voru að skapa sér fín færi.
    Mér fannst Cissé koma vel út leiknum, hann var að berjast og var með mikinn hraða upp hægri kantinn. En ég veit ekki hvað Peter nokkur Crouch var að gera. Held að hann hafi ekki vitað það sjálfur. Hann var bara fyrir.
    En hvað er svo málið með Traore…. þetta ekki hans síðasti leikur á Anfield Road… ég held það

    Kristján V

  2. Skyldusigur. Lítið annað um það að segja. Morientes setti okkar menn í bílstjórasætið strax í byrjun leiks og eftir það var eins og menn ætluðu bara að lulla niður brekkuna í hlutlausum út leikinn. En svo þurftu menn að gefa í í fimm mínútur eftir jöfnunarmarkið og það var bara innt af hendi eins og skylduverkefni.

    Eins og ég sagði við upphitunina í gær, þá er eitthvað svo ógnvænlegt vði þetta Liverpool-lið þegar það er engin pressa á því. Þeir spila sjaldnast vel án pressu, en vinna samt alla leiki. Núna eru þetta orðnir tíu leikir í röð, sem er flott.

  3. Ég sá ekki leikinn vegna vinnu en er sjálfsögðu ánægður með úrslitin. Mig langar að spyrja þá sem horfðu á leikinn hvernig Kromkamp stóð sig? Og í framhaldi af því spyr ég, hvernig lítur framhaldið út með hann að ykkar mati? Er hann framtíðar byrjunarliðsmaður eða er hann uppfyllingarefni? Ég er ekki enn búinn að mynda mér ákveðna skoðun á honum en ég er ekkert sérstaklega hrifinn…án þess þó að vera eitthvað sérstaklega “óhrifinn”.

  4. Það sem ég hef séð til Kromkamp hingað til og í þessum leik þá virðist þarna vera góður leikmaður.

    Hann er góður varnarmaður. Vandamálið hjá honum hingað til hefur verið sóknarleikurinn. Það virðist vera sem hann sé oft svolítið taugaóstyrkur þegar hann fer í sóknina. Þrátt fyrir það virðist hann hafa hæfileika til að standa sig í sókninni.

    Ef menn hugsa hvernig Finnan var þegar Rafa kom og hvernig hann er núna, þá sjá menn hvernig hann hefur bætt sig rosalega. Ég tel að Kromkamp hafi hæfileika til að verða jafngóður og Finnan.

  5. Ég eins og aðrir, veit ekki alveg hvað á að halda með Kromkamp. Mér fannst hann hálf slakur gegn West Ham og aftur núna gegn Aston Villa. Finnst eins og eini virkilega góði leikur hans hingað til með liverpool hafi verið úti gegn Newcastle þar sem hann spilaði sem wing-back og átti t.d. glæsilega stoðsending á Crouch í þeim leik.

    Ég sá hann aldrei spila í Hollandi en það hlýtur að vera góð ástæða fyrir því að hann var valinn í úrvalslið UEFA í fyrra. (þá væntanlega besti hægri bakvörðurinn í Evrópu það árið).
    Rafa hlýtur að taka sumarið í að koma honum í sama form og hann var í fyrra, hann er öðruvísi en Finnan ,sókndjarfari bakvörður og hlýtur að sýna okkur flotta takta næsta tímabil, trúi ekki öðru.

    Annars ágætur vinnusigur í dag, toppurinn er auðvitað snilldarmarkið hjá Gerrard!
    Aston Villa voru svo slappir að Liverpool sofnaði næstum á verðinum en það er gott styrkleikamerki að okkar menn hafa karakter til að klára svona leiki eins og skot þegar þeir finna að aðdáendurnir eru ósáttir.
    Boðar gott fyrir næsta tímabil að geta klárað svona leiki snögglega og sparað orku líkt og Chelsea gerir í dag. Nota síðan umfram orkuna í toppleikina og fá fleiri stig þar en í ár og við verðum meistarar…

    Áfram Liverpool!

  6. Ótrúlegt hvað leikur okkar manna batnaði þegar að Sissoko kom inná miðjuna. Hann er nánast orðinn ómissandi.

    Fowler hefði átt að byrja í dag. Crouch á bekknum.

  7. gott mark hjá morientes og frábært hjá gerrard já crouch ekki hans dagur og reyndar ekki margir dagar sem hann á

Liðið gegn Villa

Guðjohnsen?