Mullins, García & Arselóna

Jæja, fimmtudagur og mig langar til að byrja daginn á því að óska stuðningsmönnum **Arsenal** og **Barcelona** til hamingju með að hafa náð svona langt. Við vorum í úrslitunum fyrir ári síðan og ég gleymi þeim degi aldrei, hvað þá menn eins og Einar sem fóru út á leikinn. Þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við samgleðjumst með öðrum sem fá að njóta þess sama.

Eftir að Liverpool duttu út í 16-liða úrslitunum sagði ég strax að draumaleikurinn í París hlyti að vera leikur á milli Barcelona og Arsenal, þar sem það væru tvö skemmtilegustu liðin með bestu sóknartilburðina í keppninni, og það hefur nú ræst. Þannig að ég get ekki ímyndað mér annað en að hlutlausir boltafíklar hlakki mikið til leiksins. Ég svindla náttúrulega smá, er og verð alltaf Liverpool-aðdáandi fyrst og fremst en Barcelona hafa alltaf verið líka í miklu uppáhaldi hjá mér. Þannig að ég hlakka til að styðja mitt lið í úrslitunum, og þótt ég hafi viljað sjá Arsenal ná í draumaúrslitaleikinn er ég hér með hættur að styðja þá á nokkurn hátt. Vonandi flengja Roni og félagar þá! 🙂

Annars er mál dagsins þetta vesen með **Luis García** og **Hayden Mullins**. Þeir fengu eins og menn vita báðir rautt spjald í gær undir lok leiksins, og BBC hefur núna staðfest að báðir klúbbar muni áfrýja, því ef báðir dómarnir standa fá þeir báðir beint þriggja leikja bann og missa því af úrslitaleiknum í FA bikarnum eftir tvær og hálfa viku.

Ég sá þetta atvik og hef horft á það endursýnt og ég verð að segja að ég hefði viljað sjá þá báða sleppa með gult spjald. Jújú, García virðist reyna að þrykkja olnboganum að Mullins og Mullins ýtir við García (en það var saklausara en það sýndist, þar sem García fór frekar auðveldlega niður). En þetta atvik var samt svo mikil ekki-frétt að mér fannst skrýtið að sjá þá báða fjúka. Það var hálfgerð lognmolla yfir leiknum á þessum tímapunkti og þetta var svona meira eins og örlítill pirringur hjá báðum. En það gæti reynst dýrt.

Maður vonar að enska knattspyrnusambandið sjái að sér og minnki bönnin niður í tvo leiki á hvorn. Fyrir því væru góðar ástæður – þá væru báðir að fá sína refsingu en næðu samt úrslitaleiknum. Svo er það eins og Alan Pardew sagði, að það ætti að virka báðum liðum í hag að það er ekki eins og andstæðingar þeirra í bikarúrslitunum þurfi að tapa á því að liðin fái sína leikmenn inn fyrir þann leik. Ef þeir fá að vera með eru bæði lið að græða.

Ég vona allavega að þeir fái að vera með. Það er einhver ömurlegasta tilfinning í heimi að sitja eftir í svona stórleik vegna stundarpirrings, en það er það sem þeir Mullins og García eru að sjá fram á núna.

14 Comments

  1. Jamm, það er vonandi að knattspyrnusambandið sýni skynsemi í þessu og minnki þetta niður í þrjá leiki. Veit ekki hversu mikilvægur Mullins er fyrir West Ham, en Garcia er ómetanlegur í stórleikjum fyrir okkur.

    Og já, til hamingju Barca og Arsenal menn. Vonandi að Barca taki þetta í úrslitaleiknum. 🙂

  2. Mullins ýtti í andlitið á Garcia, breytir engu hvort Garcia reyndi að standa þetta af sér eða ekki það er rautt spjald. Mjög líkt atvikinu milli Reyna og Robben fyrr í vetur, þar fékk Reyna 3 leikja bann. Afhverju ætti Mullins ekki að hljóta sömu refsingu fyrir nánast eins brot? Ef þeir hjá enska knattspyrnusambandinu eru samkvæmir sjálfum sér þá fær hann Mullins 3 leikja bann.

    Það sést mjög vel í endusýningu að Garcia gefur Mullins eitt vænt olnbogaskot í síðuna, auk þess var dómarinn mjög vel staðsettur. Alveg hægt að rökstyðja 3 leikja bann þar líka.

    Varðandi leikinn í gær þá verð ég aðeins að kommenta á tvo leikmenn.

    Traore var hræðilegur, hann les leikinn mjög ílla og virkar skelfilega óöruggur á boltann. Trúi varla öðru en að hann sé að spila sitt síðasta tímabil í búningi LFC.

    Morientes: ekki einusinni á móti vara miðvörðum West Ham getur hann neitt. Hversu lélegur kemst hann upp með að vera áður en Benni fær nóg og selur hann??????? Menn hafa verið að tala um það hversu lélegur Cisse er í því að halda boltanum, Hvað þá með Morientes? Hann er ekkert betri en Cisse þegar kemur að því að halda boltanum. Auk þess hefur hann engan sprengikraft/snerpu. Nýtir skallafæri og dauðafæri sín mjög ílla. Ekki er hann að leggja upp mörk í hrönnum (ala Fowler). Því spyr ég til hvers erum við að halda honum???? Ef ég hef lesið rétt þá er Morientes næst launahæsti leikmaður Liverpool með um 70 þúsund pund á viku. Er ekki hægt að nota peningana í eitthvað annað og betra. Morientes VAR (hjá Monaco/Real) klassa sóknarmaður, en það er liðin tíð. Kannski nær hann sér aftur á strik í spænska boltanum eða þeim franska. Eitt er víst að Morientes mun ALDREI ná sér á strik í enska boltanum, hann hentar honum ekki það er bara þannig.

    Fyrir mér er Morientes í dag ekkert nema góð skiptimynt (hann er stórt nafn) upp í heimsklassa sóknarmann, kannski frá A. Madrid?

    Langaði líka að nota tækifærið og hrósa Cisse fyrir fínan leik í gær. Var okkar lang hættilegasti maður í leiknum. Í mínum huga eru nokkrir leikmenn sem ættu að víkja áður en röðin kemur að Cisse (hóst Morientes)

    Kveðja
    Krizzi

  3. sammála Krizza með seinni hlutann…
    Cisse er öðruvísi framherji en hinir sem við erum með, hann er fljótastur og skotfastastur Liverpool leikmanna og ef að hann lærir að hlaupa rétt í eyðurnar og hitta ramman þá er hann stórkostlegur framherji sem á alveg skilið að spila með Liverpool…
    hann þarf bara að eiga fleirri leiki eins og í gær… sýna stöðugleika…
    Morientes aftur á móti er mjög svipaður Fowler (lítil snerpa, góðir skallamenn, hafa verið frábærir framherjar) en Fowler er bara svo miklu betri í dag… þannig að það kæmi mér á óvart ef að Morientes væri enn í Liverpool búningi á næsta tímabili…

    varðandi spjöldin…
    jújú það er hægt að rökstyðja þau… og á miðri leiktíð myndi sennilega enginn kvarta… en bæði lið eiga eftir 2 leiki í deildinni og eiga síðan að spila á móti hvort öðru í bikarúrslitaleik…
    þetta eru bara ekki venjulegar aðstæður… ég myndi vilja sjá bannið minkað niður í 2 leiki… en ég veit að það væri þá verið að sveigja reglurnar… og það er spurning hvort að enska sambandið sé tilbúið að gera það…

  4. Var að lesa nýjasta bloggið frá Gerry á Koplog. Hann er frekar fyndinn og hnyttinn oft á tíðum. Hann var að ræða um úrslitaleikinn milli Barca og Arsenal. Set hér inn síðustu málsgreinina hans.

    “Anyway, just in case either of them lose the run of themselves and for the benefit of KopBlog readers, I?ve done some in-depth research into both teams. Using the most sophisticated calculation devices, I?ve worked out to the nearest decimal point that should the gooners win this competition it will bring their grand total of European victories to an impressive, 1 and if Barca win it they will have an even more impressive total of 2. So enjoy it while you can boys, you?ve got a long, long way to go before you get anywhere near the European pedigree of THE FIVE TIMES CHAMPIONS, LIVERPOOL FC. ”

    muhahaha :laugh:

  5. Mullins hefur verið fastamaður og gríðarmikilvægur hlekkur á miðjunni hjá WH. Þeir kalla hann “unsung hero” á soccernet sem er eitthvað sem menn eins og Carragher og Finnan hafa verið kallaðir hjá LFC. Almennt eru netmiðlar sammála um að missir WH sé meiri en LFC ef þeir missa báðir af úrslitaleiknum.

    Mitt mat er að miðja/sókn liverpool fari létt með að klára úrslitaleik FA cup án Luis Garcia þrátt fyrir að kappinn sé yfirleitt upp á sitt besta í stórleikjum.

    Best og sanngjarnst væri náttúrulega að báðir fengu að vera með og við hirðum dolluna fair and square.

  6. Knattspyrnusambandið verður að standa fast á sínu, annars væru þeir að skíta verulega í buxurnar. Með þessu væru þeir að setja mjög slæmt fordæmi, það skiptir engu máli þó að liðin mæti hvoru öðru í 3. leiknum. Reglur eru reglur.

  7. Varðandi spjöldin í leiknum….

    Reglur eru reglur og það verður að fara eftir þeim og þá skiptir engu máli hver á í hlut….

    Hins vegar getur farið svo að dómarinn breyti rauðu spjöldunum í gul og þá verða báðir með svo framarlega sem þeir eru ekki með uppsöfnuð gul spjöld (mig minnir að 5 gul er sjálfkrafa eins leikja bann).

    en REGLUR ERU OG VERÐA REGLUR og því miður þá þýðir ekkert að vera að setja það í eitthvert samhengi við neitt annað heldur bara fylgja þeim í hvívetna……..!

  8. Ég vill að bannið standi. Þeir eru atvinnumenn og eiga að vita betur en að haga sér svona heimskulega. Garcia hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér en hann á það til að vera með einhverjar smá leiksýningar á vellinum og það fer afskaplega í taugarnar á mér.

    Það er ekki nóg með að hann gefi Mullins olnboga skot í bakið heldur hendir hann sér í jörðina (ala Robben) þegar Mullins setur hendina í andlit hans. Ég man hvað ég var reiður útí Robben á sínum tíma og ég ætla mér ekki að gleyma því þó svo að leikmaður LFC eigi nú í hlut.

    Rafa og margir leikmenn LFC höfðu orð á leikaraskap Robben fyrr í vetur og töluðu um að þetta væri ljótur blettur á leiknum. Ég er alveg sammála því og tel að öll lið eigi að taka sig saman í andlitinu með þetta. Við höfum ekki gert mikið af þessu en ég sé þetta þó stundum hjá Garcia.

    Látum nú drenginn læra af reynslunni. Ef þú spilar fyrir LFC þá hagar þú þér ekki svona. (punktur)

    Ég nenni ekki að kommenta á hegðun Mullins enda er hann ekki leikmaður liðsins sem ég styð.

  9. Ég verð að vera sammála Julian Dicks hérna, mér fannst Garcia henda sér alltof auðveldlega í jörðina. Menn hafa verið slegnir í andlitin í aldaraðir og staðið það af sér en af einhverjum ástæðum sjá knattspyrnumenn ekki sóma sinn í því að standa í lappirnar og henda sér í staðinn í grasið í hvert sinn sem einhver kemur nálægt andlitinu þeirra. En reglur eru reglur og skv. þeim verður dómarinn að reka Mullins útaf fyrir að slá til Garcia og til að gæta fyllstu sanngirni að þá var brot Garcia ekkert minna og hann varð því að fjúka líka. Hefði Garcia hins vegar drullast til að standa í lappirnar þá hefði dómarinn sennilega látið sér nægja að gefa þeim gult og enginn færi í bann.

    Ég er líka á því að bannið eigi að standa, FA væri að fara út á ansi hálan ís með því að stytta bannið svo að þessir slagsmálahundar gætu tekið þátt í úrslitaleiknum. Hvað væri þá til fyrirstöðu fyrir önnur lið að heimta að leikmenn sínir fengju styttri bönn til að geta tekið þátt í undanúrslitum, 8-liða úrslitum eða hreinlega bara fyrstu umferð annarrar hvorrar bikarkeppninnar? Afhverju eiga að vera sérreglur fyrir úrslitaleikinn?

    Eina leiðin sem ég sé færa til að leyfa þessum leikmönnum að taka þátt í úrslitaleiknum er að breyta spjöldunum í gul en ég sé það ekki gerast. Garcia sló til Mullins með olnboganum, það á ekki að skipta máli hvort hann hitti hann í andlitið, bakið eða hreinlega hitti ekki og Mullins sló Garcia í andlitið. Reglurnar eru skýrar, þetta er rautt og a.m.k. þriggja leikja bann.

  10. *Owen fer til Real Madrid þar sem hann telur meiri líkur á að vinna titla.

    *Liverpool vinnur meistaradeild Evrópu.

    *Viera fer til Juventus þar sem hann telur þá líklegri til að vinna meistaradeildina.

    *Arsenal er komið í úrslit meistaradeildarinnar.

    Eitthvað munstur?

  11. Þetta voru bæði réttlætanleg rauð spjöld og til skammar fyrir báða leikmenn. García er farinn að lemja frá sér all harkalega undanfarið (Everton-leikurinn líka) sem er frekar leiðinlegt fyrir frábæran knattspyrnumann.

    Annars er Alan Pardew að mæla rétt þegar hann talar um að þessi þriðji leikur skipti engu máli í banninu, þar sem hann er bikarleikur þessara liða. Það kæmi mér meira á óvart ef enska knattspyrnusambandið myndi minnka bannið en að viðhalda 3ja leikja banni eins og reglur segja. West Ham græðir á þessu en gerir leikinn bara jafnari.

  12. Ég held að þetta sé einmitt öfugt Eiki. Held að missir West Ham sé meiri en okkar. Mullins hefur verið algjör lykilmaður á miðjunni hjá þeim í vetur og mikið áfall fyrir þá að missa hann. Auðvitað væri afar mikilvægt að hafa Luis í okkar hóp, sérstaklega þar sem hann þrífst á þessum stóru leikjum, en við erum með mun meiri breidd í okkar leikmannahópi og held ég að missirinn sé mun minni hjá okkur en hjá þeim.

  13. Garsia og Mullins eiga að fá þriggja leikja bann…punktur. Ég dýrka Garsia…hann er tvisvar búinn að afgreiða Chelsea fyrir okkur og bara það setur hann í hásæti í mínum bókum… :biggrin:

    …en Luis á þessa hörmung til, að láta skapið hlaupa með sig í gönur…ok..ég fyrirgef það…en ég verð að viðurkenna að leikræn tilþrif eins og að henda sér í jörðina eins og dauður pirrarr mig óskaplega..

    Ég er ekki búinn að gleyma því hvað ég drullaði mikið yfir Robben fyrr í vetur….

    Sorry minn kæri Garsia…nú er tími til að sitja í skammarkróknum næstu þrjá leiki.

West Ham 1 – Liverpool 2

Gonzales vill bara spila fyrir Liverpool