West Ham komnir í úrslit

Jæja, **West Ham United** sigruðu Middlesbrough í dag í undanúrslitum FA Bikarkeppninnar með einu marki gegn engu.

Það þýðir að við mætum Hömrunum í bikarúrslitunum á sunnudag eftir nákvæmlega þrjár vikur. Það ætti að verða skemmtilegur og spennandi leikur.

Svo skemmtilega vill til að við eigum að mæta Hömrunum á Upton Park á miðvikudaginn í deildinni. Við unnum heimaleikinn auðveldlega, 2-0 í október síðastliðnum en síðan þá hafa þeir náð upp góðu skriði í deildinni og eru nú í góðri stöðu til að ná sæti í Evrópukeppni félagsliða, þrátt fyrir að vera nýliðar í vetur.

Þetta ættu að verða hörkuskemmtilegar viðureignir, bæði í deildinni á miðvikudag og í bikarnum eftir þrjár vikur. En fyrst og fremst verð ég bara að segja að ég er *feginn* að Middlesbrough komust ekki í bikarúrslitin. Þeir eru með svo leiðinlegt lið, og Steve McClaren spilar svo neikvæðan og leiðinlegan bolta að ég hefði ekki séð fram á neitt annað en 90 mínútna varnartaktík hjá þeim gegn okkur í bikarúrslitum. Sem betur fer gerðist það ekki og við fáum að mæta liði sem þorir að sækja.

Til hamingju Hamrar, sjáumst í Cardiff!

3 Comments

  1. Já ég er mjög sáttur með að fá West Ham. Virkilega vel spilandi lið og svo hef ég líka verið ákaflega hrifinn af Alan Pardew.

    Annars skiptir það engu málið hvort Þeir endi í topp 7 í deildinni eða ekki, þeir fá sjálfkrafa sæti í UEFA Cup af því að þeir komust í úrslitaleik FA Cup.

  2. Sá leikinn og West Ham átti þennan sigur fyllilega skilið. Harðduglegir og með mikla leikgleði. Ég fíla ekki Middlesboro og í raun skiptir ekki hvoru liðinu við mætum, við VINNUM þennan bikar… það er ljóst.

    En tillykke West Ham.

LIVERPOOL 2 – chelsea 1!!!

Gerrard útnefndur leikmaður ársins!!!