Chelsea Upphitun 4: Dagurinn Fyrir


Jæja, þá er komið að því. Síðasti stórleikurinn okkar á tímabilinu er á morgun, gegn Englandsmeisturum Chelsea, í undanúrslitum FA bikarkeppninnar. Síðasti stórleikurinn, segi ég en ef við vinnum á morgun þá fáum við augljóslega annan stórleik áður en tímabilið er úti. Vonandi gengur það eftir. 🙂

Við höfum fjallað daglega um Chelsea þessa vikuna, og í sjálfu sér skrifað endalaust mikið um það lið á þessari síðu. Of mikið, miðað við Liverpool-síðu, en það er bara mjög erfitt að komast hjá því að fjalla um Chelsea þessi misserin, því það virðist vera sem við séum alltaf að spila við þá. Þetta verður *tíunda* viðureign liðanna á tveimur tímabilum, sem er fáránlega mikið.

Þannig að í stað þess að tala um möguleika liðanna ætla ég að einbeita mér frekar að því hvernig taktík þjálfararnir munu líklega nota. Við vitum að þetta verður jafn og spennandi leikur, það verður ekki mikið um mörk og þetta verður í járnum mestallan tímann. Spurningin er, hvernig munu þjálfararnir stilla upp í þennan leik?

**CHELSEA:**

José Mourinho hefur að undanförnu breytt liðsuppstillingunni sinni aðeins frá hinu vel þekkta 4-3-3 kerfi sínu. Hann hefur t.d. verið að spila með bæði Hérnan Crespo og Didier Drogba í liðinu, báða sem framherja, og þá með þá Lampard og Makelele þar fyrir aftan, Essien aðeins úti til hægri og svo Robben eða Cole sem vinstri kantmann.

Hins vegar grunar mig að Mourinho muni fara aftur yfir í kerfið sem hann, og leikmenn hans, þekkja svo vel á morgun. Hann er líkur Benítez að þessu leyti, að þeir eru mjög fastheldnir á sitt uppáhalds kerfi. Munurinn er svo sem ekki svo mikill, væntanlega verður Hérnan Crespo fórnað fyrir annan vængmann, og liðið þeirra mun því líklega líta svona út á morgun:

Cech/Cudicini

Ferreira – Gallas – Terry – Del Horno
Makelele
Essien – – – – – – – Lampard
Robben – – – – – – – – – – – – – – – – – – – Joe Cole
Drogba

Ég set spurningarmerki við Petr Cech markvörð, því ég veit ekki hvort hann er frá vegna meiðsla eftir leikinn við Everton á mánudag. Svo hefur Carlo Cudicini spilað leiki þeirra í bikarkeppnunum í vetur og því vel líklegt að hann standi líka á milli stanganna á morgun.

**LIVERPOOL:**

Eins og Chelsea-liðið þá hafa okkar menn spilað vel að undanförnu og halað inn hvern sigurinn á fætur öðrum. Rafa hefur verið að fara nýjar slóðir endrum og sinnum, prófað að spila 3-5-2 kerfi sem og 4-4-2, og 4-4-1-1. En grunnmunurinn er kannski ekki svo mikill, þetta eru jú bara byrjunarstillingar og það er hreyfing manna inná vellinum sem gildir. 🙂

Á morgun held ég að Rafa muni velja þetta klassíska 4-4-1-1 kerfi sem hann hefur oft notað gegn Chelsea, og í öðrum stórleikjum. Hann mun leitast við að þétta miðjuna hjá okkur vel og leggja áherslu á sterkt kantspil. Þá mun hann velja þann leikmann sem er líklegastur til að skora/skapa til að spila beint fyrir aftan stóra manninn í framlínunni.

Með öðrum orðum, þá tel ég að Rafa muni stilla þessu upp svona á morgun:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Momo/Didi – Alonso – Kewell
García
Crouch

Ég set spurningarmerki við Momo Sissoko, því ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg viss hvort hann verður virkilega í banni á morgun eða ekki. Rafa sagði eftir leikinn við Bolton fyrir tveimur vikum að Momo hefði setið á bekknum allan tímann af því að hann væri einu gulu spjaldi frá því að vera í banni fyrir leikinn gegn Chelsea. Síðan fékk Momo spjald um síðustu helgi gegn Blackburn, þannig að samkvæmt því ætti hann að vera í banni.

Það hefur hins vegar ekkert verið minnst á að hann verði í banni þessa vikuna og því er ég ekki viss. Annars skiptir það ekki öllu máli, ef hann er frá er ég viss um að Rafa mun kalla á Dietmar Hamann inn í liðið; bæði vegna reynslu hans af stórleikjum og líka af því að með þeirri vinnu sem hann og/eða Momo vinna þá geta Alonso og Gerrard frekar einbeitt sér að sókninni.

Rafa mun reyna að sækja upp kantana og þess vegna verður Gerrard úti hægra megin, og Kewell á vinstri, á meðan Luis García verður ‘í holunni’ og mun gera það sem hann gerir best; detta inn í allar sprungur í vörn Chelsea. Hann skoraði sigurmarkið gegn þeim í Meistaradeildinni í fyrra og því þætti mér mjög eðlilegt að sjá hann þarna inni á morgun. Einnig, þá getur hann mjög auðveldlega svissað við bæði Kewell og Gerrard á tímum í leiknum, þannig að þeir þrír gætu myndað mjög fljótandi sóknarlínu fyrir aftan Crouch.

**MÍN SPÁ:** Þetta verður fyrst og fremst ótrúlega jafn og spennandi leikur. Margt gæti ráðist af því hvort liðið skorar fyrsta markið, en við gætum vel verið að horfa á 120 mínútur af markaleysi og svo æsispennandi vítaspyrnukeppni til að skera á milli. Mér dettur einna helst í hug úrslitaleikur Deildarbikarsins í fyrra, get vel ímyndað mér að þessi leikur muni spilast á svipaðan hátt. Mikil spenna og eitt mark getur ráðið úrslitum.

Ég held að Liverpool muni vinna þennan leik, **2-1 eftir framlengingu**. Chelsea komast yfir snemma leiks og við sækjum hart í þeim seinni. Náum svo að jafna og leikurinn fer í framlengingu, þar sem okkar menn innbyrða sigur. En auðvitað hef ég *ekkert* fyrir mér í þessu, það er algjörlega ómögulegt að spá fyrir um úrslit í þessum leik. En þetta er vissulega óskhyggja, það væri mjög gaman að sigra Chelsea í framlengingu á morgun. 🙂

**ÁFRAM LIVERPOOL! YNWA!**

12 Comments

  1. Sissoko verður með. Þessi 9 gulu spjöld sem hann var búinn að fá úreltust eftir Bolton-leikinn.

  2. Rómantíkin svífur yfir vötnum í þessari spá… frábært fyrir fótboltann ef þetta rætist.

    P.s. er það virkilega svo að spjöl úreldist á einhverjum ákveðnum degi?

  3. Ég spái því að þið verðið svo heitir fyrir þennan leik að það á eitthvað eftir að bresta ef mið er tekið af allri þessari upphitun! :biggrin:

  4. Maður er farinn að hljóma eins og biluð plata :laugh:

    Taka #3 😉

    Momo Sissoko er ekki í banni í leiknum. Það voru núlluð út spjöld eftir Bolton leikinn og því skipti spjaldið í Blackburn leiknum engu máli.

  5. SSteinn, geturðu endurtekið þetta :biggrin2:

    Ég var reyndar búinn að ná þessu, en hvernig stendur á þessu, af hverju eru spjöldin núlluð svona rétt fyrir lok leiktíðar?

  6. Momo er ekki í banni :biggrin:

    Ég man ekki alveg hvernig þetta virkar, og hvað þá síður af hverju þetta er svona. Veit bara að þetta er núllað á einhverjum tímapunkti undir lok tímabilsins.

  7. Fowler má ekki spila og framherjar sem eftir eru eiga erfitt að skora eg er ansi smeikur þeir fá fult af færum en ?????. Vona bara að Fowler hafi kent fleirum en Morentes að skora

  8. Varðandi spjöldin hjá Sissoko þá virkar þetta þannig, að mig minnir, að ef þeir eru búnir að fá 10 gul spjöld fyrir einhverja fyrirfram ákveðna dagsetningu þá fá þeir bann. Momo hefur greinilega fengið einhvern “auka kvóta” með því að sleppa með 9 spjöld framyfir þessa dagsetningu.

    Varðandi pælingar ykkar um Chelsea þá hefur mér fundist í síðustu leikjum að þeir hafi verið að spila 4-4-2 með tígul miðju, þ.e. með Makelele aftastan á miðjunni, Lampard og Essien þar fyrir framan á miðjunni og Cole / Robben fremstan á miðjunni með frekar litlar varnaskyldur. Þetta hefur finnst mér ekki verið að gefa sérstaka raun þannig að ég tel líklegt eins og þið að þeir fari aftur í sitt hefðbundna 4-3-3 með Drogba á toppnum.

    Annars er maður að verða ansi spenntur fyrir morgundeginum og vona að guð og lukkan verði okkur hliðholl…….

  9. Segið mér ég var að rita um framherja og að skora mörk .Hverja vilji þið sjá frammi endilega pælið í því

  10. gulu spjöldin gilda bara í deildini ekki í bikar eða öðrum keppnum. Dæmi ef Gerrard er með 9 gul spjöld í deild má hann þá ekki spila með landsliðinu?? En hvað seg´ið um skorara á laugardaginn

  11. sissoko ? jú hefur staðið sig ágætlega en það er það eina sem þið hafið áhyggjur af. Haman er reynslu- bolti, kæmi ekki á óvart að hann verði inná eða á bekk.Sissoko er miðju maður. Haf´ið frekar áhyggjur af framlínuni.Enn og aftur hverjir geta skorað

Chelsea Upphitun 3: Af hverju við vinnum

Gerrard talar