Blackburn 0 – L’pool 1

Jæja, okkar menn unnu verðskuldaðan útisigur á **Blackburn Rovers** í dag og skelltu sér þar með í 73 stig í deildinni. Fyrir vikið er pressunni viðhaldið á Man U í þessari baráttu um annað sætið, þótt enn þurfi ansi mikið að gerast til að þeir missi okkur fram fyrir sig, og við getum líka sagt að hér með sé þriðja sætið endanlega í höfn.

Það var nokkuð um tíðindi fyrir þennan leik og í honum sem gætu haft áhrif á undanúrslitaleikinn í FA Bikarnum gegn Chelsea um næstu helgi. Fyrir leik kom í ljós að þeir Peter Crouch og Steven Gerrard væru ekki einu sinni í hópnum, og Harry Kewell var hvíldur á bekknum. Hvort að þeir Crouch og/eða Gerrard eru mikið meiddir eða voru bara hvíldir verður að koma í ljós, en við vonum náttúrulega að þeir verði báðir til í slaginn eftir viku.

Þá gerðist það í þessum leik að Momo Sissoko fékk gult spjald, og miðað við það sem Rafa Benítez sagði eftir Bolton-leikinn fyrir viku þá var þetta tíunda gula spjaldið hans í deildinni og hann er því kominn í tveggja leikja bann. Sem þýðir, því miður, að hann missir af leiknum gegn Chelsea um næstu helgi.

En allavega, víkjum að leik dagsins. Rafa stillti liðinu í dag svona upp:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Cissé – Sissoko- Alonso – Riise

Morientes – Fowler

**BEKKUR:** Dudek, Kromkamp, Traoré, García, Kewell.

Fyrri hálfleikurinn var vægast sagt mjög daufur framan af. Hann einkenndist af miklu miðjumoði og mikilli baráttu, en svo opnaðist hann aðeins þegar leið á. Á 23. mínútu átti Fernando Morientes að fá víti þegar hann var búinn að snúa Ryan Nelsen af sér en sá síðarnefndi tók höndum utan um hann innan teigs og reif hann niður. Alan Wiley dómari sá þó ekkert athugavert og leikurinn hélt áfram.

Nokkrum mínútum síðar kom svo sigurmarkið. Á 29. mínútu áttu okkar menn fína sókn upp völlinn og boltinn barst að lokum til **Robbie Fowler**. Hann tók hann úr loftinu á bringuna og skaut honum innfyrir, að því er virtist í áttina að Djibril Cissé sem var kolrangstæður. Cissé áttaði sig á því í hvað stefndi og hætti við að taka boltann, lét hann fara innfyrir sig og stóð steinrunninn í sömu sporunum. Blackburn-menn hættu að verjast og heimtuðu rangstæðudóminn en á meðan þeir gerðu það spratt Fernando Morientes innfyrir Cissé og hirti boltann, keyrði inná teiginn þar sem hann gaf boltann út í teiginn á **Fowler** sem kom aðvífandi og setti boltann í tómt netið. 1-0 fyrir Liverpool!

Þetta mark var náttúrulega mjög umdeilt og skil ég vel að Blackburn-menn séu fúlir að hafa tapað fyrir svona marki. Ef við hefðum fengið þetta mark á okkur hefði ég sjálfur brjálast fyrir framan skjáinn, þannig að ég skil þá vel. Cissé **var** rangstæður, sending Fowler **var** ætluð honum, og því er vissulega hægt að segja að hann hafi haft áhrif á leikinn. En slakur dómari leiksins, Wiley, mat þetta svo að Cissé hefði ekki haft nein áhrif og því stóð markið, okkar mönnum til mikillar lukku.

Í kjölfarið á markinu færðist mikil harka í leikinn. Xabi Alonso, John Arne Riise og Steve Finnan hjá Liverpool voru allir aðvaraðir fyrir brot og hinum megin voru þeir David Bentley, Lucas Neill og Robbie Savage allir aðvaraðir líka, en Savage fékk þó samt gult fyrir að mótmæla of mikið. Það var því einstaklega svekkjandi að sjá Momo Sissoko fá beint gult spjald fyrir sitt fyrsta brot, en ekki tiltal eins og allir hinir. Þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem Momo nýtur ekki sömu sanngirni og aðrir leikmenn, og oft finnst manni eins og dómarar á Englandi þekki ekkert skemmtilegra en að spjalda hann. Mörg af hinum brotum hálfleiksins, svo sem hjá Savage og Alonso, voru grófari en brot Sissoko en þeir sluppu með tiltalið. Óskiljanlegt, og nú þarf Momo að missa af stórleiknum um næstu helgi.

Undir lok hálfleiksins fékk Lucas Neill svo spjald fyrir glórulausa tæklingu við miðlínuna á Djibril Cissé, en upp úr því urðu mikil rifrildi og mikill hiti á milli leikmanna og þjálfara beggja liða. Maður var því fegnastur að sjá Wiley flauta til hálfleiks án frekari skakkafalla.

Síðari hálfleikurinn var síðan aðeins opnari, fótboltalega séð. Blackburn-menn reyndu að sækja stíft framan af hálfleiknum en ógnuðu okkar mönnum lítið. Þeirra helsta ógn kom úr hornspyrnum Morten Gamst-Pedersen, en úr einni slíkri átti fyrrnefndur Nelsen skalla rétt framhjá á 51. mínútu. Það var *fyrsta markskot Blackburn-manna í leiknum* … sem segir allt sem segja þarf um það hvort liðið átti skilið að vinna í dag.

Eftir því sem líða tók á hálfleikinn færðu Liverpool-menn sig svo framar á völlinn og hefðu átt að innsigla sigurinn. Rafa tók Warnock meiddan útaf fyrir Harry Kewell, Fowler fór útaf fyrir Luis García og loks fór Morientes útaf fyrir Jan Kromkamp.

Hafi Alan Wiley dómari verið slakur í þessum leik þá var línuvörðurinn Blackburn-megin í seinni hálfleiknum ennþá verri. Hann tók **tvisvar** af okkar mönnum gott upphlaup með því að flagga á rangstöðu – fyrst á Cissé og svo á Kromkamp – en í báðum tilfellum var varnarmaður Blackburn fyrir innan okkar mann **og okkar maður var inná sínum eigin vallarhelming þegar sendingin kom**. Fáránleg dómgæsla.

Djibril Cissé klúðraði svo dauðafæri undir lokin þegar hann skaut í stöng fyrir opnu marki eftir gott upphlaup, auk dauðafærisins sem hann klúðraði undir lok fyrri hálfleiks einn gegn Friedel. Harry Kewell og Luis García fengu líka fín skotfæri en allt kom fyrir ekki, við náðum ekki að bæta við mörkum og 1-0 sigur var því staðreynd. Umdeilt sigurmark, en verðskuldaður sigur engu að síður.

**MAÐUR LEIKSINS:** Carra og Sami voru góðir í vörninni sem stóð fyrir sínu, þeir Xabi og Momo voru sterkir á miðjunni og Fowler skoraði markið sem skipti sköpum. Þó langar mig til að útnefna **PEPE REINA** sem mann leiksins í dag. Hann stóðst álagið mjög vel í þessum leik, þurfti reyndar ekki að verja mörg skot frá Blackburn-mönnum en hann greip vel inní allt sem þeir reyndu og dílaði rosalega vel við allar fyrirgjafirnar. Hann er einfaldlega öruggasti markvörður sem við höfum haft í fleiri, fleiri ár!

Það segir sína sögu að í dag hélt liðið hreinu í 33. skiptið í vetur, og þar af hefur Reina sjálfur haldið marki sínu hreinu þrjátíu sinnum. Nú eigum við eftir þrjá deildarleiki og einn eða tvo bikarleiki, og Reina þarf bara að halda hreinu í tveimur þeirra til að setja **nýtt met** í sögu Liverpool. Að halda marki sínu hreinu þrjátíu sinnum eða oftar er einfaldlega stórkostlegt afrek í nútímafótbolta.

Miðað við hversu mikið menn misstu sig yfir Petr Cech í fyrra, á hans fyrsta tímabili á Englandi, þá finnst mér ótrúlegt hversu lítið hefur verið fjallað í hlutlausum miðlum um Reina. Rafa og aðrir þekktir Liverpool-menn nútímans og fortíðarinnar hafa keppst við að hrósa Reina en hlutlausum pennum virðist vera slétt sama. Menn eru enn að sleppa sér yfir Cech, sem hefur þó ekki náð nærri því jafn góðum árangri – tölfræðilega séð – og Reina hefur gert.

Maður leiksins að mínu mati, yfirburðamarkvörður í Englandi í vetur og einn okkar besti leikmaður á þessu tímabili sem er að ljúka.

Jæja, nú tekur við vikubið eftir stórleiknum við Chelsea. Sem betur fer getum við brosað þá vikuna, með 73 stig og góðan útisigur í pokahorninu. Gleðilega páska! 🙂

19 Comments

 1. Fyrir ykkur sem hafið verið að kvarta undan því að Cisse fái aldrey tækifæri í frammlínuni fenguð svarið algjörlega í dag, þessi drengur getur ekki nýtt dauðafæri!!

  Annars góður sigur á erfiðu og grófu liði.
  Hyypia maður leiksinns að mínu mati, og Carra náttúrulega líka var frábær við hliðina á honum.

  Sissoko og Alonso frábærir enn og aftur og Fowler er kominn til að vera.

 2. Held að menn hafi alltaf verið að tala um að hann fengi að spila nokkra leiki í röð frammi, það hefur hann ekki fengið.
  Annars er ég sammála þér með nýtinguna. Mér finnst Cisse reyndar hafa skánað nokkuð (farinn að gefa boltann stundum í fyrsta og hlaupa meira án bolta) en hann er samt ekki nærri nógu góður fyrir það framtíðarlið sem Rafa Benitez er að skapa.

  Fínn sigur og vonandi að það verði möguleiki á 2.sætinu eftir leik morgundagsins. Áfram Tottenham!

 3. Þið ætlið nú ekki að fara að dæma manninn út frá einhverjum 25 mínútum sem hann fékk frammi? Hafa Crouch eða Morientes sýnt okkur það að þeir kunni að nýta dauðafæri? Ég held að það sé ekki hægt að neita því að Cisse stóð sig mjög vel í þessum leik. Var mjög hættulegur.

 4. Þetta var góður vinnusigur á erfiðum útivelli. Við hefðum átt að vinna þennan leik stærra ef Cisse gæti nú nýtt DAUÐAFÆRIN sín. Hins vegar spilaði vörnin vel að vanda og Reina mjög öruggur í markinu. Sammála vali Kristjáns á manni leiksins.

  Markið var vafasamt og ég hefði verið BRJÁLAÐUR ef við hefðum fengið þetta mark á okkur. Hins vegar er það dómarinn sem dæmdir og í þetta skiptið högnuðumst við á því.

  Gaman að sjá Fowler sprækann aftur og mér fannst hann standa sig vel. Hann og Morientes ná greinlega vel saman. Hins vegar er ekkert grín að spila senter með Riise og Cisse á köntunum…. það er alveg ljóst!!!

 5. Vil óska Rafa til hamingju með sigurinn í dag á afmælisdeginum sínum. :biggrin: 46 ára í dag til lukku með daginn.

 6. Fínn sigur í frekar leiðinlegum leik. Gott að ná að hvíla Gerrard, Crouch og Kewell fyrir leikinn um næstu helgi.

  Blackburn hafði bara tapað tvisvar á heimavelli á þessu tímabili, svo það var verulega gott að vinna þennan leik. Ekki beint skemmtilegasti leikurinn á tímabilinu, samt. 🙂

  Og sammála með Reina, hann er æði! Hef einmitt spáð í þessum samanburði við Chech, en hef ekki nennt að skrifa um það ennþá. Verður fróðlegt að sjá hvaða markmann fjölmiðlamenn setja í lið ársins.

 7. Heyrðu en eigum við ekki að óska Rafa Benitez til hamingju með 46 ára afmælið!!! Stórfín afmælisgjöf þetta frá leikmönnum! 🙂

  Varðandi strikerana þá hefur Cisse ekki fengið næga sénsa en Benitez virðist vera búinn að gefast uppá honum. Hann verður seldur ásamt Morientes og Pongolle, Fowler fær nýjan 1-2 ára samning, við höldum Crouch pottþétt og kaupum 2 heimsklassa framherja í sumar.

  Sóknarmennina má reyndar afsaka með þjónustuna af köntunum sem þeir fá en samt……..
  Ímyndiði ykkur breytingarnar sama tíma á næsta ár þegar við höfum Mark Gonzalez og alvöru hægri kantmann til að dæla inn crossum!

 8. Annars vill ég nú líka halda því fram að Fowler hafi vitað alveg nákvæmlega hann var að gera. Ef ekki þá var sendingin á Cisse virkilega léleg. Ekki í hans klassa.

 9. Ef menn eru ekki færðir niður um deild fyrir jafn lélega línuvörslu og gaurinn í dag þá veit ég ekki hvað! ..Fyrst fyrir markið og síðan fyrir rangstöðudómana á Cissé og Kromkamp þegar þeir voru á eigin vallarhelmingi.

  Í raun fannst mér sigurinn verðskuldaður útaf þessu. Kannski átti markið okkar ekki að gilda, en Cissé og Kromkamp hefðu allavega verið komnir einir í gegn í þessi tvö skipti.

  Til hamingju með daginn Benítez!

  Áfram Tottenham á morgun! Annars er þetta bara búið. Allavega gaman að halda spennunni í þessu! 🙂

 10. já flottur sigur.
  en mér finnst Cissé ekki vera að tengja þarna, hvorki á kantinum eða í framlínunni. OK hann klúðraði dauðafærum sem hann skapaði sér sjálfur sem er meira en hægt er að segja um Moientes en eitt fannst mér alveg ferlega pirrandi. það var rétt undir lokin þegar kewel fór vel með boltann upp kantinn og garcia kallaði á hann út í teig, kewel fór skrefinu lengra alveg upp að endalínu. Línan fyrir markið var alveg auð en þá stóð cissé, sem var aftari maðurinn, bakvið 2 varnarmenn blackburn í stað þess að lesa hlaupið hjá kewel og bjóða sig á fjærstöng þar sem allt var autt.
  tók einhver eftir þessu? :blush:

 11. Vissulega átti Blackburn fyrsta markskot sitt í leiknum á 51.mínútu, en Liverpool áttu nú bara þrjú í fyrri hálfleik. Allt í allt áttu Blackburn fleiri skot á markið sjálft þegar leik lauk.

  Dickov var líka dæmdur rangstæður þegar Carra var of seinn að stíga út, sem gerði hann mjög naumlega réttstæðan.

  Og eins og Mark Hughes segir líka, þá hefur Cissé áhrif á leikinn þar sem hann tekur lítið gesture í átt að boltanum eins og hann ætli að gera eitthvað með hann, áður en hann lætur hann svo fara.

  Sigur Liverpool var ekkert út úr kú, en jafntefli hefði heldur ekkert verið ósanngjörn úrslit.

 12. Samkvæmt knattspyrnureglunum var markið okkar í dag fullkomlega löglegt….en ég skil gremju Blackburn manna og við hefðum verið sársvekktir að fá svona mark á okkur. Cisse hafði einfaldlega engin áhrif á leikinn, hann snerti ekki boltann og hann hindraði engann af varnarmönnum Blackburn til að ná til boltans eða elta sendinguna í gegn. Ef hann hefði verið nær varnarmönnunum og hindrað hreyfingar þeirra hefði verið um rangstöðu að ræða. Aðstoðardómarinn átti mjög góðan dag (þ.e. annar þeirra) og var gaman að sjá hve fagmannlegur hann var í öllum sínum dómum og þá sérstaklega í markinu. Þetta var nákvæmlega rétt dæmt eftir reglunum en það er svo allt annað mál hvort við séum sammála því að reglurnar séu svona. Rangstöðureglan hefur verið á mjög gráu svæði……. Kíkið endilega á eftirfarandi slóð: http://www.fifa.com/en/comp/index/0,2442,107252,00.html?comp=WYC&year=2005&articleid=107252 (smellið á bláa linkinn á miðri síðu með eftirfarandi texta: For more information on the offside law, refer to the flash animation.) ….þar sem þið getið séð nokkur dæmi frá FIFA varðandi túlkun á rangstöðu. Eitt af þessum myndskeiðum sýna það vel að markið í dag var fullkomnlega löglegt samkvæmt reglunum og á ekki að fara eftir þeim??? Til hamingju með daginn Púlarar !!

 13. Veit e-r hvar er hægt að sjá mark besta framherja Liverpool á netinu?

 14. Gotti: Takk fyrir þetta. Ég verð að viðurkenna að þetta er bara miklu rýmra en ég hélt og greinilega allir hér að ofan sem viðurkenna þetta sem rangstöðu. Þetta er eitthvað sem allir ættu að kíkja á.

 15. Alonso var hreint frábær fyrri hluta leiksins. Hann og Momo eru besta miðjupar okkar í dag. Á vænginn með Gerrard :biggrin: Cisse á að halda til USA og brillera í ruðningi. Einfaldur leikur þar sem hraðinn nýtur sín en ekki er þörf á miklum leikskilningi.

  Lauflétt könnum í lokin. Hvorn mynduð þið velja í framlínu okkar manna (Nonna) Lua Lua eða Morientes?

 16. If the attacking player in an offside position is running towards the ball and touches it, only when contact with the ball has been made should the assistant raise his flag. If contact is not made, then play should continue.

  ..þetta gæti ekki verið skýrar….

  Takk fyrir þennan tengil…mjög svo fróðlegt.

 17. Ég er nánast 100% á því að Momo sé ekki kominn í bann. Ég held að það hafi verið Bolton leikurinn sem skipti öllu máli í þessu, því eftir hans kemur upp einhverskonar núllun á spjöldin. Held að Momo sé klár í slaginn í næsta leik.

 18. Seinna “maður á móti markmanni” færið hjá Cissé í síðari hálfleik summaði upp ferli hans með Liverpool. Vonandi fáum við eins og fyrir hægri löppinni á góðum framherja fyrir Cissé.

  Svo þessi rangstöðuregla…..RUGL er eina orðið yfir hana! Varnarmenn hafa unnið í marga mánuði að því að samhæfa sína rangstöðutaktík sem breytir svo öllu þegar svona heimskuleg regla tekur gildi.

  Það má einfalda rangstöðuvandamálið sem og “bolti í hönd/hönd í bolta” ruglið á einfaldan hátt. Þegar maður er rangstæður er hann rangstæður! Þegar bolti fer í hönd leikmanns að þá er hendi!

Byrjunarliðið gegn Blackburn komið.

Þriðja sætið okkar