Arsenal og greinarskrif

fabregas_emerson.jpg Miðvikudagur. Mig langar til að byrja á því að óska Arsenal-stuðningsmönnum til hamingju með sannarlega stórkostlegan sigur á Juventus í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær. Fyrir leikinn var ég eiginlega búinn að sættast við þá staðreynd að Liverpool væru dottnir út, og ákveða í kjölfarið að styðja þau lið sem mér þættu skemmtilegust í keppninni. Ég er að sjálfsögðu Barca-maður og vona að þeir vinni nú loksins Evrópu í annað sinn, en þess fyrir utan ætlaði ég bara að halda með þeim liðum sem spila skemmtilegan fótbolta.

Sem þýddi það að ég hélt fyllilega með Arsenal gegn Juventus í gær. Það er orðið erfiðara að bera kala til Nallaranna eftir að Wenger skipti leikmönnum eins og Martin Keown og Lee Dixon út fyrir leikmenn á borð við Kolo Touré og Francesc Fabregas, og að mínu mati er þetta Arsenal-lið í dag bara einfaldlega best spilandi liðið á Englandi. Þeir hafa gengið í gegnum ákveðin hamskipti í vetur – ungir leikmenn hafa þurft að þroskast hratt vegna meiðsla reyndari manna, og brottfarar Patrick Vieira – en nú sér fyrir endann á því og í ljós er að koma stórkostlega spilandi lið sem er bæði efnilegt og líka gott í núinu. Og í gær kom það endanlega í ljós – ef við tókum Juventus í kennslustund fyrir ári síðan á Anfield veit ég ekki hvað þetta var í gær. Þetta ítalska stórlið er að rúlla upp Serie A í heimalandinu en í gær litu þeir út eins og Stoke City eða Millwall gegn stórkostlegu liði Arsenal. Þetta var sigur fótboltans, til hamingju Arsenal-menn. Ég vona að þið komist áfram og við fáum að sjá Arsenal og Barca mætast í undanúrslitunum (og svo Barcelona og Lyon í úrslitunum, eftir að Lyon leggur Milan í kvöld og Villareal í undanúrslitum). 🙂

Annars er lítið af Liverpool að frétta í dag, fyrir utan fjárfestingartíðindin sem Einar Örn fjallaði um hér fyrr í dag. En fyrir þá sem vilja drepa tímann er ekki úr vegi að benda á nokkrar greinar sem eru fimm mínútna virði:

Arseblog.com – grein dagsins í dag. Arsenal-aðdáandi sem fer oft á völlinn bloggar í svipuðum stíl og við hér gerum um Liverpool-liðið okkar. Uppáhalds fótboltabloggsíðan mín og sú sem ég hafði að fyrirmynd þegar ég ákvað að stofna þessa síðu með Einari. Orð hans um frammistöðu sinna manna í gær gegn Juve eru frábær og hann á bara skilið að gleðjast svona yfir þessu.

“Blame the benches!”. Englendingurinn Phil Ball, sem staðsettur er í Madrídarborg og skrifar pistla um spænska knattspyrnu, veltir fyrir sér falli galactico-liðs Real Madríd og fær skemmtilegt innlegg frá bandaríska grínistanum Drew Carey.

THE RED REVIVAL – en svo mun næsta bók meistara Paul Tomkins heita. Hann fjallar hér um hvernig titillinn á væntanlegri bók hans var valinn og hvernig gengið hefur að skrifa hana, auk þess sem hann fjallar lauslega um gengi Liverpool í vetur. Bókin hans sem kom út síðasta sumar, Golden Past, Red Future, var frábær og ég mæli með henni við alla. Hlakka til að lesa næstu bók, og vonandi skrifar hann svo enn eina eftir ár þar sem hann fjallar um hvernig Rafa rak smiðshöggið á verk sitt og gerði okkur að Englandsmeisturum. 🙂

Stephen Warnock í ítarlegu viðtali við opinberu síðuna. Hjalti var búinn að benda á þetta viðtal í morgun og það er fróðlegt að lesa þetta viðtal við Warnock.

Benítez og leikaðferðin. Kristján Atli skrifar á íslenska Liverpool Bloggið ítarlega færslu um það hvernig leikaðferðir Rafael Benítez eru uppbyggðar, og hvað það er sem “sérfræðingar” íslensks sjónvarps eru að misskilja. 😉

Hafið það gott í dag og endilega hugsið til gamla próferssorsins í Liverpool, Gérard Houllier. Hann þarf að taka á honum stóra sínum í kvöld gegn AC Milan.. 🙂

13 Comments

  1. smá leiðrétting, ef arsenal komast áfram þa spila þeir annaðhvort við inter eða villareal… Barcelona spilar gegn ac milan eða lyon, annars góð síða, kíki daglega þó ég sé titlaður arsenal maður

  2. Ókei, ég hélt það væri skipt eftir kvöldum og að liðin sem spiluðu í gær myndu mætast í undanúrslitum. En þetta eru annars góðar fréttir hjá þér Gunnar, því ég held að draumaúrslitaleikurinn yrði vafalítið Arsenal gegn Barcelona. Tvö sókndjörfustu lið Evrópu að mætast. 🙂

  3. Það væri flottur úrslitaleikur, þ.e. Barca vs. Gunners. Það myndi líka gefa Henry færi á að kynnast nýju samherjum sínum betur…….. :blush: :biggrin2:

  4. Sammála með nallarana. Hef verið nett pirraður út í þá oft á tíðum en í gær var ekki annað hægt en að halda með þeim. Tóku Juve í kennslustund og hefðu átt skilið að setja þriðja markið. Arsenal Barcelona í úrslitum, 3 0 fyrir Barca í hálfleik en öllum að óvörum jafna nallarnir í seinni hálfleik og þá þarf að framlengja…

    Gæti það verið ??

  5. Ég verð að vera hjartanlega ósammála um það að draumaúrslitaleikur væri Barca-Arsenal, og ég get ekki tekið undir það að Arsenal sé best spilandi liðið á Englandi. Tvær ástæður eru fyrir því: það er ekkert lið sem ég hata meira í íþróttum en Arsenal og svo finnst mér skárra að horfa á Man U eða Chelsea (fyrir utan okkar menn auðvitað!!) heldur en Arsenikið.

    Ég held með Liverpool á Englandi, Barca á Spáni, Stuttgart í Þýskalandi og Juventus á Ítalíu. Ég vona því svo sannarlega að Juventus rífi sig upp úr þessum ömurleika sem þeir sýndu í gær og rassskelli Arsenal úti í Torino í seinni leiknum. Draumaúrslitaleikur fyrir mig yrði hiklaust Barcelona – Juventus.

  6. Ég sem var með móral yfir að hafa gaman að Liverpool-síðu, nú líður mér miklu betur þegar ég veit að Arsenal-síða er fyrirmyndin 🙂

  7. >Ég sem var með móral yfir að hafa gaman að Liverpool-síðu, nú líður mér miklu betur þegar ég veit að Arsenal-síða er fyrirmyndin 🙂

    Halló, halló, halló! Ég verð nú aðeins að stöðva Kristján Atla í þessari Arsenal vímu.

    Já, Arsenal var æði í gær.

    Eeeeeen, ég verð nú að eigna mér heiðurinn af þessari síðu. Ég held að fyrsti vísirinn að Liverpool bloggi hafi komið með [þessum vangaveltum á síðunni minni](http://www.eoe.is/gamalt/2004/03/15/21.01.22/) þann 15.mars 2004. Við þá færslu kommentaði Kristján Atli í fyrsta skipti á mína síðu og uppúr því fæddist þetta Liverpool blogg.

    Þá skrifaði ég:

    >Þetta Liverpool spjallborð frústrerar mig, því það er alltof mikið af illa skrifandi fólki, sem hefur lítið annað fram að færa en “Houllier er snillingur” eða “Houllier sökkar” eða “United sökkar” eða “Liverpool rúlar”. Inná milli er þó fullt af góðu fólki, sem hefur bæði vit á fótbolta og sannan áhuga á málefnum Liverpool.

    >Fyrir næsta tímabil langar mig dálítið að stofna vefmiðil um Liverpool. Eins konar fjölmennt Liverpool blogg. Það eru fullt af ágætum mönnum þarna úti (bloggurum og öðrum), sem gætu skrifað fullt af góðum hlutum um Liverpool. Þarna væri gaman að setja inn slúðrið og reyna að skapa sæmilega siðaða umræðu um liðið.

    Einhvers staðar annars staðar skrifaði ég svo að uhafið að þessum pælingum mínum voru skrif á [Cub Reporter](http://www.all-baseball.com/cubreporter/), sem er afburða bloggsíða um uppáhaldsbaseball liðið mitt, Chicago Cubs.

    Þannig að rætur Liverpool bloggsins liggja á Cub Reporter og eoe.is. Ekki einhverri Arsenal síðu! Ok?

  8. Hehe. Mig grunaði að þessi misskilningur ætti eftir að pirra Einar. 🙂

    Við Einar stofnuðum þessa síðu saman en hún á sér þó tvo gerólíka uppruna. Ég hafði verið að lesa tvær fótboltabloggsíður, Arseblog.com og Kopblog.com sem þá var hýst á Thisisanfield.com. Það hafði blundað í mér að mig langaði til að gera svona síðu á íslensku, en ég bara vissi ekki hvort það ætti að vera um fótbolta almennt eða eitthvað sérstakt lið (og þá annað hvort FH, mitt lið á Íslandi eða Liverpool).

    Svo þegar ég las ummæli Einars, sem hann vísar í, á síðunni hans, var ég ekki lengi að setja mig í samband við hann og segjast vilja taka þátt í þessu ef hann vildi gera alvöru úr þessu. Við þekktumst ekkert áður en ég hafði þarna samband við hann, fyrir tveimur árum, og hittumst ekki einu sinni fyrr en síðan var komin í loftið. Ótrúlegt en satt. 🙂

    Þannig að, við Einar erum tveir ólíkir einstaklingar sem áttu sér ólíkar fyrirmyndir að íþróttabloggsíðu – Einar fékk sína fyrirmynd, eins og hann sagði, frá bandarískri hafnaboltasíðu en ég fékk mína fyrirmynd frá þessum tveimur ofangreindu fótboltabloggsíðum.

    Þannig að það er kannski of langt gengið að segja að Arsenal-síða hafi verið “grunnurinn” að þessari síðu, en hún var allavega hluti af innblæstrinum og fyrirmyndinni hjá 50% bloggaranna við stofnun þessarar síðu okkar Einars. 🙂

    Og þannig er það nú. Einar á heiðurinn af hugmyndinni að þessari síðu sem þið eruð að lesa, en ég vill meina að við eigum heiðurinn saman af því að hafa stofnað hana. 🙂

    Ég á síðan nær allan heiðurinn að ágæti síðunnar, en það er allt annað umræðuefni … :tongue:

  9. R.I.P. Þetta var góð síða.

    Mér hefur nú alltaf þótt vera meira vit í Einari eða var það ekki hann sem ætlaði að bjóða þeim sem veldu hann “vitrænni” í umræðunni á Goldfinger :rolleyes:

    PS. Það er þeim sem eru nógu gamlir :biggrin:

  10. Ég vil taka undir með Einar í pistlinum hans hér að ofan.

    Eins og mér er nú svona almennt illa við Arsenal þá hélt ég með þeim á móti Juve sem þó er mitt lið á Ítalíu. Arsenal liðið var einfaldlega frábært í leiknum.

    Af sömu ástæðu og mér líkaði við Ars í þessum leik er mér illa við lið Arsenal hér á árum áður með Keown, Adams og Wright í fararbroddi.

    Af sömu ástæðu er mér illa við Hullier. Framkoma hans við leikmenn, taktík, leikmannakaup o.fl. ganga þveröfugt á við allt það sem ég tel að fótbolti eiga að standa fyrir.

    Ég vona svo að engum detti framar í hug að líkja Henry og Cisse saman.

    Áfram Liverpool!

  11. Mér er spurn….hvað er hægt að skrifa margar bækur um Liverpool??? Það getur verið gaman að lesa pistla frá hinum og þessum mönnum sem viðra skoðanir sínar og svona en fjandinn hafi það…ekki bók!

Liverpool staðfesta fjárfesta-viðræður

Hyypia telur framtíð Agger bjarta.