Everton á Anfield á morgun!

thirty_cleansheet_reina.jpg

Ég myndi ekki segja að ég *hati* Everton, allavega ekki þannig. Sem Liverpool-maður hatar maður erkifjendur sína og vill að þeim gangi illa, en það á frekar við um Man U í dag held ég, og jafnvel Chelsea líka. Og Arsenal, myndu sumir segja, enda eru þetta þau þrjú lið sem standa á milli Liverpool og velgengni í deildinni við upphaf hvers tímabils – þetta eru liðin sem við *vitum* að munu vera í toppbaráttunni, liðin sem ógna Liverpool.

**Fyrirlitning** er orð sem ég held að myndi henta betur til að lýsa Everton. Þeir eru jú nágrannarnir, *hitt liðið* í Bítlaborginni (sorrý Tranmere-aðdáendur) og sem slíkt þá eru þeir ekki beint lið sem okkur stendur ógn af, en þeir eru pottþétt lið sem við viljum slá við á hverju einasta ári. Af og til, eða á svona tuttugu ára fresti, hafa þeir betur en við (gerðist í fyrra) og slíkt mun alltaf gerast, en yfir það heila hefur Liverpool FC verið með yfirburði á flestum sviðum knattspyrnunnar í borgarbaráttunni miklu, allavega hvað varðar titla, velgengni, frægð og frama.

Ég á frænda sem heldur með Everton. Einn frænda, sem var óþolandi allan síðasta vetur. Ég hef haft þá venju síðan við vorum litlir strákar að kalla hann *Danny DeVito* … sem er tilvísun í kvikmyndina TWINS, þar sem DeVito og Arnold Schwarzenegger léku tvíburabræður sem voru getnir á tilraunastofu – allt það góða, frábæra, sterka og gáfaða fór í Schwarzenegger-barnið, en DeVito-barnið var meira svona eins og afgangarnir, leifarnar. Það sem Schwarzenegger hafði engin not fyrir.

Þannig er samband Liverpool og Everton í hnotskurn, og því kallaði ég frænda minn oft Danny DeVito, honum til mikillar gremju. Hann vildi þó aldrei kalla mig Arnold, eða Schwarzenegger. 🙂

gerrard_gegn_everton.jpg
Á morgun mætir þetta Everton-lið yfir á Anfield til að reyna að svara fyrir rassskellinn sem þeir hlutu frá okkar mönnum í síðustu jólatörn, en þá unnum við Everton 3-1 nánast áreynslulaust. Það eina vonda við þann leik var að James Beattie náði að ýta einu yfir línuna hjá Pepe Reina, sem þá hafði haldið marki sínu hreinu í nærri því níu leiki í ensku Úrvalsdeildinni. Á þriðjudaginn síðastliðinn afrekaði Reina – og Liverpool-vörnin – það að halda hreinu í sínum *þrítugasta leik* í vetur, en það er aðeins í sjöunda sinn sem það gerist. Metið er að halda 34 sinnum hreinu á tímabili, og gerðist það síðast tímabilið 83-84 þegar Bruce Grobbelaar var í marki Liverpool. Pepe á góðan séns á að bæta þetta met (þó skal tekið fram að Jerzy Dudek (tveir leikir) og Scott Carson (einn leikur) eiga sinn þátt í þessu meti).

Okkar menn unnu síðasta leik sinn 7-0 og hafa verið í fantaformi þar áður, en Everton hafa líka verið að vinna leiki og því hafa flestir “sérfræðingar” spáð jöfnum og spennandi leik sem Everton gæti hæglega unnið. Sem er bull, segi ég. This Is Anfield … og Rafa Benítez er það snjall þjálfari að hann mun sjá til þess að getumunurinn á þessum liðum komi skýrt í ljós á morgun. Ég hef fulla trú á því.

Eftir 7-0 sigurinn á miðvikudag er örugglega erfitt að ætla að breyta liðinu nokkuð, en ég ætla samt að spá því að Rafa muni gera tvær breytingar á liðinu frá því á þriðjudag; Momo Sissoko víkur fyrir Robbie Fowler og Djimi Traoré, sem meiddist á þriðjudag og er tæpur fyrir morgundaginn, víkur fyrir Harry Kewell eins og hann gerði gegn Birmingham. Liðið á morgun ætti því að verða svona:

Súper-Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

García – Gerrard – Alonso – Kewell

Fowler – Crouch

Líst mönnum ekki vel á þetta?

**MÍN SPÁ:** Eins og ég sagði fyrr í þessari upphitun, þá er Everton ekki einungis lið sem við verðum að vinna, heldur lið sem við verðum að vinna *á hverju einasta ári* til að minna þá stöðugt á það hvor klúbburinn er betri, stærri og merkilegri. Enda þótt þeir hafi verið að vinna einhverja leiki í deildinni undanfarið og séu komnir alla leið upp í níunda sætið (húrra fyrir því) þá held ég að við verðum ekki í neinum vandræðum með þá á morgun. Getu- og gæðamunurinn er einfaldlega of mikill í svona leik.

Reina heldur hreinu fyrir í þrítugasta og fyrsta skiptið í vetur (þó 28. skiptið hjá honum sjálfum) og Robbie Fowler skorar tvennu í **3-0 sigri Liverpool á Danny DeVito** !!!

Syngið svo með mér: “Tonight, tonight, tonight is your night bro … tonight is your night bro …” 🙂 **Áfram Liverpool!**

10 Comments

 1. Hvaða rugl Kristján Atli! Auðvitað hötum við Everton, Scums og Chelsea bara mismikið. Ég hata Everton og vil að þeir falli en hatur mitt á Scums og Chelsea er samt miklu meira!

 2. verður ekki Garcia frammi með Crouch, Sissoko á miðjunni og Gerard úti hægra megin. Garcia og Crouch litu vel út í síðasta leik.

 3. Því miður að þá hafa ars, man u og che komið í veg fyrir velgengni Í LOK hvers tímabils undanfarið.
  Annars líst mér vel á leikinn. heimavöllurinn tryggir okkur þrjú stig en varla 3-0 því þeir eru frekar heitir rétt einsog við.
  Fowler skorar eina mark leiksins..

 4. Ég ætla að leyfa mér að vera með smá besservisserhátt hér vegna tilvísunarinnar í að Tranmere sé frá “bítlaborginni”. Ég vona að þið takið þessu ekki illa, heldur teljið þetta til uppbyggilegrar gagnrýni þótt hún tengist efni greinarinnar ekkert.

  Það er algengur misskilningur að Tranmere sé frá Liverpool. Hið rétta er að Tranmere er frá Birkenhead sem er sunnan megin við Mersey, en Liverpool er norðan megin eins og flestir vita. Tranmere er sem sagt frá Merseyside-svæðinu, eins og LFC og Everton, en ekki frá Liverpool borg sjálfri.

  Að segja að Tranmere sé lið frá Liverpool er svipað og að segja að FH sé lið frá Reykjavík. Flestir útlendingar myndu varla sjá muninn, en fáir Hafnfirðingar myndu samþykkja að þeir búi í Reykjavík þótt þeir séu á “höfuðborgarsvæðinu”.

  Mín reynsla af fólki frá Liverpool og Birkenhead er reyndar sú að það er ekkert svo óalgengt að fólk frá Birkenhead segist vera frá Liverpool til að einfalda málið, sérstaklega gagnvart útlendingum sem flestir þekkja til Liverpool en vita ekki af tilvist Birkenhead. Fólk frá Liverpool virðist hins vegar telja að Birkenhead-búar séu samansafn af vitleysingum og aumingjum, og eru yfirleytt fljótir að benda utanaðkomandi fólki á þann reginmun sem er á þessum tveimur stöðum. Það eru því ekki síður Liverpool-búar en Birkenhead-búar sem mótmæla því að Tranmere sé sagt vera lið frá Liverpool borg.

  Í stuttu máli: Tranmere er vissulega frá Merseyside, en frá Birkenhead en ekki Liverpool.

 5. Ég segi nú ekki að ég voni að Everton falli, því þá fengjum við ekki þessa derby leiki sem eru svo skemmtilegir.. en engu að síður vona ég að þeir lendi einhversstaðar neðarlega… við tökum þetta lið á morgun!! Þeir eiga bara eftir að sjá RAUTT…..

 6. Stebbi segir:

  >”Ég ætla að leyfa mér að vera með smá besservisserhátt hér vegna tilvísunarinnar í að Tranmere sé frá “bítlaborginni”. Ég vona að þið takið þessu ekki illa, heldur teljið þetta til uppbyggilegrar gagnrýni þótt hún tengist efni greinarinnar ekkert.”

  Ekkert mál Stebbi. Ég sagði í raun það sama í greininni minni, en þú hefur kannski misskilið það. Lestu ummælin aftur:

  >”… Þeir eru jú nágrannarnir, hitt liðið í Bítlaborginni (sorrý Tranmere-aðdáendur) og sem slíkt …”

  Sérðu? Ég talaði um “hitt” liðið, sem bendir til þess að þau séu aðeins tvö. Þannig að við erum á sama máli. Enda er ég FH-ingur og við erum **ekki Reykvíkingar** 🙂

Undanúrslit FA Bikarsins

Og við fengum … Chelsea! (uppfært)