Newcastle á morgun!

Á annan í jólum mættu okkar menn Newcastle á Anfield í Liverpoolborg og unnu verðskuldaðan 2-0 sigur. Peter Crouch og Steven Gerrard skoruðu mörkin þann daginn í leik þar sem öll augu beindust að framherja Newcastle, Michael Owen.

Á morgun verður Owen þó fjarri góðu gamni þegar Newcastle-menn taka á móti Liverpool á sínum heimavelli í leik sem skiptir talsvert miklu fyrir bæði lið. Newcastle eru í tólfta sæti með 39 stig og eygja enn von um að komast í Evrópukeppni á næsta tímabili, en til þess að það gerist þurfa þeir að halda áfram því stuði sem hafa verið í undanfarið. Eins og flestir vita var Graeme Souness látinn taka poka sinn seint í janúar – og þótt fyrr hefði verið – og við tóku þeir Glenn Roeder og Alan Shearer sem tímabundnir stjórar. Það gæti þó alveg verið að þeir verði ráðnir til fulls tíma í sumar, því síðan þeir tóku við hefur liðið unnið hvern einasta leik sem þeir hafa spilað, ef frá er talið tapið gegn Man U á Old Trafford fyrir viku.

Þannig að þótt United hafi sýnt okkur um síðustu helgi að það eigi að vera hægur leikur að yfirspila þetta Newcastle-lið, þá eru þeir samt líklegir til afreka á morgun, að mínu mati. Þeir unnu okkur á St James’ Park í fyrra og leika alltaf betur á heimavelli, fyrir framan áhorfendur sína sem eru þeir næstbestu í Englandi. 🙂

Okkar menn unnu náttúrulega stórsigur á Fulham í miðri viku og vonar maður að það sé upphafið á miklu stuði milli dagsins í dag og loka tímabilsins. En það verður að taka einn leik í einu, eins og Rafa segir alltaf, og það mikilvægasta er að byrja á morgun með því að sigra Newcastle.

Ég held að Rafa stilli upp eftirtöldu liði í leiknum á morgun:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Gerrard – Alonso – Hamann – Kewell

Crouch – Morientes

Með öðrum orðum, þá spái ég þremur breytingum frá því í síðasta leik. Sami Hyypiä hefur tekið út sína hvíld og kemur á ný inn í liðið, en þótt ég væri alveg til í að sjá Agger áfram í liðinu þar sem hann spilaði vel á miðvikudag myndi mér líða betur ef Sami væri á staðnum til að díla við Alan Shearer, sérstaklega í skallaeinvígjunum.

Þá held ég að Rafa muni verðlauna Cissé fyrir góða innkomu sína (og tvær hálf-stoðsendingar) á miðvikudag með því að setja hann á kantinn á morgun. **Endurskoðað:** Eins og Einar Örn bendir á í athugasemdum, og ég var búinn að steingleyma, þá er Xabi Alonso kominn í liðið að nýju á morgun eftir leikbann og verður því væntanlega á miðjunni á kostnað Cissé, og Gerrard færir sig út á kantinn. 🙂

Frammi verður Morientes í liðinu áfram eftir markið sitt og þótt það geti vel farið svo að Fowler verði áfram með honum, þá held ég að Rafa kjósi frekar að nota Crouch á útivellinum, og eiga Fowler þá til góða ef þörf er á.

**MÍN SPÁ:** Þetta leggst ágætlega í mig, en Newcastle eru erfitt lið og langt því frá að ég hafi einhverja sigurtilfinningu. Ég spái fyrst og fremst opnum og skemmtilegum leik, þar sem bæði lið sækja til sigurs og það verður hart barist. Þetta er svona týpískur leikur sem gæti brugðið til beggja vona, en ég ætla að spá þessu **2-1 fyrir Liverpool**. Við sjáum til hvort ég hef rétt fyrir mér. 🙂

**Áfram Liverpool! YNWA!**

6 Comments

  1. Hvernig er hægt að verðlauna sóknarmann með því að setja hann á kantinn???
    Þetta mundi ég frekar segja að væri niðurlægjandi refsing!

  2. Rafa virðist ekki sjá Cissé sem sóknarmann þessa dagana. Hann er því að verðlauna *kantmann* með því að setja hann *á kantinn* …

  3. Þetta verður erfiður leikur… en ég vona að markheppnin frá síðasta leik haldi áfram og hver veit nema að Carragher setji eitt stykki mark.

  4. Er einhver ástæða til að breyta sigurliði, spái óbreyttu liði á morgun, Fowler verður allavega pottþétt í byrjunarliðinu þar sem hann spilar ekki á þriðjudaginn í bikarnum 😯

Rafa: Af hverju ætti ég að vilja fara?

Staðan í deildinni