Arsenal – Liverpool 2-1

Nokkrum mínútum eftir að Xabi fékk rautt spjald (2 gul) fyrir afar klaufalegt brot gefur Gerrard boltann aftur til Reina þar sem Henry tekur á móti þessari fínu stungusendingu og skorar auðveldlega framhjá Reina, 2-1. Ótrúleg mistök hjá fyrirliðanum og einnig hjá spánverjanum snjalla að láta reka sig klaufalega útaf. En byrjum á réttum enda, byrjunarliðið okkar:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Kromkamp – Hamann – Alonso – Gerrard – Garcia

Crouch

Á bekknum: Dudek, Kewell, Fowler, Morientes, Traore.

Leikurinn fór rólega af stað og bæði liðin þreifuðu fyrir sér. Ég varð var við að sjálfstraust skín ekki út úr andliti leikmanna á meðan Arsenal virðist vera á góðu skriði. Á 20 mín. á Fabregas góða stungusendingu á Henry sem faldi sig á vinstri kantinum þannig að Carragher missti sjónar af honum í örskamma stund. Það var nóg, sendinginn fór beint á Henry sem kláraði færið mjög vel og átti Reina ekki séns. 1-0!

Eftir markið fannst mér ekkert benda til þess að við myndum komast aftur inní leikinn. Reyndar átti Crouch dauðafæri, skalla, en kom ekki á óvart með að hitta ekki markið heldur skalla framhjá. Í hálfleik höfðum við ekki átt skot sem hitti markið og ekki fengið horn.

Í hálfleik fór Kromkamp út af og Kewell kom inná. Hálfleikurinn byrjaði með því að Arsenal tætti vörnina okkar í sig og Henry skaut hárfínt framhjá markinu…úfff! Síðan fannst mér Arsenal hafa fín tök á leiknum og við reyndum með veikum mætti að sækja en fengum aldrei almennileg færi. Hamann fór út af á 73. mín fyrir Fowler og á 76. mín átti Gerrard hörkuskot að marki sem Lehmann kýldi furðulega fyrir markið og þar kom Garcia aðsvífandi og skallaði öruggt í tómt markið. Á 81 mín. tæklar Alonso klaufalega og fær sitt annað gula spjald. Þá var þetta bara spurning að halda jöfnu út leikinn. 2 mín. síðar er Gerrard með boltann fyrir framan vítateiginn okkar og ætlar að gefa tilbaka á Reina. Hann sér ekki að Henry lúrir þar og tekur við sendingunni, sólar Reina og skorar einfalt í markið. Úff hvar endar þetta á örfáum mínútum erum við komnir inní leikinn og jafnóðum er hann búinn.

Arsenal vann 2-1 og sanngjarnt þ.e. þeir sköpuðu sér búnka af færum og voru klaufar að nýta ekki fleiri. T.d. átti Pires skot í stöng eftir að sókn Arsenal hafði hakkað okkar vörn í sig. Það er langt síðan ég hef séð varnarleik okkar svona óöruggan og er líklegt að Hyypia sé annað hvort vel ryðgaður eða ennþá meiddur. Ennfremur er Warnock líklega næst lélegasti vinstri bakvörður í enska boltanum á eftir Traore.

Þann 14. febrúar spiluðum við gegn [Arsenal á Anfield](http://www.kop.is/gamalt/2006/02/14/21.59.05/) og tókum þá í kennslustund en á þessum tæpa mánuði hefur margt gerst og er Liverpool liðið allt annað í dag.

Ég ásamt mörgum öðrum var svartsýnn fyrir leikinn enda hefur liðið átt erfitt með að skora og orðið fyrir skakkaföllum að undanförnu, jafntefli heima gegn Charlton og síðan tapað 0-2 gegn Benfica á heimavelli… það situr klárlega í liðinu ennþá.

Að velja mann leiksins er erfitt þar sem enginn stóð uppúr í dag. Þetta var svona meðalmennska og ósannfærandi Liverpool lið í dag. En ég vel Garcia fyrir að vera okkar besti senter í dag og að skora loksins.

Þetta hefur Rafa að segja um leikinn í dag:

“For me it is clear and Xabi slipped. It was unbelievable and I don’t understand these things. That was the turning point of the game because when we equalised I thought we could win. We didn’t play that well in the first half, but we controlled the second half. But with 10 men it is more difficult. We made a mistake for the winning goal, but Steven knows that and he has scored 18 goals for us this season.”

33 Comments

  1. fyrir klaufalegt BROT!

    Þetta var nátturulega ekki rautt spjald fyrir fimmaur, það sást alveg greynilega að hann rann, á annars svellóttum velli, menn vöru að renna allan leikin. Alonso datt og rann á varnarmann sem hefði alveg getað hoppað yfir hann. Fáránlegt rautt spjald, og því verður alveg pottþétt áfríað og það tekið til baka, ekki spurning!!!

  2. Það skiptir ekki máli héðan í frá hvort því verður áfrýjað, hinn ömurlegi Steve Bennett eyðilagði leikinn fyrir okkar mönnum í dag með þessari fáránlegu ákvörðun. Xabi fær (ef ekki verður tekið til baka) eins leiks bann sem hann tekur út á móti einhverju skítaliði og þá spilar bara Hamann og okkar menn verða 11 allan leikinn en í dag var það þessi ömurlega ákvörðun dómarans sem gerði útaf við okkar menn, þess vegna segi ég að það breyti engu þó að þetta verði dregið til baka!!!!!!!!

  3. Steve Bennett sá ekki atvikið en þegar hann leit við rúllaði Fabregas eins og hann væri fótbrotinn…

    Hann hefði átt að tala við einhvern annan dómara. Ekki reka mann útaf fyrir eitthvað sem hann sá ekki. Auk þess rann Alonso bara. Hvað var eiginlega að vellinum. Ég veit ekki hvað menn runnu oft.

    Verðskuldaður sigur hjá Arsenal en þannig þurfti þetta ekki að vera. :rolleyes: :rolleyes:

  4. Veit að þetta er nú að bera í bakkafullan lækinn. En verð bara. Alveg yfirmáta heimskulegt að gefa manni spjald fyrir að detta á andstæðing. Og þrátt fyrir að við hefðum ekki beinlínis átt það skilið þá virtumst við hugsanlega geta stolið sigrinum þarna í restina, þ.e. áður en bjálfinn hann Bennet tók til sinna ráða.

  5. En mikið djöfulli var Garcia lélegur að undanskyldu þessu eina marki. hann tapaði boltanum um allan völl með glórulausum ákvörðunum. Það er ótrúlegt hvað hann getur rokkað á milli þess að vera mjög góður og hræðilega lélegur. Það versta við þennan leik var sú staðreynd að vörnin var hreint hörmuleg og mjög óörugg, þá er nú fokið í flest skjól. Það vita allir að við eigum erfitt með að skora en að við getum ekki varist er allt annað mál. Kannski eru Arsenal komnir í sitt gamla form og eins og við munum voru þeir illl viðráðanlegir. Þetta er farið að minna óeðlilega á síðustu tímabil þar sem maður getur ekki beðið eftir í því að félagaskipta glugginn opni!!! Hvað er málið með það ? Tvisvar á ári sjáum við fram á einhverja smá glætu, í janúar og að sumri þegar við gerum örvæntingarfullar tilraunir til að styrkja liðið. það er bara sorglegt.

  6. Fyrir það fyrsta þá gátum við ekki neitt í fyrri hálfleik. Arsenal gjörsamlega yfirspilaði okkur frá A-Ö.

    Menn eru að setja réttilega út á Warnock en ekki var hinn bakvörðurinn okkar mikið betri í dag. Finnan er núna búinn að eiga tvo lélega leiki í röð. Simoa lék sér að honum í vikunni og nú tók Henry og félagar hann aftur í kennslustund. Í fyrra markinu fannst mér að Finnan hefði átt að geta gert betur. Hann veit af Henry út á kanti og en gleymir sér (eða les ekki sendinguna) og missir hann innfyrir sig. Það var svo augljóst að Fabregas myndi reyna stungu (ég meira að segja kallaði það áður en hún kom). Því spyr maður afhverju var hann ekki nær Henry eða nær Carra til að loka sendingarleiðinni.

    Meira síðar……….

    Kv
    Krizzi

  7. Það eru a.m.k 5 leikmenn sem Benitez hefur notað að undanförnu ekki samboðnir liverpooltreyjuni. Það er ástæðan fyrir slöku gengi liðsins ásamt kjarkleysi stjórans Garcia er klárlega einn af þessum 5. Áttum ekkert skilið út úr leiknum í dag. Þó Bennet hafi stútað honum loks þegar við’ sáum til sólar.

  8. 1. Rauða spjaldið hjá Xabi var fáránlegt. Dómarinn kostaði okkar þar klárlega leikinn.
    2. Við áttum hins vegar alls, alls ALLS EKKI skilið að fá neitt útúr þessum leik. Á Anfield þá yfirspiluðum við Arsenal, en núna yfirspiluðu þeir okkur. Sigur þeirra var fyllilega verðskuldaður.
    3. Ég hef ekki verið jafn pirraður í langan tíma yfir Liverpool leik. Okkar menn virtust alveg vera gjörsamlega bitlausir. Óþolandi lýsendur á enska boltanum (sér pistill) bættu ekki skap mitt.
    4. Luis Garcia var hræðilegur í þessum leik. Hann á samt alveg skilið að vera maður leiksins því hann GETUR SKORAÐ MÖRK. Ég leyfi mér að fullyrða að það er enginn maður hjá okkur með jafnmikla skotnýtingu. Hann hefði auðveldlega getað skorað tvö mörk ef Flamini hefði ekki varið skotið frá honum.
    5. Ef að lítill álfur myndi koma til mín og gefa mér þúsund kall í hvert skipti sem að Peter Crouch á lélegan skalla úr góðu færi, þá væri ég í góðum málum.
    6. Ég skil ekki almennilega hvernig Rafa fékk það út að það yrði líklegra til árangurs að fækka sóknarmönnum í liðinu í dag. Kannski er hann algjörlega búinn að gefast upp. Morientes fær aldrei að spila í stórleikjum í deildinni. Ég held að hann hafi ekkert spilað á móti Chelsea og Man U og nú ekkert á móti Arsenal. Maðurinn, sem við héldum að væri stræker númer 1 nýtur greinilega ekki nægs trausts.

  9. Það væri gaman að sjá þennan sér pistil um þulina á enska boltanum. Mér finnst þeir einmitt mun skárri en öskuraparnir á Sýn.
    Leikurinn samt hreinasta hörmung. Fáránleg ákvörðun að reka xabi útaf en við töpuðum leiknum vegna þess að við gáfum þeim annað markið.

  10. Alveg get ég orðið endalaust pirraður á þessum senterum okkar. Ég er farinn að þola Crouch jafn illa og ég var farinn að þola Heskey á sínum tíma.

    Hvað er Gerard samt að pípa fyrir leik um senteramál. Þetta er ekki til að auka sjálfstraustið hjá þessum gaurum. Sjálfsagt að finnast þetta og fara til stjórans og stjórnarinnar en ekki tala við fjölmiðla um þetta. Hann verður að vera fyrirliði og taka ábyrgð á liðinu.
    Við getum ekki fengið Owen fyrr en á næsta ári og þá á ekkert að tala um það fyrr.

    Ég þoli ekki Cisse en er samt kominn á þá skoðun að Cisse og Fowler eigi að byrja alla leiki til loka tímabils og Cisse á að vera senter en ekki kantmaður.

    Það sem er sorglegt í þessu er það að við erum að fá fullt af færum, kannski ekki í dag, en almennt erum við að fá fullt af færum. Þessir gaurar bara nýta ekki neitt.

    Það þarf að losa okkur við þá alla nema Fowler, af því að hann er Guð má hann vera senter númer 3-4 næstu 3 ár.

  11. Crouch er slakur leikmaður. ARFASLAKUR.

    Finnan er meðalmennskan uppmáluð. Fallhlífaboltarnir hans skila engu. Gaman að heyra Willum Þór taka undir með mér.

    Garcia hefur hæfileika til að skora. Um það snýst fótbolti.

    Mikið svakalega saknar liðið Sissoko.

    Warnock er ágætis bakvörður. Meiriháttar þegar hann straujaði Toure. Ég skil ekki alveg gagnrýnina á hann.

    Fowler mætti spila meira.

    Liðið mætti vera aggresívara. Mér fannst að menn ættu að hafa komið Alonso meira til hjálpar þegar hann var rekinn út af. Það borgar sig stundum að vera frekur og það sannaðist þegar Arsenal leikmenn heimtuðu Alonso út af. Bennet sá þetta ekki einu sinni. Þá hefðu menn líka átt að heimta víti þegar það var varið frá Garcia. Sá bolti hefði getað enda í netinu.

    Hvað er í gangi með Kewell þessa dagana?

    Vonandi fara menn að braggast.

  12. Jæja það var gaman að lesa þessi komment hér, en sjálfur sá ég ekki hvað allir voru lélegir.. dómarinn crouch, garsía…
    en hvað er málið með fyrirliðan… þetta ætti náttúrulega að vera dauðarefsing fyrir að gera svona mistök…
    En nei.. það komentar enginn um þetta … bara hvað allir aðrir eru lélegir….

  13. >en hvað er málið með fyrirliðan

    Steven Gerrard hefur unnið sig það mikið upp í áliti hjá okkur að við leyfum honum að gera mistök öðru hvoru. Þetta fær hann vegna þess að hann er besti miðjumaður í heimi. Hinir, sem við gagnrýnum ná því hins vegar ekki að vera bestu menn í heimi í sínum stöðum.

    *Þess vegna* gagnrýna menn Gerrard ekki.

  14. Tilfinningin sem ég fékk í þessum leik var svona svipuð og þegar ég horfi á formúluna og eitt lið tekur ranga ákvörðun með dekkjaval. Hverslags djók er þetta eiginlega að menn standa ekki í lappirnar í knattspyrnuleik. Hvurslags djók er þetta að hafa Crouch einan frammi. Hverslags djók er þetta að hafa Cissé ekki á bekknum, var maðurinn meiddur? Hvurslags djók er Crouch þessa dagana? Mér fannst Crouch lofa góðu hér í upphafi tímabilsins og áður en hann skoraði. Hvar er grimmdin í leikmönnum Liverpool þessa dagana? Ég hefði ekki fyrigefið neinum öðrum leikmanni mistökin sem Gerrard gerði í leiknum vegna þess að hann virðist vera einn tveggja leikmanna sem eru með hausinn í lagi þessa dagana. Hversu seinn er Hyppia orðinn, hann er eins og gamall hundur á vellinum, það eru ekki ósvipaðar hreifingar í honum og skíðagöngumanni.
    Liverpool spilaði ekki vel í þessum leik, eru þeir orðnir svona þreittir eftir langt tímabil? Hverjir koma í sumar?

  15. Óskum hérmeð eftir pistli um íslenska fótboltalýsendur. Heyrir einhver í Gumma Ben/Willum og félögum… þegar þeir tjá sig er eins og það sé bara suð í sjónvarpinu.

  16. Tek undir með Hössa, liðið saknar Sissoko meira en nokkurn hefði grunað. Hann étur boltann upp út um allan völl, auk þess hefur hann hraða á miðjunni. Gefum Benites orðið : “Meiðsli hans hafa valdið okkur erfiðleikum því að hann gefur öðrum leikmönnum meira frelsi”. Nákvæmlega, hann gerir aðra leikmenn í kringum sig betri.

    Í leiknum í gær sást greinilega hvað Hamann (sem er í liðinu í stað Sissoko) átti í miklum erfiðleikum með hraða miðjumenn Arsenal, auk þess sem tempóið hjá þeim var of mikið fyrir hann. Hamann er í miklu uppáhaldi hjá mér, en því miður þá var hratt spil og hraðir leikmenn Arsenal of mikið fyrir hann í þessum leik. Þetta er fyrst og fremst munurinn á liðunum frá því fyrir mánuði síðan. Við vorum yfirspilaðir á miðjunni í þessum leik.

    Garcia á að vera í liðinu, hann er LANG hættulegasti leikmaður okkar upp við mark andstæðingana, eins og staðan er í dag. Maðurinn er mjög markheppinn, klókur að koma sér í færi og nýta þau. Eitthvað sem frammherjar okkar mættu læra af.

    Ég spyr eins og Hössi, hvað er málið með hann Kewell?. Gaurinn hefur verið afleitur í síðustu leikjum, er þetta þreyta? Vonandi Liverpool vegna nær hann að rífa sig upp úr þessu, því ógnunin fram á við er sorgleg.

    Ein stærsta ástæða þess að hún er sorgleg er Crouch. Ótrúlegt hvað maður sem á að heita góður í loftinu nýtir skallafærin sín ílla. Ég man eftir honum hjá Aston Villa, í einni lýsingu frá leik á þeim tíma var þulurinn (held enskur) að tala um það að Crouch væri nú ekki mjög góður skallamaður þrátt fyrir alla þessa stærð, heldur væri hann fyrst og fremst með góða boltatækni miðað við SVONA STÓRAN MANN. Nákvæmlega, hann er lipur með boltann miðað við stærð, en er það nóg til að vera sóknarmaður nr. 1 hjá Liverpool.

    Hvað haldi þið að Shearer væri búinn að skora mörg skallamörk ef hann væri yfir tveir metrar?

    Kveðja
    Krizzi

  17. Sé að menn hérna eru enn við sama heygarðshornið.

    “Við áttum ekki skilað að fá neitt út úr þessum leik!” Þetta eru bara heimskuleg ummæli, það er s.s. verið að segja að við eigum ekki að vinna leiki ef við erum ekki betri aðilinn.

    Það gleymdist þá að segja Benfica það því við vorum klárlega betri í báðum leikjunum en töpuðum samt báðum.

    Stela sigrinum ! segir einhver. Arsenal voru betri í fyrri hálfleik, en mér fannst Liverpool betri í þeim seinni fram að brottrekstrinum, það var stígandi í leik okkar manna og stefndi í magnaðar lokamínútur þar sem við vorum búnir að jafna og klárlega betri aðilinn með vind í öllum seglum á þeim tímapunkti.

  18. >”Við áttum ekki skilað að fá neitt út úr þessum leik!” Þetta eru bara heimskuleg ummæli, það er s.s. verið að segja að við eigum ekki að vinna leiki ef við erum ekki betri aðilinn.

    Arnar, það er ekki sniðugt að kalla önnur ummæli heimsk með svona misgáfulegum ummælum.

    Við vorum einfaldlega að viðurkenna að við vorum miklu lélegri og áttum ekkert skilið að fá útúr leiknum. Alveg einsog við vorum miklu betri á móti Charlton og áttum skilið að fá eitthvað útúr þeim leik.

    Ertu með þessu að segja að við eigum alltaf eitthvað skilið útúr leikjum og að halda öðru fram sé heimskulegt?

  19. 1. Xabi Alonso átti kannski ekki skilið að vera rekinn út af fyrir þetta, en engu að síður var ekkert ósanngjarnt að þetta væri spjald, þó svo að hann hefði hugsanlega runnið.

    Ímyndum okkur t.d. að þetta hefði gerst í teig liverpool manna og Fabregas hefði verið með boltann þar. Það að hann hafi runnið breytir því ekki að þetta er brot. Hann fer “body first” beint inn í hliðina á Fabregas. Þó ásetningur hafi ekki verið til staðar, þá er samt sem áður um brot að ræða, sem tekur manninn úr leik í ca. 15-20 sekúndur.

    Einnig má benda á það, sem enginn virðist hafa gert, að Xabi Alonso braut á Fabregas og náði boltanum 10 sekúndum áður en liverpool skoraði. Ekkert var dæmt þá.

  20. Pétur, þvílíkt bull í þér….

    Það hefur enginn mótmælt því að það hefði átt að dæma aukaspyrnu á Xabi Alonso en að gefa gult spjald fyrir þetta held ég að menn séu sammála um að hefi verið algjört rugl. Allavega er það mín skoðun að það sé alveg hægt að dæma aukaspyrnu á menn þegar þeir detta ef það hefur áhrif á sókn andstæðinganna en í þessu tilviki var bara svo augljóst að um algjört óhapp var að ræða og því ekki sanngjarnt að reka manninn útaf.

  21. Makkarinn – ég skal endurskoða eftirtalið atriði:

    –> Ég hafði rangt fyrir mér með ágæti Fernando Morientes. Hann er ekki nógu góður fyrir stórlið eins og Liverpool, því miður, og hverju sem því er um að kenna er það staðreynd.

    Það breytir því ekki að James Beattie kemst ekki með tærnar þar sem Fernando Morientes hefur hælana. Bara þótt Nando valdi vonbrigðum er ekki þar með sagt að Beattie sé betri, jafnvel þótt hann hafi slysað tveimur inn um helgina. Beattie er varla nógu góður fyrir Everton, sem er með hálf glatað lið miðað við hvar þeir voru staddir fyrir ári síðan (lesist: **afturför** … hverjum er það um að kenna? Marcus Bent, eða James Beattie? ) en hann myndi **ALDREI** koma til greina í alvöru stórlið á borð við Liverpool.

    Ég stend við pistil minn.

  22. Slysast og ekki slysast. Staðreyndirnar tala sínu máli, James Beattie hefur skorað tíu mörk í deildinni og Morientes þrjú. Beattie er að vaxa á meðan Liverpool getur prísað sig sæla með eitt mark á tveggja mánaða fresti hjá spænska tréhestinum.

    Gleymum því ekki að megnið af fyrsta ári Beattie fór í að hlaupa sig í form (ekki ætla ég að afsaka hversu þungur hann var, heldur að sýna fram á að hann er að vaxa sem leikmaður).

    Vel má vera að Morientes hafi spilað með Real Madrid og staðið sig í stykkinu með landsliði og í Evrópukeppnum. Það er eitthvað Beattie hefur ekki gert en ég kýs að lifa í núinu. Það gagnast Liverpool nákvæmlega ekki neitt þessi hvað Nando gerði, er það nokkuð?

    Að auki vil ég benda á þá staðreynd að Everton eru gersamlega geldir sóknarlega og hafa aðeins skorað 24 mörk. McFadden og Cahill koma næstir á eftir Beattie með þrjú mörk. Ekki þarf því að leynast að varnirnar geta einblínt nokkuð grimmt á Beattie sem hefur samt skorað þessi 10 mörk and counting.

    Gerrard, Cissé, Crouch, Alonso og García hafa allir skorað þrjú mörk eða fleiri í deildinni. Auk þess hafið þið Liverpool aðdáendur kvartað mikið yfir því hversu mörg færi þið fáið en náið ekki að nýta. Um Evertondauðafæri má segja þetta: “few and far between”.

    Lemdu bara höfðinu áfram í steininn, á meðan skemmti ég huggað mig við lélegan árangur minna manna í vetur að Everton á þá besta/skársta framherjann í Liverpoolborg.

  23. Bíddu, bíddu, hvers vegna er “besti framherji í Liverpoolborg” ekki valinn í enska landsliðið?

    Hvaða framherji skoraði aftur í síðasta landsleik Englendinga? Var það ekki [þessi](http://www.4thegame.com/media/00/02/80/swpcrouch.jpg)?

    Hvaða framherjar í Liverpool eru á leiðinni á HM? Er það ekki líklegt að það séu Fernando Morientes eða Peter Crouch?

  24. Á nú að fara dæma eftir því hverjir komast í landslið og hverjir ekki? Ætlið þið að segja mér að Emily Heskey hafi verið svona ægilega góður því hann var í landsliðinu?

    Hlutverk framherja er að skora mörk eða leggja þau upp. Crouch virðist gera hvorugt, tvær eða þrjár stoðsendingar og mark í fimmta hverjum leik er niðurstaðan hjá risanum. Búinn að byrja inn á 22 sinnum og koma þrisvar inná sem varamaður. Já og hann hefur ekki skorað á þessu ári í deildinni þrátt fyrir að hafa leikið níu leiki.

  25. Við erum að tala um knattspyrnu, ekki hafnabolta. Þú getur ekki dæmt knattspyrnumenn út frá tölfræði.

    Ekki frekar en þú getur dæmt menn útfrá landsliðssæti.

    Hins vegar þá eru flestir sammála um að Sven Göran sé ágætis þjálfari og hann velur Crouch á undan Beattie. Hann velur líka Bent og Defoe á undan Beattie. Allir fjölmiðlamenn á Englandi virðast vera honum sammála og fáum dettur í hug að Beattie eigi heima í enska landsliðinu. Nema, jú eflaust, stuðningsmönnum Everton.

  26. Núnú, á einum stað segiru að Garcia hafi átt skilið að vera maður leiksins án þess að hafa gert nokkurn skapaðan hlut fyrir utan markið. Svo kemuru með svona komment:

    “Við erum að tala um knattspyrnu, ekki hafnabolta. Þú getur ekki dæmt knattspyrnumenn út frá tölfræði.”

    Einnig kommentaðir þú á tölfræðina hjá Crouch í öðrum þræði, aðeins tvær stoðsendingar. Er þetta bara svona hentugleikakomment hjá þér, beitir því þegar þér hentar en hendir svo þessum rökum út um gluggann þegar þú þarft?

    Ef maður á hins vegar að fara taka þetta landsliðssæti alvarlega þá er það ekkert skrýtið að Beattie sé ekki í myndinni. Hann var þungur fyrri part vetrar og ómögulegt að fara henda inn nýjum leikmönnum núna sem hefur lítið sem ekkert spilað með þeim mönnum sem nú eru fyrir.

    Landsliðssæti eður ei, það breytir ekki minni skoðun um Beattie. Hver man ekki eftir LeTissier? Hann kunni nú sitthvað fyrir sér en ekki var hann nú oft valinn í landslið.

  27. Gleymdi aðal tölfræðinni, Crouch, Morientes og Cisse eru búnir að leika 69 leiki og skora í þeim 13 mörk. Ef ég tel Pognolle með þá er þetta 76/13. Með þessu áframhaldi þá nær Beattie þeim þrátt fyrir að eiga aðeins möguleika á 33 leikjum.

  28. Auðvitað tek ég mark á tölfræði. En punkturinn í þínu kommenti var að slá okkar menn útaf borðinu einfaldlega byggt á einhverri tölfræði. Það er að mínu mati afleit hugmynd. Í tölfræðinni er t.d. ekkert mark tekið á móti hvaða liðum menn eru að spila né samherjunum.

    Annars er þetta ljómandi skemmtileg umræða. Gaman að sjá örvæntingarfulla Everton menn halda í hvert hálmstrá, sem þeir geta til að rembast við að sýna að Everton sé á einhvern hátt betra en Liverpool. Þið áttuð að njóta síðasta sumars betur.

    Við getum hins vegar ekki komist að neinni niðurstöðu um það hér, hvor sé betri leikmaður. Ég er á því að ágætis hlutlaus mælikvarði sé ákvarðanataka landsliðsþjálfara Englands(sem ég held að afskaplega fáir séu ósammála). Hann hefur val um hvorn hann vill sjá í sínu liði og þar er Peter Crouch tekinn fram fyrir. Það er því fráleitt að halda því fram að besti framherjinn leiki með Everton.

  29. Lets agree to disagree, eins og þú segir – við komumst að engri niðurstöðu hérna enda báðir hlutdrægir og sjáum hlutina í misjöfnu ljósi.

    Hins vegar gerir þú Einar þig seka um það sama og fer svo í taugarnar á þér. Hvernig væri nú að koma fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig?

    Já ég er að tala um komment eins og “Gaman að sjá örvæntingarfulla Everton menn halda í hvert hálmstrá, sem þeir geta til að rembast við að sýna að Everton sé á einhvern hátt betra en Liverpool”.

    Núna þegar þú ert nýbúinn að commenta hér á öðrum þræði : “Svona komment þoli ég ekki. Hvað í þessum pistli var “væl”? Þetta var bara einföld gagnrýni á verk þessara manna. Af hverju þarf að túlka það sem væl?”

    Á sömu nótum neita ég því að ég sé örvæntingarfullur sem held mér í hvert hálmstrá og bla bla bla bla. Ég er einfaldlega að svara fyrir grein sem Kristján Atli kom með fyrir nokkru síðan og fannst mér ansi hart vegið að mínum manni.

    Mér líkar ekki þegar á að fara draga mig í einhvern dilk og veit að þér finnst það heldur ekki skemmtilegt.
    Hvernig í ósköpunum á maður að þig Einar alvarlega þegar þú ert svona í hrópandi mótsögn við sjálfan þig? Predikar um siði sem þú ferð svo ekkert eftir?

    Endar svo á kommenti þar sem þú byrjar að segja að við komumst að engri niðurstöðu hérna en það sé samt fráleitt að vera á minni skoðun? Held þú ættir aðeins að líta í eigin barm.

    es
    þar sem ég er að gagnrýna persónu á spjallinu þá skil ég eftir nafnið mitt, Brynjar Bjarkason.

  30. Arnar, það er ekki sniðugt að kalla önnur ummæli heimsk með svona misgáfulegum ummælum.

    Við vorum einfaldlega að viðurkenna að við vorum miklu lélegri og áttum ekkert skilið að fá útúr leiknum. Alveg einsog við vorum miklu betri á móti Charlton og áttum skilið að fá eitthvað útúr þeim leik.

    Einar, það má vel vera að það sé ekki sniðugt en það sem ég var að reyna að benda á er að það er ekkert samasemmerki á milli þess að eiga skilið að vinna og vinna. Það höfum við poolarar oft séð. Það á þá jafnt við um að eiga skila að tapa og tapa.

    Þetta vita allir sem hafa spilað bolta. Ég fullyrði að allir hafa lent í því að tapa þegar þeim finnst þeir hefðu átt að vinna og öfugt.

    Ég hafði það sterklega á tilfinningunni á þeim tímapunkti rétt áður en Alonso var rekinn af velli að við myndum vinna þennan leik.

Liðið gegn Arsenal komið

Xabi fer í eins leiks bann.