L’pool 0 – Benfica 2

Jæja, svona fór um sjóferð þá.

Í desember fögnuðu einhverjir þegar við drógumst gegn portúgalska liðinu Benfica í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, en annað kom nú á daginn og þeir unnu í kvöld óvæntan 0-2 sigur á okkar mönnum á Anfield, og fara því áfram í 8-liða úrslit keppninnar á kostnað ríkjandi Evrópumeistara. Það er því ljóst að titilvörn okkar manna er lokið, og það verður að teljast bara nokkuð verðskuldað. Því miður.

Skyndilega breytist landslag yfirstandandi tímabils og nú eigum við eftir nákvæmlega jafn marga leiki og t.d. Man U – eða ellefu deildarleiki og svo Birmingham í FA bikarkeppninni. En áður en við horfum fram á veginn skal þessi leikur gerður upp, þannig að hefjumst handa:

Vegna meiðsla Sami Hyypiä, Johnny Riise, Momo Sissoko og fjarveru Daniel Agger og Jan Kromkamp stillti Rafa upp eftirtöldu liði í kvöld:

Reina

Finnan – Carragher – Traoré – Warnock

García – Gerrard – Alonso – Kewell

Morientes – Crouch

**BEKKUR:** Dudek, Hyypiä, Hamann, Barragan, Anderson, Fowler, Cissé.

Gangur þessa leiks var nokkuð svipaður því sem við bjuggumst við; Liverpool sóttu allan leikinn á meðan Portúgalirnir vörðust ötullega og beittu áhrifaríkum skyndisóknum. Okkar menn fengu nóg af færum til að komast yfir snemma leiks, þar á meðal átti Peter Crouch skot í stöng og Jamie Carragher skot framhjá úr dauðafæri, og svo skot Luis García yfir einn gegn markverði Benfica. Einmitt þegar maður síðan hélt að stíflan ætlaði að bresta og maður fór að hugsa með sér að nú hlyti markið að fara að koma, kom skyndisóknin sem segja má að hafi drepið vonir okkar manna niður.

Boltinn barst inn að varnarlínu Liverpool þar sem Jamie Carragher náði honum. Hann ákvað að reyna að snúa með hann í stað þess að hreinsa bara frá en þá náði Geovanni af honum boltanum, sem barst til Nuno Gomez sem sendi hann áfram til Simao Sabrosa. Sá fékk nægan tíma hjá Steve Finnan til að snúa, driplaði framhjá Djimi Traoré og skaut síðan bara glæsiskoti uppí markhornið. Hafi menn þurft að spyrja hvers vegna við höfum verið að reyna að kaupa þennan gæja, þá var þeirri spurningu þar með svarað.

Nú eftir þetta mark hálf fjaraði fyrri hálfleikurinn út og maður vonaði að enn eitt fræga “comeback-ið” væri á dagskránni í síðari hálfleik. Rafa setti þá Cissé, Fowler og Hamann inn fyrir Kewell, Morientes og Warnock en allt kom fyrir ekki, okkar menn voru með öll völd á vellinum og sóttu ákaft en virkuðu sem svo oft áður getulausir og bitlausir upp við mark Benfica.

Þegar leiktíminn var að fjara út kom svo önnur góð skyndisókn Benfica-manna og boltinn barst inní teiginn á varamanninn Miccoli, sem tók við honum og klippti hann svo í netið með flottri bakfallsspyrnu. 0-2 tap á Anfield staðreynd og draumurinn um úrslitaleikinn í París að engu orðinn. Því miður, en svona er þetta bara.

Ég ætla að gefa mér nóttina til að íhuga aðeins leikinn betur og melta þetta áður en ég fer að koma með einhverja sleggjudóma um það hvað nákvæmlega fór úrskeiðis í kvöld, en á meðan getið þið rætt þetta til hlítar í ummælakerfinu. Það er alveg ljóst að það sem klikkaði í kvöld, sem og allt of oft áður í vetur, var bitleysið uppi við mark andstæðinganna. Morientes, Crouch og García stóðu sig ekki sem skyldi í kvöld og nú spyrja sig margir hvers vegna Cissé og Fowler fengu ekki bara hreinlega að byrja inná í stað Morientes og García.

Ég er að sjálfsögðu hundfúll með að við skyldum hafa fallið út fyrir liði sem ég tel að sé lakara en okkar lið – en það breytir því ekki að Benfica-menn komu skipulagðir og ákveðnir til leiks, með ákveðna leikaðferð í huga sem gekk fyllilega upp, og þeir eiga bara fyllilega skilið að fara áfram. Ég óska stuðningsmönnum þeirra til hamingju og liði þeirra góðs gengis í þessari keppni. Það er bara vonandi að þeir haldi áfram að koma sér stærri og betri liðum á óvart, enda er það það sem gerir Meistaradeildina svo skemmtilega.

Já þið lásuð rétt, ólíkt sumum er ég óhræddur við að viðurkenna að við áttum skilið að tapa í kvöld og verðskulduðum að fara út úr þessari keppni. Það þarf bara að meta stöðuna og reyna að styrkja liðið svo að við getum gert betri tilraun til að endurheimta titilinn okkar á næsta tímabili.

**MAÐUR LEIKSINS:** Í raun átti enginn af okkar leikmönnum stórleik, þrátt fyrir yfirburði okkar manna á vellinum, en ég ætla að tilnefna fyrirliðann Steven Gerrard og Xabi Alonso sem bestu menn okkar í kvöld. Þeir börðust vel og gerðu allt sem þeir gátu, en heppnin var einfaldlega ekki með okkar mönnum í kvöld.

Að mínu mati var þó besti maðurinn á vellinum svona *næstum því* Liverpool-maður. Ég held að það geti enginn efast um það að við gætum vel notað mann eins og **SIMAO SABROSA** í okkar liði, þetta er sannkallaður “matchwinner” af bestu gerð. Hann var frábær í kvöld.

Jæja, læt þetta nægja í bili. Svekkjandi tap, svekkjandi að fara út úr þessari keppni en það er samt erfitt að vera of bálreiður því það kom bara bersýnilega í ljós í kvöld að við vorum ekki með nógu gott lið til að verja titillinn. Þannig að í stað þess að tapa mér í reiði og fýlu ætla ég að melta þetta aðeins. Framtíðin er það sem skiptir máli, hvað getum við gert til að tryggja að sama bitleysi í yfirburðaleik eigi sér ekki stað um sama leytið á næsta ári?

22 Comments

 1. Jæja hvað þurfa framherjar okkar mörg færi til að skora eitt mark??? en í sumar þá vill ég að cisse og morientes , crouch fari bara og við fáum Villa hjá Valencia og Kuyt hjá Feyenoord.

 2. Við áttum skilið að detta út og það er það.

  Benfica eru alls ekki með það gott lið. Við vorum hinsvegar mjög lélegir og gáfum þeim ódýrt mark þegar við sóttum þá heim. Í kvöld vorum við einnig slakir og það er ekki hægt að segja að við höfum átt nokkuð skilið útúr þessum leik.

  Þrátt fyrir að glata mjög góðu færi og kannski einhverju miðlungsfæri, fanst mér Crouch leika nokkuð vel. Morientes var hinsvegar að mínu mati mjög slakur og hefði mátt víkja fyrr. Hann var þó að mínu mati ekki sá versti í kvöld.

  Kantmenn okkar þeir Kewell og Garcia voru skelfilegir. Ég veit ekki hvað ég taldi marga tapaða bolta hjá Garcia. Ég veit að hann er leikmaður sem getur alltaf skorað en ég veit varla hvort ég get sætt mig við kantmann sem tapar helmingi fleiri boltum en hann skilar frá sér. Kewell sást tvisvar í leiknum. Þegar hann tók einn varnarmannn á, misti boltann of langt frá sér, var heppinn að fá hann aftur og kom samherja sínum í færi. Hitt skiptið þegar hann sást var hann að ganga af velli.

  Warnock og Traore. Hvar á að byrja ? Ég var næstum búinn að pissa á mig í hvert sinn er þeir nálguðust boltann í fyrri hálfleik. Eitt er víst. Þó svo Carra hafi gert sín mistök í fyrsta markinu þá held ég að það hefð aldrei þurft til þess að koma ef Hyypia og Riise hefðu verið þarna í stað þeirra Traore og Warnock.

  Það er leiðinlegt að detta út en ég bið ykkur LFC stuðningsmenn sem þurfa að fara í vinnu eða skóla á morgun að segja eftirfarandi við þá sem skjóta á ykkur fyrir að hafa fallið úr keppni.

  “Við höfum bara unnið þetta helvíti svo oft”.

 3. Ég tek einnig undir með Kristjáni Atla að Simao er virkilega lofandi leikmaður. En eftir þessar viðureignir tvær þá stendur frammistaða annars leikmanns Benfica uppúr, Luciao, eða hvað hann nú heitir. Ég væri nú alveg til í kauða, þó ég átti mig á þvi að kanntmaður er nauðsynlegri í okkar lið.

 4. Ég er sammála því sem ég hef lesið hér, við duttum sanngjarnt út.

  Sóknin og ákafinn lofuðu góðu til að byrja með en kunnugleg sjón blasti oft við manni: við náðum aldrei að klára. Við erum ekki með frábæra framherja, Fowler hefur ekki reynst vítamínið sem við vildum, Cisse og Moro eru ekki að gera sig – og ef eitthvað er þá er ég sáttastur við Crouch í augnablikinu. Sá hefði nú samt átt að skora í dag, en það þýðir ekki að væla það. Mér fannst Alonso komast best af okkar mönnum frá leiknum.

  Ég vona bara að Barcelona verði Evrópumeistarar fyrst við náum ekki að verja titilinn.

 5. Hugsið ykkur ef Peter Crouch hefði tussað boltanum í netið einn á móti liggjandi markverði! Leikurinn hefði verið algjörlega okkar þá. Dómarinn sleppir vítinni sem í raun var hindrun inní teig….en gult spjald á “fuglaveikina”!

  Satt best að segja langar mig að segja alveg eins og þið svekktu sem hafa tjáð ykkar skoðun á leiknum að þetta væri sanngjarnt…en þetta var ekkert sanngjarnt! Jú, auðvitað er sanngjarnt að liðið sem skorar vinnur en þetta Benfica lið er ekki gott lið ef við miðuð okkur við þá. Við eigum tvo hörmulega leiki gegn þeim en samt fáum við fleiri færi en þeir samtals úr báðum leikjunum og það aðeins í fyrri hálfleik í seinni leiknum!
  Ég vildi helst ekki hrauna yfir Crouch þar sem að hann virðist vera SKÁSTI sóknarmaður okkar en getur samt ekki klárað færi sem 5 ára krakki gæti auðveldlega gert!
  Við þurfum pottþétt að selja alla sóknarmenn okkar í sumar nema Pongolle og Crouch og fá sóknarmenn með kúlur sem geta görn og hafa eitthvað sem kallast tækni sem og geta klárað færi. Þetta hófst ekki í kvöld því miður….

  Maður leiksins: Peter Crouch (fyrir að klúðra þessu færi)!!

  PS: Nei, Simao virkar ekki sem leikmaður sem við ættum að eyða 12 milljónum í. Nei takk! Ég hef fengið nóg af portúgölum þetta árið (Mourinho)

 6. þetta hefði aldrei skeð hefði hyypia verið með því að hann og Carra eru stöðuleikinn í vörninni ð mínu mati..en hvað er málið með traore í miðverði…wtf….en kanski var það eini kosturinn ég veit ekki….svo var framlínan eins vitlaus og hægt var, vildi sjá cissé og fowler inná í byrjun og svo átti rafa ekki að setja cissé á hægri:S..hann er framherji!! svo gerði hann alltaf sömu hreyfingarnar og annað hvort drullaði hann boltanum yfir markið úr fyrirgjöf eða hitti ekki inn í teiginn…..þessi leikur var hörmung! 😡 😡 😡 😡 😡 😡

 7. já sveinn það er alveg rétt hjá þér það var Traoré að kenna að við skoruðum ekki… :rolleyes:
  Fowler hefði ekki getað haldið út meira en 20 min. miðað við tempó leiksins. Cissé er með eina slökustu móttöku sem fyrir finnst auk þess sem hann getur ekki komið boltanum frá sér.
  Málið er að við erum með þrusu lið, magnaða markmenn, pottþétta vörn og er verið að styrkja hana enn frekar. Miðjan er rosaleg, vinstri kanturinn mjög góður það þarf ekki mikið að gerast svo þetta liverpool lið verði óstöðvandi.
  Maður verður að vera bjartsýnn hehe

 8. Ég vil að Fowler og Garcia byrji alla leiki sem við eigum eftir á þessu tímabili. ALLA. Crouch, Moro og Cisse eru langt frá því að vera í Liverpool klassa eða bara góðir knattspyrnumenn. Ég efast stórlega um að þeir hafi verið það einhverntímann. Það hefur einhver logið all svakalega að mér.

  Fótbolti snýst um það að skora mörk. Þeir sem hafa hæfileika til að skora mörk eiga að spila frammi – ekki aðrir. Ég þori að veðja aleigu minni að Hyppia myndi skila senterstöðunni betur
  en Crouch og Morientes. Cisse getur ekkert.

  Gerrard á að spila á kanntinum – HVERGI ANNARSSTAÐAR. Sóun á hæfileikum að láta manninn sinna varnarhlutverki. Það eru sko nógu margir í liðin sem hafa ekki hæfileika til annars.

  Einhvern veginn finnst mér eins og Benfica menn hafi tekið okkur í þurran analinn í allan vetur. Dregið okkur á asnaeyrunum með Sabrosa og svo slær hann okkur út úr CL. Brilliant.

  Ég legg til að liðið afþakki allar horn og aukaspyrnur sem það fær. Svo vil ég byggja meira á fallhlífarboltunum frá miðju frá hinum sókndjarfa hægri bakverði okkar. Frábær taktík.

  Við getum þó huggað okkur við það að við erum að gera miklu betri hluti en manutd og arsenal og chelsea. ???

  Ætla að leggja mig og salta allar Liverpool væntingar þangað til við rúllum yfir Arsenal á Sunnudaginn… í unnum hornspyrnum.

 9. Gera betri hluti en Arsenal Hössi?

  Nú lentu Arsenal í 2.sæti í fyrra, en liverpool varð Evrópumeistari. Ég efast ekki um að þú myndir segja að liverpool hefði gert betri hluti í fyrra.

  Þá vil ég benda á að Arsenal er ennþá í meistaradeildinni, og slógu út stórlið Real Madrid verðskuldað þar sem þeir voru einfaldlega betri í báðum viðureignum liðanna. Einnig eiga þeir tiltölulega auðvelda leiki eftir í deild þannig að 4.sætið er þeirra… ef ekki 3.sætið.

  Skemmtilegur leikur samt sem hann Einar lenti á… mér fannst það allaveganna 🙂

 10. Ég undrast öll ummæli þess efnis að Kráts hafi spilað vel og lýsi yfir vanhæfni manna í að fjalla um knattspyrnu ef það er þeirra skoðun.

  Hvað hefur Pétur Kráts til brunns að bera. Hann er stór en tekur samt bara 3 hvert skallaeinvígi, skallar af svo arfalitlum krafti að boltinn hreyfist varla og hefur enga stjórn yfir boltanum.
  Að auki hefur hann ekki nokkuð auga fyris spili og hvað þá heldur að finna hlaup. Hann sleppur nær aldrei einn innfyrir en ef það gerist þá er hann hreint hörmulegur að setja boltann á milli stanganna, framhjá markverðinum.

  Já við slepptum að kaupa Simon Sabrósa en keyptum Kráts. Kráts kostaði rúmlega helming af verðinu sem Simon hefði kostað en drottinn það hefði verið pening betur varið.

  Rafa er snillingur í mörgu sem hann gerir en þetta tap verður líka að skrifast mikið á hann. Hann bauð hættunni heim á útivelli þegar hann spilaði leynt og ljóst uppá 0-0 jafntefli og lagði ekkert uppúr því að reyna að sigra. Slíkur hugsunarháttur skilar oftast engu nema því sem maður á skilið-tapi. Liverpool reyndi ekki að sigra lið sem var lakara en þeir og buðu því okkur þeim sem styðjum liðið uppá einar af vestu 90 mínútum lífsins-ekkert líf, ekkert færi, ekkert. Sanngjant tap.

  Að lokum vil ég minnast á áhorfendur Liverpool á anfield. Að syngja Youll never walk alone og að skíttapa er hreint engu liði í gjörvallri veröld auðið. Þvílukur stuðningur þvílikir áhorfendur. Það er þó allaveganna í heimsklassa hjá okkur.

 11. Sammála síðasta ræðumanni í einu og öllu.

  Stuðningsmennirnir í gærkveldi klárlega menn dagsins 🙂

 12. Sammála Hössa og Þórði hér að ofan í einu og öllu um framherjana okkar..
  Crouch er ömurlegur, getur einfaldlega ekki skorað og á þar af leiðandi ekki að vera framherji og helst ekki í Liverpool liðinu.. Útsala á framherjum í sumar segi ég, losa okkur við alla nema Fowler.. Ég vil fá markaskorara !!!

 13. Nafni ég er alsekki sammála þér með að við höfum átt skilið að tapa. Liverpool átti skilið að skora 1-2 mörk í kvöld en lukkudísirnar síðan í fyrra voru búnar að yfirgefa okkur.

  Kristján þú gleymir í annars góðri leikskýrslu að nefna tvö dauðafæri í fyrrihálfleik. 1) Crouch einn á móti markmanni og brennir af (færi sem góður stræker á að klára). 2) Carra með skalla í stöngina eftir hornspyrnu (hvar voru lukkudísirnar).

  Það sem stendur uppúr eftir þennan leik er vandamál LFC við að nýta færin, vandamál sem hefur háð liðinu í allan vetur. Hversu mörg færi þurfa þessir blessuðu sóknarmenn okkar til að slysa inn einu marki.

  Afhverju byrjuðu Crouch og Moro í sókninni. Ég hef margoft sagt það að þeir eru of líkir leikmenn til að spila saman. Auk þess sem tölfræðin vinnur ekki með þeim fyrir leik þar sem Liverpool varð að skora 2 mörk í það minsta.

  Tölfræði Crouch í meistaradeildinni 8 leikir spilaðir 0 NÚLL mörk skoruð, HALLÓ ekkert mark skorað. Og deildinn er lítið skárri 24 leikir spilaðir 5 mörk skoruð. Er skrýtið að maður spyrji sig afhverju er þessi leikmaður er að leiða sókn okkar.

  Tölfræði Morientes í meistaradeildinni 10 leikir spilaðir 3 mörk skoruð. Deildin 21 LEIKIR spilaðir 3 mörk skoður. Tímabilið 2004/2005 skoraði hann 3 mörk í 13 deildarleikjum. Samt eru menn að verja hann og tala um aðlögun, ég endurtek hann skoraði jafnmörg mörk í 13 leikjum á síðasta tímabili (þegar hann var í aðlögun). Ef þessi aðlögun heldur áfram að ganga svona vel þá gætum við verið að horfa á 31 leik og 3 mörk á næsta tímabili???? Við verðum þvímiður að horfast í augu við þá staðreynd að Moro er kominn yfir sitt besta.

  Afhverju byrjaði Cisse ekki sókninni, þó hann sé ekki búinn að spila vel og hafi sýna galla þá er Cisse samt búinn að skora 6 mörk í 12 leikjum í meistaradeildinni. Hefðum gettað nýtt hann í sókninni í leik sem við urðum að skora í.

  Í leiknum í gær áttum við 21 skot að marki á móti 8 hjá Benfica. EN það segjir ekki alla söguna því einungis 8 af þessum marktilraunum hittu á rammann, á móti 5 hjá Benifica. Nýting sóknarmanna okkar er gjörsamlega óásættanleg.

  Ég vildi selja Baros í sumar því ég átti von á því að LFC ætlaði að kaupa heimsklassa sóknarmann í staðin. Einhvern sem skorar yfir 20 mörk á tímabili. Í staðin kaupum við Crouch. Við seljum okkar markahæsta leikmann frá tímabilinu 2004/2005 og kaupum Crouch í staðin. Baros skoraði 9 mörk í deildinni og 13 mörk í öllum keppnum. Þrátt fyrir þá staðreynd að í fyrsta skipti í tugi ára náði enginn leikmaður LFC að skora yfir 10 mörk í deildinni 2004/2005, þá seljum við okkar markahæsta leikmann og kaupum engan markaskorara í staðin.

  Miðað við þessar staðreyndir þá ætti það svosem ekki að koma neinum á óvart að liðið eigi í erfiðleikum með að skora.

  Kveðja
  Krizzi

 14. Gaman að sjá stuðningsmenn Liverpool taka ósigrum eins og menn, annað en sumir (*hóstChelseaGrúppíurhóst*).

  En annars er ég sammála flestu því sem Kristján segir í umsögninni um leikinn, tel óþarft að bæta einhverju við hans orð.

 15. Kaldhæðni Pétur – kaldhæðni. Öll þessi þrjú lið eru að gera betri hluta en við. Samt er allt í kalda koli hjá manu og ars.

  Tímabilið er eins og staðan er núna vonbrigði sem skrifast að stórum hluta á það að ekki eru keyptir góðir leikmenn til liðsins þrátt fyrir fögur fyrirheit og loforð um annað.

 16. Krizzi, auðvitað áttum við bara skilið að tapa. Trúiru því virkilega að liðið sé bara óheppið að ná ekki að skora *leik eftir leik…*?

  Það er óheppni þegar lið nær ekki að skora úr færunum sínum einn og einn leik. En þegar það er farið að heyra til undandtekninga að liðið skori, þá eru einstaklingarnir einfaldlega of *lélegir* til að nýta færin sín!

  Með þessari frammistöðu áttum við bara ekkert skilið að komast áfram. Því miður! 🙁

 17. Krizzi, auðvitað áttum við skilið að tapa. Lið sem getur ekki skorað þrátt fyrir dauðafæri, á ekki skilið að vinna! Lukkudísir eða ekki, við gátum ekki gert þetta sjálfir og því fór sem fór. Þetta er aldrei spurning um skotfjölda, eða skotin sem rata á markið. Þetta er hin einfalda spurning um að skora fleiri mörk en andstæðingurinn. Ég persónulega alla vega neita að fara út í Mourinho dæmið: “Betra liðið vann ekki…”: mér finnst það bara ekki rétt.

 18. Þegar við getum ekki skorað í 2 leikjum í röð gegn Benfica í meistaradeildinni þá eigum við klárlega ekki skilið að fara áfram.

  Af hverju náum við ekki að skora? Við sköpum næg færi til þess (líkt og gegn Charlton um daginn og fleiri leikir) en inn geta framherjar okkar ekki komið boltanum. Maður hefur í raun á tilfinningunni að þetta sé orðið sálfrænt hjá liðinu þ.e. að sóknarmenn okkar geti ekki skorað mark. Þetta verður að breytast annars endar þetta tímabil ennþá verr en nú er.

  Traore og Warnock! Ok ef fólk hefur verið í einhverjum vafa um hvort þeir séu nægilega góðir fyrir Liverpool þá hljóta þeir hið sömu að vera sannfærðir núna! Þeir eiga ekki að fá leik það sem er eftir tímabilsins.

  Cisse á hægri kantinum? Hvaða bull er þetta… hann er svo langt frá því að geta eitthvað á kantinum að það er betra að setja coke kassa á kantinn. Notum frekar þá kantmenn sem til eru í félaginu (þótt ungir séu t.d. Anderson) heldur en að vera í þessu rugli.

  Morientes byrjaði leikinn vel og var ákveðinn en síðan er eins og hann hafi ekki krafta og þol í að halda því tempói uppi allan leikinn. Tel að Cisse eigi að fá meiri séns til loka tímabilsins. Morientes má fara í sumar, þetta er fullreynt.

  Gerrard og Alonso börðust vel á miðjunni og hættu aldrei. Einnig voru þeir Finnan og Carragher sterkir og ákveðnir að hjálpa til í sóknarleiknum. Carra hefði reyndar átt að setja í það minnsta eitt í leiknum… en verður líklega aldrei talinn markheppinn.

  Kewell var slappur, óvenjuslappur í þessum leik. Veit ekki hvers vegna. Hann getur miklu meira og hefur sýnt það að undanförnu í deildinni.

  Garcia var sprækur en eins og vanalega þá gefur hann boltann oft auðveldlega frá sér. Hugsa að hann sé samt okkar besti framherji í dag, eða hvað?

  Í lokinn vil ég óska Benfica til hamingju með sigurinn og óska þeim velfarnaðar í komandi átökukm.

 19. Hún er alveg óskiljanleg þessi tröllatrú Benitez á Morientes. Hann fær tækifæri eftir tækifæri, og það í mikilvægustu leikjum, en nánast alltaf er hann of kraftlaus til að setja boltann í netið.
  Ég skil ekki af hverju Pongelle var lánaður þar sem hann var líflegur þeim leikjum sem hann var að spila og hafði getað nýst okkur í þessum leik í gær, svipað og gegn Olympiakos fyrir rúmu ári síðan.

 20. Já, það er ekki annað hægt að segja en að framherjar okkar kostuðu okkur framhald í þessari keppni. Crouch fær nú ekki mikið betri færi en hann fékk í gær til að skora, en nei, þá reynir hann að klobba markmanninn eins og framherji sem skorar 25+ mörk á tímabili myndi reyna. Þetta er nú bara grátlegt allta saman. Svo er Cisse settur á hægri kant, þar sem hann getur nú ekki mikið meira en þessi umræddi kók kassi. Rafa fer að verða búinn að gera Cisse verðlausan með þessu áframhaldi. Afhverju fær hann ekki tækifæri frammi þegar ekki er úr betri mönnum að moða!!! Hann fær að byrja frammi í einum leik í mánuði og ef hann skorar ekki fer hann á bekkinn í næstu 3-4 leiki og svo kanntinn sem varamaður í næstu 3-4 leiki. Mori hins vegar fær tækifæri frammi í öllum leikjum!!! Ég man nú bara ekki eftir þvi hvenær hann skoraði síðast…

  Þetta er orðið nokkuð ljóst, að hér á spjallinu eru lang flestir sammála um að við þrfum striker sem kann að setja boltan í markið. Fyrst og fremmst burtu með Mora, helst strax. Framtíð Cisse er greinilega best borgið á öðrum stað en hjá Liverpool. Pongolle kemur til baka og líklega höldum við Fowler og Crouch (Rafa fer varla að selja manninn sem hann lagði svo mikla áherslu á að kaupa).

  Við munum sjá Liverool á næsta tímabili með topp striker, treysti Rafa til að tækla það mál.

 21. Svekkelsi. 😡 Ég er algjörlega sammála Agga hér rétt fyrir ofan. Í sumar mætti selja Moríentes, Traore og Warnock og enginn þeirra ætti að spila fleiri leiki í vetur.
  Cisse og Fowler (eða Crouch) [b]frammi[/b] það sem eftir er leiktíðar og sjá hvernig það gengur. Ég er farinn að hafa áhyggjur af því að Liverpool nái ekki meistaradeildarsæti. :rolleyes:

 22. :rolleyes:Niðurstaðan eftir lestur þessara athugasemda stuðningsmanna LFC er eftir farandi.
  1. Liðsuppstilling, mannakaup ofl. hjá RB er í besta falli umdeilanlegt
  2. RÉTTLÆTANLEGT ER AÐ SETJA ALLA FRAMHERJA LIÐSINS Á SÖLULISTA.
  3. Traore og Warnock eru ekki af þeim klassa sem leikmenn að ástæða sé til að halda þeim í liði sem stefnir í framtíðinni á titla.
  4. Lið sem hefur ekki menn innan sinna raða sem geta skilað ætluðu hlutverki sínu á vellinum á enga möguleika á titlum.
  5. Sigur Benfica var sanngjarn í báðum leikjum að liðum 1 til 4 athuguðum. Við óskum þeim góðs gengis.
  6. Liðsmenn LFC á áhorfenda pöllum eru af allt öðrum klassa en framherjar sama klúbbs og sumir varnarmenn.
  Niðurstaða: það þarf að gera gífurlegar breytingar á liðinu ef það á að standa undir væntingum fylgenda sinna. Einnig þarf RB að taka tilhneigingar sínar til að láta suma spánverja (les Morientes) spila hvað sem tautar og raular. Það er RB þarf að hugsa um liðsuppstillingu sem skilar árangri burt séð frá þjóðerni liðsmanna.
  :confused:

Byrjunarliðið er komið!

Rafa “heimtar” pening til leikmannakaupa!