Leikdagur og spennan magnast …

Jæja, í kvöld lýkur 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar með fjórum leikjum (fyrir utan Inter og Ajax, sem mætast í næstu viku) og þar á meðal er heimaleikur okkar manna gegn Benfica.

Í gær fóru þrír leikir fram og þrjú líklegri liðin komust áfram; Barcelona lagði Chelsea, Juventus lagði Werder Bremen eftir hroðaleg klaufamistök markvarðar Bremen á lokamínútunum, og Villareal komst áfram á mörkum á útivelli eftir tvö jafntefli gegn Glasgow Rangers.

Einar Örn var sérlegur fulltrúi Liverpool Bloggsins (og íslenskra Barca-aðdáenda) á Nou Camp í gær, og virtist bara mjög sáttur við gærdaginn þegar ég heyrði í honum símleiðis í morgun. Hann sat við hliðarlínuna fyrir miðjum velli, en var þó í góðri stöðu til að sjá glæsimark Ronaldinho sem gerði út um vonir Chelsea. Þeir fengu svo gefins jöfnunarmark sem skipti engu máli, en voru engu að síður úr leik. Í þetta sinn vann betra liðið, ólíkt því í fyrra.

Annars fannst mér merkilegt að sjá hvernig Chelsea-menn nálgðust þennan leik. Enn einu sinni létu lykilmenn eins og Frank Lampard, Arjen Robben og Didier Drogba sig hverfa þegar mest á reyndi og maður hlýtur að spyrja sig hvort að Joe Cole sé eini leikmaður Chelsea sem sé fær um að stíga skrefið fram á við þegar mikið liggur undir? Þetta er allavega að verða leiður ávani hjá þeim bláu að lykilmennirnir þeirra skuli koxa svona í stórleikjunum.

Mourinho kaus að byrja leikinn með 4-4-2 og hafa Arjen Robben sem framherja, sem voru mistök að mínu mati. Á meðan Robben reyndi en ekkert gekk í stöðu sem hann ekki þekkir sátu Hernan Crespo – þeirra hættulegasti framherji og reyndasti í Meistaradeild – og Eiður Smári Guðjohnsen – þeirra besti sendingarmaður – á bekknum. Svo þegar til kastanna kom og þeir voru 1-0 undir og *þurftu* að skora þessi tvö mörk … setti Mourinho Robert Huth í framlínuna. Robert Huth.

Ég sagði, **Robert Huth**!

Þetta gerðu þeir líka í fyrra á Anfield gegn okkur, þegar þeir voru 1-0 undir og þurftu nauðsynlega að skora mark til að detta ekki úr keppni. Þá afsakaði Mourinho sig með því að hann þyrfti tíma og peninga til að bæta meiri breidd í sóknina hjá sér en nú, ári síðar og mörgum milljónum punda varið í leikmenn á borð við Essien, Del Horno, Wright-Phillips og Crespo sem snúinn er aftur, þá var hann samt í þeirri stöðu að geta bara sett Robert Huth inná? Roman Abramovich hlýtur að hafa spurt sig í gær, í hvað eru peningarnir hans eiginlega að fara ef þeir hafa ekki fleiri valkosti en þetta í sókninni?

Heimir Karlsson sagði í umræðum um þennan leik við Guðna Bergs og Heimi Guðjóns á SÝN í gær að José Mourinho hefði að sínu mati fallið á “prófinu” í þessum leik í gær, rétt eins og hann féll á “prófinu” á Anfield í fyrra. Ég tek heilshugar undir þetta mat Heimis; nafni hans í gær gerði það líka en Guðni Bergsson neitaði að gagnrýna Mourinho. Að mínu mati er kominn tími til að breska pressan hætti að horfa á Mourinho með stjörnur í augum og fari að líta hann gagnrýnum augum: hann er *frábær* þjálfari en langt því frá að vera sá besti á Englandi, hvað þá í Evrópu. Ég er handviss um að Arsene Wenger, Alex Ferguson og Rafa Benítez hefðu allir, með þann leikmannahóp í höndunum sem Mourinho hefur, staðið sig betur í að valda Barca erfiðleikum í gær en Mourinho gerði. Og hana nú!

Annað sem einkennir þetta Chelsea-lið virðist vera þessi skortur á getu þeirra til að lyfta leik sínum á hærra plan – spila “upp fyrir sig” eins og það er kallað – þegar þess er virkilega þörf. Þegar Man U unnu Evrópukeppnina fyrir sjö árum síðan unnu þeir t.d. Juventus á útivelli, og skoruðu tvö mörk í uppbótartíma gegn Bayern München þegar allt virtist tapað í úrslitaleiknum, og unnu hann. Í fyrra unnu okkar menn Juventus, Chelsea og AC Milan – eftir að hafa verið þremur mörkum undir – en þetta eru allt lið sem voru *betri en Liverpool* í fyrra. Samt unnu okkar menn. Hvernig gat það gerst? Jú, í Liverpool-liðinu býr karakter og getan til að “spila upp fyrir sig.”

Svo eigum við líka svo frábæran stjóra. Og frááábæra áhorfendur …

Talandi um þá, það er ljóst að Einar Örn og allir hinir Púllararnir sem eru svo heppnir að leggja leið sína á Anfield í kvöld munu þurfa að gera sitt til að sigur vinnist. Við þurfum innilega á því að halda að Anfield skarti sínu allra besta, voldugasta og hávaðasamasta. Ef það næst er ég nokkuð viss um að leikmenn Benfica munu upplifa það sama og leikmenn Juventus, Chelsea, Leverkusen og Olympiakos upplifðu í fyrra; þeir verða stjarfir í upphafi leiks og ráða ekki við pressuna, og okkar menn munu í kjölfarið ganga á lagið og gera það sem þeir gera best – *framkalla stórleik þegar þess er virkilega þörf!*

Ég er orðinn verulega spenntur fyrir kvöldinu. Eins og fyrirliðinn sagði á blaðamannafundi í gær hentar okkar mönnum vel að vera að berjast fyrir lífi sínu í leikjum:

>”We deserved the title last year for the way we came back and this is our biggest test so for in this year’s competition. We’ve got the belief and confidence to get the result we need.”

>I know it sounds strange to take something positive from a negative result, but when we were in the dressing room after the game in Portugal, none of us was thinking we’ve blown it.

>There is just something about this team, this group of players and our fans which almost relishes being up against it.”

Nákvæmlega. Og þess vegna *hlakka ég svona mikið til* leiksins í kvöld!

Að lokum: á meðan menn telja niður mínúturnar að leik er ekki úr vegi að lesa upphitunarpistil Paul Tomkins af .tv: “LET THE MAGIC ENSUE!” Já, þetta verður sannkallað töfrakvöld á Anfield, það er ég viss um!

22 Comments

  1. Flottur Stjáni, heldur áfram að tuða um Chelsea 😉

  2. Ég errrrrrrrrrrrrrs svvvvvvvvvvvoooooooo spennnnntuuutututtr 🙂 😯 :rolleyes:

    Þetta verður maaaaagggngnganað

    Ég sveiflast á milli þess að vera algjörlega 100% sannfærður um að okkar menn taki þetta og þetta verði töfrum líkast….

    Svo hugsa ég……er raunhæft að endurtaka töfrana annað árið í röð…..núna erum við ekki minna liðið lengur…..Benfica er litla liðið…..við erum stóri björninn sem þarfa að sigra…..Okkar menn kunna að spila “upp fyrir” sig..já. En geta þeir spilað eins og meistarar og sýnt Davíð hvar á að kaupa ölið…..það kemur í ljós eftir þrjá klukkutíma og 43 mínútur…

    Goo Liverpool

  3. Ótrúlegt Kristján eins og þú virðist vera með allt á hreinu hvað Mourinho eigi að gera af hverju þú ert að skrifa hérna á Liverpool blogginu en ekki að þjálfa liðið sem er að rústa ensku úrvalsdeildinni.

  4. Merkilegt hvað þessir Chelsea aðdáendur eru alltaf að skoða Liverpool-bloggið… :tongue:

  5. Mér þykir ósköp eðlilegt að ég tjái mig um leikinn í gær. Einar Örn var staddur á honum, í honum mættust enskt og spænskt lið sem koma bæði tvö Liverpool mjög mikið við (enskt lið með spænsku ívafi) og svo eru sigurvegarar þessarar rimmu hugsanlegir mótherjar okkar, ef við komumst áfram í kvöld.

    Mun væntanlega tjá mig á svipaðan hátt um Arsenal – Real Madríd á morgun, þó kannski ekki eins ítarlega þar sem ég horfi ekki á þann leik í beinni (á sama tíma og L’pool – Benfica) …

    Og í gvöööðanna bænum ekki koma með “gerðu betur sjálfur ef þú getur” ruglið, Pétur. Ertu sem sagt að segja að þeir einu sem megi skrifa greinar um hlutina séu þeir sem hafi þegar gert þá sjálfir? Þannig að þeir einu sem mega fjalla um HM í knattspyrnu í sumar eru leikmenn/þjálfarar sem hafa unnið HM í knattspyrnu? Give me a break!

    Þrír tímar rúmir í leik … 🙂

  6. Kristján Atli, bara svo þú vitir það: greinin þín er frábærlega vel skrifuð, bæði hvað varðar um stemmninguna fyrir leikinn í kvöld og einnig varðandi Barca-Chelsea í gær. Mér finnst bara ekkert að því að tala um þennan leik þar sem við erum jú mögulega að skoða mótherja okkar í 8 liða úrslitum eða þegar lengra líður á keppnina.

    Og Pétur, Mourinho er ekki hafinn yfir gagnrýni. Rökin þín … tja commentið hér hjá þér … ná bara engri átt. Það eru auðvitað allir vitrir eftir á 🙂 og það er auðvelt að segja hlutina heldur en að framkvæma þá. En Kristján gerði akkúrat ekkert annað en að ítreka það sem Heimirarnir sögðu á Sýn í gær: þetta var próf hjá Mourinho og hann kolféll á því. Liðsuppstillingin í byrjun sýndi það, sem og stemmning liðsins í heild. Og sérstaklega gaman að sjá Mourinho eftir þennan leik tala um það að betra liðið hafi ekki komist áfram, líkt og hann gerði eftir Liverpool-undanúrslitin í fyrra.

    Það er ekkert að því að hafa skoðun á hlutunum og sérstaklega þegar þeir tengjast ástríðu manns: fótboltanum! 🙂

    Ég er gífurlega spenntur fyrir leiknum í kvöld, er hræddur en líka sigurviss.

    Að lokum: þó svo að ég sé Juventus maður (held með Liverpool, Barcelona, Juventus og Stuttgart í þessum helstu deildum Evrópu), þá get ég ekki annað en sagt að ég vorkenni engum meira en markmanni Werder Bremen. Búinn að vera stórkostlega frábær í öllum leiknum en kemur svo með þetta ótrúlega … ótrúlega vanhugsaða dæmi með rúllinu í grasið … og Juve potar næstum því óvart boltanum í netið.

    Það þarf sterkar taugar í þessa leiki og til að þola álagið. Ég verð bara að trúa því að við Liverpool menn höfum það fyrir leikinn í kvöld.

  7. Stjáni.

    Ég geri ráð fyrir því að þú kunnir eitthvað í fótbolta og vitir út á hvað hann gengur.

    En ef þú skilur ekki taktíkina á bak við að setja mann einsog Robert Huth inn á í lok leikja þegar lið þarf nauðsynlega að skora, þá þarf að endurskoða þekkingu þína á fótbolta. Spáðu aðeins betur í þessu og þá hlýturðu að geta séð af hverju þetta er gert. Ef þú vilt svarið, þá er bara að spyrja 🙂

  8. Við verðum nátturulega að skilja þessi chelsea grey, síðan þeirra er svo drep-leiðinleg að þeir koma yfir á þessa stórskemmtilegu síðu í hópum..

    en þetta er líka munurinn á chelsea grúpíum og Liverpool stuðningsmönnum, ekki vælum við inná þeirra siðu, enda drep-leiðinleg..

    áfram Liverpool

  9. Mér þætti gaman ef Nonni gæti gefið okkur skýringuna á því að henda Huth inná þegar 10 mínútur eru eftir og liðið þarf að skora 2 mörk! 🙂

  10. Chelsea-maðurinn Nonni: ég skil fyllilega vel taktíkina á bak við það að setja Huth þarna inn. Hann er stór og sterkur skallamaður sem gæti valdið usla í fyrirgjöfum, og svo er hann líka skotfastur. Þú þarft ekkert að gera lítið úr mér þótt ég *vogi mér* að gagnrýna Mourinho, en áður en þú heldur áfram að verja hann ættirðu kannski að skoða eftirfarandi tvo punkta:

    **Í FYRSTA LAGI:** Þegar Liverpool þurfa nauðsynlega á því að halda að setja fram mann sem vinnur skallabolta og getur líka skotið á mark, þá setjum við Peter Crouch í teiginn. Hann er ekki aðeins góður skallamaður, heldur líka *framherji* að eðlisfari og kann því að staðsetja sig rétt sóknarlega séð og lesa leikinn sem sóknarmaður. Það kann Robert Huth ekki.

    **Í ÖÐRU LAGI:** Eiga Chelsea ekki leikmann sem hefur svipaða kosti og Crouch fyrir Liverpool? Jú, og hann heitir Didier Drogba. Af hverju var hann tekinn útaf í gær, og tíu mínútum síðar var Robert Huth settur inná til að sinna því sem Drogba hefði með réttu átt að sinna? AF HVERJU? Hmmm? Af hverju fannst Mourinho það ásættanlegt að reyna að skora tvö mörk með Crespo og Huth inná, en ekki Crespo og Drogba?

    Ertu ekki reiðubúinn að viðurkenna að það sé svo mikið sem 0,5% möguleiki á því að Mourinho hafi gert taktísk mistök í þessum leik? Ef þú getur ekki viðurkennt það ertu einfaldlega ekki heiðarlegur Chelsea-maður.

    Og áður en þú skýtur því að okkur að við séum ekki heiðarlegir frekar en þú skaltu renna yfir leikskýrslurnar með því að smella á þann flokk efst til hægri á þessari síðu. Renndu yfir leikskýrslurnar og skoðaðu skýrslurnar fyrir tapleiki sl. tveggja ára, sér í lagi þá í deildinni. Þar sérðu að við Einar Örn höfum *aldrei* hikað við að gagnrýna Rafa fyrir taktísk mistök, þyki okkur ástæða til.

    Við þorum að gagnrýna stjórann okkar og hann getur tekið gagnrýni, viðurkennt að hann hafi haft rangt fyrir sér eða tekið ranga ákvörðun, og lært af því.

    Hvað gerið þið? Þverneitið að “The Special One” (án djóks, þvílíkt egó er þessi maður) geti nokkurn tímann svo mikið sem fengið flensu, hvað þá að gera mistök sem þjálfari, og hann sjálfur er svo mikil gunga að hann getur ekki viðurkennt neitt sem hallar á hans eigið lið. Tapsárni er ekki nægilega sterkt orð yfir Chelsea-menn, en það lýsir ykkur samt vel.

    Og þar með er vangaveltum mínum um Chelsea í Meistaradeildinni vorið 2006 lokið. Það eru tveir tímar í leik míns liðs, sem gæti hæglega dottið út úr keppni aðeins sólarhring eftir að Chelsea duttu út, og ég þarf að einbeita mér að mínum mönnum. En ég get fullvissað þig um eitt, Chelsea-maðurinn Nonni sem hefur gaman af því að koma hér inn og reyna af veikum mætti að gera lítið úr mér og öðrum Púllurum, ef mínir menn tapa í kvöld **máttu treysta því** að ég mun fjalla um það á raunsæjan og málefnalegan hátt – jafnvel gagnrýna mína menn, eigi þeir það skilið. Því við sem erum Púllarar skiljum, flestir, að til að vera góður sigurvegari þarf maður að geta verið góður tapari.

    Vonandi þarf ég þó ekki að standa við þessi orð mín. **Come on you Reds!** : :biggrin:

  11. Ég held að Chelsea-maðurinn Nonni muni ekki mikið rökræða gegn ritstjórum þessarar síðu framar. Það er aðeins eitt orð sem er kemur upp í huga mínum þegar ég les commentin hér: RÚST!!!!

  12. Flott hjá þér Stjáni, þú virðist skilja taktíkina á bak við Huth, til hvers þá að væla um það í upphafi?

    Mourinho hefur gert fullt af taktískum feilum í gegnum tíðina, einsog allir aðrir stjórar. Mourinho hefur þó gert þá einna fæsta af stjórum heimsins í dag.

    Það er alltaf hægt að segja “ef og hefði” en mér fannst taktík Mourinho í gærkvöldi býsna góð. Þeir voru bara að reyna skora eitt mark í einu (eðlilega) og ef þeir hefðu náð að setja eitt (Crespo hefði svo sannarlega átt að gera það) þá hefði leikurinn breyst.

    Ef hann gerði einhver mistök, þá voru þau sú að láta Eið Smára byrja á bekknum, Lampard var soldið týndur í leiknum og hefði þurft Eið með Makelele til að hjálpa sér.

    Ég skal segja þér af hverju hann setti Huth inn á auk þess augljósa. Staðan var 1-0 og Drogba var farinn útaf, þar ertu í raun með svarið. Mourinho ætlaði að taka Barcelona með einum framherja, Drogba tekinn útaf fyrir annan framherja (Crespo) og það munaði litlu að þeir kæmust í 0-1 og þá hefði allt getað gerst. Barcelona hins vegar skorar og þá verður bara að tjalda öllu til, Huth settur inn, end of story.

    Leikurinn tapaðist ekki í gærkvöldi, hann tapaðist í fyrri leiknum eftir mistök norska dómarans. Chelsea stóð fyllilega í hárinu á Barcelona í fyrra á Nou Camp (voru yfir áður en Drogba var rekinn útaf) og svo sannarlega í ár líka.

    Að mínu mati er Chelsea betra lið, þið eruð því kannski ósammála.

  13. Í fyrra vann Liverpool AC Milan en við gátum þó viðurkennt að AC Milan var, og er enn, með betra lið en Liverpool.

    Það er alveg á hreinu að þeir einu sem halda því fram, eftir þessar tvær viðureignir, að Chelsea sé betra liðið eru Chelsea-aðdáendur.

    Ronaldinho? Messi? Eto’o? **XAVI** ??? Deco? Larsson? Edmilson? Puyol? Marquez? Plíííssss!!!!! :laugh:

  14. Já, og ég sem hélt að ég væri blindur á mitt lið ?! seisei…Þú ert sennilega að segja næakvæmlega það sama og Kristján sagði…

    En það að setja Huth inn á var sennilega það heimskulegasta sem “The Special One” gat gert! Þú myndir líka hlægja að okkur ef Rafa skellti Traore í strikerinn á eftir!

    Af hverju bara ekki að halda Drogba inn á in the first place (…hann er jú reyndar alls ekki góður leikmaður, hins vegar þokkalegasti vælari).

    Barcelona er einfaldlega betra lið en Chelsea og ég sé ekki neitt lið vinna þá, nema jú auðvitað Liverpool!

  15. Hefur Barcelona unnið Chelsea 11 gegn 11?

    Ef þið haldið því fram að það skipti engu máli hversu margir leikmenn eru inn á, þá hlæ ég að ykkur 🙂

  16. Það að láta reka sig útaf er svipað og að skora sjálfsmark. Þú getur haldið því fram að þetta séu grimm örlög, en þegar allt kemur til alls er þetta engum öðrum að kenna en sjálfum þér.

    Ég veit að þið Chelsea-menn munið aldrei viðurkenna það, en rauða spjaldið sem Del Horno fékk var bara fyllilega verðskuldað.

  17. Fótbolti er leikur í 90+ mín (sinnum tveir í meistaradeildinni). Það er rugl að þykjast geta horft framhjá hluta leiksins með því að setja einhver skilyrði sem henta hverju sinni.

    Annars gæti maður velt ýmsu fyrir sér:
    Hefur Barcelona unnið Chelsea ef við horfum bara frá 21 mín til 34 mín?
    Hefur Barcelona unnið Chelsea þegar annar línuvörðurinn er örvhentur en ekki dómarinn?
    Væri Chelsea enskur meistari ef við teljum bara tapleikina þeirra?

Benfica á morgun!

Byrjunarliðið er komið!