Bolton á morgun!

tackling_bolton.jpgGleðilegt nýtt ár, félagar nær og fjær! Í gær unnu okkar menn W.B.A. á heimavelli, á morgun fara þeir síðan yfir á Reebok Stadium, þar sem þeir sækja stórlið Bolton heim og reyna að vinna ellefta sigurinn í röð í deildinni.

Og já, ég sagði *stórlið* Bolton. Þeir eru það, ég held að það sé bara staðreynd. Þeir hafa unnið okkur þrisvar á síðustu fimm árum á Reebok Stadium, að ég held, og hafa meðal annars unnið Arsenal þar í vetur. Þeir töpuðu fyrir Man U í gær á Old Trafford, 4-1, en það breytir því ekki að útileikurinn gegn Bolton er að mínu mati einn erfiðasti leikur sem við spilum yfir allt tímabilið. Þetta er einfaldlega leikur sem við erum jafnvel líklegir til að tapa, ef mið er tekið af síðustu leikjum liðanna.

Hvað liðsuppstillinguna varðar, þá grunar mig einhvern veginn að Rafa fari aftur í 4-5-1 á morgun, til að taka á móti Bolton-liðinu á miðjum vellinum og einnig til að reyna að nýta kantana vel. En þó er ég nokkuð viss um að hann mun stilla því þannig upp að þetta 4-5-1 lið muni eiga mjög auðvelt með að sækja, þannig að það verða sókndjarfir menn inn á milli. Ég spái því að hann stilli eftirfarandi liði upp:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Cissé – Gerrard – Sissoko – Alonso – Kewell

Crouch

Sem sagt, 4-5-1 þar sem hraði Cissé ætti að nýtast okkur vel upp hægri vænginn (Bolton munu pressa til sigurs, þannig að við ættum að hafa svæði til að láta Cissé hlaupa) og einnig munu hann, Kewell og Gerrard allir geta smellt sér inn í vítateiginn hjá Bolton til að hjálpa Crouchie. Þannig að mér fyndist ekkert óvitlaust að stilla þessu svona upp, allavega.

**MÍN SPÁ:** Ég held að við töpum þessum leik ekki. Rafa tapaði þarna í fyrra, og hefur lært sínar lexíur af því. Þetta Bolton-lið er eitt það erfiðasta í Úrvalsdeildinni til að spila gegn, og þeir ná jafnan upp góðri stemningu gegn toppliðunum á eigin heimavelli. Ég held að þessi leikur endi annað hvort **0-0** eða **1-1**, en verði allavega jafntefli. Og ég yrði bara hreint ekkert ósáttur við jafntefli á Reebok Stadium, verð ég að segja.

Leikurinn er klukkan 15 á morgun og er sýndur beint á Enska Boltanum og flestum af bestu öldurhúsum landsins. Þótt flestir byrji að vinna á morgun hvet ég sem flesta til að reyna að ná þessum leik, því hann er mjög áhugaverður og mun sennilega gefa okkur betri vísbendingar en undanfarnir leikir hafa gefið um það nákvæmlega hversu sterkt okkar lið er orðið. Þetta er *alvöru* leikur, erfiður útileikur gegn liði sem er að spila hörkubolta. Ef við vinnum Bolton jafn auðveldlega og við t.d. unnum Everton um daginn, þá skal ég fara að þora að trúa því að við séum orðnir virkilegt topplið í deildinni.

**Áfram Liverpool!**
p.s. – þessi upphitun er í styttra lagi, en það er jú einu sinni nýársdagur. Og minni menn á að lesa *Áramótauppgjörið* okkar hér á Liverpool-blogginu fyrir neðan, og endilega tjáið ykkar eigin val líka. 🙂

13 Comments

  1. Við vinnum þennan leik og ég hugsa að það verði frekar sannfærandi 1-3 kemur uppí kollinn á mér.

    Gerrard, Crouch og Kewell (loksins).

    Sjáumst á Players.

  2. Bjarki – tja, ekki ætti hann að sofa mikið fyrir leiki með þessa gellu hjá sér, er það?

    Arnar – tærnar segja mér ekki mikið þessa dagana. En ég ætla hins vegar að leyfa mér að spá því að Pepe Reina skori sigurmarkið á morgun! :tongue: 😉

  3. Ef hann er með þessari stúlku þá gefur það honum sjálfstraust, ekki spurning.

    Ég á von á jöfnum leik. Sissoko verður alveg pottþétt inná. Þreytan er ábyggilega farinn að segja til sín, eftir 3 leiki á stuttum tíma. Vona samt að við náum að vinna þá.

  4. Þetta er afar viðkunnanleg stúlka í mjög svo þjóðlegum klæðnaði. Það er ljóst að Crouch er að skora á öllum vígstöðvum :laugh:

    Ég er sammála Kristjáni varðandi leikinn sjálfan. Þetta verður gríðarlega erfitt og jafntefli ásættanleg niðurstaða.

  5. Gleðilegt árið!

    Við púllarar eigum aldrei að sætta okkur við jafntefli gegn minni liðum. Liverpool eru á blússandi sigurgöngu og þannig viljum við hafa það áfram.

    Bolton eru ekki nærri eins stabílir núna eins og í fyrra og þeir voru að mínu mati slakir gegn manjú á gamlársdag. Vonandi bara að þeir gefi okkur 2stk mörk í dag eins og þeir gerðu þá.

    Varðandi stúlkuna hans Crouchie þá fer maður að skilja af hverju hann er í svona miklu stuði þessa dagana :tongue:

    1-2 í dag, Gerrard og Kewell með mörkin.

  6. Spurning með Cisse í dag, hann var víst eitthvað aumur eftir leikinn gegn WBA. Kannski Pongolle fái tækifæri?
    Annars vil ég óska öllum gleðilegs árs og velfarnaðar á nýju ári. Nú er gott að hlýja sér í LFC treyjunni. 🙂

  7. Ussum fuss, mér líst ekkert á þessa glyðru sem þið eruð að klína Pétri “litla” á !
    Svona glamúr dúkkur eru ekki til þess fallnar að skapa lífshamingju heldur stuðla að syndum holdsins og hórlífi !
    Pétur ætti frekar að reyna að kynnast einhverri sómakærri stúlku úr innrastarfi klúbbsins !
    Bolton 0-2 Liverpool

    Áfram LFC !

  8. Getur einhver frætt okkur eitthvað um þennan pilt frá Hull sem Liverpool var að fá í sýnar raðir í skiptum fyrir Walsh?

Ársuppgjör 2005!

Bolton 2 – L’pool 2