Newcastle á morgun!

Jæja, gleðileg jól öllsömul! Á meðan við höngum allt of mikið í heimahúsum og étum yfir okkur af smákökum, hangikjöti og uppstúf, og jólaöli eru okkar menn þegar farnir að huga að næsta stórleik í Úrvalsdeildinni. Á morgun kemur stórlið **Newcastle** í heimsókn á Anfield, þar sem þessi tvö lið hafa í gegnum tíðina háð marga ógleymanlega leiki. En ef maður myndi lesa netmiðlana í Englandi síðustu daga gæti maður auðveldlega haldið að Graeme Souness myndi bara mæta með einn leikmann til leiks á morgun: **MICHAEL OWEN**.

Já, Saint Mike er að koma aftur til að spila *á móti* Liverpool. Já, hann skoraði þrennu í síðasta leik og hefur alls skorað 7 mörk í 8 leikjum fyrir Newcastle. Og já, hann kom næstum því til okkar í haust og margir Púllarar vona enn að hann komi til okkar næsta sumar – hreinlega neita að trúa því að hann gæti verið kominn til að vera hjá Newcastle.

En hvað sem því líður, þá er þetta Newcastle-lið frekar skrýtin eining. Þeir hafa vissulega mannsskapinn til að vera topplið, ættu hæglega að geta verið að berjast allavega um fjögur efstu sætin í þessari deild, en síðasta eina og hálfa árið eða tvö árin hafa þeir valdið töluverðum vonbrigðum og hreinlega ekki spilað samkvæmt getu í deildinni. Þeir eiga af og til stórleiki og minna mann á hvers þeir eru megnugir, en eru samt sem stendur í tíunda sæti í deildinni, sex stigum á eftir Liverpool og hafa leikið tveimur leikjum fleira.

Okkar menn hafa núna fengið viku til að jafna sig á vonbrigðunum (eða ráninu, öllu heldur) í Japan og mæta vonandi brjálaðir til leiks á morgun. Það er alveg ljóst í mínum huga að tvennt þarf að gerast; við þurfum að vinna og Michael Owen má alls ekki skora. Bara alls ekki! Sem betur fer erum við með pottþétt úrræði við hæfileikum Saint Mike, en góðvinur hans, sjálfur Jamie Carragher, er í banastuði þessa dagana og þekkir leikstíl Owen betur en nokkur annar leikmaður – fyrir utan kannski Steven Gerrard. Þannig að þótt Carra og Owen muni eflaust þykja skrítið að spila gegn hvor öðrum á morgun, þá treysti ég okkar manni til að klára djobbið og kynna Owen fyrir þeirri óþægilegu tilfinningu sem fylgir því að spila *gegn* Liverpool. 🙂

Hvað okkar menn varðar, þá hef ég pælt dálítið í byrjunarliðinu okkar. Við höfum nær heilan hóp að velja úr í dag (utan Zenden og Mellor sem eru frá), en staðreyndin er samt sú að eftir stórleik morgundagsins þurfa okkar menn að spila strax tveimur dögum síðar gegn Everton á útivelli, í leik sem er óneitanlega stærri og mikilvægari fyrir klúbbinn. Þannig að mér þykir líklegt að Rafa fari einhverjar málamiðlanir í báðum leikjum, reyni að nýta hópinn. Dæmi:

Hamann spilar annan leikinn, Sissoko hinn. Warnock spilar annan leikinn, Riise hinn. Cissé spilar annan leikinn, Morientes hinn. Kewell spilar annan leikinn, García hinn. Og svo framvegis.

Í raun myndi ég segja að þeir Reina, Finnan, Carra, Hyypiä, Alonso, Gerrard og Crouch muni spila báða leikina. Aðrir leikmenn verði látnir rótera, enda eru fjórir leikir á næstu átta dögum og því næg tækifæri fyrir allan hópinn að spila helling. Þannig að ég spái eftirfarandi byrjunarliði á morgun:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Gerrard – Alonso – Hamann – Kewell

Crouch – Morientes

Ef þetta gengi eftir, þá myndu síðan t.d. þeir Riise, Sissoko, García og Cissé koma inn í liðið fyrir leikinn gegn Everton. En við sjáum til, ég er *viss* um að Rafa mun rótera þessu einhvern veginn og nýta sér hópinn og breiddina sem hann hefur úr að velja, það er bara spurning hvers konar róteringar hann kýs.

Við skulum samt búast fastlega við að sjá Carra í liðinu á morgun, enda á Rafa ekki annarra kosta völ. Þið getið rétt ímyndað ykkur svipinn á Carra ef Rafa myndi reyna að segja honum að hann mætti ekki spila gegn Owen. Rafa myndi sennilega fagna áramótunum með glóðarauga. 😉

**MÍN SPÁ:** Við fengum á okkur mark um síðustu helgi og því verður umtalið ekki um það hvort við höldum hreinu eða ekki. Peter Crouch er farinn að skora og því verður umtalið ekki um það hvort hann setur hann á morgun eða ekki. Neibb, nær allt sviðsljósið á morgun mun beinast að því hvort Michael Owen skori gegn Liverpool. Sem ég held að gerist ekki. Ég held að Newcastle-menn muni mæta til leiks hálf passífir, bíða eftir því að Owen geri eitthvað fyrir framan The Kop, og á meðan muni Gerrard, Alonso og co. ganga hreint til verks á miðjunni og skapa okkur sigur. Ég spái **2-0 jólasigri okkar manna** og þeir Gerrard og Crouch skora mörkin. 🙂

Liverpool-leikur á jólunum. Getur það orðið betra? 🙂

6 Comments

  1. Gleðilega hátíð.

    Já þetta verður sigur, það er öruggt.

    Það er næstum ómögulegt að segja til um hvaða lið spilar á morgun…

    Ég er sammála Kristjáni um að Rafa muni rótera ákveðnum hóp af leikmönnum milli leikja núna á næstunni enda nóg að gerast framundan.

    Við VERÐUM að vinna Newcastle (bara af því ég hata Souness) sem og stórsigur gegn Everton myndi vera FRÁBÆR endir á æðislegu ári.

  2. Ég var að lesa jóladagskrá sjónvarpsstöðvanna í Mogganum í gær og þar stóð að leikurinn sé sýndur á Skjá einum? Getur einhver sagt mér hvort að þetta sé prentvilla hjá Mogganum eða satt? Veit einhver?

  3. Nei þetta er ekki prentvilla, Skjár 1 sýnir þessi jól 3 leiki fyrir tilstuðlan einhvers fyrirtækis. Hin fínasta jólagjöf til okkar áhorfenda! 🙂
    Snilld að belgja sig útaf konfekti og leifum af jólamat á morgun, fá sér einn kaldan og liggja flatur uppí sófa horfandi á Liverpool!

  4. Gott framtak hjá Skjá Einum að fá aftur leiki frítt til að brjóta upp þessa kerlingarstöð sem S1 er :laugh:

    Annars vildi ég bara láta vita af því að Newcastle er EKKI með mannskapinn í að berjast um toppsætin. þeir hafa vissulega framherjana en það vantar t.d. ALLA vörn (alveg í þrjár af fjórum öftustu stöðunum) og svo alveg 1-2 miðjumenn. Með Boumsong í vörninni eru andstæðingarnar með pottþétt 2-3 dauðafæri í hverjum leik vegna einhvers gífurlegs klaufaskaps hans. Vonandi gerir hann 3 svoleiðis í dag!
    Liverpool 2 Newcastle 1

  5. Sælir drengir og gleðileg jól og voandi verður árið 2006 ykkur gleðilegt. Ég vill bara þakka fyrir frábæra síðu og gott ár í skriftum hjá ykkur:)
    Liverpool vinnur 3-0 Carra 1, Gerrard og Crouch 1 hvor 😉 Hafið það sem best . Kveðja frá Dk

Gleðileg Jól!

Vidic og Shepherd í jólaskapi