Hugsanleg janúarkaup

Eins og Einar Örn benti á hér í morgun er talið líklegt að Rafa fái einhverjar 10-15 milljónir punda til leikmannakaupa í janúar, og svo virðist sem pressan á honum að kaupa *réttu* mennina sé mikil. Nánast hver einasta grein sem birtist í dagblöðunum í kjölfarið á þessari frétt af innkaupabuddu Rafa hefur minnst á þá félaga Diouf, Diao og Cheyrou, sem Houllier keypti árið 2002 þegar liðið virtist vera svo nálægt því að verða meistaralið, en í stað þess að vera síðasta púslið í heildarmyndina reyndust þeir vera vindurinn sem olli því að spilaborgin hrundi.

Þannig að það er mikil pressa á okkar manni að kaupa réttu mennina, og þannig á það líka að vera. Rafa er ekki óskeikull í leikmannakaupum neitt frekar en einhverjir aðrir (Pellegrino, Josemi að vissu leyti) en ég treysti því samt að hann kaupi réttu mennina. En þá er það bara spurningin, **hvaða menn kaupir hann?**

Það er ljóst að varnarmenn, þá helst miðverðir og/eða hægri bakverðir, og svo hægri vængmenn, eru algjört forgangsatriði í janúar. **Mark Gonzalez** kemur annað hvort í janúar eða næsta sumar á vinstri vænginn, og ég efa að nýr framherji komi til okkar í janúar nema þá ef svo ólíklega vildi til að Djibril Cissé myndi yfirgefa okkur strax.

Ég hef tekið saman svona þau nöfn sem hafa hvað helst verið orðuð við okkur undanfarna tdaga og nú, þegar rétt rúmir tíu dagar eru í opnun leikmannamarkaðarins, getum við kannski skemmt okkur við að líta yfir þennan lista og sjá hverjir myndu sóma sér hjá Liverpool:

**SIMAO SABROSA, Benfica:** Þessa sögu þekkja allir. Hann var nærri því genginn til liðs við okkur í ágúst en af því varð ekki, og síðan þá hefur það verið talið nánast öruggt að hann komi í janúar í staðinn. Velgengni Benfica í Meistaradeildinni hefur hins vegar varpað skugga á það öryggi og nú verður að teljast líklegt að hann verði kyrr hjá þeim til að spila með þeim *gegn okkur* í Meistaradeildinni í vor.
**KALT MAT:** Ólíklegt í janúar, en líklegra næsta sumar.

pennant_birmingham.jpg **JERMAINE PENNANT, Birmingham:** Þetta er eitt athyglisverðasta nafnið á þessum lista, að mínu mati. Frá því hefur verið sagt víða að Liverpool séu nánast búnir að ganga frá kaupum á Pennant fyrir um 5 milljónir punda. Þar sem Pennant er enskur, reyndur í Úrvalsdeildinni, hæfileikaríkur og aðeins 25 ára gamall þá yrði það að teljast frábært verð fyrir hann. Það eina sem maður myndi hafa áhyggjur af er það hversu villtur hann hefur verið í lífinu utan knattspyrnuvallarins, en ef það er einhver sem getur gert mann úr honum þá er það Rafa. Það vita allir hversu góður Pennant er, var keyptur til Arsenal á metfé aðeins 15 ára gamall, spilaði með þeim í átta ár (fyrir utan lánstíma hjá Leeds árið sem þeir féllu) en fór fyrir 18 mánuðum til Birmingham. Þeim sem eiga erfitt með að muna hversu góður Pennant er nægir að benda á tapleik okkar gegn Birmingham fyrir um tíu mánuðum. Þar töpuðum við tvö-núll og Pennant fór á kostum.
**KALT MAT:** Látið ekki koma ykkur á óvart að sjá hann í Liverpool-treyjunni innan tveggja vikna.

**DEAN WHITEHEAD, Sunderland:** Annar ungur, breskur leikmaður sem spilar fyrir eitt af botnliðunum í Úrvalsdeildinni. Whitehead hefur átt fína spretti inn á milli í annars hörmulegu Sunderland-liði í vetur, og þar á meðal skorað nokkur glæsimörk. Hann hefur sýnt það að hann er baráttuglaður, getur skotið með báðum fótum og er góður sendingarmaður. Ekki fljótasti maður sem við gætum fengið á kantinn hjá okkur, en væri góður kostur upp á breiddina. Svo myndi maður aldrei slá hendinni á móti ungum og baráttuglöðum leikmanni.
**KALT MAT:** Líklega bara slúður, en maður veit aldrei.

walcott_southampton.jpg **THEO WALCOTT, Southampton:** Þessi 16 ára gamli miðju- og sóknarmaður er að verða einhver sá eftirsóttasti í ensku knattspyrnunni þessa dagana, en þó hefur maður aldrei séð hann spila. Hann er víst að gera það gott með Southampton-liðinu í Coca Cola-deildinni og hefur verið orðaður við öll stóru liðin í Úrvalsdeildinni, og þar á meðal okkur. Fyrir tveimur mánuðum var talið næsta víst að hann færi til Chelsea, svo átti hann að vera á leiðinni til okkar og þessa dagana er það talið öruggt að hann fari til Tottenham. Auk þessara þriggja hafa Arsenal, Newcastle, Man U og Bolton öll verið orðuð við hann, þannig að það er ljóst að hann hefur úr mörgu að velja. Að vissu leyti er þessi saga stráksins farin að minna á allt slúðrið í kringum Scott Carson fyrir ári síðan. Sá leikmaður var orðaður við hvert einasta lið í toppbaráttunni í Úrvalsdeildinni, og var meira að segja á tímabili alveg pottþétt kominn til Chelsea … en við vitum öll hvar hann endaði, ekki satt? 😉
**KALT MAT:** Algjört happadrætti hvar hann endar, en ef Scott Carson kenndi okkur eitthvað þá er það að Rafa kann að heilla ungu, ensku strákana. Krossleggjum fingur og vonum. 🙂

**STEVEN DAVIES, Aston Villa:** Enn einn ungi, enski miðjumaðurinn. Davies er víst miðjumaður en ekki vængmaður, og hefur víst átt einhverja góða leiki fyrir annars grútlélegt Aston Villa-lið í vetur. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð mikið til hans, en hann var þeirra skásti maður gegn okkur fyrir tæpum tveimur mánuðum. Sjáum til hvað setur, en ég sé ekki í bilinu hvaða not Rafa ætti að hafa fyrir hann.
**KALT MAT:** Gríðarlega ólíklegt, þangað til annað kemur í ljós er hann ekki nógu góður fyrir Liverpool að mínu mati.

**IVAN HELGUERA, Real Madrid:** Þessi þrítugi varnarmaður verður samningslaus hjá Real næsta sumar, og var orðaður við okkur þrálátlega í haust. Það hefur þó eitthvað aðeins dofnað á þeim sögusögnum þannig að maður veit ekkert hvort það er eitthvað í gangi á bak við tjöldin, eða hvort þessi saga er bara dautt slúður.
**KALT MAT:** Líklega ekki. **(Uppfært):** Hann er víst búinn að framlengja samning sinn við Real, þannig að þessi frétt er dauð. Hann kemur ekki.

zebina_juventus.jpg **JONATHAN ZEBINA, Juventus:** Þessi 27 ára gamli franski varnarmaður er gríðarlega góður, og sögur þess efnis að Rafa sé að reyna að semja við Juve um kaupverð á honum fylla mig spennu. Zebina hefur unnið titla með bæði Roma og Juventus í Serie A-deildinni, leikið fjölmarga landsleiki fyrir Frakkland og er mjög leikreyndur maður miðað við aldur. Sú staðreynd að hann getur spilað bæði hægri bakvörð og miðvörð myndi líka reynast okkur gríðarlega vel, þar sem við værum komnir með betra kóver en Josemi í bakvörðin og heimsklassa miðvörð til að létta pressunni af Sami og Carra, á einu bretti. Fabio Capello tók Zebina á sínum tíma með sér frá Roma til Juventus, en þar hefur hann átt erfitt með að vinna sér fast sæti í stjörnum prýddu liði Torino-klúbbsins, og því gæti Capello freistast til að leyfa honum að fara.
**KALT MAT:** Veit ekkert, grunar að hann fái að fara ef rétt verð fæst fyrir hann en hann gæti verið of dýr.

**DANIEL AGGER, Brondby:** Þessi tvítugi danski miðvörður hefur margoft verið orðaður við okkur og eitthvað segir mér að hann komi til okkar á endanum. Spurningin er hins vegar hvenær það verður, og hvort hann sé ekki of dýr til að vera verslaður í janúar. Veit það ekki, *Aggi* er okkar sérlegi sérfræðingur um danska knattspyrnu og hann segir að þessi strákur sé frábær og spennandi kostur fyrir Liverpool, þannig að ég vona bara að hann komi á endanum.
**KALT MAT:** Kemur líklega (vonandi) en sennilega ekki strax í janúar.

**LEDLEY KING, Tottenham:** Fyrirliði Lundúnarliðsins og enskur landsliðsmaður. 25 ára gamall. Getur spilað bæði í vörninni og sem varnarsinnaður miðjumaður. Já, takk! Nei annars, slúðrið í kringum King virðist aldrei ætla að hverfa, hann á í einhverju veseni víst með samningsviðræður við Tottenham og hefur í kjölfarið verið orðaður við okkur og Arsenal, en ég fæ samt einhvern veginn ekki á tilfinninguna að hann muni vilja yfirgefa þetta Tottenham-lið í þeirri uppsveiflu sem þeir eru í núna.
**KALT MAT:** Í fullkomnum heimi kæmi hann til okkar eftir tvær vikur, en í raunveruleikanum yrði hann allt of dýr. Ekki séns, ekki glæta.

**MITT VAL:** Ef við gefum okkur það að Simao komi ekki fyrr en í sumar, og að Ledley King sé allt of dýr, þá væri ég til í að sjá **Jonathan Zebina, Jermaine Pennant** og **Theo Walcott** sem þrjá nýja leikmenn okkar í janúar. Ef Rafa myndi kaupa þá þrjá fyrir peninginn sem frúin í Hamborg gaf honum yrði ég mjög sáttur. 🙂


Þá hafa tveir aðalliðsmenn verið orðaðir við brottför frá liðinu og ég verð að segja að mér finnst líklegt að þeir yfirgefi okkur báðir á endanum. Spurningin er bara hvort það verður strax í janúar, og hvert þeir fara:

**JOSEMI (líklega til Sevilla):** Fréttir herma að Liverpool og Sevilla séu þessa dagana að reyna að komast að samkomulagi um kaupverð á Josemi, en ef þeir samningar nást myndi hann væntanlega snúa aftur til Spánar strax í janúar eftir rétt um 18 mánaða dvöl í Norður-Englandi. Ég er persónulega ekki jafn mikill Josemi-hatari og sumir lesendur þessarar síðu, en hann hefur samt aldrei náð að finna rétta taktinn fyrir Liverpool og er líklega ekki nógu góður til að spila í meistaraliði, þannig að framtíð hans liggur sennilega annars staðar.
**KALT MAT:** Fer pottþétt, en hvort hann fær að fara strax í janúar veltur á því hvort Rafa finnur staðgengil, þar sem það væri óðs manns æði að fara inn í febrúarmánuð með bara einn hægri bakvörð tiltækan.

**JERZY DUDEK (líklega til Benfica):** Dudek er annar sem fer pottþétt, og í ljósi þess að hann vill ólmur vinna aftur sæti sitt sem landsliðsmarkvörður #1 hjá Pólverjum fyrir HM í sumar þá finnst mér yfirgnæfandi líkur á því að hann fari strax í janúar, þótt Rafa vilji sennilega halda honum aðeins lengur. Benfica er eina liðið sem hefur verið nefnt í þessu sambandi, og vissulega myndi það hjálpa okkur talsvert að geta notað Dudek sem tromp á hendi þegar kaupin á Simao Sabrosa eru annars vegar.
**KALT MAT:** Fer pottþétt, og líklega núna strax í janúar, og þá vonandi til Benfica. Ef við látum þá fá Dudek stóraukast líkurnar á því að þeir láti okkur fá Simao Sabrosa í staðinn, en hvort það yrði strax eða næsta sumar verður að koma í ljós. Það yrði þó gríðarlega skrítið að sjá Dudek spila gegn Liverpool í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir tvo mánuði.


Þannig er nú það. Það hafa fleiri nöfn verið nefnd til sögunnar, en þessi eru svona þau sem oftast virðast koma upp í fréttunum þessa dagana. **Hvað finnst ykkur?** Eru einhverjir draumaleikmenn í þessum hópi, eða mynduð þið vilja sjá einhverja aðra koma frekar?

29 Comments

 1. Ég væri til í að fá óþekktarorminn Pennant því 5 milljónir punda er lítill peningur fyrir ungan og fyrir alla muni ENSKAN leikmann! Hann veit alveg hvað þessi level hefur upp á að bjóða þar sem hann var hjá Arsenal og mun koma sterkur inn hjá okkur með sín stórhættulegu hlaup.

  Annars hélt ég að Mark Gonzales væri hægri kantur…eða er jólaglöggið farið að bíta svona harkalega í skorpulifrina mína? :biggrin: Best að komast ekki upp á kant við hann svona áður en hann kemur! :laugh:

  Ég vil allavega fá sterkan varnarmann til okkar hvað sem það kostar. Við gætum nýtt okkur 10 milljónir í varnarmanninn ef Pennant kæmi á 5 milljónir. Jafnvel væri hægt að henda upp í kaupin á Pennant eins og t.d. einu stykki Neil Mellor og fá Pennant á 3-4 milljónir því Neil Mellor gerir ekki G.Ö.R.N. hjá okkur í náinni framtíð ef einhvern tímann.

 2. Málið með Gonzalez var þvílíkt að flækjast fyrir okkur hér í sumar, en það er komið á hreint að hann er *vinstri vængmaður* … 🙂

 3. Helguera er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við Real Madrid, þannig að það er óhætt að taka hann útaf þessum lista. 😉

 4. “Speedy” hefur verið að spila báða kanta, hann er nokkurn veginn jafnfættur að mér skilst, og að því leiti sambærilegt við Simao. Sá er réttfættur, en jafnan notaður á vinstri kanti. Þannig að hvort hann sé hægri eða vinstri kantur, það fer bara eftir hentugleika hverju sinni. 🙂

 5. Ókei, ég hef misst af þeim fréttum að Helguera hafi framlengt. Uppfæri fréttina samkvæmt því.

  Og jú, Gonzalez er vinstrifótarmaður en ætti samt að geta spilað báðum megin (eins og reyndar Kewell og Zenden). Lionel Messi hjá Barcelona er einhver einfættasti vinstrifótarmaður í Evrópu í dag, en það er leitun að betri *hægri* vængmanni … þannig að það er allt hægt svo sem. 🙂

  Hverja af ofantöldum myndir þú vilja sjá hjá Liverpool, Steini?

 6. Hvað með hægri vængmannin hjá Betis? Joaquin hefur hann ekki lengi verið í umræðunni. Hann myndi að mér finnst vera álitlegur kostur á hægri kantinum.

 7. Súperdóri: Ef Rafa fær aðeins 10-15 millur til að kaupa þá er ekki séns að við fáum Joaquin. Betis selja hann aðeins fyrir 15+

 8. Betis komst ekki áfram í sextánliða úrslit meistaradeildarinnar og eru ef fram heldur sem horfir að fara að falla í aðra deild á Spáni þannig að ég get ekki séð hvernig þeir eiga að fara fram á það að fá 15+ fyrir Joaquin! Þeir gætu því varla neitað tilboði upp á 7-10 miljónir punda.

 9. Pennant lofar góðu og getur enn bætt sig. Ég hugsa að Rafa gæti hæglega skikkað þennan dreng :biggrin:

 10. Svona póstar eru akkúrat ástæðan fyrir því að ég heimsæki þessa síðu á hverjum degi. Frábært.

  Rafa talar um að leikmannakaup séu eins og að vera með borð með þremur fótum og ætlunin er að kaupa fót sem passar akkúrat undir borðið.

  Jermaine Pennant er hæfileikaríkur leikmaður ekki nokkur spurning um það en ég set stórt spurningarmerki við karakterinn hans og efa að Rafa vilji fá einhvern vandræðagemsa í þennan annars ágæta móral sem virðist ríkja hjá liðinu núna.

  Steven Davis var að skrifa undir 3 og hálfs árs samning við Aston Villa samkvæmt Soccernet þannig að það er ólíklegt.

  Af þeim leikmönnum sem nefndir eru hér að ofan er ég spenntastur fyrir Sabrosa og vona eindregið að sú kaup hafi verið frágengin áður en dregið var í 16 liða úrslitin.

 11. Ég er sammála öllu NEMA Jermain ‘vesen’ Pennant.. No thanks!

  Dæmi um leikmenn sem ég vil sjá hjá Liverpool.

  Fabricio Coloccini = 5-7m
  Luciano Zauri = 5m
  Daniel = Hugsanlega láta Josemi skipta + 3-5m
  Nigel De Jong = 4-6m
  Fernando Varela = 4m
  Steed Malbranque = 5,5m
  Wayne Routledge = 2-4m
  Hasan Salihamidzic = 3-5m
  Mahamadou Diarra = 5m
  Denny Landzaat = 3m
  Darijo Srna = 3-4m

 12. Arnar, þú ert greinilega með þetta allt á hreinu.

  Annars hefur mér alltaf verið mein illa við Pennant. Hann hefur hæfileikana en ekki hausinn. Ég vill ekki upplifa einhverja Diouf marttröð aftur. Maður hreinlega skammaðist sín fyrir hans hönd eftir hvern skandalinn að fætur öðrum.

  Einnig hefur hópurinn virkað léttur og mórallinn virðist vera á góðu róli, afhverju að fá annaláðan PÉSA til liðs við okkur.

  Ég veit svo sem að 5.M. er ekkert verð fyrir enskan mann með þessa hæfileika en ég er samt ekki viss um að ég vilji taka sénsinn á honum. Ég elska LFC og það fer ekkert meira í taugarnar á mér en menn sem ekki gefa sig alla í leikna er þeir klæðast treyjunni. Hvað þá þegar þeir gera lítið úr klúbbnum A´la Diouf.
  😡

  Simoa hljómar vel og ég væri meir en lítið til í að sjá hann á Anfield.

  King er trúlega of dýr eins og þið segið en djöfull væri gaman að fá hann.

  Agger. Ég hef heyrt rosalegar sögur af þessum strák og væri alveg til í að sjá hann hjá okkur.

  Walcot. Er greinilega mikið efni en ef verðið á honuum fer uppúr öllu valdi í kapphlaupinu um hann þá veit ég ekki hvort ég vilji sjá hann.

 13. Ekki það að þessi saga komi ekki upp um alla leikmenn, sem hafa verið orðaðir við okkur – en ég hef lesið það á fleiri en einum stað að fjölskylda Walcott og jafnvel hann sjálfur séu miklir Liverpool stuðningsmenn. Þannig að það ætti að gefa okkur betri sjens.

  Hann þarf svo bara að horfa á það hvernig SWP gengur hjá Chelsea til að sjá hvernig getur farið með unga enska leikmenn hjá því ágæta liði.

  En ég væri alveg til í að sjá Zebina, Simao, Walcott. Já, og fjandinn hafiþað, Pennant.

 14. Jahh, þegar stórt er spurt þá…er reyndar stundum enginn hörgull á svörum :biggrin2:

  Ef ég renni aðeins í gegnum listann þinn, þá er mitt mat svona:

  Simao Sabrosa:

  Mitt val númer eitt. Hvers vegna? Joaquin er góður og allt það og ég væri alls ekkert svekktur með að fá hann, en… ég kýs Simao vegna þess að:

  1. Hann getur spilað á báðum köntum, enda nánast jafnfættur (þó svo að sá hægri sé aðeins sterkari). Hann hefur sýnt það að hann er eitraður með skotin sín þegar hann hleypur inn af vinstri kanti, en er með afar góðar fyrirgjafir þegar hann spilar á þeim hægri.

  2. Hann er mikill leader á velli, ólíkt Joaquin. Mikill persónuleiki að mér skilst, enda búinn að vera fyrirliði Benfica og er hann nú ekki gamall.

  3. Föst leikatriði. Einfaldlega þrái að eiga svona aukaspyrnusnilling. Klárlega á topp 5 í Evrópu er það varðar. Einnig höfum við ekkert verið að drukkna úr góðum hornspyrnum, þrátt fyrir að vera með allan þennan potential inni í teig með þessa skallakalla okkar.

  4. Mjög lipur og góður að taka menn á. Svipað og Joaquin, en sá síðarnefndi er kannski með örlítið meiri hraða og er reyndar betri í að taka menn á líka. Simao er þó afar góður í því.

  5. Hann er falur fyrir viðráðanlega upphæð. Það er alveg ljóst að Joaquin fer ekkert á undir 20 millur punda. Real Madrid hafa nokkrum sinnum reynt að fá hann, en alltaf fengið neikvætt svar. Um leið og hann verður falur, þá ríkur verðið á honum upp, alveg sama þrátt fyrir að Betis séu ekki að meika það. Betis eru samt betur staddir fjárhagslega núna en áður, því þeir hafa náð peningum út úr því að komast í CL í fyrsta skipti og eru í UEFA keppninni áfram. Benfica hafa sett upp show, þar sem þeirra menn eru að skiptast á að segja Simao til sölu eða ekki. Held að þetta mál sé komið mun lengra en menn halda, og Rafa hefur leikið sama leikinn með Dudek. Vona svo sannarlega að við sjáum Simao í treyju númer 11 í janúar. :biggrin:

  Jermain Pennant:

  Er alveg til í að taka þennan strák. Afar hæfileikaríkur og væri mjög gott backup. Hann er skruggufljótur og leikinn, með góðar fyrirgjafir. Vandamálið hans hefur yfirleitt ekki verið vegna on the field hluta, né það að hann sé uppi á kant við þjálfara. Nei, þau hafa verið vegna áfengisneyslu og þess háttar utan vallar. Hann er á skilorði, og það yrði klárlega bundið í samningi við hann að hann þyrfti að halda sér clean. Ég held að svona strákur sé búinn að snúa við blaðinu eftir að hafa þurft að leika með tækið á ökklanum og farið í meðferð. Klárlega myndi ég telja þetta góð kaup.

  Dean Whitehead:

  Hef séð nokkra leiki með honum, og finnst hann bara akkúrat ekkert sérstakur. Það er ekkert erfitt að líta út fyrir að vera yfirburðamaður í liði eins og Sunderland, en hann hefur samt ekkert verið að gera það. Held að þetta séu bara slúðursagnir til að bæta við einhverjum nýjum nöfnum.

  Theo Walcott:

  Gríðarlegt efni, 16 ára. Eeeen. Það væri þvílíkt rugl að taka séns með að borga einhverjar 9 millur punda fyrir hann, eins og verið er að quota. Að sjálfsögðu vil ég fá hann. Vonandi að strákurinn þrýsti sjálfur á að fara frekar til okkar á lægri upphæð, heldur en að fara til Chelsea á met upphæð og taka SWP á þetta. Sjáum hvað Carson gerði. Það er engin þjóðsaga með fjölskyldu Walcott. Rauð í gegn.

  Steven Davies:

  Ekki séns. Nýbúinn að skrifa undir samning við Villa, og ekki mega þeir nú við að selja leikmenn. Held að hann sé orðaður við okkur eingöngu út af því að Man.Utd hafa verið orðaðir við hann og það er verið að “búa til” samkeppni um hann í blöðunum.

  Ivan Helguera:

  Búinn að svara því áður. Nýbúinn að skrifa undir samning og fer því ekki fet.

  Jonathan Zebina:

  Væri reyndar til í nafna hans Woodgate, ef hann gæti sýnt fram á að haldast heill í svolítinn tíma. En Zebina er alveg klassa varnarmaður og fyllir okkar kræteríu algjörlega, þar sem hann er bæði afar sterkur sem hægri bakk og eins í miðverðinum. Já takk.

  Daniel Agger:

  Mitt val númer eitt. Vil bara fá þennan strák núna strax í janúar. Hefur algjörlega heillað mig með leik sínum og hef ég nú séð þá þó nokkra. Takk Rafa, act now.

  Ledley King:

  Ekki séns. EKki það að ég vilji ekki fá hann, hann er bara ekkert að fara og hvað þá til keppinautarins. Tottenham er á uppleið og hann er bara ekkert á leiðinni þaðan.

  Ég gæti vel trúað því að Rafa fengi 3-4 menn í janúar. Ef þetta yrðu þeir Simao, Pennant, Agger og Zebina, þá yrði ég aaaalsæll :biggrin:

  Ég er líka á því að það gæti orðið innan þess ramma sem Rafa er með. Simao kemur fyrir um 10 milljónir punda, gætu orðið 7 ef tekst að semja Dudek upp í kaupverðið. Pennant kæmi á 4-5, Agger á c.a. 4 og Zebina ekki á hærri upphæð. Með því að fá 2 fyrir Josemi, sem allt virðist stefna í, þá erum við að leggja út 16-17 milljónir punda. Það held ég hreinlega að sé til í koffortunum hjá Rafa núna.

 15. Damn, ég held að ég hljóti að hafa sett met þarna í “lengsta svari” á þessari síðu :confused:

 16. Fyllilega sammála þér Ssteinn. Þetta eru ekkert slæm nöfn sko. En er ekki of mikils til ætlast að við fáum 3-4 leikmenn í janúar, er það ekki bara of mikið? Eru ekki 1-2 leikmenn raunhæfara?

 17. Ekki ef þetta eru réttir “borðfætur” sem eru falir fyrir rétt verð. Tveir út og 4 inn. Held að það sé ekkert svo óraunhæft.

 18. He he, hér kemur hún:

  Mín ósk er Simao, Zebina og Agger (miðað við að Josemi fari)

  Svo yrði það plús að fá annan hvorn (eða báða) Pennant og/eða Walcott (en bara draumur með þann seinni).

  Úff, ætlaði að hafa þetta bara eina línu, en get bara ekki hamið mig :rolleyes:

 19. Ég verð að segja að ég er alls ekki hrifinn af því að fá JERMAINE PENNANT enda er tölfræði hans ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Frá árinu 2001 hefur hann spilað 112 leiki í öllum kepnnum þar af 94 sem byrjunarmaður, hann hefur skorað 9 mörk í þessum 112 leikjum og lagt upp 14 mörk þar af 7 þegar að hann lék með Leeds árið 2003/2004. mér persónulega finnst þetta léleg tölfræði og skil ekki hvað menn sjá við hann. Hann tekur allar hornspyrnur og aukaspyrnur hjá Birmingham og hefur skorað eitt og lagt upp 3 mörk í 19 leikjum. ég væri til í 2 leikmenn af þessum lista LEDLEY KING og SIMAO SABROSA. Væri til í eitthvað stórt nafn svona einu sinni.

 20. Svona eins og einn Juan Veron kannski? Held að það sé ekkert fengið með því að spreða peningum bara til að geta keypt “stórt” nafn. Við vinnum ekkert á nafni, hversu stórt það er. Er afar ánægður með Rafa að hann hugsi meira um að kaupa mann sem hentar inn í liðið og þá hugsun sem hann er að búa til, frekar en að hafa nafnið sem stærst. Nei, ég væri til í að eyða 20 milljónum punda í þessa fjóra sem ég taldi upp hérna áður, en að kaupa eitt stórt “nafn” á 28 milljónir punda, sem gæti svo floppað stórt.

 21. wallcott er flottur leikmaður sá leik southampton – luton þar sem wallcott spilaði sem striker og skoraði eitt glæsi mark. Það væri flott að fá hann í januar þó hann sé svona ungur.

 22. Persónulega held ég að Pennant yrði ágætur kostur. Þó svo að ég hafi nú kannski ekki séð mikið með kauða, þá hefur mér alltaf fundist hann væri ágætur þegar hann hefur fengið að spila. Það var nú bara samt þannig mál með vexti að hjá Arsenal fékk hann fáa sénsa þar sem að fyrir var Freddie Ljungberg á hægri kanti. Og annað með hann, þá er hann 22 ára (83′ módel), en ekki 25 ára eins og kom fram hjá Kristjáni Atla í færslunni.

  Hvað Theo Walcott varðar, þá veit ég ekkert meira um hann heldur en Freddy Adu… semsagt bara word of mouth. Hef aldrei séð þá spila. Geri ráð fyrir því samt að hann kunni nú eitthvað í knattspyrnu. Bretarnir eiga það nú samt til að blása upp einhverja unglinga.

  Ég er hins vegar ósammála Eika Fr sem vill losa sig við Neil Mellor, því persónulega held ég að hann sé betri leikmaður en Peter Crouch (ég meina… hann skoraði nú tvö ágætlega mikilvæg mörk… Olympiakos og svo á móti einhverju Lundúnaliði sem menn sjá kannski í auglýsingum Enska boltans
  🙂 )

  Eins og liverpool er samt að spila núna þá þarf í rauninni engan leikmann sem færi beint í byrjunarlið. Þarf þá helst að breikka hópinn, sem er nú samt ágætlega stór fyrir.

  Ef maður tekur hverja stöðu fyrir sig
  Mark: Reina, Dudek, Carson
  Hægri b: Finnan, Josemi
  Vinstri b: Riise, Traoré, Warnock
  Hafsent: Hyypia, Carragher, Traoré getur spilað.
  Miðja: Gerrard, Sissoko, Hamann, Alonso!!
  Vinstri K: Riise, Kewell, Garcia
  Hægri K: Gerrard, Garcia
  Sókn: Cissé, Morientes, Crouch, Pongolle.

  21 manns. Persónulega vil ég líka setja Mellor þarna, en sumir yrðu kannski ekki sammála mér.

  If it ain’t broke, don’t fix it

  P.S. Að vísu hafa liverpool verið mjög heppnir meiðslalega séð (þá í vörninni, veit með alonso, gerrard í fyrra og zenden í ár), þar sem að maður veit ekki alveg hvað myndi nú gerast ef carragher og hyypia myndu meiðast (weirder things have happened)

 23. Það er rétt hjá þér Sverrir, “ef það er ekki blankt, þá skal ekki breyta því”.

  Geri samt ráð fyrir því að þú meintir “If it ain’t broken, don’t fix it”.

  Muhahaha
  Stafsetningarpúkinn strikes again. :biggrin:

  Annars varðandi Pennant. Þar fer frekar treggáfaður einstaklingur á ferð, en aftur á móti held ég að hann sé góður á vellinum. Nú hafa menn rætt um það í haust að Crouch og Nando þurfi á betri aerial þjónustu inn í teiginn. Hér eru tölur yfir fjölda krossa inní boxið í Úrvalsdeildinni skv. tölum frá http://www.premierleague.com.

  1. Pennant (Birmingham)……..108
  2. Milner (Aston Villa)……………72
  3. Greening (West Brom)……….70
  4. Gerrard (Liverpool)……………63
  5. Etherington (West Ham)………52

  Þetta er alveg magnað. Þetta segir reyndar ekkert um gæði krossanna en segir samt það að Steve Bruce þykir þeir allavega nógu góðir til að leyfa honum að framkvæma svona marga. Ég held að hann gæti alveg virkað í liðinu, en það fer alveg eftir persónuleika hans og ég treysti Rafa til að meta það.

 24. Þetta eru alltaf skemmtilegar pælingar, hvaða leikmenn koma??? Því miður er samt yfirleitt megnið af þessum fréttum slúður.

  Varðandi þá leikmenn sem nefndir eru þá líst mér best á Simao og Zebina. Þetta eru leikmenn í toppklassa, þeir eru að spila með sterkustu liðum Ítalíu og Portúlgals, þ.e. eru þegar að spila á hæsta leveli og vita því hvað þarf til að ná árangri. Mjög líklegt að hugafarið sé rétt, eins og Benitez leggur MIKLA áherslu á.

  EN hvað Pennent varðar þá hefur sá drengur kollinn EKKI í lagi, það er ekki rétt að hann hafi bara verið til vandræða utan vallar, heldur mætti hann fullur á æfingu hjá Birm í vetur og var rekinn heim. Hljómar eins og næsti Best nema bara mörgum klössum lélegri leikmaður.

  Því get ég ekki séð afhverju Pennant sem er ekki góður atvinnumaður, ætti að koma þegar Beinitez talar um að sá leikmaður sem hann leitar að verði að vera góður atvinnumaður og með kollinn í lagi.

  Gefur meistara Benitez orðið: “Þú veist kannski að einhver sé góður leikmaður en maður verður líka að fræðast um persónuleika þeirra og hversu góðir atvinnumenn þeir eru. Ég vissi að Pepe væri mjög jákvæður að eðlisfari og að Momo myndi leggja hart að sér.”

  Hér hittir Paco Ayesteran hægri hönd Rafa Benítez í mark: “Hann er greinilega maður með metnað og telur að liðið þurfi enn meiri bætingu og að liðið BÆTI VIÐ SIG ENN BETRI leikmönnum”. (úr viðtali á liverpool.is)

  Ég er ekki sammála því að kaupa leikmenn á bekkinn til að auka breiddina. Sú speki hefur nú ekki reynst okkar liði vel síðustu árin. Hver man ekki eftir samansafninu af meðalmönnum undir lok Húlla tímabilsins. Það má ekki gerast aftur, og til að svo verði þá á LFC að kaupa gæða leikmenn, helst leikmenn sem eru betri en þeir sem fyrir eru hjá liðinu(í þeirri stöðu sem við á).

  Ef menn lesa viðtöl við gömlu meistarana þá var sá hugsunarháttur til staða hér áður fyrr (að kaupa jafna góða eða betri leikmenn en fyrir voru hjá LFC). Þetta jók á samkeppnina um sæti í liðinu, sem skilaði sér í framförum hjá leikmönnum og frekar mörgum titlum.

  Annars treysti ég Benitez og hans mönnum alveg 100% fyrir þessu, miðað við kaupa sumarsins þá eru útsendarar okkar að skila góðri vinnu.

  Kveðja
  Krizzi

 25. Þetta góð grein og jafnvel betri ummæli hjá lesendum síðunnar (SStein fer á kostum).

  Daniel Agger er klárlega kaup sem munu nýtast til framtíðar sem og sá drengur hefur burði til að vera einn sá besti í Evrópu.

  Simao er leiðtogi á vellinum, fyrirliði Benfica og mikla reynslu. Ef hann kemur fyrir minnan en 10 mill. og Dudek fer hina leiðina þá er það góður buisness. Þrátt fyrir að hann geti ekki spilað í CL þá skiptir það Rafa engu. Hann hugsar lengra.

  En hvað með leikmann eins og Steed Malbranque? Ég hef ávallt verið hrifinn af honum og finnst hann t.d. mun meira spennandi en Pennant. Við höfum ágæta reynslu á að kaupa leikmenn frá Fulham í Steve Finnan.

  En aðalatriðið hlýtur að vera að finnan miðvörð sem getur hvílt Hyypia og/eða Carra.

 26. Er ekki líka verið að tala um Nemanja Vidic, Serbíu/Svartfellinginn hjá Spartak Moskvu? 24 ára en ekki mikið meira sem maður veit um hann, held hann sé samt miðvörður.

 27. Zebina hefur ekki spilad fjolmarga landsleiki fyrir Frakka. Ef hann hefur spilad einhverja eru teir teljandi a fingrum annarar handar, eg myndi segja i mesta lagi 1.

Stóra jólakortamálið

Ehmmm