Sao Paulo heimsmeistarar! (uppfært)

wcc_saupaulo_lfc_head.jpgÞetta voru sannkölluð vonbrigði. Nú í morgunsárið töpuðu okkar menn í Liverpool 1-0 fyrir Sao Paulo frá Brasilíu í úrslitaleik Heimsmeistarakeppni félagsliða í Yokohama í Japan. Þessi tapleikur var í meira lagi pirrandi og svekkjandi, og er af nógu að taka, þannig að við skulum bara fara skipulega í þetta:

Í fyrsta lagi, þá kom Rafa mönnum á óvart og setti bæði Djibril Cissé **og** Peter Crouch á bekkinn í dag, og hóf leikinn þess í stað með Fernando Morientes einan frammi. Byrjunarliðið leit annars svona út:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Gerrard – Alonso – Sissoko – Kewell
García
Morientes

BEKKUR: Dudek, Josemi, Traore, Riise, Hamann, Pongolle, Cisse, Crouch.

Ókei, byrjunarliðið er komið frá, og þá skulum við bara strax koma næsta lið frá. Ég vill síður en svo að fólk komi inn á þessa síðu, lesi þessa leikskýrslu mína í dag og haldi að við Liverpool-menn séum *tapsárir*. Síður en svo, en engu að síður hefur maður yfir nógu að kvarta. Þannig að í stað þess að láta alla leikskýrsluna snúast um kvart og kvein ætla ég bara að koma því frá hérna:

1. Þetta brasilíska lið olli mér miklum vonbrigðum. Fyrir leikinn hafði þjálfari þeirra nær eingöngu talað um það hversu varnarsinnað lið Liverpool væri, að Sao Paulo-menn byggjust við að þurfa að sækja allan tímann og sækja sigurinn hart. Ónei, annað kom sko á daginn. Eftir 25 mínútur voru þeir komnir yfir og eftir það var bara eitt á dagskránni hjá þeim: vörnin. Að sjá hvernig þeir héngu í vörn og dældu boltanum fram aftur og aftur í síðari hálfleik var hreinlega til skammar. Auðvitað unnu þeir leikinn þökk sé þessari taktík og allt það, og eiga þannig séð sigurinn skilinn, en það skal enginn segja mér að þetta hafi verið knattspyrnunni til framdráttar. Ekki séns. Og að **brasilískt** lið skuli haga sér svona er bara eitthvað sem ég hef aldrei séð áður. Stórfurðulegt, og alveg ömurlegt að þurfa að horfa upp á liðið manns tapa fyrir svona heigulskap. Gérard Houllier var oft gagnrýndur fyrir að láta Liverpool spila of varnarsinnaðan bolta en hann stillti *ALDREI* upp svona varnarmúr í úrslitaleikjum um bikara. ALDREI!

2. Dómgæslan. Sko, við skoruðum þrjú mörk í þessum leik og þau voru öll dæmd af okkur. Fyrsta markið var tæpt en ókei, réttur dómur. Annað markið var svo pottþétt réttur dómur, García var rangstæður (naumlega, en þó). Þriðja markið, *einni mínútu fyrir leikslok*, var hins vegar fyllilega löglegt! Dómari leiksins rændi okkur jöfnunarmarkinu. Svo í uppbótartíma var greinilega brotið á Harry Kewell innan teigs en hann þorði ekkert að dæma. Aftur vorum við rændir! Þess fyrir utan þá var alveg ömurlegt að sjá dómarann aftur og aftur falla í þá gryfju að dæma á hverja einustu litlu snertingu Liverpool-manna, vegna þess eins að Brasilíumennirnir voru ótrúlega duglegir að láta sig falla í grasið. Menn virtust slasast lífshættulega við minnstu snertingu – ég átti svo sem von á því af þessu liði (hafði heyrt af því að þeir gerðu þetta) en það var alveg svakalegt að sjá þetta. Og dómarinn dæmdi á **allt** sem þeir báðu um. Ömurleg dómgæsla hjálpaði okkur ekki í þessum leik, síður en svo, og þegar mest reið á vorum við rændir löglegu jöfnunarmarki **og** vítaspyrnu í uppbótartíma. Æðislegt!

3. Hvers vegna var Diego Lugano ekki rekinn útaf í þessum leik? Og nei þá er ég ekki að tala um tæklinguna hans á Gerrard í síðari hálfleiknum – hann var ekki síðasti maður og því var gult spjald rétt ákvörðun – heldur um leikaraskapinn hans í fyrri hálfleiknum. Hann hafði greinilega gert eitthvað til að reita Fernando Morientes til reiði því um leið og boltinn fór úr leik við hliðarlínuna hljóp Morientes beint uppað honum og sagði nokkur vel valin orð við hann. Lugano brást við þessu … með því að henda sér niður og grípa um andlit sér, eins og Morientes hefði skallað eða kýlt hann. Í endursýningunni sást að dómarinn horfði á atvikið og féll ekki fyrir bragði Lugano, Morientes slapp án refsingar. En hvað þá? Ef dómarinn metur það svo að Lugano hafi verið að leika þetta atriði frá A til Ö, **hvers vegna fékk maðurinn þá ekki rauða spjaldið fyrir viðbjóðslegan leikaraskap???** Í hvaða fáránlega heimi fellur þetta ekki undir leikaraskap af verstu gráðu? Fáránlegt … þeir áttu að vera manni færri frá þessu augnabliki, að því gefnu að dómarinn hafi séð þetta (sem endursýningin sýndi).


Jæja, leikurinn. Hann fór frekar skringilega af stað – eftir rétt um 50 sekúndur var Gerrard búinn að gefa fyrir og Morientes skallaði rétt framhjá. Í kjölfarið kom einhver **asni** (hver nennir þessu?) inná völlinn og hengdi sig utan í netið á markinu bak við Rogerio Ceni, svo að það tók einhverjar 4-5 mínútur að fjarlægja hann og svo laga netmöskvana í markinu. Æðislegt.

Eftir það var þetta hálfgerð lognmolla, það var barátta í báðum liðum og spilið einkenndist af miðjumoði. Það var einhver deyfð yfir báðum liðum alveg þangað til þarna á 25. eða 26. mínútu, er Aloisio fékk boltann óáreittur á miðjunni og sendi háan bolta innfyrir vörn Liverpool. Þar kom hægri vængmaðurinn Mineiro aðvífandi og tók við boltanum, og renndi honum rólega framhjá Pepe Reina í markinu. 1-0 fyrir Sao Paulo og rúmlega ellefu leikja markaleysi varnarinnar hjá okkur lokið.

Í kjölfarið sýndu myndavélarnar hvar Sami Hyypiä var að taka á sig markið og biðjast afsökunar á slökum varnarleik, og ég held það hafi verið alveg rétt. Þótt það sé náttúrulega *alltaf* bakvörðurinn sem eigi að elta kantmanninn, þá á hann ekki að láta hann teyma sig út úr stöðu. Warnock gerði rétt í að elta hann inn að miðjunni en svo átti Hyypiä að taka við honum, en í stað þess að elta manninn fór hann í að reyna að stíga hann út, allt of seint, þannig að hann komst innfyrir og var á auðum sjó með boltann. Sami hefur spilað frábærlega í haust fyrir Liverpool, en hér gerði hann sig sekur um slæm mistök.

Í kjölfarið á þessu marki kom svona fimm mínútna kafli þar sem Brasilíumennirnir sóttu meira og virtust jafnvel ætla að bæta við marki, en okkar menn virtust sjokkeraðir og áttu erfitt með að ná tökum á leiknum. Á endanum gekk það þó og eftir því sem leið á hálfleikinn sóttum við meira og meira, svo að undir lokin var þetta orðin hálfgerð nauðvörn hjá Sao Paulo-liðinu.

Í síðari hálfleik var svo strax ljóst í hvað stefndi. Leikurinn hófst og Sao Paulo-liðið bakkaði **strax** alveg aftur að eigin vítateig, með Amoroso einan einhvers staðar í miðjuhringnum að reyna að vera fyrir varnarmönnum Liverpool. Við tók 45 mínútna sókn þar sem við áttum á endanum tuttugu skot að marki og einhverjar sautján hornspyrnur að mig minnir, og þar af átti Luis García sennilega svona tíu skot einn síns liðs, en allt kom fyrir ekki og Sao Paulo-menn fögnuðu ákaft í leikslok, enda nýkrýndir Heimsmeistarar félagsliða.

**MAÐUR LEIKSINS:** Liðið lék ekkert illa í dag, en heldur ekkert vel. Reina hafði *ekkert* að gera, nema að hirða þennan eina bolta úr netinu, og það reyndi ekkert á vörnina eftir að markið kom. Sami Hyypiä fær bágt fyrir markið en að öðru leyti er lítið hægt að kvarta yfir þeim, nema þá helst að maður hefði viljað sjá Warnock og Finnan vera virkari í sókninni í seinni hálfleik.

Á miðjunni byrjaði þetta erfiðlega en okkar menn náðu á endanum tökum á þessu. Alonso og Sissoko voru lítið með framan af en í síðari hálfleik voru þeir nánast einir á miðjunni, þar sem allir miðjumenn Sao Paulo héngu bara í vörn. Steven Gerrard var út um allt að leita að glufum en ekkert gekk, Luis García einnig og frammi var Fernando Morientes borinn ofurliði gegn *fjölmennri* vörn Brasilíumanna.

Í raun fannst mér við bara vera að sækja vel á einum stað í leiknum, og það var úti á vinstri vængnum. **Harry Kewell** tók Cicinho gjörsamlega í bakaríið í þessum leik og sýndi gamla takta sem maður hefur ekki séð til hans lengi. Hann fór hvað eftir annað framhjá þeim brasilísku og upp að endamörkum, dældi hverri fyrirgjöfinni á fætur annarri fyrir en þar var jafnan enginn til að fylgja þeim eftir. En allavega, Harry Kewell átti að mínu mati stórleik í dag og það er eiginlega eini bjarti punkturinn í þessu að geta – í fyrsta sinn í sögu þessarar síðu, að ég held – sagt eftirfarandi orð: *Harry Kewell var maður þessa leiks!*


Hvað tekur svo við? Eh, þetta var jú bara einn leikur um bikar og svekkjandi að tapa honum, en þetta hefur (vonandi) ekki nein áhrif á restina af tímabilinu. Okkar menn fljúga heim í nótt eða á morgun og vinna svo að því að snúa sólarhringnum við fyrir jólin. Á annan í jólum, eftir átta daga, er svo næsti leikur á heimavelli gegn Newcastle. Michael Owen og Co. eru á leiðinni í heimsókn og þá *verðum* við að gjöra svo vel og ná okkur á strik aftur, þar sem við erum í bullandi séns í deildinni (sérstaklega ef Arsenal vinnur Chelsea í dag, sem ég er að vona).

Við aðdáendurnir getum hins vegar hlakkað til jólanna … alltaf gaman þegar Liverpool-liðið tapar leik og fer svo í smá pásu. Það þýðir að aðdáendur annarra liða geta strítt okkur í heila viku … gaman …


**Uppfært (Einar Örn)**: Já, ég hef svosem ekki miklu við þetta að bæta. Er sammála öllu, sem þú segir þarna, Kristján. Þetta var *gríðarlega* ósanngjarnt og sorglegt að sjá brasilískt lið spila svona bolta.

Við áttum auðvitað að klára eitthvað af þessum færum, en það hjálpar svosem ekkert sérstaklega þegar að dómarinn hagar sér svona furðulega. Það er í raun erfitt að vera fúll útí liðið. Við yfirspiluðum Suður-Ameríkumeistarana mestallan tímann og það segir sína sögu að staðan í hornspyrnum var 17-0. Já já, ég veit að við vinnu ekki leiki á hornspyrnum, en þessi tölfræði segir sína sögu.

Þetta var bara einn af þessum leikjum, þar sem vantaði alltaf smá heppni uppá að markið myndi detta.

En það mikilvægasta núna er að þetta drepi ekki niður í þann frábæra takt, sem var kominn í þetta Liverpool lið. Einu viðbrögðin við þessu er að taka Newcastle á Anfield á annan í jólum. Og ég hef fulla trú á því að þetta lið muni jafna sig á þessu og koma bandbrjálaðir í næsta leik.

29 Comments

 1. Já sammála þessu held ég bara.

  En talandi um hornspyrnur, af hverju í fjandanum kemur ekkert út úr hornspyrnum hjá okkur þessi misserin? Og þá meina ég síðustu tímabil. Það gerist ekkert hjá mér þegar við fáum hornspyrnu, álíka spenningur hjá mér og þegar við fáum innkast. Er þetta ímyndun hjá mér eða hverslags er þetta bara eiginlega! Er þetta kannski svona hjá öllum/flestum liðum þessi misserin? Eru hornspyrnur hættar að vera “hættuleg” föst leikatriði?

  Lífið… :confused:

 2. Þrátt fyrir að við þurrkum út allar hornspyrnurnar sem við fengum, að þá voru yfirburðir LFC gegn svokölluðu meistaraliði Suður-Ameríku mjög miklir. Ekki er ég neitt sár eftir þennan leik þar sem að við yfirspiluðum þá og áttum að vinna en eins og fótboltinn er að þá er þetta “einn af þessum dögum” eins og þetta kallast.

  Einu mistök línuvarðarins í leiknum var síðsta markið sem við skoruðum í leiknum og var það ranglega flaggað af. Sorglegt að enn og aftur skuli línuvörður þurfa að skemma leikinn þar sem vafinn Á að vera í hag sóknarliðinu en ekki varnarliðinu. Spurningin er bara hreinlega hvort þessir dómarar/línuverðir kunni reglurnar?!?!?!

  En ég er stoltur LFC aðdáandi í dag þrátt fyrir tapið þvíyfirburðir okkkar voru svo miklir að það hálfa var meira en þó nokkur slatti. Svo kom Kewell aðeins betur inní þetta en áður sem er jákvætt. Hann verður farinn að vera góður í lok tímabilsins!

 3. Í kjölfarið á þessu marki kom svona fimm mínútna kafli þar sem Brasilíumennirnir sóttu meira og virtust jafnvel ætla að bæta við marki, en okkar menn virtust sjokkeraðir og áttu erfitt með að ná tökum á leiknum.

  …Þetta er nú beinlínis ekki rétt verð ég að segja. Hálfri mínútu eftir markið kom hornspyrna frá Alonso sem Garcia skallaði í slána. Tveim mínútum eftir það vippaði Alonso boltanum yfir vörnina og Garcia skallaði framhjá.

 4. Einmitt! Stuttar hornspyrnur á að banna, ég hef aldrei séð neitt koma útúr þeim, ef eitthvað lið getur notfært sér góðar hornspyrnur þá er það Liverpool með Moro, Hyypia og Crouchie sem öfluga skallamenn.

  Ég er mjög fúll að fá ekki Cissé inná og Crouche hefði mátt koma í hálfleik í stað Morientes, sem enn og aftur veldur mér miklum vonbrigðum. Ég meina Garcia sem er 144cm á hæð var með 4sinnum fleiri skalla á markið en morientes, hvað er það??

  Ömurlegt að horfa uppá þessa dómgæslu en það segir nú alla söguna að dómarinn var frá Mexíco og við að keppa við frændur þeirra!

  Það er bara allt í lagi að vera tapsár eftir svona rugl enda á maður aldrei að sætta sig við minna en sigur þegar Liverpool er annars vegar.. 😡

 5. Sko, ég set út á dómgæsluna en það er samt mín skoðun að hún komi þjóðerni dómarans og mótherjanna ekkert við. Þeir sem segja að Mexíkó og Brasilía séu “frændur” eða “nágrannar” þurfa greinilega að kíkja aðeins á landakort …

 6. Ég held að það hafi komið í ljós í þessum leik að Sao Paulo er ekki sambalið. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þeirra spilamennsku og leikurinn í heild var frekar leiðinlegur. Hér voru ekki á ferðinni mjög góðir sendiherrar fyrir brasilíska knattspyrnu!

  Við áttum fullt af færum til að slátra þessu liði en nýttum ekkert þeirra nógu vel. Ég nenni eiginlega ekki að röfla yfir þessum rangstöðudómi í lokin því það pirrar mig miklu meira hversu illa liðið er að nýta hornspyrnurnar.

  Mestu máli skiptir núna að leikmenn nái að hvílast vel og taki út pirringinn yfir þessum úrslitum gegn Newcastle 26.des. Það verður mikið álag á okkar mönnum næstu daga og ég vona að þeir taki upp þráðinn þar sem frá var horfið í deildinni.

  Áfram Liverpool!!!

  _____________________________

  Að lokum legg ég til að Englandsmeistaratitilinn komi heim á Anfield!

 7. Ég verð nú að segja að ég er ekki sannfærður um að þetta hafi verið rangur dómur hjá línuverðinum í þriðja “markinu”. Þegar ég sá þetta fyrst varð ég brjálaður en svo í endursýningunni sást að Garcia(stoðsending) var rangstæður, ekki Pongolle(markaskorari). Ég þori þó ekki að þrasa um þetta mikið því að ég var í tilfinningalegu uppnámi þegar þetta var sýnt og því þori ég ekki að ábyrgjast það sem ég tel mig hafa séð.

  Kíkti þó á leikskýrslu á Sky þegar ég var búinn að skrifa þetta hér að ofan og sá þetta til að renna stoðum undir grun minn:
  >Liverpool’s spirited effort was finally snuffed out in the 89th-minute as substitute Florent Sinama-Pongolle was denied by an offside flag against Garcia who had strayed marginally beyond the last defender when heading across goal.

 8. Það að halda því fram að Mexíkó og Brasilía séu einhver sérstök vinalönd er náttúrulega bara rugl. Það er sennilega álíka langt á milli þessara landa og það er frá Íslandi til Marokkó.

  En það breytir því ekki að dómarnir voru furðulegir. En það hefur ekkert með þjóðernið að gera.

 9. Gunnar, það var augljóst að Pongolle var aldrei rangstæður..það var aldrei neinn að spá í því..Það gat ekki verið mikið augljósara að það væri verið að dæma á stoðsendinguna því þegar hún kom voru einhverjir 3-4 púllarar fyrir innan varnarlínuna…en García var ekki einn þeirra..hann stakk sér inn fyrir þegar allir hinir voru á leið út úr rangstöðunni. Þessvegna hefði ekki átt að dæma á þetta..því hinir 3-4 höfðu engin áhrif á leikinn..þeir stigu bara út…og García inn á RÉTTUM tíma! 😡

  Afsakið reiði mína.

 10. Já Hannes við erum að tala um sama hlutinn og mér sýndist Garcia rangstæður, en ég ítreka að ég á eftir að sjá þetta einu sinni enn til að vera fullviss. Ég er bara búinn að sjá eina endursýningu.

 11. Ég ætla nú að vera síðastur manna til að gagnrýna leikstíl sem gengur út á að verjast til að halda fengnum hlut. Maður hefur nú séð sína menn gera það oftar en einu sinni.

  En það er bara þannig að þegar fótboltaguðinn er í fríi þá sér maður stundum svona leiki (líklega farið á tjúttið í gærkveldi og verið þunnur í dag enda leikurinn alltof snemma dags ). 17-0 í hornspyrnum og ég veit ekki hvað en ekkert mark. Minnir á Arsenal – ManU í bikarnum á síðasta tímabili. Ekki hægt að vera fúll út í liðið eftir svona leik og maður vonar bara að liðið verði ekki of þreytt í næsta leik.

  Varðandi markið hjá Pongolle þá var Garcia aldrei rangstæður í versta falli er hægt að segja að hann hafi verið samstíga vörninni. Tómt rugl að flagga á þetta en svona er þetta bara. Sao Paulo menn verða ægilega glaðir með þennan bikar og verði þeim af. :tongue:

 12. Mér sýnist nú þegar ég skoða miðla að menn séu á því að þetta hafi verið mark þannig að ég biðst forláts.

 13. Mér finnst byrjunin á leikskýrslunni á [Soccernet](http://soccernet.espn.go.com/report?id=192098&cc=5739) segja allt, sem segja þarf:

  >Liverpool were unable to translate their overwhelming dominance into goals as they fell to an undeserved defeat to Sao Paulo in the Club World Championship final.

  >The Reds paid for one defensive lapse which Mineiro capitalised on in the first half – their first goal conceded since October – but they could not find the end product to match their approach play.

  >Sao Paulo were negative in the extreme and on another night would have paid for their lack of ambition with a heavy defeat. In front of a near-capacity crowd, Liverpool had three goals ruled out for offside, hit the bar twice and created enough openings to win two games; defeat was a travesty.

  Þetta var bara einn af þessum dögum.

 14. já rosalega getur boltinn verið ósanngjarn, vonandi eigum við LFC aðdáendur ekki eftir að upplifa svona leik aftur á þessu ári.

  Við yfirspiluðum mótherja okkar, sérstaklega í síðari hálfleik. Þó þeir hafi lagt upp með að liggja aftarlega þá gáfum við þeim engan séns. Þetta var mjög góður leikur hjá LFC, en leikir vinnast með mörkum skoruðum.

  Eins og menn hafa komið inn á er ótrúlegt að fá 17 horn og ekki skora úr neinu þeirra (reyndar skoraði Hyypia mark eftir eina slíka en það var dæmt af). Sérstaklega er það ótrúlegt þar sem mótherjar okkar voru flestir í kringum 160 til 170 cm á hæð. Því spyr maður sig hversvegna nýtast leikmenn eins og Hyypia, Moro, Sissoko, Kewell, jafnvel Carra ekki betur í þessum föstu leikatriðum. Eini leikmaður okkar sem var líklegur í hornunum var Garcia, minnsti maður liðsins, hvernig stendur á því???. ew

 15. Það var afskaplega leiðinlegt að horfa upp á þetta tap, því fyrst og fremst er við sjálft Liverpool-liðið að sakast. “Sakast” er kannski of sterkt orð en liðið átti 20-30 skot að marki, á móti fjórum frá Sao Paulo, og þetta er bara hryllilega slæm nýting.

  Mér fannst nefnilega boltinn svo ótrúlega góður sem Liverpool sýndi á móti Saprissa, Crouch og Cisse náðu vel saman. Og ég er ekkert hrifinn af því að gagnrýna Benitez, en ég verð að spyrja: af hverju byrjuðu ekki Crouch og Cisse inná? Í það minnsta, af hverju var ekki Morientes tekinn fyrr út af?

  Burtséð frá slæmum dómum og leikaraskap í Sao Paulo, þá fengum við svo sannarlega tækifæri. Þetta var bara einn af “þessum dögum” … þetta átti greinilega ekki að ganga hjá okkur. Sanngjarnt eða ekki, þá tek ég undir með sumum hérna að Sao Paulo olli mér vonbrigðum. Miklum vonbrigðum. En persónulega þá líður mér ekkert betur eða verr með því að tala um að þetta hafi verið ósanngjarn sigur. Það er engin sanngirni í fótbolta! Skoraðu fleiri mörk en andstæðingurinn og þannig vinnurðu leiki!

  Ég fæ eflaust skammir frá einhverjum fyrir að segja þetta, en það var svo oft í leiknum sem ég hugsaði: “Mikið sakna ég Owens…”

 16. Doddi… það ætti þá væntanlega að vera fín jólagjöf að hann kemur á Anfield 26.des… og það líka funheitur eftir þessa helgi 🙂

 17. Hvað fannst mönnum um verðlaunaafhendinguna?! Mér fannst nú frekar óeðlilegt að sjá forsvarsmenn keppninnar eiga í erfiðleikum með að hemja gleði sína þegar verið var að afhenda medalíurnar til leikmanna Brassanna! Hver leikmaðurinn á fætur öðrum hoppaði upp í fangið á þeim er afhentu verðlaunin og þessir menn gátu hreinlega ekki hamið gleði sína?! Þetta fór óskaplega í taugarnar á mér. Hvernig væri það ef Valsmenn yrðu Íslandsmeistarar og allir leikmennirnir hoppuðu í fangið á Eggerti við verðlaunaafhendinguna?! Ekki viðeigandi! Spilling??!! Eða er ég bara svona tapsár…..??? 🙁

 18. Ég dáist að þér fyrir að hafa horft á verðlauna-afhendinguna. Ég var svo fúll að ég slökkti strax á sjónvarpinu. 🙂

 19. Hvernig línuverðirnir dæmdu rangstöðurnar í leiknum fór alveg gríðarlega í taugarnar á mér, þeir flögguðu aldrei fyrr en sá maður sem var rangstæður var kominn með boltann í tærnar, dæmi um það var að Hyppia elti einn bolta eftir horn út að hliðarlínu og fékk svo allt í einu flaut þegar hann náði boltanum. Þetta er kannski ekki röng aðferð við að meta þessi mál, en þetta fór óendanlega mikið í taugarnar á mér.

 20. hehe..já mér finnst magnað að hafa getað horft á verðlaunaafhendinguna eftir leikinn..ég stormaði allavega útaf ölveri í miklu fússi! :confused:

 21. Ég hef á þesssum 20+ árum sem LFC aðdáandi aldrei séð neitt koma út úr hornspyrnum hjá Liverpool. Það gerðist kannski jú hjá 80´s liði LFC annað slagið en við höfum í raun aldrei verið neitt lið sem nýtir hornspyrnur mikið. Aukaspyrnur eru líka hlutur sem MÉR finnst að vanti dálítið fleiri mörk úr þótt það hafi komið nokkur frá núverandi liði á þessu tímabili sem er gottt mál. Við erum samt á uppleið þar sem við höfum skánað mikið og þó sérstaklega heima fyrir!

 22. Rosalega eru menn eitthvað fljótir að gleyma því góða eftir svona leik, margar hornspyrnur ekkert mark í þessum leik. En það er nú ekki langt síðan við skoruðum eftir hornspyrnu. Við erum meira að sega búnir að skora eftir hornspyrnu í þessum mánuði..muniði? Á móti Wigan, þegar Morientes skallaði og Garcia tók hann með kassanum…
  Á móti Anderlect og West ham komu líka mörk eftir hornspyrnur, svo þetta er nú kannski ekki alveg einns slæmt og margir vilja meina, enn kannski ekkert frábært heldur en samt.

 23. DaðiS, ég held að þú þurfir að fara venjast þessu – þessi áhersla línuvarðana er eitthvað sem er nýtilkomið og er til þess að sóknarmennirnir njóti ennþá meira vafans. Þeim er ráðlagt að dæma ekki rangstöðu fyrr en maðurinn sem er rangstæður er búinn að taka við boltanum. Þetta er til þess að ekki sé dæmd rangstæða á menn sem hafa ekki áhrif á leikinn.

  T.d. ef það kæmi þversending og maður á miðjunni væri rangstæður en annar sem væri út á kanti væri það ekki. Sendingin færi fram hjá manninum sem væri rangstæður og endaði hjá kantmanninum. Þetta á ekki að vera rangstæða nema maðurinn í miðjunni myndi snerta boltann.

 24. En er þetta í alvörunni orðin munur á “besta” liðinu í Evrópu og besta liðinu frá Suður Ameríku…

  SP voru eins og fremur dapurt úrvalsdeildarlið í Englandi…

  og já… er ekkert fúll með Liverpool… er hægt að ætlast til meira en að menn sæki og skori? það held ég ekki…

  Strumpkveðjur 🙂

 25. en svona til að taka jákvæðan pól í þetta. Var ekki bara fínt að svona dagur kom í þessari keppni sem öllum er sama um. Hefði verið verra ef þetta hefði verið á móti Real betis og við dottið útúr meistaradeildinni. Eða í deildinni og nánast útilokað möguleika okkar þar. Þessi keppni er svona svipuð og leikurinn í Mónakó við Evrópumeistara félagsliða. Auðvitað vill maður vinna en grætur tap ekkert of lengi

 26. Já, ég ætla reyndar ekki að fara að halda því fram að mér hafi verið “alveg sama” um keppnina, því ég vildi virkilega að við myndum vinna þetta og ég varð djöfulli fúll við tapið.

  En auðvitað er þetta skárra en detta úr leik í Meistaradeildinni.

  En samt drullufúlt.

 27. Auðvitað eru til verri leikir til að tapa. Það er samt langt síðan ég hef verið jafn pirraður og svekktur yfir tapi minna manna. Bikar í húfi og ég elska það þegar liðið er að vinna bikara, mér er slétt sama þótt sumir flokki þá sem useless bikara, enginn bikar er useless í mínum huga.

  Það hefði verið enn meira svekkjandi að detta út úr CL, eða tapa úrslitaleik í CL. Þetta var samt alveg hrikalega svekkjandi.

 28. ég er náttúrulega þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa misst af leiknum. Er þess vegna ekki jafn pirraður yfir hlutunum sem gerðust í honum. En miðað við lýsingarnar alls staðar þá væri ég örugglega mun pirraðri og svekktari ef ég hefði horft á hann.

 29. Ég er sammála mönnum að þetta var alveg hrikalega svekkjandi. Ég er samt afar stoltur af okkar leikmönnum og erfitt að kenna þeim um tap að þessu sinni.

  Ég vil þó lýsa yfir áhyggjum mínum af markaþurrð liðsins þegar kemur að hornspyrnum og aukaspyrnum. Sérstaklega hornspyrnum. 18 hornspyrnur og ekkert mark er fáránlegt. Ég held að liðið þurfi að taka sig verulega á í þessum efnum. Sérstaklega miðverðirnir okkar. Góður miðvörður verður einfaldlega að skila nokkrum mörkum yfir leiktímabilið til að teljast heimsklassa miðvörður. Það verður að gera sömu kröfu á þá og á senterana að þeir taki þátt í varnarleik liðsins.

  Svo varðandi það að Garcia var að skapa sér fleiri færi en stóru senterarnir okkar er bara af því að hann er

Liðið gegn Sao Paulo komið

Rafa kvartar