Deportivo Saprissa skal það vera!

bolanos-saprissa.jpgJæja, rétt í þessu var að ljúka leik **Sydney FC** frá Ástralíu og **Deportivo Saprissa** frá Kosta Ríka. Leiknum lauk með 1-0 sigri **Saprissa**-liðsins og það verða því meistarar Norður-Ameríku sem mæta Evrópumeisturum **Liverpool** í undanúrslitum á fimmtudaginn. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Asíumeistarar **Al Jittihad** og Suður-Ameríkumeistarar **Sao Paulo**.

En allavega, Saprissa-liðið var að enda við að vinna verðskuldaðan sigur á Dwight Yorke og félögum í Sydney FC, og hér kemur smá skýrsla um þá:

Porras

Cordero – Drummond – Badilla – Bennett

Azofeifa – Gomez – Centeno – Gonzalez – Bolanos
Saborio

Sem sagt, þetta lið stillir upp mjög sterku og vel skipulögðu liði, með fimm leikmenn á miðjunni og einn frammi. Framherjinn, Alvaro Saborio, heldur boltanum mjög vel og er sterkur og duglegur að koma félögum sínum af miðjunni inn í leikinn, á meðan þeir eru með mjög marga fljóta og leikna menn á miðjunni.

Ég var sæmilega hrifinn af þessu Saprissa-liði í dag. Þótt Sydney-liðið væri meira með boltann og sótti meira í leiknum hafði ég allan tímann á tilfinningunni að Saprissa myndi fara með sigur af hólmi. Þeir voru einfaldlega skipulagðari, agaðri í sínum aðgerðum, komu með sitt plan í þennan leik sem gekk upp. Þá virtist Sydney-liðið dvelja of mikið á boltanum, njóta þess of mikið framan af að stjórna leiknum – sem þeir hefðu aldrei getað gert á móti Liverpool – á meðan Saprissa-liðið spilaði sterka vörn og beitti sterkum skyndisóknum, sem er leikaðferð sem er miklu vænlegri gegn liði eins og Liverpool.

Sigurmarkið kom strax í upphafi síðari hálfleiksins, og minnti um margt á jöfnunarmark Djibril Cissé gegn Spartak Moskvu í Súperbikar Evrópu hér í haust. Miðvörður Saprissa-liðsins, Drummond, átti þá langa sendingu innfyrir grunlausa vörn Sydney-manna og beint í fæturnar á vinstri kantmanninum Christian Bolanos. Þessi rétt rúmlega tvítugi vængmaður tók boltann niður með vinstri og setti hann svo öruggt framhjá markverði Sydney. 1-0, og þetta fornfræga lið frá Kosta Ríka þar með komið í undanúrslit Heimsmeistarakeppni Félagsliða.

Fornfrægt segi ég, því þeir hafa víst unnið deildina í heimalandi sínu 23 sinnum og 15 sinnum orðið í öðru sæti. Það kalla ég ágætan árangur. Þá státa þeir af þeirri frábæru tölfræði að hver einasti leikmaður í liði Saprissa er heimamaður, fæddur og uppalinn í Kosta Ríka. Það er að vissu leyti öfundsvert, gaman að sjá slíkt lið ná árangri.

*Hins vegar* … þá tel ég að þrátt fyrir gott skipulag og léttleikandi lið þá munu strákarnir okkar í Liverpool ekki eiga í teljandi vandræðum með þetta lið. Þeir spiluðu vel í dag og áttu sigurinn gegn Sydney-liðinu skilið, en gæðamunurinn er einfaldlega of mikill miðað við það sem ég sá í dag. Ákveðin svæði sem þeir skildu sífellt eftir í vörninni sem Steven Gerrard og Luis García munu nýta sér til að jarða þá, og svo eru þeir ekki það sterkir í loftinu að þeir ráði við Morientes og Crouch í heilar 90 mínútur. Þeir litu vel út í dag og voru betri aðilinn, sem segir kannski meira en mörg orð um Sydney FC sem menn hafa spáð góðu gengi í þessari keppni, en allt annað en öruggur sigur án þess að fá mark á sig á fimmtudaginn væri skandall.

Samt, það verður gaman að sjá þennan leik á fimmtudag. Það er altlaf gaman að sjá svona Davíð-gegn-Golíat leiki, jafnvel þótt maður haldi með Golíat. 🙂

8 Comments

 1. Hvernig voru þessir tveir?

  >Burly striker Ronald Gomez has become a hero to the club’s fans, who have nicknamed him The Bullet, while Walter Centeno’s creative play is also their key to success.

  Þeir eiga víst að vera stjörnurnar…

 2. Ég var einmitt búinn að lesa þetta um Centeno og Gomez, en eftir því sem ég fékk best séð spiluðu þeir báðir á miðjunni, fyrir aftan Saborio. Svona svipað og Gerrard og Sissoko gera stundum hjá okkur, þétta miðjuna og bruna svo fram við öll tækifæri.

  Annars er þetta bara mjög þétt lið, þetta eru góðir leikmenn en samt held ég bara af öðrum klassa en Liverpool-liðið. En það kemur auðvitað bara í ljós.

 3. Og brosa fyrir myndavélarnar Djib?
  Neibb! Cissé hress að vanda! Annars á maður kannski ekki að bögga neinn eftir fimmtán tíma ferðalag…. :confused:

 4. Við ættum að vinna þetta Deportivo lið án mikilla vandkvæða. Bara spurning um hugarfar og það hvernig ferðalagið hefur farið með mannskapinn.

 5. Hvaða leik varst þú að horfa á Kristján?, þú talar um “Mjög sterkt og skipulagt lið”…”Gott skypulag og léttleikandi lið”…og lýsir þessu sem hinu þokkalegasta liði.

  Ég horfði á allan þennan leik og mér fannst þetta einn leiðilegasti leikur sem maður hefur séð. Hvorugt liðið gat blautan að mínu mati. Sydney voru þokkalegir síðustu 6-7 mínóturnar en annas fannst mér ekkert vera í gangi í þessum leik. Gríðarlega mikið um einfaldar stuttar sendingar sem mislukkuðust gjörsamlega. Mikið af bara almennum mistökum, sumir reyndu of mikið og mistu boltann aðrir voru bara í ruglinu. Þetta er allavegana mín skoðun að í dag hafi 2 ömurleg fótboltalið verið að spila. Sammt bara mín skoðun og kannski aðeins of djúpt í árinna tekið, enn þetta voru allavegana ekki vel spilandi lið.

  Hvað fynnst ykkur hinum sem sáu leikinn? Eða vorum það bara við Kristján sem vorum ekki í vinnuni því við erum á næturvöktum…??

 6. Ég tók það fram að það er mikill gæðamunur á þeim liðum sem ég sá í gær, og Liverpool. Ég meina, ég myndi lýsa FH-liðinu sem mjög skipulögðu og hæfileikaríku liði sem spilar skemmtilegan bolta … en samt búast við að þeir myndu tapa stórt fyrir Liverpool.

  Mér fannst þetta Saprissa-lið fínt, en hvergi nærri því að geta unnið Liverpool.

Sex þúsund mílur

Inter Milan aðdáendur