Boro á morgun!

Í hádeginu á morgun taka okkar menn á móti liði Middlesbrough í Úrvalsdeildinni. Þessi lið áttust við í fyrsta leik leiktíðarinnar og gerðu þar markalaust jafntefli, þrátt fyrir algjöra yfirburði Liverpool. Steven Gerrard á ekkert allt of góðar minningar frá þeim leik, hefði með réttu átt að skora svona fimm eða sex mörk, þannig að ég tel næsta víst að hann reyni að setja eins og eitt mark á morgun.

**Middlesbrough** hafa verið eitt ójafnasta lið deildarinnar í vetur, sitja sem er í tíunda sæti deildarinnar með 19 stig, eða níu stigum á eftir okkur. Þetta lið hefur í vetur bæði afrekað það að vinna Man U og Arsenal á heimavelli, með nokkrum yfirburðum, og að tapa frekar illa fyrir liðum eins og Sunderland og Everton. Þannig að það er í raun ómögulegt að segja til um hvaða lið mætir á völlinn á morgun, í fyrra mættu þeir til leiks og komust yfir og hirtu eitt stig af okkur á Anfield, en í ár hlýtur maður að gera kröfu um sigur og ekkert annað.

Nú, um okkar menn í **Liverpool** þarf ekki að fjölyrða, við höfum unnið núna sex deildarleiki í röð og haldið hreinu í þeim öllum, og á morgun býst maður við meira af því sama.

Byrjunarliðið á morgun gæti, að mínu mati, litið einhvern veginn svona út:

Reina

Finnan – Hyypiä – Carragher – Warnock

Gerrard – Sissoko – Alonso – García

Crouch – Cissé

Kannski Morientes verði frammi í stað Cissé, og kannski Riise verði í bakverðinum í stað Warnock, en að öðru leyti hefur þetta lið verið nokkuð stabílt í undanförnum leikjum og því telur maður sig *loksins* vera nokkuð vissan um það hverjir muni byrja inná.

**MÍN SPÁ:** 3-0 sigur fyrir Liverpool, og Super Steve skorar allavega eitt mark. Við skuldum þeim einfaldlega rassskellingu eftir að þeir *sluppu* með jafntefli á The Riverside Stadium í ágúst. Ég hef eiginlega bara minna en engar áhyggjur af þessum leik, og ætla að njóta þess að horfa á Liverpool-sigur í hádeginu.

Vonum að ég verði ekki fyrir vonbrigðum. **Áfram Liverpool!!!** 🙂

8 Comments

 1. Rólegur félagi, mér finnst bóka sigur full auðveldlega (3-0). Málið með Boro er að maður veit aldrei með þá, stundum eru þeir frábærir og stundum slakir. Auk þess að við höfum oft lent í vandræðum á móti þeim. Auðvitað óska ég þess samt að við vinnum.

  Ég ætla að spá 1-0.

 2. Er ekki Sissoko í banni? Ég býst við í því tilviki fari Gerrard á miðjuna, Garcia á hægri kantinn og Kewell á vinstri kantinn. Riise gæti svosem líka farið á vinstri kantinn en hef meiri trú á að hann verði í bakverðinum.

 3. Sissoko tók út bannið sitt gegn Wigan, hann fékk bara einn leik, því fyrra spjaldið var þurrkað út þegar það rauða kom. Þannig að eitt gult og hann í bann.

 4. Fer eftir því hvernig Benitez lítur á Middlesbrough liðið, hvort að Riise verði í bakverði eða á kanti… en hann virðist vera kominn með fast sæti í byrjunarliðinu núna (alla leiki í nóvember nema gegn Portsmouth, þar sem að hann hafði þá spilað tvo leiki gegn Tékkum og meiðst lítillega í öðrum þeirra).

  Maður sá t.d. gegn Chelsea að þá hefur hann menn á hvorum kanti sem eru mjög góðir varnarlega (Riise og svo Gerrard sem bókstaflega getur allt), en hann ætti nú að geta leyft sér að skipta aftur yfir í 4-4-2 og látið Garcia vera í svona semi-free role eða á vinstri kanti.

  Síðan er ein spurning sem mig langaði að leggja undir aðra lesendur hérna. Er ég einn um að finnast þetta, en hefur Kewell ekki fitnað eitthvað síðan hann kom úr þessum meiðslum? (sjá mynd (gegn Wigan) með leeds (ég veit, mjög gömul mynd). Mér finnst nú kallinn hafa bætt aðeins á sig.

 5. Þetta Boro lið hefur sýnt að það getur verið drulluerfitt við að eiga og ég á alls ekki von á öruggum sigri á morgun. Aftur á móti hefur spilamennskan undanfarið verið á þann veg að maður getur ekki annað en verið doldið bjartsýnn og ef liðið vinnur þennan leik þá er það ekkert annað en frábært.

 6. Líkt og flest allir leikir þá verður þetta erfitt en við vinnum. Líklega 1-0 eða 2-0. Á ekki von á því að við fáum á okkur mark. Hins gætum við lent í vandræðum ef Boro skorar snemma á okkur.

  Ég vona að Riise spili á bekknum. Ég vil sjá Traroe í bakverðinu og Kewell á kantinum, hann hefur gott af því að starta þennan leik. Sama á við Cisse, koimnn tími að hann fá einhverjar mínútur og ég hugsa að hann starti með Morientes og Crouch byrji á bekknum.

  Áfram LFC.

 7. Liðið komið: Reina, Finnan, Riise, Hyypia, Carragher, Gerrard, Sissoko, Alonso, Kewell, Crouch, Morientes. Bekkur: Dudek, Cisse, Garcia, Josemi, Warnock.

Vinsamleg ábending til Sýnar

Liðið geng Boro komið