Fimmti Bítillinn

george_best2.jpgÞað segir sína sögu að maður sem lék allan sinn (alltof stutta) feril á Englandi fyrir Man U skuli komast upp með að vera kallaður “fimmti Bítillinn.” Í raun segir það allt sem segja þarf um þann gríðarmikla missi sem enska knattspyrnan – og fótboltaunnendur almennt, urðu fyrir í dag þegar George Best lést, 59 ára gamall.

Fyrir um ári síðan lést Emlyn Hughes, fyrirliði gullaldarliðs Liverpool, og það fráfall var syrgt af öllum unnendum enskrar knattspyrnu. Og nú ári síðar verður það sama gert fyrir Best, sem þrátt fyrir að hafa leikið fyrir Man U og verið kenndur við Bítlana (þvílík ósvífni!) þá verður það að segjast, sem Liverpool-aðdáandi, að Best er einn besti leikmaður sem ég hef séð á velli. Ég var vitaskuld ekki fæddur þegar hann lék á stóra sviðinu með United, en hef eins og flestir knattspyrnuunnendur séð ótal svipmyndir frá ferli hans, og hann var ótrúlega góður.

Það sorglegasta við þetta allt saman er það hversu illa fór fyrir honum að lokum. Hann hætti að spila 27/28 ára, týndi sér alveg í alkóhólisma og peningavandræðum og lést svo í dag, 59 ára, lítandi út eins og sjötugur maður. Það er langur vegur frá hinum unga og stórglæsilega Best sem heillaði Bretlandseyjarnar á sjöunda áratugnum.

Það er svo ótrúlegt að enn þann dag í dag er til fólk sem viðurkennir ekki alkóhólisma sem sjúkdóm, fólk sem talar illa um menn eins og Best og segja að hann hafi verið heimskur að drekka frá sér allt vit og sóa þeim hæfileikum sem hann hafði. Auðvitað er það kjaftæði, þetta er sjúkdómur og hann gerir ekki upp á milli manna frekar en heilaæxlið sem felldi Emlyn Hughes.

Það verður pottþétt haldin mínútuþögn á öllum völlum Englands á morgun og er það vel. Einn besti leikmaðurinn í sögu ensku knattspyrnunnar er fallinn frá og þótt hann hafi verið United-maður finnst mér við hæfi að við Púllararnir vottum honum líka virðingu.

George Best – R.I.P.

39 Comments

 1. Þetta er mikill missir og vitaskuld verður mínútuþögn á hverjum velli á Englandi til heiðurs honum.

  R.I.P.

 2. Vantar ekki “ekki” hér…?

  Það er svo ótrúlegt að enn þann dag í dag er til fólk sem viðurkennir alkóhólisma sem sjúkdóm

 3. RIP

  votta öllum ManUtd áhangendum sem og öðrum fótboltaáhugamönnum mína dýpstu samúð vegna andláts George Best

 4. Góður maður og frábær spilari farinn af littla vellinum yfir á þann stóra að leika listir sínar. Það gætu margir tekið hann sér til fyrirmyndar innan vallar sem utan, hann átti að sjálfsögðu í baráttu við erfiðann sjúkdóm sem hafði hann svo undir í lokinn. Samúðar kveðjur til allra knattspyrnu unnenda um heim allann.

 5. Nei reyndar er Pete Best trommarinn sem var rekinn fyrir Ringo Starr. En það er svosem önnur ella.

 6. … er þetta ekki rugl með fimmta Bítilinn?

  …rugla saman trommaranum Pete Best og upptökustjóranum George Martin….. skrítið að kalla einhvern Manchester gaur Bítil…. mmmm

 7. Ef menn vilja velta sér uppúr þessu Bítla kommenti, þá er ekki úr vegi að benda á [þessa síðu](http://en.wikipedia.org/wiki/Fifth_Beatle), sem listar upp hvaða menn hafa fengið nafnbótina “fimmti bítillinn” og af hverju.

  Úr greininni:

  >George Best: popular footballer of the 1960s, due to his enormous popularity, long-haired good looks and celebrity lifestyle.

  Ok?

 8. Þú getur valið þér alkahólisma sem sjúkdóm en ekki heilaæxli. Að líkja þessu saman eins og gert er hér í pistilinum er bull. Vil ég þó á engan hátt gera lítið úr George Best. Haldið þið kannski að George Best hefði orðið alkahólisti ef hann hefði verið ættleiddur 1 mánaða gamall og alist upp á afskekktri eyju þar sem ekkert áfengi væri í boði?

 9. “Haldið þið kannski að George Best hefði orðið alkahólisti ef hann hefði verið ættleiddur 1 mánaða gamall og alist upp á afskekktri eyju þar sem ekkert áfengi væri í boði?”

  Af hverju að stoppa þar …

  Haldið þið kannski að Freddie Mercury hefði fengið AIDS ef hann hefði alist upp á eyðieyju þar sem ekkert kynlíf var stundað og hann var eina dýrið?

  Haldið þið kannski að John Lennon hefði verið skotinn ef byssan hefði aldrei verið fundin upp?

  Haldið þið kannski að Jesús Kristur hefði verið krossfestur ef hann hefði búið á eyju þar sem allir íbúarnir voru rammkristnir?

  Haldið þið kannski að Emlyn Hughes hefði fengið heilaæxli ef hann hefði búið á eyju þar sem hann upplifði aldrei nokkurn vott af stressi, borðaði bara hollasta mat í heimi og þurfti ekkert að gera alla ævina en að liggja á ströndinni og slappa af?

  Haldið þið kannski að Gunnar hefði látið svona heimskuleg ummæli út úr sér ef hann hefði verið ættleiddur, mánaðargamall, og alist upp á eyðieyju þar sem íbúarnir hefðu kennt honum hvað *rökhugsun* er, og hvernig ætti að beita henni?

 10. Díses Kristján hvað þú ert viðkvæmur og blindur og takk fyrir að kalla mig heimskan að vera ekki sammála þér.

  Hér kemur smá rökhugsun fyrir þig:

  Er það að vera skotinn með byssu að fá sjúkdóm?
  Er það að vera krossfestur að fá sjúkdóm?

  Andaðu með nefinu maður.

 11. Maður velur sér sjúkdóminn “alkahólisma” með ofneyslu áfengis. Heilaæxli skapast af umhverfisþáttum aðallega, helst geislun. Erfitt að verjast geislun því að hún er ósýnileg vænti ég, en það er auðveldara að sleppa því að drekka áfengi. Þú velur það að segja nei.

  Ég er ekki endilega að segja það að það sé auðvelt að verjast alkahólisma en þú allavega færð að velja. Það er það sem ég er að reyna að segja. Ég ætla ekki að fara í eitthvað rifrildi hérna á opnu svæði um þetta. Ef við eigum að debatta um þetta meira þá vil ég fá tölvupóst.

 12. Alkóhólismi er sjúkdómur, en ég skora á Gunnar að svara Einari: hvernig velur maður sér alkóhólisma sem sjúkdóm? Hmm…. hér er sjúkdómur við mitt hæfi, ég ætla að fá hann!?? (Minnir mig á atriði úr Fóstbræðrum þar sem maður kom inn í apótek og bað um kvef og alls kyns sjúkdóma…)

  Sumir eru sterkir og geta ráðið við þennan sjúkdóm, sumir ekki. Það breytir því ekki, að innihaldið hjá Kristjáni er skýrt og að mínu leyti réttmætt: þú velur þér þetta ekki. Ekki frekar en geðveiki.

  Og að hvaða leyti var Kristján blindur?

 13. Sá að Gunnar svaraði og vil samt benda á það að ef þú segir að þú veljir alkóhólisma með ofneyslu áfengis, þá geturðu alveg eins sagt að þú veljir heilaæxli með því að vera sífellt að tala í gemsa eða vera innan um geislavirk svæði – eða eitthvað þvíumlíkt!

  Og ef þú ætlar ekki að debatta um þetta á opnu svæði, þá skaltu ekki byrja á því á opnu svæði að gera lítið úr alkóhólisma – sem upphaflegt komment þitt um hann sem val á sjúkdóm… sannarlega var!

 14. Ég er til dæmis sammála þér Doddi um að maður velur sér sjúkdóminn heilaæxli ef maður er stöðugt að tala í gemsa. Þú allavega eykur hættuna mjög. Við erum ekkert ósammála þarna.

  Ég held að þetta þras sé hægt að leysa með því að skilgreina orðið “sjúkdómur”. Ég tel að þar liggi hundurinn grafinn.

  Ætli munurinn á skoðunum okkar felist ekki í því að ég tel t.d. alkahólisma vera áunninn sjúkdóm. En sjúkdóm engu að síður.

 15. Blindur meinti ég í ljósi þess hvernig innlegg hans(#16) var skrifað með það að einu leiðarljósi að gera lítið úr mér vegna þess að ég var ósammála honum.

 16. Orðið “sjúkdómur” kemur hér málinu ekkert við. Þú sagðir að maður gæti valið sér alkóhólisma og það finnst mér fáránleg staðhæfing. Ég skal skýra það aðeins nánar:

  Reykingarmenn eru ansi margir í heiminum, og ekki fá allir þeirra lungnakrabbamein, sem er sjúkdómur sem tengist reykingum beint. En sumir fá þann sjúkdóm og hann dregur þá oft til dauða. Völdu reykingarmenn þá að fá sér þennan sjúkdóm? Auðvitað hafa menn þann valkost að reykja, en þegar þú ert byrjaður eru sumir sem bara geta ekki hætt, og illa fer fyrir hluta af þeim. Þetta eru bara staðreyndir.

  Áfengi er síðan öllu verri ófreskja en reykingar. Það að vera “ánetjaður” sígarettum og að vera “ánetjaður” víni er tvennt gerólíkt. Alkóhólismi er sjúkdómur sem gerir ekki mannamun – langflestir smakka áfengi einhvern tímann um ævina, en það kemur samt bara fyrir örfáa að ánetjast því svo illa að það heltekur ævi þeirra. Hefur þú einhvern tímann smakkað áfengi, Gunnar? Ert þú alkóhólisti? Ef ekki, hugsaðir þú samt út í þann möguleika þegar þú ákvaðst að drekka, að þetta gæti orðið þér að aldurtila langt fyrir aldur fram?

  Það gera það fáir, sennilega enginn. Það hugsar enginn þegar fyrsti sopinn er tekinn, ‘kannski dey ég eftir tíu ár, blankur og allslaus, af völdum þessa sopa.’ En það er samt staðreyndin … einn af hverjum tíu eða tuttugu eða hvað sem það er, smakka sér einn drykk, detta einu sinni í það, og snúa aldrei aftur. Sjúkdómurinn hefur náð tökum á þeim.

  Það að segja að maður “velji” sér sjúkdóm eins og alkóhólisma er því fáránleg staðhæfing, alveg jafn fáránleg og að gefa í skyn að menn “velji” sér heilaæxli með því að tala í farsíma eða að menn “velji” sér krabbamein í lungum með því að reykja.

  Málið er bara það að ef maður hefur smakkað áfengi sjálfur – sem langflestir hafa gert – þá finnst mér það vera lítið annað en hræsni að hafa enga samúð gagnvart manni eins og Best, sem þjáðist af sjúkdómi, og segja að hann hafi gert sér þetta sjálfur. Ég hef dottið í það, margoft, en aldrei ánetjast áfengi. Ég ræð gjörsamlega yfir því, hef fulla stjórn á mér. Samt hef ég eflaust drukkið alveg jafn mikið þegar ég var sautján, átján, nítján ára, og Best gerði. Munurinn er bara sá að ég gat stjórnað því, *sjúkdómurinn alkóhólismi* náði aldrei tökum á mér, á meðan Best fékk þennan sjúkdóm sem gerir ekki mannamun og hann eyðilagði líf hans.

  Ef ég ætlaði að fara að neita honum um þá samúð sem hann á inni vegna þessa *hörmulega sjúkdóms* væri það ekkert annað en hræsni. Þetta hefði getað verið ég, þú, hver sem er. Ef þú hefur aldrei drukkið dropa af áfengum vökva um ævina hefurðu efni á að segja, “honum var nær,” en annars ertu bara hræsnari ef þú segir að Best hafi valið sér alkóhólisma.

 17. Og að gefnu tilefni:

  Ég geri ekki lítið úr fólki sem er ósammála mér. Allir þeir sem þekkja mig persónulega myndu segja þér að ég dýrka fátt meira en vitsmunalegar samræður þar sem menn eru kannski ekki alltaf sammála um málefnin.

  Þú, hins vegar, komst bara ekki með vitsmunalegt komment Gunnar. Ég útskýrði hvers vegna mér fannst það ekki vitsmunalegt, og hvers vegna mér fannst *ummæli þín* (ekki þú sjálfur, bara það sem þú sagðir) vera heimskuleg. Óþarfi að taka því persónulega, en ef þú sérð ekki hvers vegna ummæli þín voru heimskuleg þá þarft þú að hugsa málið aðeins betur.

  Skítkast hefði verið að kalla þig heimskan. Málefnaleg umræða er að kalla ummæli þín heimskuleg, og útskýra svo ítarlega af hverju þau eru það. Sem ég og gerði.

  Þú hins vegar kallar mig blindan og segir mér að anda með nefinu. Ekki kasta steinum úr glerhúsi … :rolleyes:

 18. Ok ég er að mestu leyti sammála þessu hjá þér Kristján.

  Leikurinn fer að fara að byrja en ég vil bara koma því að að ég tel alkahólisma vera sjúkdóm sem þú getur forðast með því að drekka ekki áfengi. Það er hægt að ræða þetta nánast endalaust og margar hliðar á þessu, andlegir og líkamlegir sjúkdómar til dæmis. Kannski svolítill útúrsnúningur hjá mér og telst sennilega barnalegt en mig langar að spyrja: “Af hverju deyja engin börn undir tíu ára aldri úr alkahólisma?” Svar: Jú sennilega vegna þess að börn undir tíu ára aldri drekka yfirleitt ekki brennivín. Þegar þau eldast komast þau í kynni við brennivín og velja sér það að fá sér það aftur og aftur þannig að það endar með því að þau eru orðin alkahólistar.

  Mér finnst gott að drekka brennivín og sennilega er eina ástæðan fyrir því að ég er ekki alkahólisti sú að ég verð alltaf svo þunnur daginn eftir.

  Ég gæti alvega þrætt um þetta meira en ég legg til þess að við hættum þessu bulli. Þetta er fótboltasíða.

 19. Ok Kristján höfum þetta málefnalegt. Mér finnst flest það sem þú hefur sagt um þessa alkahólismaumræðu heimskulegt.

 20. Óska Liverpool stuðningsmönnum hér til hamingju með sam-stuðningsmenn sína úti sem sýndu enn á ný sitt sanna andlit á leiknum við City í gær.

 21. Hvernig í ósköpunum veistu að þetta voru Liverpool stuðningsmenn? Var leikurinn ekki á Man City leikvanginum?

  Var ekki talsvert líklegra að Man City stuðningsmennirnir hefðu ekki virt þögnina? Þeir eru nú ekki beinlínis miklir vinir Man U.

 22. Auk þess var það nú ekki beinlínis gáfulegt að ætla að hafa mínútuþögn á þessum leik, þar sem tveir helstu andstæðingar Man U voru að mætast. City stjórnendur lögðu til að í stað mínútu þagnar yrði mínútuklapp, en enska deildin [hafnaði því](http://sport.telegraph.co.uk/sport/main.jhtml?xml=/sport/2005/11/27/sfgmac27.xml&sSheet=/sport/2005/11/27/ixfooty.html)

  >Both sets of fans disgraced themselves by showing no inclination to observe a minute’s silence for George Best, referee Alan Wiley sensibly abandoning it after about 20 seconds. You were never going to get Liverpool or City fans to stay silent for a Manchester United legend so shame on the Premier League, too, for refusing City’s proposal to hold a minute’s applause, led by Best’s great friend and former City player Mike Summerbee, who came to pay tribute to his old flat mate.

 23. Staðfest af Liverpool stuðningsmanni á enskum Unitedlista, sorry. Einhverjir City vargar voru með köll, en mest yngri Liverpool stuðningsmenn, skv honum.
  Reyndar er ég hrifinn af klapphugmyndinni, hannig er kannske hægt að kæfa svona pakk, hvaða liði sem það fylgir.

 24. Já, klappið er góð hugmynd. Efast stórlega um að Man U stuðningsmenn séu eitthvað skárri, þannig að mér finnst svona komment frá þér

  >sem sýndu enn á ný sitt sanna andlit á leiknum við City í gær

  gríðarlega ósmekkleg.

 25. Það er spurning.
  Ég man ekki hvort mínir menn trufluðu þögnina fyrir Emlyn Hughes, reyndi að gúgla það en fann ekkert. Vona ekki. Það eru amk nógu margir sem reyna að vera yfir þetta hafnir og sýna að 47 ár af München söngvum leiða ekki til hefndarsöngva.
  Ekki þannig, ‘Build a bonfire’ er ekki fallegt lag.
  Nóg um þetta.
  Þið virðist annars vera að byggja upp þokkalegt lið, svo ég sé ekki hér bara með diss…

 26. Ég er viss um það, ef Björn Friðgeir vill, að hægt sé að finna miður skemmtilegt diss frá Man U aðdáendum í garð Liverpool. Ósmekklegheitin að koma á þessa síðu og “óska okkur til hamingju með sam-stuðningsmenn…” eru bara rosaleg. Hver var tilgangurinn hjá þér, Björn??

  Að koma inn með þetta komment og varpa svo fram bara: “… nóg um þetta … svo ég sé ekki hér bara með diss…” – er fáránlegt líka.

  Þessi líka stuðningsmaður Liverpool á enskum United-lista… er hann heimildin? Hversu líklegt telur þú sjálfur að lætin hafi verið í hlutfalli við fylgjendur liðanna, þ.e. væntanlega meirihluti voru City-menn?

  Þeir sem sannarlega tóku þátt í þessari óvirðingu eiga skammir skilið, ég hefði stutt klapp-hugmyndina og óskiljanlegt af hverju það var ekki leyft.

  En af hverju kom Björn ekki fyrir leikinn á síðuna hérna og þakkaði þá fyrir hlý orð? Þurfti leiðindi til að koma hingað?

 27. Ég kem hér reglulega (best skrifaða fótboltasíðan á landinu), en hafði ekki komið frá því að þessi grein var birt. Þannig er nú það. Auðvitað hef ég meira gaman af því en hitt að dissa ‘pool ef ég get það með rökstuðningi.
  Skv minni heimild þá var meirihluti dólganna ‘púlarar sem voru þó færri á vellinum. Þessi náungi er á United listanum af svipaðri ástæðu og ég er hér, að fylgjast með andstæðingunum. Hann hefur (ólíkt mér) unnið sér inn traust með því að hanga á listanum í 5 ár og vera óhræddur að segja okkur, og sínum mönnum til syndanna þegar við á.
  Finnst mjög undarlegt að klappið hafi ekki verið leyft, nú síðast er klappað á undan Everton – Newcastle. Það er eins og einhverjum hafi verið í mun að þögnin yrði trufluð smbr tilmæli til dómarans.

 28. Mín skoðun á þessu er þessi:

  **Ég** hefði virt þögnina, hefði ég verið á vellinum, fyrir nánast hvaða leikmann sem er. Hins vegar eru einfaldlega ekki allir sem hugsa svoleiðis. Inn á milli eru alltaf vitleysingar sem haga sér sem slíkir, akkúrrat þegar þeir eru beðnir um að hegða sér sómasamlega.

  Þá finnst mér einnig lítið vit í að ætla að skamma aðdáendur/áhorfendur eins ákveðins liðs eða annars fyrir svona framkomu. Voru þetta City-menn eða Liverpool-menn í gær? Hver veit, og hverjum er ekki sama? Þetta gerðist, þetta var ljótt að sjá (og heyra) og þar við situr.

  Það að segja að af því að Liverpool-stuðningsmenn vanvirtu mínútuþögnina í gær, þá séu þeir verri en aðrir stuðningsmenn, er fáránlegt. Það eru svona stuðningsmenn inn á milli hjá **öllum** liðum, ekki bara örfáum. Öllum. Já, það eru til hálfvitar sem halda með Liverpool og mæta á leiki þeirra, alveg jafnt og hjá öðrum liðum. Bara staðreynd.

  Þannig að fyrir mér er þessi umræða óþörf. Mér fannst leiðinlegt að sjá þetta gerast, en átti samt von á þessu eiginlega (kommon, City og Liverpool að heiðra Best?) … en ég ætla ekki að fá móral þótt einhver hálfviti þarna úti í Liverpool-treyju hafi ekki getað þagað í gær.

Liverpool bjóða í Serba

Man City á morgun!