L’pool 3 – Pompey 0

_41037066_liverpool.jpgJæja, þetta var hinn fínasti leikur í rauninni. Okkar menn tóku grútlélegt lið Portsmouth í kennslustund í fótbolta í dag og unnu verðskuldaðan 3-0 sigur, og var sú markatala síst of stór. Þetta Portsmouth-lið, það verður að segjast, er eitthvert það allélegasta sem hefur komið á Anfield í langan tíma. Minnti mig helst á Leeds árið sem þeir féllu, eða hreinlega Sunderland-liðið sem féll árið þar áður með lélegasta stigafjölda í sögu Úrvalsdeildarinnar. Þetta Portsmouth-lið var einfaldlega ömurlegt, og ef ekki er eitthvað gert fljótlega þá eru þeir í stórkostlegum vandræðum!

Hvað okkar menn varðar þá var þetta bara fínn leikur. Engin blússandi knattspyrna leikin í dag svo sem, en heldur engin þörf á því þannig séð. Um leið og liðin hófu leik sá maður eiginlega strax hvað í stefndi, Portsmouth-liðið ógnaði Reina í marki okkar nákvæmlega ekki neitt og þetta var bara spurningin um hvenær og hve mörg mörk við myndum skora.

Rafa ákvað að hvíla nokkra menn í dag; Alonso og Morientes voru á bekknum og Riise og Kewell voru hafðir fyrir utan hópinn. Sniðug ákvörðun, enda mikið af leikjum núna framundan fram að áramótum eða svo. Byrjunarliðið í dag leit því svona út:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Gerrard – Hamann – Zenden

Cissé – Crouch

BEKKUR: Dudek, Josemi, Traoré, Alonso, Morientes

Það var eiginlega bara tvennt neikvætt við þennan leik í dag:

1. Meiðsli: Luis García meiddist í fyrri hálfleik og var loks skipt útaf fyrir Nando Morientes, eftir að hafa haltrað um völlinn í einhverjar fimm mínútur. Hann virtist sárkvalinn. Svo í síðari hálfleik, um tíu mínútum eftir að hann kom inná, fór Xabi Alonso meiddur útaf og virtist kvarta undan meiðslum á framanverðu læri, að mér sýndist. Vonandi er hvorugur þeirra eitthvað alvarlega meiddur, þetta eru lykilmenn sem við megum alls ekki við að missa núna.

2. Markaþurrð Peter Crouch: Karlgreyið. Ég stend enn við þá skoðun mína að hann er að spila betri fótbolta en Fernando Morientes í dag, og sennilega að spila betur en Djibril Cissé líka. En á meðan mörkin virðast loksins vera að byrja að detta fyrir Morientes (hann er kominn með fjögur í vetur) og Cissé heldur áfram að skora í nánast hverjum einasta leik (kominn með ellefu eða tólf mörk núna, að mig minnir) þá bara getur Crouch ekki skorað. Hann fékk meira að segja að taka víti í dag en lét Jamie Ashdown verja slakt skot frá sér.

Annars voru það þeir Bolo Zenden, Djibril Cissé og Fernando Morientes sem skoruðu mörkin okkar í dag. Zenden skoraði með skalla úr frákastinu eftir að Jamie Ashdown hafði varið víti frá Peter Crouch – sem Zenden hafði sjálfur fiskað. Cissé brunaði upp kantinn framhjá Grégory Vignal í liði Portsmouth og ætlaði að gefa fyrir en sendingin fór of nærri markinu … og steinlá alveg uppí markhorninu fjær. Óverjandi fyrir Ashdown, og Cissé hló með The Kop og yppti öxlum, til merkis um að þetta hafi verið óvart. Samt virtist Rafa hrósa honum á hliðarlínunni eftir markið … hefur sennilega sagt honum að halda áfram að klúðra fyrirgjöfum sínum. 🙂 Morientes skoraði svo í síðari hálfleik eftir að Gerrard hafði átt háa sendingu fyrir á fjær, Crouch hafði þar skallað boltann niður í teiginn þar sem Sami Hyypiä lagði hann fyrir Morientes, sem lagði hann fyrir sig og setti hann svo í hliðarnetið af stuttu færi.

Sem sagt, fín mörk, fín frammistaða og það besta við þetta var að þetta var frekar áreynslulaus sigur … manni leið á köflum eins og Liverpool-liðið væri bara í hlutlausum gír, eins og bíll sem rennur niður brekku og hefur ekkert fyrir því. Það eina sem vantaði í þennan leik var mark frá Crouchie, en ég bara trúi því ekki að hann verði markalaus mikið lengur. Hann gerði allt rétt í dag – eins og svo oft áður – nema skora!

MAÐUR LEIKSINS: Tja, það lék enginn illa í rauninni. García og Alonso voru of stutt inná til að gera eitthvað af viti og Josemi – sem kom inná undir lok leiks fyrir Gerrard – í raun líka. Vörnin okkar var góð, hafði nánast ekkert að gera en réð vel við það litla sem á þá kom, og þeir Finnan og Warnock voru duglegir að sækja upp vængina. Reina fyrir aftan þá var öryggið uppmálað og duglegur að koma boltanum fljótt aftur í leik.

Á miðjunni voru þeir Didi Hamann og Stevie Gerrard nokkrum númerum of stórir fyrir leikmenn Portsmouth – sérstaklega vorkenndi ég Viafara, sem hefur eflaust vaknað í morgun og sagt við sjálfan sig, “ég get pakkað Steven Gerrard saman!” Hann reyndi og reyndi en gekk vitaskuld ekki baun … Gerrard tók hann í knattspyrnukennslustund í dag og fyrir það er hann minn maður leiksins. Sannkölluð fyrirliðaframmistaða.

Á vængjunum voru Zenden og Cissé hættulegir og spiluðu að mínu mati mjög vel, og þá sérstaklega Zenden sem var mikið í boltanum og spilinu. Þeir skoruðu báðir sem er jákvætt, og það er vonandi að miðjan haldi áfram að leggja sitt af mörkum til sóknarinnar svona. Þetta er miklu betra en það sem við erum vanir að sjá til vængmanna okkar.

Frammi voru Morientes og Crouch svolítið spes, eiginlega. Crouch átti betri leik en Morientes, var meira í spilinu og sýndi meira í leiknum, en á endanum þá er Morientes enn miklu líklegri til að skora mörk í leik en Crouch. Og þá er sko mikið sagt! En ég hef engar áhyggjur af þessu, finnst gott að sjá Nando vera byrjaðan að skora reglulega, vonandi heldur það áfram, og ég er handviss um að Crouch muni ná sínu fyrsta marki í næstu 2-3 leikjum okkar. Það bara hlýtur að fara að gerast.

Ágætur sigur í dag og við erum komnir í 8. sæti deildarinnar eftir daginn, með 19 stig. Þetta er allt á uppleið og nú erum við búnir að vinna fjóra leiki í röð, og markatalan í þeim leikjum er 11-0. Geri aðrir betur! 🙂

16 Comments

  1. Já góður sigur og gott að sjá síðuna komna aftur upp eftir allt of langt hlé.
    Ég veit eiginlega ekki hvað skal segja um Crouch greyið, hann átti fínan leik en hvílíkt hvað hann er að nýta færin illa, mér fannst svo áberandi í þessum leik að alltaf þegar að hann átti skot eða skalla á mark að það var það alltaf beint á markmanninn nema í vítinu þá var skotið aðeins til hliðar við hann, enganveginn nógu gott.
    En ég hef það á tilfinningunni að þegar að Crouch skorar þá verði það sem að stífla bresti og að það muni flæði inn mörkum frá kall greyinu.
    Við verðum komnir á topp 4 um áramótin ; )

  2. Jamm jamm jamm, þetta var fínt. Langt síðan ég hef verið jafnlítið stressaður yfir Liverpool leik. Eina stressið var fyrir vítið, sem ég vonaði svo **innilega** að Crouch myndi skora úr.

    En einsog þú segir, þá gerði hann hreinlega allt rétt nema að skora. Móttakan, boltameðferðin og sendingarnar voru allar frábærar. Ég hafði á tilfinningunni að ef hann næði bara að pota einhverju inn, þá myndi hann ná þrennu.

    En hann fær líka plús fyrir að hengja ekki haus, heldur halda áfram að vinna stanslaust fyrir liðið. Crouch vex stöðugt í áliti hjá mér og ég vona að fleiri geti séð eitthvað aðeins meira en markaþurrðina í leik Crouch, því hann er að spila virkilega fínan bolta.

    Zenden var líka mjög sprækur og að mínu mati maður leiksins. Einn hans besti leikur í langan tíma.

    En góður sigur og Pepe hefur núna haldið hreinu í **sex klukkustundir**. Jamm, hann er ábyggilega í liðinu af því að hann er Spánverji einsog umbinn hans Jerzy heldur fram. 🙂

    BTW, Rafa segir að bæði [Luis og Xabi séu heilir](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N150613051119-1730.htm). Frábært! Góður dagur.

    (Koma svo Barca!!!)

  3. Flottur sigur hjá okkar mönnum……ég get ekki beðið eftir næsta leik..:-)

    Ég sakna nú eiginlega rauða litarins á blogginu… kannski kemur hann!

  4. Ekki sá ég leikinn… en Morientes var maður leiksins að mati SkySports. Spurning hvort að menn séu eitthvað hlutdrægir á þennan blessaða fyrirliða.

  5. Stevie átti jú ágætan leik, en að mínu mati voru þrír leikmenn sem áttu enn betri leik.

    Maður leiksins, án efa hjá mér, Bolo Zenden. Frábær leikur hjá kauða.

    Næstur? Nando. Engin spurning, þvílík boltatækni hjá manninum og hvernig hann tekur við bolta og býr hreinlega til space fyrir félagana.

    Þriðji? Sami. Hreint út sagt óaðfinnanlegur. Ekki nóg með að éta allt sem kom nálægt vörninni, heldur var hann oft á tíðum einn af aðal mönnunum í sókninni líka.

    Stevie átti reyndar góðan leik líka. En í dag var Bolo minn maður.

    Og til lukku með að vera komnir með síðuna upp aftur. Var farinn að halda að væri búið að blokka mann 😉

    Þarf því miður að fara í fyrramálið til Englands að vinna og verð í Liverpool alla næstu viku, kem með update þaðan.

  6. Þetta Portsmouth lið er það lélegasta sem ég hef séð á Anfield. Ömurlegir.

    Ég er líka algerlega ósammála ykkur með Crouch. Að mínu viti gekk ekkert upp hjá honum. Ef svo ólíklega vildi til að hann náði að sóla mann þá gat hann ekki komið sendingunni til skila.
    Hann var svo langt frá því að vera líklegur að skora að það hálfa væri nóg. Og ruglið að láta hann taka vítið. Ömurlegasta víti sem ég hef séð tekið á Anfield.

    Nú er komið eitthvað svona pity moment í kringum hann. Eitthvað svona alliraðveragóðirviðCroucgreyiðmoment.

    Af hverju haldið þið að hann fái aldrei færi?Af hverju er Garcia mun líklegri til að skora með skalla en Crouch? Það er einfaldlega v.þ. að hann hefur tilfinningu fyrir því hvar boltinn kemur. T.d. hleypur á móti boltanum inn í teig. Þetta kallast knattspyrnuhæfileikar og því miður hefur Crouch ekki nægilega mikla til að vera Liverpool leikmaður.

    Annars góður sigur. Liðið er að verða ansi massívt. Zenden og Morientes menn leiksins að mínu mati. Hefðum bara átt að skora miklu fleiri mörk.

  7. Rosalega var gott að fá svona frábæran leik frá okkar mönnum þegar maður var svona gríðarlega spenntur fyrir leiknum enda landsleikjafríið búið að gera að kleift að maður hefur ekki séð Liverpool spila LENGI!

    Algörlega frábær leikur og allir að eiga góðan leik, Crouch er rosalegur þetta er orðið ótrúlegt. Það voru allir að reyna að hjálpa honum í dag með að skora með því að dæla á hann boltunum. Enn maðurinn er með ömurlegt sjálfstraust, þegar hann kommst þarna í gegn og var að vísu dáltið fyrir utan vítateig þá í staðin fyrir að negla eitthvað bara á markið, af hverju vandaði hann sig ekki aðeins, markmaðurinn var kominn langt út á móti og það hefðu allir góðir frammherjar sett hann innanfótar í boga yfir markmannin.. Owen hefði skorað þrennu hefði hann fengið þau færi sem Crouch fékk í dag…

    Annas nóg um það þetta var frábær leikur og virkilega gaman að sjá Zenden eiga svona góðan leik. Hyypia var einnig frábær. Til hamingju poolarar og nú er bara að vona að við getum tryggt okkur upp úr meistaradeildarriðlinum á miðvikudaginn á móti Betis, hvef svo virkilega trú á því miðað við að sá leikur verður á Anfield….

  8. þulurinn á leiknum sagði allt sem segja þarf um Crouch. þegar hann fékk færið og klúðraði því þá sagði hann. “Well when its not going for you its not going for you. Og hvaða owen kjaftæði er þetta alltaf. veit nú ekki betur en að í gegnum tíðina var hann alltaf markahæstur í deildinni eftir ágúst og eitthvað frammí september, sást svo ekki fyrr en hann fór að raða þeim inn í lok móts þegar það skipti ekki máli lengur. Og þegar hann fékk markastíflu þá gat hann svoleiðis klúðrað færum!!

  9. Þetta Owen “kjaftæði” er til komið vegna þess að það var keyptur frammherji í sumar og Owen var á lausu og hefðum við verið aðeins fyrr á ferðini hefðum við líklega getað gengið frá kaupum á þessum snilling, en í stað þess var Rafa með þessa trölla trú á Crouch sem er búin að fá helling af marktækifærum en ekki skorað, þess vegna held ég að það séu enn nokrir Owen Fan sem eru ennþá að ná sér. Enn ég er viss um að hann komi einn daginn.

    Enn ég er sammála þér að maður má ekki endalaust vera að grenja yfir þessu. Owen er í Newcasle(ennþá) og Crouch í Liverpool(ennþá).
    Sorry…

  10. Riise var ekki með í dag og við það lagaðist leikur Liverpool til muna,hann má alveg hvíla lengur.

  11. Já Villi Matta … af því að við vorum svo lélegir í síðustu þremur leikjum, með Riise í bakverðinum.

    Hvaða mögulegu ástæðu hefurðu til að snúa umræðu um góðan leik í dag upp í Riise-diss? Ég skil ykkur suma ekki, eru menn að reyna að búa til ástæður til að vera neikvæðir? Liðið vann 3-0 í dag, vertu ánægður, brostu. Njóttu þess. Ef þú getur ekki notið 3-0 sigurleikja, til hvers ertu þá að fylgjast með þessu?

    Riise er ekki fullkominn leikmaður, en hann er ekki ömurlegur og á ekki skítkast skilið. Frekar en aðrir leikmenn Liverpool. Gagnrýni, já, skítkast, nei. Riise spilaði ekki í dag, þannig að láttu hann vera.

    Já, svona ruglkomment fara bara svona mikið í taugarnar á mér. Biðst afsökunar á því, en svona er ég bara. Þoli ekki svona skítkast!

  12. Amen, Kristján. Þú sagðir það, sem ég vildi segja.

    Og einnig, Hössi:

    >Af hverju haldið þið að hann fái aldrei færi?

    Fyrirgefðu, var Crouch ekki að fá færi í leiknum? Ef það á að gagnrýna hann fyrir eitthvað, þá er það að nýta færin ekki, en það er alveg ljóst að hann er að skapa sér *fullt* af færum. Honum vantar bara að nýta þau.

    Allir framherjar fara í gegnum tímabil, þar sem boltinn vill ekki inn. Ég myndi hafa miklu meiri áhyggjur ef að honum tækist ekki að koma sér í færin.

  13. Einar það er rétt að allir framherjar fara í gegnum tímabil þar sem boltinn vill ekki inn.

    En að Crouch hafi verið að skapa sér færi er ég algerlega ósammála. Hann fékk tvö dauðafæri í leiknum fyrir utan vítið. Hefði mátt gera betur einn á móti markmanni en skallinn eftir hornspyrnuna var mjög góður bara mjög vel varinn einnig. Fleiri færi fékk hann ekki – ekki einu sinni hálffæri. Og ef þú skorar ekki á móti þessu vesalings Portsmouth liði hvenær í andsk. ætlar þú þá að skora.

    Og svo er rangt að hann hafi skapað þessi færi sjálfur. Hann er algerlega upp á aðra kominn.

    Í dag hef ég áhyggjur af því að hann er ekki að skora, ekki að skapa sér færi og ekki að leggja færi upp fyrir aðra….og hann er senter for cryin out loud.

    …en ef hann skorar á móti Real Betis sem ég tel lang mikilvægasta leik okkar hingað til í vetur þá skal ég hætta öllum kvörtunum og kveinum yfir getu hans … á þessu ári.

    Mikið er svo gott að síðan skuli vera aftur komin í samt lag. Ég fékk vægt panic attack og hringdi í vini mína til að spyrja hvað hefði orðið af síðunni. Nú er ég pollrólegur.

  14. >Og svo er rangt að hann hafi skapað þessi færi sjálfur. Hann er algerlega upp á aðra kominn

    Það eru nú afskaplega fáir framherjar, sem skapa sér öll sín færi sjálfir. Þeirra vinna byggist á því að vera á réttum stað þegar að færin skapast. Það eru ekki nema menn einsog Ronaldinho, sem geta skapað allt sjálfir.

    Og hann mun skora gegn Betis, ég er sannfærður um það 🙂

  15. “Og svo er rangt að hann hafi skapað þessi færi sjálfur. Hann er algerlega upp á aðra kominn.

    Í dag hef ég áhyggjur af því að hann er ekki að skora, ekki að skapa sér færi og ekki að leggja færi upp fyrir aðra….og hann er senter for cryin out loud.”

    Legg til að Hössi horfi á leikinn aftur (reyndar ekki viss um að hann sé búinn að sjá hann!) og sjái Crouch leggja upp 3ja markið og einnig færin sem hann skapaði sér sjálfur. Allir netmiðlar sammála um að hann hafi átt stórleik, aldrei hætt að reyna og gert allt nema skora, og sammála Einari, hann skorar gegn Betis og á eftir að raða inn eftir það

Liðið komið

Síðan komin í lag