Pompey á morgun

0,,10396~592661,00.jpgJæja, þá er þessi blessaða bloggsíða okkar Liverpool-nöttaranna loksins komin aftur í gang, og er það ekki seinna vænna! Á morgun lýkur nefnilega loooksins þessu tveggja vikna helvítis landsleikjahléi, og nú ættu menn loksins að geta einbeitt sér að sínum félagsliðum þangað til næstu landsleikir koma einhvern tímann í vor.

Allavega, framundan á morgun er heimaleikur á Anfield við Portsmouth, lið sem er þremur stigum fyrir neðan okkur í töflunni og hefur átt í töluverðu basli það sem af er leiktíðinni. Þeir hafa ekki ennþá unnið leik á heimavelli í vetur, en hefur hins vegar gengið betur á útivelli. Það er mikil pressa á þjálfara þeirra, Alain Perrin, og er víða talið að hann gæti orðið fyrsti þjálfarinn í vetur til að taka pokann sinn. Sem er vissulega möguleiki, því í næstu fjórum leikjum sínum eiga Pompey-menn okkur, Newcastle og Chelsea úti og Arsenal heima. Úff, segi ég nú bara. Þannig að þeir munu mæta vígreifir til leiks á morgun og berjast hart fyrir stigi eða stigum.

Okkar menn hafa hins vegar verið á uppleið undanfarið, unnið þrjá leiki í röð og eru með markatöluna 8-0 í þeim leikjum. Við höfum sem sagt haldið hreinu í nærri því 300 mínútur núna, spilað með nær óbreytt lið í þessum þremur leikjum og gengið vel að skora. Þannig að eðlilega búast flestir við sigri Liverpool á morgun.

Hvað byrjunarliðið varðar þá liggur beinast við að Rafa haldi bara áfram að velja sama lið og í síðustu leikjum, en þó er eitthvað sem segir mér að hann muni hvíla John Arne Riise á morgun. Riise er eini landsliðsmaður okkar sem lék 180 mínútur, heila tvo leiki, síðastliðna viku, á meðan Gerrard og Crouch spiluðu bara í einum leik með Englandi og García, Morientes og Alonso komu misjafnlega mikið við sögu hjá Spáni en enginn þeirra lék meira en 90 mínúturnar í heild sinni, allir fengu hvíld.

Þar að auki fékk Riise víst þungt höfuðhögg gegn Tékkum á miðvikudag og missti næstum því af leiknum á morgun, en er víst heill þrátt fyrir það. Engu að síður hef ég trú á því að Jonny fái hvíld á morgun og að Djimi Traoré eða Stevie Warnock komi inn fyrir hann. Hvor þeirra veit ég ekki, læt þá stöðu bara óútfyllta, en annars ætti liðið á morgun að líta svona út:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypia – (bakvörður)

Gerrard – Alonso – Sissoko – García

Cissé – Crouch

Morientes var bara svo slappur gegn Aston Villa að ég trúi ekki öðru en að Crouchie komi aftur inn fyrir hann, Cissé er enn að skora mest okkar manna og verður því áfram í liðinu, og svo er spurning með bakvörðinn. Að öðru leyti er þetta lið okkar nokkuð borðleggjandi.

MÍN SPÁ: 2-0 fyrir okkur. Það kæmi mér nefnilega ekkert á óvart að við förum að spila smá tímabil núna þar sem við fáum ekki á okkur mark í langan tíma. Vonandi verður þetta fjórði leikurinn í röð sem við höldum hreinu, eigum alveg að geta það gegn liði eins og Portsmouth, og því sé ég ekkert annað en að okkar menn mæti fullir sjálfstrausts á morgun og klári dæmið. Djibril Cissé skorar, að sjálfsögðu, og ætli Harry Kewell komi ekki bara inná og skori líka? Hvernig væri það?

Allavega, boltinn byrjaður að rúlla aftur (bæ bæ Roy Keane, hehe) og ekkert nema gott um það að segja. Áfram Liverpool!!!

4 Comments

  1. Þetta nýja look er ekki alveg að gera sig 🙂 annars spái ég 2-0 fyrir okkar mönnum, Garcia og Gerrard skora.

  2. Draga andann djúpt, Biggi, þetta er bara eitthvað “default” look í kerfinu. Á eftir að koma Liverpool look-i inn. Veit ekki alveg hvenær það gerist.

    En innihaldið skiptir mestu máli 🙂

Sunnudagshugleiðingar (+viðbót)

Liverpool bloggið komið upp aftur: STÓRKOSTLEGT!