Anderlecht á morgun!

Jæja, þriðja umferðin í riðlakeppni Meistaradeildarinnar hófst í kvöld, og á morgun heimsækja okkar menn Anderlecht frá Belgíu, lið sem er allavega á pappírnum auðveldasti mótherjinn í riðlinum.

Anderlecht-menn töpuðu 0-1 fyrir Chelsea á Stamford Bridge í fyrstu umferðinni, og svo 1-2 á heimavelli fyrir Real Betis í síðustu umferð. Þeir eru neðstir í riðlinum með núll stig, þar fyrir ofan koma Betis með þrjú stig og svo við og Chelsea efst með fjögur stig hvort lið.

Það er því ljóst að Anderlecht-menn verða að vinna á morgun, ætli þeir sér að eiga séns á að komast í 16-liða úrslit, og munu því örugglega selja sig dýrt gegn okkur.

Ég hugsa að það besta sem gæti gerst úr því sem komið er sé að Chelsea bara klári báða sína leiki gegn Betís með sigri, og við klárum næstu tvo leiki gegn Anderlecht líka með sigri. Ef það myndi nást værum við og Chelsea komin með 10 stig eftir fjórar umferðir, Betis sætu eftir með þrjú stig og Anderlecht enn án stiga. Með öðrum orðum, ef Chelsea standa sig og við líka, þá gætum við verið orðnir öruggir í 16-liða úrslitin eftir tvær vikur. Sem væri frábært, að mínu mati, því þá gætum við einbeitt okkur að deildinni og Heimsbikarnum í desember án þess aukaálags sem myndi fylgja t.d. úrslitaleik um að komast áfram gegn Chelsea í desember.

En auðvitað á margt vatn og mikið eftir að renna til sjávar áður en við getum fagnað sigri/öðru sæti í þessum riðli og – eins og Rafa segir jafnan – er sennilega best að taka bara einn leik í einu.

Rafa hefur gefið til kynna að Djibril Cissé muni byrja inná á morgun, auk þess sem Harry Kewell verður líklega í hópnum. Það er eitthvað sem segir mér að Peter Crouch verði hvíldur á morgun, þá væri bara spurningin hvort Cissé yrði einn frammi eða Morientes með honum í liðinu.

Ég, persónulega, hallast að því að við stillum eftirfarandi liði upp á morgun:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Alonso – Sissoko – Zenden

Cissé – Morientes

BEKKUR: Carson, Traoré, Josemi, Hamann, Riise, Kewell/Pongolle, Crouch.

Ég byggi þetta að sjálfsögðu bara á því hverjir byrjuðu síðasta leik í þessum stöðum. Auðvitað gæti Rafa valið Traoré fram yfir Warnock, Riise fram yfir Zenden, Pongolle fram yfir García, Hamann fram yfir Sissoko, Crouch fram yfir Morientes, Josemi fram yfir Finnan, og svo framvegis.

Með öðrum orðum: það ríkir samkeppni um stöður í liðinu núna. Og þannig á það að vera! 😀

MÍN SPÁ: Þessi leikur leggst bara vel í mig. Ef gáð er að því að við höfum verið gríðarlega sterkir í ár (og fyrra, augljóslega) í Evrópu og varla stigið feilspor þar, og sú staðreynd að Anderlecht hafa tapað níu leikjum í röð í Evrópukeppnum, þá finnst mér bara eðlilegt að maður búist við sigri Evrópumeistaranna á morgun.

Þannig að ég ætla að spá 2-0 sigri okkar í leik sem er eiginlega aldrei í hættu. Þetta leggst einfaldlega mjög vel í mig, og ég hlakka til að sjá okkur spila Evrópuleik (eins og venjulega, þeir eru talsvert skemmtilegri en deildarleikirnir þessa dagana) …

… æjá, og Cissé skorar á morgun. Tvö! 😉

Áfram Liverpool!!!

8 Comments

 1. Jamm, nokkuð sammála þessu. Hallaðist líka að þessari liðsuppstillingu. Crouch hefur spilað fulltaf leikjum í röð, svo ég held að hann gefi Cisse og Moro tækifæri.

  Einnig, þá verður Rafa að treysta Warnock líka í erfiðu leikjunum ef að hann hefur trú á honum sem okkar aðalvinstri bakverði.

  En eru ekki meiri líkur á að Alonso og Hamann spili saman inná miðjunni, þar sem þetta er nú Evrópuleikur á útivelli? Einhvern veginn yrði ég ekkert hrikalega hissa ef að Rafa myndi stilla upp 4-5-1 með Momo, Xabi og Didi alla þarna inni á miðjunni, einfaldlega vegna þess að við verðum úti og Anderlecht verða að sækja.

  En allavegana, ég held að við vinnum þetta, 1-2. Og já, auðvitað skorar Cisse. 🙂

 2. Já nokkuð sammála þessu. Er ekki málið að senda Einar á þennan leik ? 🙂

 3. Rosalega hef ég á tilfinningunni að 4-5-1 verði notað með Cisse fremstan (þar sem að maðurinn átti flottan leik síðast) en að leikurinn fari 0-0. :rolleyes:

  En vonum að RAFA treysti sér að nota 4-4-2 og sjái að það virkar með öruggum sigri 3-0…. :biggrin2:

 4. Ég veit ekki hvort maður á að vera of bjartsýnn á sigur í kvöld, þetta er jú útileikur. En vonandi höldum við áfram að spila með sama sjálfstrausti í evrópukeppninni og við höfum gert hingað til.

  Fyrir mitt leiti væru jafntefli ekki heimsendir, þó krafa sé um sigur.

  Varðandi liðið þá vona ég að Traore haldi stöðu sinni í miðverðinum þar sem hann hefur mun meiri hraða en Hyypia. Eins og Benitez hefur komið inn á þá eru leikmenn Anderlecht fljótir og leiknir, þannig að Traore er betri kostur en hægur Hyypia.

  Krizzi

 5. Ég hef góða tilfinningu fyrir leiknum í kvöld.

  Ég vona líka að liðið verði eitthvað í þá veru sem Kristján Atli stillti upp.

  Verð samt að viðurkenna að ég er spenntari (eins og Krizzi) fyrir Traore í miðverðinum en Hyppia. Þá mætti Hamann einnig koma í staðinn fyrir Alonso á miðjuna.

 6. Þetta verður hörkuleikur. Það væri frábært að vinna þennan leik, en jafntefli eru þó ágætis úrslit.

  Hvað varðar liðið sem byrjar í kvöld er ég nokkuð sammála Krstjáni með það. Reyndar sé ég ekki ástæðu til að sleppa Traore úr liðinu og hefði ég líka viljað sjá Hamann inn fyrir Alonso. Alonso þarf hvíld vegna þess að hann er langt frá því að skila sínu í síðustu leikjum. Tel að Sissoko geti leist það vel að vera örlítið framar en Hamann. Einnig verður gott fyrir Crouch að byrja á bekknum og ná þá aðeins að hvíla sig og ná áttum. Vona líka að Zenden fái séns í kvöls, fannst hann vera að smella þokkalega í síðasta leik.

  Ég spái sigri í kvöld.

 7. Byrjunarliðið komið svona 4-4-1-1:
  Reina, Josemi, Traore, Hyypia, Riise, Carragher, Sissoko, Hamann, Alonso, Garcia, Cisse

 8. Jæja, alltaf stressandi en þetta hafðist. 0-1. Fullt af færum en af hverju eru færin ekki kláruð? Við vorum miklu, miklu, miklu betri í fyrri hálfleik. Sjö stig ok, þurfum jafnvel ekki meir en einn sigur í viðbót til þess að tryggja, en það þarf samt ekki að hugsa svoleiðis. Tveir leikir á Anfield. ok, gaman, gaman. Þar er sóknin besta vörnin og áhorfendurnir 12 maðurinn, ég og þú. smé, smé. Gefum Morientes og Cissé séns þar.

Benitez um Harry Kewell

Helguera neitar