Blackburn á morgun!

Loksins … LOKSINS! … er komið að næsta deildarleik Liverpool. Eftir hræðilegt tap á heimavelli gegn Chelsea fyrir tæpum tveimur vikum, þá koma Blackburn í heimsókn á Anfield á morgun og spreyta sig gegn okkar mönnum. Þessi leikur er merkilegri en aðrir fyrir okkur sem rekum þessa síðu, þar sem Einar Örn er staddur í Liverpool-borg þessa dagana og fer á leikinn á morgun. Það verður fyrsti leikur Einars á Anfield, eitthvað sem hann á eftir að muna lengi. 🙂

En já, Blackburn-liðið er í 11. sæti í deildinni, tveimur sætum ofar en við, með 11 stig eftir 8 leiki. Við erum með 7 stig eftir 6 leiki. Blackburn-liðið hefur verið svona upp og ofan í vetur, bæði leikið vel og illa, en hafa þó m.a. unnið Man U á Old Trafford í vetur, þannig að það er alveg ljóst að þetta verður hörkuleikur við hörkulið á morgun.

Þeir eru með tvo snjalla framherja, þá Paul Dickov og Craig Bellamy, en ég myndi samt segja að þeirra hættulegasti leikmaður sé vængmaðurinn Morten Gamst Pedersen, sem hefur verið þeirra besti maður í haust. Steve Finnan fær örugglega nóg að gera á morgun, en það verður hans starf að stöðva þennan knáa Norðmann.

Hjá okkar mönnum er vandi um að spá, eins og venjulega. Það eru tvær vikur síðan við spiluðum síðast, töpuðum illa þá, vitum ekkert hvernig ástandi leikmenn eru í eftir landsleiki og erum nú án Steven Gerrard. Þannig að í raun veit enginn hvernig Rafa mun stilla þessu upp, en ég ætla samt að reyna að giska.

Það hefur mikið verið rætt um það hvort að Djibril Cissé eða Fernando Morientes komi inn í framlínuna við hlið Peter Crouch, í fjarveru Steven Gerrard, eða hvort að Rafa haldi sig við 4-5-1. Ég er eiginlega nokkuð sannfærður um að hann muni halda sig við 4-5-1, og gæti trúað því að hann stilli þessu nokkurn veginn svona upp:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Pongolle – Alonso – Hamann – Zenden
García
Crouch

Á bekknum yrðu þá t.d. Djimi Traoré, Momo Sissoko, Fernando Morientes, Djibril Cissé og varamarkvörðurinn Scott Carson.

Ég byggi þetta m.a. á því að menn á borð við Hamann og Zenden hafa verið á Melwood við æfingar í tvær vikur, á meðan t.d. Momo Sissoko og John Arne Riise (sem berjast um þessar tvær stöður við þá) voru fjarverandi með landsliðum sínum. Þá finnst mér líklegt að Rafa setji García í holuna í fjarveru Gerrard, og setji annað hvort Pongolle eða Cissé á vænginn – líklega Pongolle.

Ég sé þetta allavega svona fyrir mér, en auðvitað er maður bara að skjóta út í loftið. Rafa gæti stillt upp einhverju gerólíku.

MÍN SPÁ: Þegar ég fór síðast á Anfield, í febrúar, sá ég Liverpool vinna Fulham 3-1. Við komumst snemma yfir en þeir jöfnuðu, við komumst aftur yfir fyrir hlé og vorum svo miklu betra liðið og innsigluðum sigurinn með góðu marki í síðari hálfleik.

Þar sem Einar er staddur á vellinum í þetta sinn ætla ég að spá sömu úrslitum. Við komumst snemma yfir, þeir jafna og svo taka okkar menn öll völd og innbyrða góðan 3-1 sigur.

Þá hef ég núna í nokkra leiki í röð spáð því að Peter Crouch muni skora fyrsta mark sitt fyrir Liverpool, en það hefur ekki gengið eftir. Þannig að nú ætla ég að venda kvæði mínu í kross og segja að það er ekki séns í helvíti að Peter Crouch skori á morgun! Vonandi reynist þessi spá mín jafn röng og hinar spárnar um markaskorun hans 😉

Allavega … deildin er byrjuð að rúlla aftur og nú er um að gera að gleyma þessum Chelsea-leik sem fyrst! Áfram Liverpool!!!

p.s.
Ég hringi í Einar á morgun strax eftir leik og ef hann er ekki raddlaus, þá mun ég segja frá því hér á netinu að hann hafi farið á Anfield og ekki sungið með. Einar, stattu þig! 🙂

8 Comments

  1. Þetta er sigur og við skorum mikið af mörkum og það verður EKKI Crouch sem skorar (kemur á óvart).

    Ástæðan fyrir því að ég er viss um sigur… lukkudýrið verður á svæðinu!

  2. EF Cisse byrjar þá setur hann 2 hið minnsta. :biggrin: Það er kominn tími á góðan sigur.
    kv,

  3. Eiki Fr – þessi frétt er slúður, ekki treysta því sem Tribalfootball segir. Aldrei treysta þeim.

    Og … vinsamlegast ekki setja link inn í fyrstu línu ummæla, eins og þið sjáið þá fer útlit síðunnar í hönk við slíkt og ég þarf að laga ummælin eftir ykkur!

Allir tjá sig um Crouch og meira til…

L’pool 1 – Blackburn 0