Getur Calliste eitthvað?

Ég verð að viðurkenna að ég er farinn að hlakka alveg ógurlega til að sjá okkar menn spila í Deildarbikarnum enska, en við eigum fyrsta leik þar eftir nákvæmlega tvær vikur við Crystal Palace. Ég hef nefnilega mjög sérstaka ástæðu til að vera spenntur fyrir þessari bikarkeppni.

Rafa mun nær örugglega nota eitthvað af ungu strákunum og varamönnunum í þessari keppni, rétt eins og í fyrra. Sem þýðir að menn á borð við Josemi, Zak Whitbread, Scott Carson, Djibril Cissé, Bolo Zenden, Darren Potter og fleiri sem ekki hafa spilað reglulega fyrir aðalliðið undanfarið fá að spila slatta.

Og … Ramón Calliste.

Í gær birtist grein um hann á opinberu síðunni, þar sem hann ítrekar hvað hann sé þakklátur Liverpool fyrir það tækifæri sem þeir veittu honum í sumar. Hann ætlar sér ekki að valda yfirmönnum Liverpool vonbrigðum.

Svo í dag birtist önnur grein, þar sem fjallað er um stórleik hans fyrir U21s-árs lið Wales á þriðjudag (hann lagði víst öll þrjú mörk þeirra upp og var óheppinn að skora ekki sjálfur) og það verður að segjast, það er farið fögrum orðum um þennan pilt og hans björtu framtíð í þessari grein.

Miðað við allt það sem maður hefur lesið um hann þá er ljóst að hér er mikið efni á ferðinni, 19 ára strákur sem gæti gert það gott. Ég væri rosalega spenntur yfir því að sjá hann, ef…

EF … ekki væri fyrir þá staðreynd að Man U létu hann fara frá sér í sumar. Ég meina, ef það væru einhverjar líkur á því að 19 ára strákur gæti meikað það með toppliði, hefðu United-menn þá ekki haldið dauðahaldi í hann í a.m.k. ár í viðbót til að sannreyna það? Af hverju lá þeim svona á að henda honum út í kuldann, ef hann er jafn efnilegur og raun ber vitni?

Það er það sem ég skil ekki. Maður er að heyra alls kyns hrós úr ýmsum áttum, en United vildu ekkert með hann gera. Þetta bara passar ekki saman, svo mikið er víst.

Þess vegna hlakka ég til að sjá Liverpool mæta Crystal Palace í Deildarbikarnum eftir tvær vikur. Ég vona innilega að Calliste fái að spila a.m.k. sem varamaður í þeim leik, því ég er orðinn forvitinn!

7 Comments

 1. Ég heyrði að Glazier hafi hætt með tvö af þremur varaliðum(eða eitt af tveimur. man ekki hvort) og þessi gaur var einfaldlega í einu af þessum liðum.

 2. Fyrir það fyrsta er ekki hægt að birta mynd af kauða í búningi Liverpool Kristján?. Þessi mynd fer nett í taugarnar á mér þar sem hann er leikmaður LFC í dag.

  Mig minnir endilega að Kevin Nolan sem er að brillera hjá Bolton hafi verið látinn fara frá Liverpool 18-19 ára, ekki rétt. Þannig að gefum Calliste 1-2 ár og ef hann hefur ekk bætt sig á þeim tíma þá má dæma þetta sem mistök.

  Krizzi

 3. Ég held að ManU hafi losað sig við hann vegna þess að hann er ekki nógu ljótur til að vera í liðinu.

 4. Þegar þessi strákur gerði samning við okkur í sumar var það nú rifjað upp að ekki ómerkilegri sóknarmaður en Peter Beardsley hafi á sínum tíma komið til Liverpool eftir að ManU hafi látið hann fara, þar sem þeir töldu hann ekki hafa mikla framtíð fyrir sér. Sama má segja um David Platt, sem fór til Aston Villa sem ManU-reject og átti eftir að verða fyrirliði landsliðsins.
  Það eru til ótalmörg dæmi um að menn sem eru þekktir fyrir að hafa góða dómgreind varðandi getu ungra leikmanna láti framtíðarstjörnur fara frá sér, og þeir sem sjá um yngri flokkana og varaliðin hjá ManU eru þar engin undantekning.
  Við verðum bara að vona að í framtíðinni verði hlegið að því að ManU hafi látið Calliste fara frá sér.

 5. Krizzi – ég bara finn hvergi góða mynd af honum í Liverpool-búningi. Það verður leiðrétt við fyrsta tækifæri.

  Thorleifur – mér finnst þetta bara laaanglíklegasta skýringin. :laugh:

  Stebbi – góðir punktar með Platt og Beardsley. Vonandi getum við bætt Calliste við þann lista eftir nokkur ár…

 6. En ef skýring Thorleifs er rétt, af hverju létu þá ManUtd Beardsley frá sér 😯 😉

Sepp Blatter talar af viti!

Gerrard á bekkinn (skv. pressunni í London)