Mark f***ing Lawrenson

Ef þið hafið ekki tekið eftir því áður, þá er Mark Lawrenson asni! Hef oft ætlað að fjalla aðeins um hann hér en sjaldnast haft geð í mér til að gera það. Mér finnst hreinlega ótrúlegt að þessi gaur hafi nokkurn tímann spilað fyrir Liverpool, því í greinum sínum og pistlum fyrir hina ýmsu miðla hefur hann sjaldan eða bara hreinlega aldrei nokkuð gott um Liverpool að segja.

Sjáiði t.d. nýjasta pistilinn hans fyrir Daily Post. Liverpool hefur titilvörnina í Evrópu með sigri gegn Betis, höfðu fram að síðustu helgi ekki fengið á sig mörk í deildinni og virðast bara almennt vera með mjög sterka vörn og frábæran markvörð fyrir aftan sig.

Nægir það Lawrenson? Neeei. Í dag segir hann að Pepe Reina gæti orðið liðinu dragbítur í vetur, og byggir þá skoðun sína á einu úthlaupi gegn Birmingham. Æðislegt!

Ég ætla ekki að sitja hérna og segja ykkur að Reina sé fullkominn/gallalaus markvörður. Hann gerði mistök í fyrra markinu gegn Birmingham, þegar hann reyndi að kýla fyrirgjöf frá markinu. Það tókst ekki og þaðan barst boltinn til Julian Gray sem gaf hann fyrir, þaðan sem Warnock skallaði hann óvart í netið. Óheppnismark en engu að síður átti Reina að gera betur í úthlaupinu. Síðara markið var síðan ekki honum að kenna, hann varði fast skot en hélt því ekki, varði frákastið og svo skoraði Pandiani, loksins … á meðan varnarmenn Liverpool stóðu hjá og boruðu í nefið. Það mark var ekki Reina að kenna að mínu mati, heldur þeim Carra og Hyypiä, sem voru algjörlega staðir.

En er þetta einhver ástæða til að skrifa heila grein og draga hæfni Reina og/eða getu til að leiða þetta Liverpool-lið næstu árin í efa? Svar: NEI … ekki nema þú sért að reyna með einhverju móti að koma höggi á Liverpool-liðið, daginn fyrir stærsta leik tímabilsins til þessa gegn erkifjendunum í Chelsea (sem Lawrenson virðist ekki geta hrósað nóg þessa dagana).

Eins og ég segi, þá er Lawrenson asni. Alan Hansen, David Fairclough, John Barnes og fleiri fyrrum leikmenn Liverpool hafa allir gagnrýnt liðið í fjölmiðlum … en þeir gera það á háttvísan máta. Að skrifa níðgrein um aðalmarkvörð liðsins, sem er nýkominn til Englands og er enn að læra á tungumálið, menninguna, fótboltann og hefur ekki gert sig seka um mikið meira en eina slappa kýlingu frá marki, er ekki háttvís máti. Lawrenson er asni!

Ég er of ungur til að muna eftir Lawrenson sem leikmanni en pabbi hefur sagt mér sögur af því að hann hafi verið frábær og rauður allt í gegn. Ég á persónulega erfitt með að trúa því þegar ég les suma pistlana hans, finnst oft eins og þetta hljóti að vera einhver hrekkur hjá pabba og að Lawrenson hafi í raun og veru leikið fyrir Everton, sem væri góð ástæða til að hata Liverpool.

Einnig: Góð samantekt BBC um nýja leikmenn Liverpool & Chelsea í sumar. Góð viðbót við þessa upphitunardaga fyrir stórleikinn annað kvöld…

9 Comments

  1. Finnst þessi skrif Kristján ansi sérstök.

    Kalla manninn asna fyrir það eitt að segja sína skoðun.

    Ansi sérstök vinnubrögð hér á LFC blogginu. Og að mínu mati hreinlega léleg og skammarleg!

    Ég verð nú að segja að undanfarna leiki hef ég verið að detta inn á sömu skoðun og ML er á.
    Mér finnst Reyna nefnilega langt frá því að vera sannfærandi
    Skelfileg misstök gegn Birmingham.

    EN það er ALLS EKKI það eina.

    Um daginn (minnir að það hafi verið í CL) virkaði hann afar ósannfærandi og hefur mér þótt það í nokkrum seinustu leikjum. Það kostaði að vísu ekki mark en hann virkar langt frá því að vera þessi markmaður sem maður vonaði að hann yrði.
    Rafa sagði nú að þetta væri BESTI MARKMAÐUR Á SPÁNI!!!!!
    Maður ætlast meira af honum en hann hefur sýnt.

    Ég vil fá Dudek í markið UM LEIÐ og hann kemur úr meiðslum.

    En Kristján nú er ég svekktur. Þetta er nefnilega ekki þau góðu vinnubrögð og skrif sem ég þekkti (þátíð) af LFC blogginu. Hef skoðað þetta og yfirleitt líkað en nú er hreinlega hissa. Að drulla yfir mann fyrir það eitt að segja það sem honum finnst (sem mér hefur líka fundist vera í seinustu leikjum) er náttúrulega virkilega léleg vinnubrögð.

    Vona að skrif muni liggja upp á við hér eftir. Annars mun mörgum ferðum mínum hingað fækka til mikilla muna.

    Og ML. Ég stend með þér í þessu.

    STEBO

  2. Stebo – ég stend við það sem ég skrifaði. Á þessari vefsíðu er ætlunin hjá okkur þremur sem hana rekum að segja okkar skoðun á málefnum sem varðar Liverpool. Ég er einn af þessum þremur og ég er einfaldlega að viðra mína skoðun á Mark Lawrenson. Mér finnst hann vera asni, og hef því til grundvallar hvernig hann virðist jafnan reyna að koma höggi á Liverpool með skrifum sínum. Honum er það nefnilega mjög lagið að skrifa dæmandi greinar og/eða láta stór og þung orð falla um liðið eða leikmennina á mjög mikilvægum augnablikum.

    Mér finnst það ekki fyrrverandi leikmanni Liverpool sæmandi að skrifa níðgrein um Reina deginum fyrir stórleik gegn Chelsea. Eitt er að gagnrýna mistök gegn Birmingham á laugardaginn, annað er að reyna að halda því fram eftir mánuð af tímabilinu að hann sé ekki nógu góður fyrir Liverpool.

    En málið er ekki hvort þið eruð sammála eða ósammála honum með Reina. Um hann eru eflaust skiptar skoðanir eins og flesta aðra – sumir eru sáttir við Reina, aðrir ekki. Málið er það að lesendur þessarar síðu hljóta allir að taka undir með mér að það ber einfaldlega ekki vott um háttvísi og/eða virðingu af hálfu fyrrverandi leikmanns að segja það sem Lawrenson segir í þessari grein sinni deginum fyrir svona stórleik. Það er alveg augljóst á greininni að Lawrenson er að reyna að koma höggi á Reina, eins og hann sé að reyna að draga úr honum sjálfstraustið fyrir morgundaginn.

    Slík hegðun, að mínu mati, gerir hann að asna. Ef þú vilt vera ósammála þessu mati mínu þá er það algjörlega þitt mál, en ekki taka þig svo hátíðlega að halda að þú þurfir að fækka/fjölga ferðum þínum á þessa vefsíðu bara af því að ég sagði orð sem þér líkar ekki. Það getur vel verið að Einar Örn og Aggi, sem skrifa einnig á þessa síðu, séu ósammála mér með Lawrenson – en þetta er mín skoðun.

    Það má alveg nota orðið ‘asni’. Það er til í öllum orðabókum og ef einhver hefur að mínu mati hegðað sér eins og asni þá áskil ég mér rétt til að kalla viðkomandi asna. Ef þér Stebo eða einhverjum öðrum misbýður það þá endilega, kallið mig asna á móti … það er ykkar réttur.

    Ég endurtek: hvort sem mönnum finnst Reina gagnrýnisverður eða ekki þá hljóta allir að vera mér sammála í því að þessi grein gengur of langt, kemur á slæmum tíma og virðist miðuð að því að koma höggi á Liverpool-liðið og markvörð þess, sem er ekki sú hegðun sem ég vill sjá hjá fyrrverandi leikmönnum Liverpool.

  3. Mark var öflugur varnar-/miðjumaður fyrir Liverpool. Kom til félagsins frá Brighton fyrir þá eina hæstu upphæð sem greidd hafði verið fyrir varnarmann á Englandi eða 900 þús. pund. Hann spilaði í allt 356 leiki og skoraði 18 mörk. Hann og Alan Hansen þóttu ná einkar vel saman í vörninni en Lawrenson hætti fyrr en ella hjá LFC vegna meiðsla. Hann sagði þetta síðar um daginn sem hann var keyptur til LFC:

    “It was midnight on a summer’s night in 1981. There was no game, but it was the night I signed for Liverpool and I went out on the pitch just to soak up the surroundings. It was incredible, every player’s dream come true. That was what changed my career, a turning point in my life and I will never forget it.”

    Í ljósi fortíðarinnar hjá Mark þá skil ég ekki hvað hann er að spá… hvort hann sé að leita eftir athygli eða hvort hann raunverulega finnst þetta um Reina. Hann er oftar en ekki afar neikvæður í gagnrýni sinni í garð LFC. Hvað um það þá má sumt látið kyrrt liggja! Sérstaklega þegar þú ert gamall jaxl sem gamlir og dyggir stuðningsmenn virða og muna eftir sem frábærum leikmanni. Skamm!

    En þetta er bara mín skoðun… og Kristjáns! 🙂

  4. Hef svosem enga skoðun á Lawrenson. Afar sérstakt verð ég samt að segja að koma með svona grein daginn fyrir stórleik. Ekki alveg verið að peppa menn upp þarna. Annars minnir mig að Lawrenson hafi verið meðalmaður í frábæru liði.

    En fyrir mér er Reina maðurinn. Ég byggi þessa skoðun mína eingöngu á tilfinningu. Mér líður einfaldlega betur með hann þarna aftast en Dudek.

    Sem dæmi má nefna þegar varnarmennirnir okkar senda boltann aftur til markvarðarins. Með Dudek fékk ég alltaf nett í magann. Maðurinn algerlega örfættur og virkaði alltaf stressaður. Reina pollrólegur og ég hef engar áhyggjur.

    Einnig varðandi úthlaupin. Dudek fór afar sjaldan í úthlaup. Gerði þar af leiðandi fá úthlaups mistök. Reina fer út í þessa bolta. Hann reynir og þar af leiðandi mun honum eflaust verða einhver mistök. En ef hann er að hirða fullt af fyrirgjöfum er hann um leið að koma í veg fyrir mörk andstæðinga. Við munum bara aldrei komast að því.

    Þá finnst mér einnig skrítið að honum sé kennt um markið í síðasta leik. Ég hef ekki séð það en af lýsingunni hans Kristjáns að dæma tókst honum ekki að slá frá bolta sem barst fyrir markið. Boltinn endaði svo hjá öðrum leikmanni sem gaf hann aftur fyrir og Warnock rak hausinn í boltann og þ.a.l. varð mark.

    Mér sýnist einfaldlega að allir hafi verið að reyna að koma í veg fyrir mark. Væntanlega bakvörðurinn sem reyndi að koma í veg fyrir sendinguna inn í, svo Reina sem reyndi að kíla boltann frá og svo Warnock með því að reka hausinn í boltann.

    Annars hef ég ekki séð atvikið. Hef bara góða tilfinningu fyrir Reina… og leiknum annað kvöld. Við tökum þetta og Reina verður maður leiksins.

  5. Í guðanna bænum haldið áfram stjórnendur að tala umbúðalaust um það sem ykkur finnst hér á þessari síðu annars breytist hún í eitthvað sem a.m.k. ég nenni ekki að lesa.

    Það eru til þúsundir vefsíðna þar sem talað er á hlutlægan hátt um knattspyrnumál. Stebo, take a pick.

    Asni er ekki alvarlegt orð og því síður þegar menn rökstyðja hvað liggur á bakvið notkun orðsins eins og Kristján gerir hér.

    Ég hef að vísu verið ávíttur af stjórnendum þessarar síðu fyrir óheflað orðalag í innleggi en það er vissulega þeirra réttur þar sem þetta er þeirra síða.
    🙂

    Ég verð þó að segja að ég hef vissar áhyggjur af Reina í krossum og úthlaupum en það er mikið langt í frá að mér finnist hann lélegur markvörður.

    ps. “Vondur er vanþakklátur gestur.”

  6. >Kalla manninn asna fyrir það eitt að segja sína skoðun.

    Kristján kallaði hann ekki asna fyrir að segja skoðun sína, heldur vegna þess að hann rakkar Reina niður fyrir stærsta leik tímabilsins. Á þessu er mikill munur.

    Hann rakkar Reina niður, sem hafði haldið hreinu í fjórum fyrstu leikjum Liverpool á tímabilinu, sem btw Lawrenson og hans vörn náðu aldrei að afreka.

    Það er líka ekki einsog þetta sé einsdæmi, heldur hefur Lawrenson ítrekað verið fáránlega neikvæður í garð Liverpool. Hann hefur gagnrýnt öll leikmannakaup og lætur svo einsog Chelsea sé það módel, sem öll lið eiga að fylgja.

    Hann veit þó sem er, að hann fær borgað fyrir, og fær athygli fyrir að koma með umdeildar skoðanir og hann myndi sennilega missa vinnuna fljótt ef hann færi að dásama Liverpool. Ég man hreinlega ekki eftir því hvenær hann hrósaði Liverpool síðast. Það bar allavegana lítið á honum eftir Istanbúl.

  7. Held að Peppi kippi sér ekki upp við diss frá Lawrenson. Hann skilur víst ekki og talar ekki ensku :biggrin:

  8. Lawrenson er fífl, það er ekkert flóknara en það. Þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta sinn sem hann kemur með neikvæða umfjöllun um Liverpool daginn fyrir leik, það er eiginlega að verða vaninn frekar en hitt.

    En þar með er ekki sagt að hann hafi ekki nokkuð til síns máls hérna, þó hann sé kanski fullharðorður. Ég hef sjálfur bölvað Reina dálítið fyrir að vera allt of gjarn á að kýla boltann burt í staðinn fyrir að hreinlega grípa hann. En kýlingarnar eru samt breyting til batnaðar frá því í fyrra þegar Dudek var allt of oft límdur við marklínuna þegar krossarnir komu fyrir. Það sem ég hef séð til Reina það sem af er tímabilinu finnst mér bara boða gott og ég er miklu rólegri með hann í markinu en ég var nokkurn tíman með Dudek.

  9. Hef lesið þessa grein og skil ekki hvað fer fyrir brjóstið á mönnum. Hann segir að bæði mörkin séu Reina að kenna en að of snemmt sé að gagnrýna hann. Þessu er ég alveg sammála enda augljóst að hann á sök á báðum mörkunum. Markmaður í fremstu röð á að grípa svona skallabolta eins og hann fékk á sig í seinna markinu. Og þótt Liverpool hafi haldið hreinu í 4 fyrstu leikjunum þá var það fyrst á laugardaginn sem reyndi almennilega á hann. Hversu oft undanfarin misseri höfum við Liverpool menn ekki verið ánægðir með nýju markmennina okkar. Sander betri en Van Saar! Dudek bestur í Evrópu! Kirkland næstbestur í Evrópu! Við ættum að vera búnir að læra að vera varkárir í væntingum til nýju markmannana okkar. Auk þess er víst Reina þekktur fyrir á Spáni að gera nokkur mistök milli þess sem hann stendur sig mjög vel.

    Annars finnst mér að Mark Lawrensson megi alveg vera neikvæður þegar hann vill, svo lengi sem hann er málefnalegur. Fyrrum Liverpool leikmenn eru ekki skyldugir að tala jákvætt froðusnakk fyrir leiki samið af fjölmiðlafulltrúum liðanna, enda fátt leiðinlegra. Og nota bene, það er fátt jákvætt hægt að segja enn sem komið er. En það breytist kannski á morgun!

Sálfræðistríðið hafið…

Chelsea á morgun!