Chelsea á morgun!

riise_cupfinal.jpg

Myndin hér að ofan er af John Arne Riise að skora gegn Chelsea á síðasta tímabili. Svona bara til að minna menn á að það er víst hægt að skora gegn þeim.

Chelsea-liðið hefur farið feykivel af stað nú í haust og hafa unnið alla sjö deildarleiki sína til þessa. Um helgina fengu þeir á sig fyrsta markið í deildinni – rétt eins og okkar menn – þegar Aston Villa skoruðu gegn þeim. Í Meistaradeildinni sigruðu þeir svo Anderlecht frá Belgíu 1-0 í fyrstu umferðinni, á Stamford Bridge, og var sá leikur að sögn frekar ósannfærandi hjá þeim bláu. Á meðan unnum við góðan útisigur gegn Real Betis, 2-1 þar sem við vorum miklu betri í fyrri hálfleik en þeir betri í seinni hálfleik.

Sem sagt, á morgun mætast toppliðin í riðlinum á Anfield Road í fyrsta risaslag vetrarins í Evrópu. Það verður gjörsamlega öll Evrópa límd við sjónvarpstækin á morgun að horfa á útsendinguna frá Anfield Road, og því er mikilvægt að okkar menn leiki vel og að áhorfendurnir á Anfield standi undir nafni. Ég efast í raun um hvorugt þessara atriða, spurningin er bara hvort það verði nóg gegn þessu öfluga Chelsea-liði.

Byrjunarlið CHELSEA:
Skv. fréttum þá ætti Asier Del Horno að vera orðinn heill af meiðslum sínum á morgun sem þýðir að José Mourinho mun geta stillt upp sinni sterkustu vörn. Það eru slæmar fréttir fyrir okkar menn. Þá er einnig talið líklegt að Mourinho muni kjósa að byrja með Hernan Crespo frammi frekar en Didier Drogba, þannig að byrjunarliðið hans gæti þá litið nokkurn veginn svona út:

Cech

Ferreira – Terry – Gallas – del Horno

Robben – Lampard – Makelele – Essien – Duff

Crespo

Og á bekknum yrðu þá væntanlega Cudicini, Johnson, Huth, Joe Cole, Wright-Phillips, Drogba og Carlton Cole, ef að Eiður Smári er enn frá vegna veikinda/meiðsla.

Byrjunarlið LIVERPOOL:
Skv. fréttum BBC er Sissoko enn meiddur, auk þess sem Fernando Morientes nær ekki í þennan leik. Þannig að Rafa hefur nokkurn veginn úr sama hóp að velja og gegn Birmingham. Ég tel líklegt að hann geri þrjár breytingar á liðinu sem hóf leik gegn Birmingham, Finnan komi inn fyrir Josemi, Riise komi inn fyrir Zenden og García komi inn fyrir Hamann. Liðið okkar á morgun ætti þá að líta svona út:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

Pongolle – Gerrard – Alonso – Riise
García
Crouch

Og á bekknum hjá okkur yrðu þá Carson, Josemi, Traoré, Hamann, Zenden, Potter og Cissé.

Reyndar kæmi það mér ekki á óvart ef Traoré komi inn fyrir Warnock, þar sem hann hefur meiri reynslu af svona stórleikjum, en annars tel ég nokkuð líklegt að þetta verði liðið okkar á morgun.

Í raun er sama hvernig maður teiknar þetta upp, að vissu leyti eru bæði lið að spila nákvæmlega sömu leikaðferð. Einn í marki, fjórir í vörn, þrír á miðjunni, tveir vængmenn og einn framherji. Stærsti munurinn á liðunum í haust hefur hins vegar verið sá að Mourinho velur nær undantekningarlaust sömu þrjá leikmennina á miðjuna – Lampard, Makelele og Essien – á meðan Benítez hefur róterað sinni miðju svolítið, og svo að þeir Robben og Duff hafa farið á kostum á vængjunum (og Wright-Phillips & Joe Cole í raun líka) á meðan þeir Zenden/Riise og García/Pongolle hafa ekki náð að finna sig.

MÍN SPÁ: Það er eitthvað sem segir mér að þetta verði steindautt 0-0 jafntefli á morgun. Bæði lið eru að spila sterkan varnarleik um þessar mundir, bæði lið eru með mjög þétta og vel skipulagða miðju sem gefur ekki mikið færi á sér og bæði lið eru bara með einn framherja. Miðað við gengi liðanna í deildinni í vetur eru Chelsea-menn með miklu hættulegri og betri sókn en Liverpool en á móti kemur að við skoruðum 2 mörk á útivelli í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar, og einhver hátt í 20 mörk í forkeppninni, á meðan Chelsea náðu bara að skora 1 mark gegn Anderlecht á heimavelli.

Þannig að mér finnst jafntefli bara líklegasta niðurstaðan. Hvorugt liðið vill tapa þessum leik en hvorugt liðið þarf í raun að vinna. Þetta er ekki eins og í bikarúrslitunum í febrúar eða á Anfield í apríl, þegar menn urðu að sigra til að komast áfram eða vinna bikarinn. Þannig að ég sé eiginlega fyrir mér svipaðan leik og við spiluðum gegn United um daginn, þar sem bæði lið mæta vel skipulögð og varkár til leiks og einfaldlega verjast hvort öðru vel í 90 mínútur.

Þannig að ég ætla að leyfa mér að vera leiðinlegur og spá 0-0 jafntefli eða þá 1-0 sigur á annan hvorn veginn á morgun. Finnst það bara yfirgnæfandi líklegt, sérstaklega þar sem hvorugu liðinu liggur mikið á að sækja til sigurs á þessum tímapunkti í riðlakeppninni.

Samt, hvernig sem þessi leikur fer þá finnst mér fátt jafn skemmtilegt þessi misserin og að horfa á Liverpool spila toppleiki við topplið í Evrópu – og Chelsea er vissulega eitt slíkt lið. Þannig að ég hlakka mikið til að sjá þennan leik! Áfram Liverpool!!!

7 Comments

 1. Ég las þetta á BBC:

  >Chelsea defender Asier del Horno has failed to recover from a thigh injury in time to take on Liverpool.

  William Gallas will continue at left-back in his absence, while Glen Johnson is in the squad after recovering from a thigh injury.

 2. Ókei, þetta veikir lið þeirra eilítið. Del Horno er aukaspyrnusérfræðingur og góður sóknarbakvörður, þannig að nú mæðir meira á Damien Duff að sækja upp vinstri vænginn. Geri ráð fyrir að Gallas verði í vinstri bak og Ricardo Carvalho verði fyrir vikið með Terry í miðverðinum.

  Áhugaverður leikur framundan…

 3. Ég er hræddur um, líkt og Kristján, að þessi leikur verði steindautt jafntefli. Hvorugt liðið mun taka mikla áhættu á þessu stigi í riðlinum sem þýðir miðjubarátta og lítið af færum. Ennfremur ef mark kemur þá bakka bæði liðin og vernda forystuna grimmt.

  Ég vona að Rafa komi á óvart líkt og hann gerði gegn Betis og mölvi þetta vel upp. Byrji með 4-4-2 og bæði Cisse og Crouch frammi. En líklega er þetta meira óskhyggja heldur en raunsætt.

  Við verðum að vinna í deildinni á sunnudaginn og ég tel að lykillinn að því sé að vinna á morgun einnig 🙂

 4. Við vinnum þennan leik 3-0 og ummæli Morinho verða eitthvað á þessa leið.

  The referee ….. unlucky…..Reina fantastic…..my men…..tired….Carvalho…..stupid…..Hamann…..3 goals…..hard to believe :biggrin:

 5. Að öllu jöfnu verður þetta jafntefli eða Chelsea sigur. Annað kæmi á óvart. Ég vil samt endurtaka það sem ég sagði á síðasta tímabili í miðju meiðslatímabili hjá LFC. Ég vildi sjá Chelsea spila án Makelele, Lampard, Terry, Cech og Robben svo við nefnum fáeina leikmenn. En engu að síður jafntefli eða útisigur á morgun fyrir þá sem leggja pening undir.

 6. Sammála Agga; vil sjá okkur stilla upp í 4-4-2 og virkilega keyra tempó-ið upp; sjá úr hverju Chelsea eru gerðir. Ef við hinsvegar stillum upp í 4-5-1 (4-4-1-1 eða 4-2-3-1) þá leggur taktískur 0-0 fnykur af þessum leik…

 7. Ég held að Rafa komi okkur pínu á óvart í kvöld með uppsettningunni….
  Ég gæti td. allveg trúað því að Traore verði í bakverðinum með Varnock sem vinstri miðju. Meiru þori ég ekki að spá.

Mark f***ing Lawrenson

Þetta var ekki mark og heimurinn er á móti okkur!