Sissoko meiddur, Morientes kannski heill (uppfært)

Jæja, smá fréttir fyrir leikinn á morgun. Því miður mun Momo Sissoko, besti maður okkar það sem af er tímabils að mínu mati, missa af leiknum á morgun þar sem hann er með meiðsli í vöðva. Rafa talar um að hann sé ekki alvarlega meiddur en að þeir vilji ekki taka neina sénsa með hann, þannig að mér sýnist á öllu að það sé verið að leggja ofurkapp á að hafa hann heilann fyrir leikina tvo gegn Chelsea í næstu viku.

Líst ágætlega á það, verður gaman að sjá Sissoko berja á Lampard og félögum … en að sama skapi er þetta blóðtaka fyrir morgundaginn. Þessi strákur er búinn að vera stórgóður það sem af er tímabili.

Á hinn bóginn er nú talið líklegt að Fernando Morientes geti hugsanlega verið með á morgun. Hann hefur æft með liðinu undanfarna tvo daga og mun fara í læknisskoðun í kvöld, þar sem ákveðið verður hvort hann fer með til Birmingham eður ei. Ef hann verður í hópnum er ljóst að róður Djibril Cissé þyngist eilítið meir, ég efast um að það sé pláss fyrir bæði hann og Morientes á fimm manna varabekk Liverpool – þannig að ef Cissé fær ekki að byrja inná á morgun við hliðina á Crouch gæti ég vel ímyndað mér að hann verði ekki einu sinni í hópnum. Skrýtið, en satt.

Hvað Morientes varðar hlakka ég til að sjá hann koma aftur. Hann hefur væntanlega (vonandi) tekið smá stöðutékk á hlutunum þessar þrjár vikur sem hann var frá, og skoðað leik sinn aðeins, hvað má betur fara og slíkt. Ég vona allavega að hann snúi aftur hungraður í að sýna sig og sanna, því við þurfum á sterkum Morientes að halda í þessari baráttu sem er framundan í vetur.

Sem sagt, einar neikvæðar fréttir og aðrar sem eru vonandi jákvæðar (ef hann er heill, þ.e.a.s.) … leikurinn á morgun verður forvitnilegur.


Uppfært: (Aggi) Vonandi að þetta sé ekkert alvarlegt hjá Sissoko og að hann verði klár gegn Chelsea. Hvað varðar Morientes þá eru þetta góðar fréttir og hlýtur að ýta við Rafa að hætta að spila 4-5-1 og fara í 4-4-2. Byrja með Crouch og Cisse inná og síðan smella Moro inná fyrir Crouch í þeim síðari. Núna bíður maður bara spenntur hvernig Kewell kemur tilbaka eftir meiðslin… spurning hvort Rafa gefi honum ekki góðan tíma áður en honum er skellt í aðalliðið?

5 Comments

 1. God, ég reikna með að þú sért að tala um Moro í þessu kommenti þínu og ef svo er þá ert þú að mínu mati að bulla.
  Moro er löngu búinn að sanna sig sem knattspyrnumaður, ekki bara á Spáni heldur líka í Frakklandi og svo í meistaradeildinni.
  Svo skaltu athuga að hann er bara búinn að spila hálf tímabil með LFC og hefur réttilega ekki náð að standa undir væntingum, en það eru allar líkur á að hann komist í gang.
  Menn hérna eru búnir að vera að væla útaf Baros og að hann skyldi fá að fara en að mínu vita stóð hann aldrei undir væntingum, allavega mínum.
  Moro á að fá sjéns þetta tímabil, í það minnsta fram að áramótum hann er markaskorari af guðsnáð.
  Svo (reyndar þessum pósti óviðkomandi) finnst mér menn vera alltof fljótir að panikera gagnvart markaleysi, að gera markalaust jafntefli við Middlesborough,Tottenham og Manure er fullkomlega eðlilegt þar sem þessi lið eru sterk, þó síst Middlesborough. Við hefðum átt að skora fleiri mörk á móti Sunderland, það er alveg rétt en svona er bara boltinn.
  Mörkin munu koma, sanniði bara til ! 🙂

 2. Gott fyrir klúbbinn að Morientes sé aftur kominn á ról, en líkurunar á að hann taki þátt í þessum leik og næstu tveimur þar á eftir gegn þeim bláu eru ekki miklar, hann mun þó eitthvað koma við sögu. Við hljótum að sjá þann stóra og þann grimma saman í sókninni gegn Birmingham.

  Ég sé ekki neina ástæðu til að kasta Morientes svona strax inn í hópinn rétt eftir meiðsli, hann er nú varla ómissandi er það? Hann verður að koma hægt og rólega inn aftur og sanna sig. Cisse á skilið að fá tækifæri í þessum leik þrátt fyrir að líta ansi neikvæður út í síðasta leik. Cisse er einn af þessum mönnum sem eru hvað bestir þegar þeir eru með mikið sjálfstraust og fá að spila hvern einasta leik, hann þekkir bara ekkert annað frá því hann var í landi Frakka. Hann virðist bara ekki vera það þroskaður til að geta tekið samkeppni á jákvæðan hátt og snúið henni með sér. Hann þó mun fá sín tækifæri til að sanna hversu góður hann er, en þau verða ekki mörg í bráð þannig að nýta þarf hann þau ansi vel sem hann fær.

  Vonandi kemur Morientes sterkur inn eftir þessi meiðsli og sýnir okkur hvers vegna hann var keyptur. Við þurfum þennann mann til að skora og vera eins og hann var áður en hann kom.

  Mgh

 3. Nákvæmlega, hann er búinn að sanna sig sem knattspyrnumaður, en afhverju er það óhugsandi að hetjan hafi etv meiri áhyggjur af eftirlaunasjóðnum en næsta leik ?

 4. Æji góði besti … eftirlaunasjóðurinn? Sýnist ykkur Roy Keane, sem hefur unnið allt sem hægt er að vinna með ensku félagsliði, hafa meiri áhyggjur af eftirlaunasjóðnum en næsa leik?

  Af hverju á Morientes að vera afskrifaður sem einhver gamall gaur með staf þegar hann er bara 29 ára??? Það er fáránlegt!

  Þetta eru bara óþolandi ummæli, verður að segjast, og sýna vægast sagt vanvirðingu gagnvart leikmönnum sem við ættum frekar að vera að styðja – ekki síst þegar þeim gengur allt í móti – í stað þess að rakka þá svona niður…

Tomkins og Chelsea

Birmingham á morgun!