Man[ritskoðað] United

Þetta, gott fólk, er Darren Fletcher. Hann leikur fyrir Man U – lið sem lifir á fornri frægð, öfugt við okkar menn sem hafa unnið titil á árinu 2005. Man U hafa ekki unnið titil síðan 2003, en þá unnum við einmitt líka titil. Árið 2002 vann hvorugt liðið titil, en árið 2001 unnu þeir tvo titla – á meðan við unnum fimm.

Með öðrum orðum, þá er þessi áratugur hálfnaður og tölurnar tala sínu máli: við höfum unnið ógeðslega mikið, þeir ógeðslega lítið síðustu fimm árin! Þannig að á morgun má með sanni segja að mætist STÓRLIÐ, og svo hins vegar fyrrverandi stórlið.

🙂 Ójá, þið vitið að þetta er satt hjá mér …

En allavega, það hefur nú oftast verið svo með viðureignir þessara hötuðustu erkifjenda Norðvestur-Englands að það skiptir nákvæmlega engu máli hvar í deildinni liðin eru stödd, né hversu sigursæl undanfarin misseri/ár þessi lið hafa verið. Annað liðið gæti verið í botnsæti þriðju deildar og hitt liðið Englandsmeistarar, en innbyrðis viðureignir Liverpool og Man U eru og verða alltaf gríðarlega spennandi leikir!

United-menn hafa svo sem byrjað tímabilið sæmilega. Þrír sigrar og eitt jafntefli í deildinni til þessa, og svo jafntefli á erfiðum útivelli í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar. Hins vegar eiga þeir í meiðslavandræðum um þessar mundir, þótt svo að Roy Keane kunni að snúa aftur í liðið á morgun þá eru þeir án manna eins og Gary Neville, Gabriel Heinze, Quinton Fortune, Louis Saha og Wes Brown, þannig að leikmannahópur þeirra er vægast sagt þunnskipaður.

Okkar menn eru með 5 stig eftir þrjá leiki í deildinni, eða helminginn af þeim stigafjölda sem Man U eru með (10 stig) og unnu fyrsta leikinn í Meistaradeildinni á erfiðum útivelli í vikunni. Hjá okkar mönnum eru þeir Fernando Morientes, Harry Kewell og Neil Mellor á meiðslalistanum, en við erum með talsvert stærri hóp en Man U eins og staðan er í dag og því ljóst að útiliðið á morgun á á brattann að sækja.

MAN[ritskoðað] UNITED:
Ef við gerum ráð fyrir því að Roy Keane komi inn í lið United, þá tel ég nokkuð líklegt að Sir Alex Ferguson muni stilla sínu liði upp svona:

Van der Sar

O’Shea – Ferdinand – Silvestre – Richardson

Fletcher – Keane – Scholes – Ronaldo

Rooney – Van Nistelrooy

Nú, ef Gary Neville verður einnig í liðinu myndi Kieran Richardson sennilega víkja og John O’Shea fara yfir í vinstri bakvörðinn. Ef Keane verður ekki með finnst mér líklegt að Ferguson setji Ryan Giggs inn í liðið og færi Fletcher inn á miðjan völlinn. Skiptir svo sem engu hverjum þeir stilla upp, þeir hafa ekkert í Alonso, Gerrard og Sissoko að segja. 🙂

LIVERPOOL
Hjá okkar mönnum var talsvert mikið um breytingar á byrjunarliðinu í liðinni viku, en fyrir vikið fengu menn eins og Steven Gerrard, Steve Finnan, Stephen Warnock, John Arne Riise og Djibril Cissé góða hvíld. Þannig að ef við gerum ráð fyrir að þeir komi flestir, ef ekki allir inn í liðið á morgun ætti Rafa að stilla þessu einhvern veginn svona upp:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Alonso – Sissoko – Riise
Gerrard
Crouch

En hvað veit ég svo sem? Kannski fer Rafa í 4-4-2 og hefur Cissé, já eða Pongolle, frammi með Crouch. Og kannski byrjar Didi Hamann inná á morgun eins og um síðustu helgi? Kannski halda Josemi og/eða Traoré stöðu sinni sem bakverðir? Og kannski kemur þá Finnan inn í liðið fyrir García? Hver veit?

Þetta er eitt af því sem ég er farinn að venjast með Rafa og finnst vera einn hans helsti kostur: Liverpool er ekki lið sem spilar einhvern einn ákveðinn stíl af knattspyrnu. Við notum ekkert eina fasta leikaðferð í öllum leikjum, og fyrir vikið er nánast ómögulegt fyrir andstæðingana að reyna að undirbúa sig fyrir leiki gegn okkur. Við vitum hvernig sóknarbolta United munu spila á morgun, við vitum að Ronaldo verður á kantinum og Rooney út um allt að hamast. Við vitum að Van Nistelrooy verður ofan í bringunni á Hyypiä allan leikinn, bíðandi eftir tækifæri til að skutla sér á boltann og koma honum yfir línuna.

En við? Hvað vita Man U menn um okkur? Svar: nákvæmlega ekki neitt! Og það mun pottþétt vera okkur í hag í þessum leik, alveg jafnt og það var okkur í hag sl. miðvikudag.

MÍN SPÁ: Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur – ef við sigrum United ekki á morgun þá getum við hætt að reyna að segja okkur að við séum með betra lið en þeir! Þeir eru í meiðslavandræðum, leikurinn er á Anfield, við erum með nærri því fullskipað lið, það er einfaldlega allt við þennan leik okkur í hag.

Þannig að ég ætla að spá Liverpool 3-1 sigri á morgun. Við komumst í 3-0 en þeir skora svo eitt undir lok leiksins, smá sárauppbót. Og … [trommusláttur] … ég ætla að spá því hér og nú að Peter Crouch muni skora fyrsta mark sitt fyrir Liverpool á morgun! Og hana nú!

Fokking Mansjéster Júnæted! Á Anfield! RÚSTUM ÞEIM!!! Áfram Liverpool!!!

10 Comments

 1. Ekki að spyrja að því… góð skýrsla :biggrin2:

  En ég á ekki von á að við skorum svona mikið…( æ hvað það væri nú gaman samt.. :wink:)
  Ég spái 1-0 eða 2-1..

 2. Já….mér finnst þetta vera full mikil bjartsýni hjá Kristjáni þó svo að ég voni auðvitað að hann verði sannspár, en við höfum tapað síðustu ÞREMUR heimaleikjum á móti Man Ure.
  Það þýðir auðvitað ekki að við munum tapa þeim fjórða í röð en ég get bara ekki verið svona viss þegar að það kemur að potaranum Ruud Viceroy og grautarheilanum W. Looney 🙂
  Mér finnst vera jafnteflis fíla af þessum leik :confused:

 3. Góð skýrsla að venju!

  Vinnum 1-0. Sigurmarkið úr víti og það verður Alonso sem skorar úr því á 29mín. Rautt spjald á shrek litla fyrir að hrækja á dómara leiksins, sé ekki nákvæmlega á hvaða mínútu þetta gerist, allt frekar móðukennt :tongue:

 4. Helvíti góð upphitun, Kristján. Ég kemst ekki í sjónvarp til að sjá þennan leik. Er í pínkulitlu þorpi við karabíska hafs strönd Gvatemala og hér er varla rafmagn allan daginn, hvað þá gervihnattasjónvarp með enska boltanum.

  Kristján, værirðu nokkuð til í að taka þennan leik upp fyrir mig, sem og Chelsea leikina? Ég skal borga þér með spólum þegar ég kem heim. Ég bara get ekki misst af öllum þessum leikjum. 🙂

 5. M** HELVÍTIS U** á morgun (óritskoðað!) Ég segi það svo sannarlega sama og þú….Ef við vinnum þá ekki á morgun þá erum við slappir! Reyndar mælir allt með okkur í þesum leik þannig séð þótt M** HELVÍTIS U** sé í formi þessa dagana, en mér er skítsama. VIÐ EIGUM AÐ VINNA ÞETTA LIÐ!

 6. Halló Góð síða og gott blog.. LIVERPOOL MUN VINNA MAN UTD.. þeir eru miklu betri 😉

  Ég spái þessu 2-1 fyrir Liverpool..! :blush:

 7. “..manchester united hafa ekki unnið titil síðan 2003, en þá…”

  Laugardaginn 22 maí árið 2004 varð Man Utd bikarmeistari á Englandi. Rétt skal vera rétt kallinn minn 🙂

Liverpool fá hrós…

Pongolle í liðinu!