T’ham 0 – L’pool 0 (uppfært)

Síðasta sólarhringinn eða svo hefur þessi síða legið niðri vegna bilunar í servernum, en nú virðist þetta vera komið í lag. Við biðjumst velvirðingar á þessu, og ef þetta bilar aftur þá er það því miður ekkert sem við Aggi fáum ráðið við, og erfitt að berjast gegn því þar sem Einar Örn er ekki á landinu, en hann sér venjulega um server-málin. Allavega, afsakið hlé og hér kemur síðbúin leikskýrsla… -Kristján Atli

warnock_spurs.jpgJá, semsagt, þá gerðu okkar menn markalaust jafntefli við Tottenham Hotspur í dag á útivelli. Við gerðum 1-1 jafntefli við þá á sama velli í fyrra og 2-2 jafntefli á Anfield, þannig að það má segja að hér sé um nokkurn veginn áþekk lið að ræða.

Byrjunarlið okkar í dag var nokkurn veginn eins og búist hafði verið við. Peter Crouch var kominn inn úr meiðslum og fór beint í byrjunarliðið, á meðan Rafa hvíldi Alonso og Sissoko og setti Didi Hamann þess í stað í liðið, en hann hefur fengið 2ja vikna hvíld á meðan aðrir leikmenn voru að spila með landsliðum.

Byrjunarliðið var s.s. svona:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Gerrard – Hamann – Riise

Cissé – Crouch

BEKKUR: Carson, Josemi, Traoré, Alonso, Sissoko.

Þessi leikur var í raun gríðarlega skemmtilegur; bæði lið sóttu til að vinna og voru að spila fínan bolta, bæði lið sköpuðu sér fullt af færum til að skora og skoruðu eitt ólöglegt mark hvort. Þá var gríðarlega góð stemning á vellinum og í raun má segja að það eina sem hafi vantað í þennan leik hafi verið mörkin. Fyrir utan markaleysið var þessi leikur hin fínasta skemmtun.

Tottenham-liðið er firnasterkt, á því leikur enginn vafi og því má í raun segja að jafntefli gegn þeim á útivelli séu bara nokkuð góð úrslit. Man U gerðu jafntefli í dag og Arsenal töpuðu fyrir Middlesbrough, þannig að við erum enn í nokkuð góðum málum hvað varðar kapphlaupið um 2.-4. sætið (geri ráð fyrir, miðað við byrjun deildar, að Chelsea séu líklegir til að verja titilinn).

Okkar menn fóru fjörlega af stað og sköpuðu sér færi frá byrjun. Peter Crouch sýndi lítið ryð á sér og var sérlega duglegur að mata Cissé og García á skallaboltum í laus svæði, enda átti Cissé tvö bestu skotfæri okkar í fyrri hálfleik. Crouch átti síðan sjálfur góðan skalla sem fór rétt yfir og García skaut í hliðarnetið úr þröngu færi. Hinum megin átti Pólverjinn Rasiak skalla í þverslána og Reina varði vel frá Defoe í góðu skotfæri. Þannig að í hálfleik var staðan 0-0 og það nokkuð sanngjörn úrslit, þótt bæði lið hefðu getað verið búin að skora.

Í seinni hálfleik rigndi síðan og völlurinn blotnaði eftir því, sem þýddi að bæði lið gengu á lagið og reyndu mikið af langskotum. Okkar mönnum gekk þó betur að hitta á rammann, en Paul Robinson í marki Spurs átti stórleik og stöðvaði þrumuskot frá Cissé, García og Crouch á leiðinni í netið. Þá skaut John Arne Riise í slána, niður á marklínuna og út, en þar vorum við óheppnir að komast ekki yfir.

Þá voru skoruð tvö ólögleg mörk í síðari hálfleik. Fyrst tóku Spurs hornspyrnu frá hægri og Rasiak átti góðan, löglegan skalla beint í netið en dómarinn dæmdi markið af, réttilega, þar sem línuvörðurinn flaggaði til merkis um að hornspyrnan hafi farið aftur fyrir endamörk á leið sinni inn í teiginn.

Tíu mínútum síðar eða svo gerðist það nákvæmlega sama hinum megin. Peter Crouch skoraði þá gott skallamark eftir hornspyrnu Gerrard frá hægri en línuvörðurinn flaggaði aftur til merkis um að boltinn hafi farið aftur fyrir. Einkennileg tilviljun, að tvö svona atvik gerist í sama leiknum, en bæði lið töpuðu á þessum dómum þannig að maður kvartar í raun ekkert yfir því.

Annars var þessi leikur bara eins og ég átti von á. Bæði lið sóttu til sigurs og með smá heppni hefði sigurinn getað endað hvorum megin sem er. Tottenham-liðið spilar skemmtilegan fótbolta og eiga eftir að hirða stig af stórliðunum á White Hart Lane í vetur, þannig að við megum í raun bara sáttir við una. Þrír leikir búnir, fimm stig komin í sarpinn og enn ekkert mark fengið á okkur. Það eina sem er eitthvað áhyggjuefni er að enn virðist boltinn ekki fara yfir línuna hjá okkar mönnum, en fyrir utan aukaspyrnu Xabi Alonso gegn Sunderland höfum við ekki skorað mark úr opnu spili í þær 270 mínútur sem við höfum leikið í deildinni.

MAÐUR LEIKSINS: Hjá Tottenham var ég sérstaklega hrifinn af hægri bakverðinum Stalteri og Michael Carrick á miðjunni, auk þess sem hinn pólski Rasiak á eftir að gera góða hluti í deildinni ef hann spilar áfram svona. Hjá okkar mönnum fannst mér liðið vera að spila ágætlega sem heild, en þó voru nokkrir leikmenn daprir. Fyrirliðinn Gerrard komst aldrei í takt við leikinn í kvöld og vængmennirnir, García og Riise, voru misjafnir í besta falli. Vörnin stóð sig vel, og þá sérstaklega Stephen Warnock, og framherjarnir Cissé og Crouch voru frískir framan af en virtust báðir missa smá orku og kraft eftir því sem leið á seinni hálfleikinn.

Menn leiksins hjá okkur voru svo tveir leikmenn, að mér fannst. Í fyrri hálfleik var Dietmar Hamann allt í öllu hjá okkar mönnum, hann var sá eini sem hafði eitthvað í Davids og Carrick á miðju Spurs að segja og stjórnaði spilinu okkar mjög vel. Hann fékk þó þungt höfuðhögg undir lok hálfleiksins og þurfti að fara útaf í hléinu.

Og inná fyrir hann kom hinn maður leiksins, Momo Sissoko. Þessi drengur er algjört dúndur, hefur sennilega verið laaangbesti leikmaður okkar það sem af er tímabilinu og í seinni hálfleiknum í kvöld sýndi hann enn og aftur hvers hann er megnugur. Þegar hann kom inná í seinni hálfleiknum tókum við öll völd á miðjunni, Carrick og Davids sáu minna af boltanum og Jermaine Jenas hvarf. Þá gerði krafturinn í Momo Gerrard kleift að fara framar á völlinn sem jók sóknarþunga okkar, liðinu til góða.

Sem sagt, Hamann var bestur í fyrri hálfleik og Sissoko í seinni hálfleik. Ég held við getum alveg unað sáttir við jafnteflið í þessum leik, en nú ríður líka á að hirða þrjú stig í næsta deildarleik, en á sunnudag eftir viku koma Man U í heimsókn á Anfield. Fyrsti stórleikur ársins hjá okkar mönnum – og ég get ekki beðið! 😀 Roy Keane, má ég kynna Alonso, Gerrard OG … Móóóóómóóóóóó! 😉


Uppfært: (Aggi) Ég er sammála Kristjáni varðandi að jafntefli voru sanngjörn úrslit í gær. Leikurinn var opinn og bæði lið spiluðu klárlega til sigurs en það gekk ekki eftir. Þetta Tottenham lið á eftir að vera ofarlega í vetur og ljóst er að Jol er að gera flotta hluti með Spurs. Rafa þarf að hafa [smá áhyggjur af markaleysinu hjá okkur](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N149945050911-0922.htm) en annars spilar liðið vel og klárlega meira sannfærandi en í fyrra.

10 Comments

 1. Flott leikskýrsla og ég var bara mjög sáttur við stigið því Spurs eru komnir með hörku lið en mikið hefði verið gaman ef skotið hans Risse hefði farið réttu megin við marklínuna eftir að hann hrökk af slánni, svipað atvik átti sér stað í leik Real Madrid og Celta Vigo fyrr í kvöld en dómarinn dæmdi þá ranglega mark sem varð svo sigurmarkið, ekki gátum við verið svona heppnir með dómarann 😡

 2. Ég var drulluspenntur og drullustressaður fyrir þennan leik sjálfur, fannst Tottenham virka mjög sterkt og verð því að segja eftir leikinn að jafntefli eru ásættanleg úrslit. Hins vegar veldur markaleysið mér áhyggjum, öðruvísi vinnast víst leikir ekki. 12 skot að marki, sláarskot… bévítans óheppni auðvitað, en ég verð að trúa því að þegar við loksins skorum þá opnist flóðgáttir. Það væri yndislegt að vinna United t.d. 3:0…

 3. Þokkaleg úrslit, en ekki virkar hann Reina sérlega traustur þarna aftast. Kannski Dudek eigi enn séns?

 4. Piff. ég veit ekki betur en Reina hafi bjargað allavegana 4 MJÖG vel… hann átti skot sem hann greip ekki nógu vel og 1 villt úthlaup. Annars varði hann rosalega vel. Og mjög fljótur að koma boltanum i leik. útspörkin hans voru mjög góð á Cisse..

 5. já var Nonni ekki að horfa á sama leik og við? Reina átti fínan leik og hann verður traustari með hverjum leiknum sem hann spilar enda ekkert grín að þurfa að verja mark Evrópumeistaranna, liðið sem öll lið í Evrópu vilja sigra en fá munu hafa erindi sem erfiði í vetur 🙂

 6. Var ekki einmitt okkar gamli félagi Antonio Nunez sem skoraði eitt marka Celta í leiknum? Væri það nú ekki týpískt ef karlpungurinn færi að brillera annars staðar en hjá LFC.

 7. Ég verð nú að segja að ég er frekar ánægður með jafnteflið í gær. Erfiður útivöllur – en hefðum getað unnið með smá heppni.

  Þá er ekki ónýtt að eiga menn eins og Alonso, Sissoko og Traore á bekknum… og Morientes, Kewell og Zenden þar fyrir utan. Hvar var annars Zenden í gær?

  Það eina sem mér finnst aðfinnsluvert í spilamennskunni okkar er þegar Riise og Finnan lenda maður á móti manni á kantinum með stórt svæði til að vinna úr. Þetta kom margsinnis fyrir í gær og þeir sendu boltann nær undantekningarlaust til baka á vörnina. Ég skil þó Finnan betur en Riise þar sem hann er ekki með bakvörð til að dekka svæðið fyrir aftan sig. Þetta lagast svo vonandi á vinstri kantinum þegar Kewell kemur inn í staðinn fyrir Riise.

  Svo er ég ánægður með Reina í markinu. Virkar margfallt öruggari en Dudek. Sérstaklega þegar hann fær boltann frá vörninni.

  Annars frábær bloggsíða og skelfilegt þegar hún var niðri í gær. 🙂

 8. Óheppnir í gær, en liðið að spila vel og sótti á útivelli sem er mikil framför frá síðasta tímabili. Lítur ágætlega út.

  Riverside (eins og sást hjá Arsenal í gær) og White Hart Lane eru erfiðir útivellir – maður er sæmilega sáttur við 4 stig á tímabili gegn þessum liðum, þannig að við erum á réttri braut að mínu mati.

  Útileikurinn gegn Birmingham verður spennandi því þá fyrst sjáum við hvort breytingar hafa orðið á útivallarforminu frá síðustu leiktíð.

  Annars er Man City fyrir ofan Man Utd, vonandi að svo verði einnig eftir næsta sunnudag 🙂

 9. Fínt að gera jafntefli á white hart pain og svo eru náttúrulega örugg 3 stig framundan :biggrin2:

 10. Það er líka gaman að pæla í því að einu tvö liðin sem ekki hafa fengið mark á sig í fyrstu 3-5 umferðunum eru Chelsea og Liverpool. Og bara upp á fönnið: þversumman af skoruðum mörkum þessara tveggja liða er sú sama: 1.

  Alla vega jákvætt líka að sú staða sem Rafa hafði lagt áherslu á að bæta (miðvörður) er sú besta í deildinni í augnablikinu. 7-9-13.

  Markaleysið er vandamál.

Crouch klár í slaginn (uppfært)

Momo Sissoko…. magnaður!