Liverpool 3 – CSKA Moskva 1

Liverpool: Super Cup meistarar 2005


Liverpool unnu Súper-bikarinn í Evrópu í kvöld í 3. sinn og urðu þar með aðeins þriðja liðið til að afreka það – hin eru Ajax og AC Milan. Það leit þó lengi vel ekki út fyrir að okkar menn myndu hafa þetta, en eftir að hinn brasilíski Daniel Carvalho hafði gefið Mosvku-mönnum óvænta forystu á 28. mínútu (eftir klaufagang í vörn okkar manna) þá þurftum við að bíða þangað til á 82. mínútu eftir jöfnunarmarkinu. En það kom þó að lokum og okkar menn innsigluðu þetta síðan með tveimur mörkum í framlengingu, og annar bikar ársins er því kominn í hús! 🙂 🙂

Í hnotskurn, þá sóttu okkar menn allan leikinn en náðu ekki að skapa sér nógu hættuleg færi, fyrir utan tvö skotfæri hjá Luis García í fyrri hálfleik, á meðan Rússarnir vörðust skipulega og vel og virtust hafa þetta allt í hendi sér. Þangað til á 78. mínútu. Það má í rauninni segja að munurinn á liðunum hafi verið einn leikmaður: Djibril Cissé!

Rafael Benítez hóf leikinn með þessu liði:

Reina

Josemi – Carra – Hyypiä – Riise

Finnan – Alonso – Hamann – Zenden
García
Morientes

BEKKUR: Carson, Warnock, Sissoko, Pongolle, Cisse.

Þessi leikur var ekkert ósvipaður tapleiknum gegn Sofia á þriðjudag. Við sóttum án afláts í fyrri hálfleik, fengum á okkur mark úr skyndisókn gegn gangi leiksins um miðjan hálfleikinn og eftir það virtist sóknarþungi okkar manna fjara út. Það er eins og við eigum gríðarlega erfitt með að sigrast á liðum sem leggjast í vörn þessa dagana, því að þótt okkar menn hafi verið í nær stanslausri sókn í seinni hálfleik var nákvæmlega ekki neitt sem benti til þess að við næðum að skapa okkur þau færi sem þurfti til að skora.

Rafa tók Alonso útaf fyrir Sissoko og Finnan út fyrir Pongolle eftir um 70 mínútna leik, og svo þegar 12 mínútur voru til leiksloka tók hann Riise út fyrir Cissé og færði Morientes aðeins aftar. Þessar skiptingar áttu eftir að breyta öllu, og þá sérstaklega sú síðasta.

Þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum fengu Moskvu-menn sjaldgæfa sókn. Reina greip boltann í teignum eftir fyrirgjöf og sparkaði honum samstundis fram. Þar lenti boltinn hjá Luis García sem skallaði hann áfram innfyrir, þar sem Djibril Cissé var í kapphlaupi um boltann við varnarmann Rússa. Varnarmaðurinn skaut boltanum klárlega í hönd Cissé en það sá það enginn fyrr en í endursýningu, þaðan fór boltinn yfir Akinfeev markvörð Moskvu og Cissé skaut honum í tómt netið. 1-1 og framlenging.

Í framlengingu skoraði Cissé svo aftur eftir stungusendingu frá Didi Hamann og svo innsiglaði García sigurinn með skalla af stuttu færi, eftir að Cissé hafði fengið stungusendingu upp hægri kantinn og átt góða fyrirgjöf.

Með öðrum orðum, Moskvu-menn höfðu þetta allt í hendi sér og virtust sáttir við að liggja í vörn og stöðva hægar sóknir Liverpool … þangað til hinn eldfljóti Cissé kom inná. Þá skyndilega var lausnin á varnarmúr Moskvu-manna kominn og okkar menn gengu á lagið, skoruðu þrisvar og í öll skiptin var það hraði Cissé sem gerði útslagið.

Það var að sjálfsögðu frábært að vinna þennan titil – og ná að skora heil þrjú mörk án Steven Gerrard – en þó verður maður að taka þessu með örlitlum vara. Staðreyndin er sú að Liverpool-liðið sótti allt of hægt og var fyrirsjáanlegt í flestum sínum aðgerðum í kvöld, alveg þangað til Cissé, Pongolle og Sissoko komu inná. Þá var loksins eins og einhver kraftur kæmi í sóknina og við urðum miklu líklegri til að skora fyrir vikið.

cisse-cska.jpgMAÐUR LEIKSINS: García var góður og klaufi að skora ekki þrennu í kvöld, og þá fannst mér þeir Hyypiä, Carragher og Josemi sterkir í vörninni í kvöld. Sérstaklega finnst mér ástæða til að hrósa Josemi, sem virðist vera að finna fæturna aftur eftir erfið misseri. Hann fékk laaangerfiðasta hlutverk okkar manna í kvöld – að halda aftur af besta leikmanni Moskvu-manna, hinum göldrótta Brasilíumanni Daniel Carvalho, og þótt Carvalho hafi tvisvar leikið hann upp úr skónum náði Josemi að standa fyrir sínu í 120 mínútur gegn honum og stóð á endanum uppi sem sigurvegari í því einvígi. Þá var Josemi einnig duglegri en flestir aðrir í liðinu að sækja fram á við og átti t.a.m. 3 markskot. Vonandi er þetta til marks um hvað koma skal hjá þeim spænska.

Á miðjunni fannst mér lítið vera að gerast, allir fjórir sem hófu leikinn voru frekar daufir og það var ekki fyrr en Sissoko og Pongolle komu inn á miðjuna að hlutirnir fóru að gerast. Sissoko er að verða stjörnuleikmaður í þessu liði, það sjá það allir, og það er af góðri ástæðu.

Frammi átti Fernando Morientes í miklum vandræðum – bæði var ekkert að gerast fyrir aftan hann og svo var hann í góðri gæslu hjá sterkum varnarmönnum rússneska liðsins. Þær fáu fyrirgjafir sem komu svo inní teiginn tók hinn ungi markvörður Akinfeev vel – hann er aðeins 19 ára! – þannig að þótt Morientes hafi verið slappur í kvöld finnst mér erfitt að gagnrýna hann að öllu leyti fyrir.

Það er þó engin spurning hver maður leiksins er … það var að sjálfsögðu DJIBRIL CISSÉ, sem breytti gjörsamlega öllu með sinni innkomu. Það hefur mikið mætt á honum undanfarna daga út af öflugu slúðri um framtíð hans – en ég verð mjööög hissa ef það reynir einn fréttamaður að halda því fram yfir helgina að hann verði seldur fyrir 1. september. Liverpool einfaldlega selur ekki Djibril Cissé eins og hann er að spila (kominn með 6 mörk nú þegar á tímabilinu), svo einfalt er það bara. Ef Owen kemur er hann frábær viðbót, en Cissé verður ekki seldur til að rýma fyrir þeim velska. Ekki séns!

Jæja, við getum allavega glaðst yfir því að bikarinn vannst í kvöld og okkar menn geta haldið inn í landsleikjahléð með bros á vör! Næsti leikur Liverpool er þann 10. september gegn Tottenham á útivelli í deildinni – og það kæmi mér ekkert á óvart þótt við sjáum Michael Owen og Djibril Cissé spila þar sinn fyrsta alvöruleik saman fyrir Liverpool! 😀


**Viðbót (Einar Örn)**: Já, mikið var gott að okkar mönnum tókst að klára þetta. Ef leikurinn hefði endað 1-0 hefðu komið í blöðunum 20 greinar um að við getum ekkert án Gerrard, að framherjarnir okkar séu vonlausir og svo framvegis og framvegis.

En í stað þess, þá **bjargaði Djibril Cisse deginum**. Hann og Sissoko voru virkilega góðir. Ég held að allir Liverpool aðdáendur hafi samglaðst Djibril Cisse í kvöld. Það er augljóst að þetta slúður hefur haft áhrif á hann, sem er vont því það er augljóst af viðtölum við hann að hann þráir ekkert heitar en að slá virkilega í gegn með Liverpool.

Hann þurfti bara smá heppni til að eitthvað færi inn og það gerðist í fyrsta markinu. Það var líka augljóst hvar styrkur Cisse liggur, því öll mörkin komu eftir langa stungusendingu inná hann. Það reyndist eina leiðin til að brjóta aftur þessa sterku vörn CSKA Moskva.

Það var líka ánægjulegt að Luis Garcia var loksins að spila vel í vetur. Hann hefði auðveldlega getað skorað, en annars lék hann virkilega vel. Undirbúningurinn hans fyrir skotið hans Josemi var hreinasta snilld. Einnig, þá lék Josemi vel, sem var virkilega gott. Er sammála Kristjáni um að hann hafi sinnt gríðarlega erfiðu hlutverki vel.

En fyrsti bikarinn kominn í hús, þrjú mörk án Steven Gerrard, tvö mörk fyrir Djibril Cisse og Luis Garcia kominn á blað. Þetta byrjaði seint, en mikið var þetta gaman. Ég var allavegana skælbrosandi þegar ég sá Cisse og Pongolle dansa saman á verðlaunapallinum. 🙂

Núna getum við allavegana farið inní þetta landsleikjahlé virkilega sátt!

37 Comments

  1. Fínt mál. Frábært að sjá Cisse setja 2 og ekki hefði það verið verra ef Nando hefði sett eitt kvikindi, bara upp á confident.

  2. Cisse var útsagt frábær í þessum leik og fannst mér Josemi standa sig með prýði líka.

  3. Góður endasprettur í kvöld og frábær innkoma hjá Cissé. Horfði á leikinn á ITV stöðinni og þeir tóku viðtal við Rafa eftir leikinn og spurðu hann beint út hvort að Cissé væri ekki öruglega í framtíðar plönum hans, en Rafa gat ekki sagt það. Ætli að hann sé eitthvað að spá í að láta hann fara frá félaginu, ég neita bara að trúa því, Cissé hefur ekki fengið að spreyta sig nóg. Vona að hann verði leikmaður Liverpool FC un ókominn ár og verði framherji okkar númer eitt :biggrin2: LFC forever

  4. ég er alls ekki sammála ykkur með frammistöðu josemi, mér fannst hann lélegur í kvöld. hann var oft klaufalegur í vörninni og oft á tíðum út á túni í varnarstöðunni. hann berst vel og gefur sig allan í leikinn en er svo langt frá því að geta talist ásættanlegur fyrsti kostur í hægri bakvörðinn, finnan er margfalt betri. það var mjög ánægulegt að sjá til þeirra sissoko og cisse í leiknum, gjörsamlega breyttu leiknum og maður verður bara ánægðari og ánægðari með kjúklinginn Sissoko, þvílíkur framtíðarmaður.

    aðrir sem spiluðu vel voru hyypia sem átti mjög góðan leik að vanda og carra var traustur. aftur á móti var zenden ömurlegur og hefur ekkert sýnt síðan hann kom.

    síðan er bara að leggjast á bæn um að owen komi heim og þá verður sóknin ekki árennileg með sennilega fljótasta sóknarpar allra tíma, cisse og owen.

  5. Þetta hafðist! Sem betur fer, því framan af var liðið hreinlega ekki líklegt. Greyið Morientes fær ekki úr nógu að moða og er ekki að gera hlutina fyrir mig þessa dagana. Hamann átti frábært skot snemma í leiknum, en annars var miðjan slöpp. Fannst innkoma Pongolle ekki sérstök í leiknum. En menn leiksins fyrir mér voru hiklaust Sissoko og Cisse. Miðjan breyttist úr döpru yfir í vel út lagða með Sissoko í fantaformi og loksins skoraði Cisse, og lagði eitt. En ég tek undir með þessum þulum (þó ég þoli ekki Gaupa – grrr!) um að Liverpool þarf á Owen að halda. Með Cisse og Owen sem aðalskorara verðum við sko í þvílíkum góðum málum. Þ.e. ef Cisse heldur áfram að skora 🙂

    En þar sem fyrstu 80 mínúturnar voru ekki það eftirminnilegar fyrir mér, þá var það ein setning Gaupa sem stóð úr: “Hann er þarna í kringum fjóra varnarmenn…”

    Til hamingju Púllarar!

  6. Frábært að vinna þennan bikar! 🙂 En ég verð að lýsa áhyggjum mínum á því hvað Morientes er einfaldlega kraftlítill leikmaður. Það skapaðist ekki mikil hætta í kringum hann í leiknum. Aftur á móti finnst mér Cisse alveg eitraður leikmaður. Rafa á alls ekki að láta hann spila aftur á hægri kantinum – HANN Á AÐ VERA FRAMMI!!

    Til hamingju með titilinn Púlarar.

  7. Ha? Er fólk ósammála okkur Kristjáni um Josemi?

    Nú hef ég séð allt.

    Og þetta svar hans Rafa var algjörlega típískt fyrir hann. Hann nennir ekki að vera að ræða þessi mál við fjölmiðla. Hann lætur verkin tala í stað þess að vera að blaðra öllu í fjölmiðla áður en málin klárast líkt og menn einsog Souness.

    Bíðum bara róleg. Þetta kemur allt í ljós. En ég efast um að Cisse fari.

  8. Ég verð að vera sammála Árna, mér fannst Josemi mjög slakur í þessum leik. Það hlakkaði í mér að sjá hvað þið mynduð segja um þessa framistöðu hjá honum. Allt kom fyrir ekki, ykkur fannst hann FRÁBÆR!! En svona er þetta bara. Eins fannst mér Pongolle frekar slakur, hann var voðalega tens og fyrirsjáanlegur hann var alltaf skrefi á undan sjálfum sér og með lélega fyrstu snertingu. Hann gaf sig samt allan í þetta en á nokkuð í land, hef reyndar engar áhyggjur af honum því hann á eftir að standa sig.

    Gaman af því hvað við sjáum þetta misjöfnum augum. 🙂

  9. Held að menn ættu að fara að gefast upp á Josemi. Staðsetningar hans í vörninni eru engan veginn nógu góðar auk þess missir hann sóknarmenn alltof oft framhjá sér.

    Við eigum ekki að sætta okkur við meðalskussa eins og Josemi, hann er einfaldlega langt frá því að vera nógu góður fyrir Liverpool.

  10. Jæja, til hamingju með þetta Púlarar..

    Ég segi bara loksins fékk Cisse þær sendingar sem hann getur unnið úr. Þetta eru akkúrat þeir boltar sem hann þarf. Kemur bara ekki til greina að selja þennan mann.Hann er búin að vera í uppáhaldi hjá mér í mörg ár og ég veit að hann á mikið meira inni.

    Þvílíkur leikmaður virðist Momo ætla að verða. Moyes og hinir bláu hljóta að gráta sig í svefn yfir því að hafa misst af honum.

    Ég verð að segja eins og margir aðrir hérna að Josemi olli mér vonbrigðum, er ekki til í gefast upp á honum strax en mér fannst hann slakur í leiknum. Zenden olli líka vonbrigðum og hefur hann ekki enn sýnt það sem ég vil fá frá honum. En hann kom þó frítt.

    Veit ekki alveg með markið sem við fengum á okkur, fannst kannski úthlaupið hafa verið röng ákvörðun hjá Pépe en annars fannst mér hann öruggur og held að hann eigi eftir að koma vel út(enda er ég með hann í draumliðinu mínu hjá Premierleague).

    En það sem skiptir máli er að við unnum og komum enn einum titilinum í hús og verður þetta örugglega ekki sá síðasti hjá okkur á árinu, það getum við bókað!

    Kv. Chris

  11. Ég held að menn verði að átta sig á því að Pongolle er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum,þannig að það er ekkert sjálfgefið að hann eigi stjörnuleik í sínum fyrsta leik eftir það.

    Varðandi Josemi, þá fannst mér hann eiga ágætis leik. Hann að vísu braut fulloft af sér ( enda lét Carra hann heyra það ) en Josemi var að dekka drulluerfiðað leikmann.
    Eins og áður hefur komið fram var hann líka að sækja fram af krafti, feitur plús það.

    En annars, til hamingju allir púllarar.

  12. NÁKVÆMLEGA ÞETTA VIL ÉG SJÁ!

    “It would not only be criminal to sell him so soon but it would also show a real lack of ambition by the club. If Liverpool are to build on their Champions League success last season they must retain the very best players.

    We’d like to see Cisse and Owen paired together.”

  13. Þegar maður sá byrjunarliðið velti maður því óneitanlega fyrir sér hvernig sóknarleikur okkar mann yrði.
    Og ekki froðufelldi maður af gleði yfir honum.

    Ég botna illa í þessum pælingum Rafa að spila með Morientes fremstan. Hann myndi nýtast mun betur að mínu viti fyrir aftan fremsta mann (í þeirri stöðu sem Garcia lék í dag). Óttast að það sé að verða gæluverkefni hjá Rafa að láta Morientes raða inn mörkum. Hann er með vandaðan knattspyrnukoll og minnir mig alltaf á Jari Litmanen. Morientes getur hæglega skorað mörk en virkar úti á túni í stöðu fremsta manns í þessu kerfi Rafa.

    Ég botna enn minna í söluhjali Cisse. Ekki myndi ég skipta á Owen og Cisse. Nógu slæmt er að horfa á eftir Baros 🙂 Málið er að við erum ekki með marga leikmenn sem geta brotist með látum og djöfulgangi fram hjá þéttmönnuðum vörnum og það væri tóm dómsdagsgeðveiki að selja einn slíkan frá okkur. Owen er auðvitað vandaður leikmaður og klárar færin sín mun betur en Cisse en hann var orðinn ansi freðinn undir það síðasta og varnir andstæðinganna áttu ekki í stórkostlegum vandræðum með hann.

    Við þurfum nauðsynlega á leikmönnum að halda sem geta gert óvænta hluti og brotið upp þrjóskar og þéttmannaðar varnir. Cisse er einn af þeim. Finnan og Zenden skapa engan sérstakan usla í vörnum andstæðinganna með hraða sínum og leikni…. Vonandi verður þetta tímabilið hans Kewels og við fáum dýrvitlausan hægri vængmann. Maður fékk ekki beint gæsahús af spenningi þegar Nunez var með boltann á síðustu leiktíð…

    En á jákvæðu nótunum, djöfull er Sissoko magnaður leikmaður. Gjörsamlega frábær kaup.

    -Baros.

  14. Gæsahús er vissulega vandað orð 🙂 og hefur vonandi vakið kátínu hjá ykkur ef þið hafið nennt að lesa þessa langloku. Hús átti það að vera.

  15. Já mér fannst Josemi standa sig vel á meðan Finnan var inn á til að dekka svæðið hans. Eftir að Finnan fór út af var hann líka bara í ruglinu. Ef við fengjum svona margar aukaspyrnur á kantinum á móti okkur á gegn Everton eða Bolton þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. Maðurinn er ekki í þeim klassa sem sæmir Evrópumeisurum Liverpool. Varðandi mann kvöldsins Cisse þá virðist Rafa bara vera bíða eftir sæmilegu tilboði í hann allavega ef marka má það sem Times hefur eftir honum í kvöld. Rafa sagði:”?We spoke before but I told Djibril we have not had any offers,? the Liverpool manager said. ?Maybe he will have a lot of offers now after scoring two goals.?

  16. Ha? Átti það að vera hús? :laugh:

    Annars held ég að vandamál manna með Josemi sé það að sumir búast við því að bakvörðurinn hakki þann sóknarmann sem hann dekkar yfir allar 90 mínúturnar, að ekkert minna en gallalaus frammistaða dugi. Ef Hermann Hreiðarsson væri að spila fyrir Ísland og ætti að dekka Joaquin, og Ísland ynni 3-1 og Joaquin myndi bara ná að klobba hann tvisvar en annars næði Hemmi að stöðva hann með því að annað hvort vinna boltann af honum eða brjóta á honum … þá myndi hver einasti Íslendingur segja að Hemmi hefði átt súpergóðan leik.

    Það sama virðist ekki gilda um Josemi. Daniel Carvalho var súpergóður í kvöld og greinilega mjööög góður leikmaður sem erfitt er að dekka. Hann slapp innfyrir Hyypiä og Riise í markinu og skoraði, en þegar hann var nálægt Josemi náði hann ekki að skapa jafn mikið. Hann komst tvisvar framhjá honum, í bæði skiptin með klobba, en í bæði skiptin var Carra mættur til að kóvera eins og góður miðvörður á að gera.

    Restina af leiknum var Carvalho að reyna öll sín trikk til að komast framhjá Josemi en gekk ekki. Josemi vann oft boltann af honum, lokaði vel á hann niður vinstri vænginn (munið þið eftir einni fyrirgjöf þeim megin frá??? ) og ef einhver vafi lék á braut hann frekar á Carvalho en að missa hann hreint innfyrir sig. Með öðrum orðum, Josemi tók hættulegan leikmann á borð við Carvalho og gerði hættuna að nánast engu allan leikinn, í 120 mínútur.

    Fyrir utan klobbana tvo átti Josemi aðeins tvenn önnur mistök – fyrst hitti hann boltann illa þegar hann var að reyna að hreinsa þannig að hann fór beint upp í loftið (og skallaði hann svo sjálfur frá þegar hann kom niður) og í seinna skiptið átti hann aðeins of lausa sendingu á Carra sem Vagner Love komst næstum því inní, en Carra var sem betur fer vakandi.

    Þannig að ég myndi ekki segja frábær frammistaða hjá Josemi, en hann var samt gríðarlega góður … allavega langt því frá að vera “ömurlegur,” “ómögulegur” eða “hundlélegur” eins og sumir myndu vilja segja. Þegar varnarmaður mætir góðum sóknarmanni er það bara mjög sjaldgæft að annar aðilinn hafi vinninginn í öllum baráttum. Ég meina, frá sjónarhorni CSKA séð þá lét Carvalho Josemi oft hakka sig en samt eru allir sammála um að Carvalho hafi átt góðan leik, af því að hann náði þó að skapa hættu nokkrum sinnum og var duglegur að ná í aukaspyrnur.

    Frá Liverpool-sjónarhorninu séð þá fékk Josemi gríðarlega erfitt hlutverk í kvöld og hann leysti það með sóma. Jú, Carvalho hafði betur en hann tvisvar og jú, Josemi hefði mátt fá á sig færri aukaspyrnur en þegar allt er upp talið þá hélt hann hættulegasta leikmanni Moskvu-liðsins niðri í 120 mínútur, og eina skiptið sem þeir skoruðu var þegar þessi hættulegasti leikmaður þeirra fór úr sinni stöðu og stakk sér í gegn hinum megin í vörn Liverpool. Samt sé ég enga lesendur þessarar síðu koma hér inn til að húðskamma Hyypiä og Riise fyrir að hafa gert Carvalho réttstæðan og gert þeim kleift að komast yfir … neeeeiii … menn virðast ákveðnir í að allt sem fór aflaga í kvöld hafi verið Josemi að kenna.

    Einnig: Hvaða leikmaður Liverpool átti flest skot á mark í kvöld? Svar: Luis García. Hvaða leikmaður Liverpool átti næst flest skot á mark í kvöld? Svar: Josemi … þannig að auk þess að halda hættulegasta manni þeirra niðri í 120 mínútur (fyrir utan þessa tvo klobba) þá var hann líka, skv. tölfræðinni, einn af okkar hættulegustu mönnum fram á við. Getið þið nefnt mér eitt dæmi þess það sem af er tímabili að Finnan hafi tekið skorpu fram völlinn eins og Josemi gerði í kvöld? Svar: NEI.

    BOTTOM LINE: Josemi var ekki fullkominn í kvöld og gæti spilað betur, ég er ekki að segja að ég sé einhver aðdáendaklúbbur hans og neiti að sjá það slæma í hans fari, en staðreyndin er samt sú að hann hefur núna átt tvo MJÖG góða leiki í röð fyrir okkur en samt virðast menn koma hér inn nær eingöngu til að rakka hann niður. Hann átti ekki sök á markinu í kvöld, hann var einn af fáum sem voru að skapa fram á við og hann tók hættulegasta leikmann andstæðinganna úr umferð í kvöld – en það að hann skyldi fá það hlutverk sýnir að Rafa treystir honum, þótt þið gerið það ekki.

    Sem sagt, í gvöðanna bænum hættið að ráðast sífellt á Josemi að ástæðulausu. Hann lét taka sig tvisvar í kvöld en var að öðru leyti einn af okkar bestu mönnum, á meðan t.d. Riise, Zenden, Alonso, Hamann og Morientes voru algjörlega úti á þekju. Samt kemur enginn hingað inn til að gagnrýna þá? Skrýtið… :rolleyes:

  17. vid stálum sissoko af everton
    getum við ekki stolið Van der Meyde líka.

  18. Já, þessi húsabrandari var nokkuð súr Kristján Atli 🙂 Er líklega genginn sér til húðar.

  19. Já, ég verð að vera sammála mörgum hér… En því miður ekki ykkur strákar sem eruð með þessa FRÁBÆRU síðu. Mér fannst Josemi vera arfaslakur í þessum leik. Við bróðir minn vorum að tala um það meðan við horfðum á leikin að nú væri Josemi endanlega búin að missa það. Það er skrítið hvernig er hægt að vera ósammála með frammistöðu manna svona mikið. Annahvort er honum hrósað í hástert eða talin vera lang lélegasti maður okkar í kvöld. Við sjáum hvað Rafa gerir, ég hreinlega efast um að hann láti Josemi vera í hópnum í næsta leik okkar. Sjáum sammt til….

  20. En já gleymdi að sega það, ég er alveg heillaður af Sissoko, hann er búin að vera rosalegur í þessum leikjum sem hann er búin að spila, það hreinlega kemmst enginn í gegnum hann. Geðveikt hjá Rafa að ná að stela honum af Everton… :tongue:…. :laugh:

  21. Ég er fullkomlega sammála þér, Kristján. En ég held að þetta sé vonlaus barátta. Sumir sjá bara rautt þegar að Josemi er inná, og hann nær sennilega ekki að breyta því nema að hann skori þrennu gegn Chelsea.

    Það sýnir líka að *Rafa var sammála okkur* um hversu vel Josemi var að standa sig í að gæta Carvalho. Ef hann hefði verið svona ömurlegur einsog sumir halda fram, haldiði þá að Rafa hefði tekið Finnan útaf? Nei, hann hefði haldið Finnan inná og tekið Josemi útaf. En það gerði hann ekki.

    Þið látið líka margir hverjir einsog við höfum verið að fara yfirum í hrósi á Josemi. Einsog Ingi sagði:

    >Allt kom fyrir ekki, ykkur fannst hann FRÁBÆR!!

    Þetta er bara ekki rétt. Kristján sagði:

    >Sérstaklega finnst mér ástæða til að hrósa Josemi, sem virðist vera að finna fæturna aftur eftir erfið misseri

    Og ég sagði:

    >Einnig, þá lék Josemi vel

    Miðað við þær lýsingar, sem við hikum ekki að nota á þessari síðu, þá er þetta nú ekkert svo brjálæðislegt hrós. Hvorugur sögðum við að hann hefði verið frábær. Heldur bentum við á að hann hefði *staðið sig vel í erfiðu hlutverki*. Þegar að Josemi stendur sig vel, þá finnst okkur ástæða fyrir að benda á það, alveg einsog þegar að Dudek spilaði vel í fyrra, eða hvaða leikmaður sem á erfitt uppdráttar.

  22. Strákar mínir þetta er alltof mikið púður í Josemi eftir sigurleik, fyrir mér er hann enginn bakvörður, hann var fínn í miðverðinum um daginn og spurning hvort að það sé ekki staðan hans, allaveg fyrir mér er Finnan 1. kostur í hægri bakvörðinn, getum við ekki verið sammála um það?

    Svo verð ég að segja að það er erfitt að gagnrýna framherja þegar að þeir fá litla sem enga þjónustu eða ættum við að segja ranga þjónustu, ég er nú aðeins farinn að sjá bresti í kerfinu hjá Rafa, mér fannst hann bregðast full seint við í gær og hefði viljað sjá Cisse fyrr inná og svo er hægri kanturinn vandamál.

    Að selja Cisse kemur einfaldlega ekki til greina núna þó að það kosti það að það verði ekkert pláss fyrir Owen. Svo vantar klassa hægri kant og miðvörð, það á ekki að kaupa einhverja backup fyrir þessar stöður, setja pening í þær og kaupa klassa, takk fyrir!! 😉

  23. Í mínum ummælum minntist ég ekkert á Josemi en satt best að segja fannst mér hann ekkert spila svakalega vel, frekar en margir aðrir. Ég browsaði hratt í gegnum nokkur hundruð comment á BBC-Liverpool chat þar sem 99% þeirra eru að tala um framtíð Cisse eftir leikinn, en á þeim örfáu stöðum þar sem minnst er á Josemi, þá er hann ekki að fá góða einkunn þar. Og ég er ekki með tölfræðina við hendina, og ég get ekki talið upp öll atvik Josemis í leiknum (by the way… væri hægt að fá góða tölfræði-síðu hér auglýsta þar sem ég hef gaman af tölfræði), en þrátt fyrir að Gaupi og Bjarni séu ekki snillingar heimsins þá var þeim samt tíðrætt um að Josemi væri ekkert sérstakur spilari.

    Í stuttu máli, þá hefði ég haldið að hér mætti koma með persónulegt álit á leikmönnum, þó svo að þeir séu ósammála ykkur, Kristján og Einar. Ég er ekkert alltaf sammála ykkur en mér finnst þið frábærir engu að síður. Sem og þessi síða.

    Aftur á móti þætti mér gaman að heyra í þeim sem gagnrýna Josemi sem harðast… hvaða maður hefði átt að vera í stöðunni hans og hefði sá einstaklingur staðið sig betur?

  24. Ég er sammála því að Josemi er betri í miðverði en bakverði. Josemi er gaur sem gæti alveg staðið sig fint á tímabilinu í miðverði

  25. Jú, Doddi, auðvitað má vera ósammála okkur. Það er það, sem gerir þetta skemmtilegt 🙂

    En við megum þá færa rök fyrir okkar skoðunum og einnig kvarta yfir því þegar að orð okkar eru teygð eða ýkt.

    En annars hef ég oft leitað að góðri tölfræðisíðu í fótbolta. Ég er mikill baseball aðdáandi og það er gaman hversu tölfræðin í þeirri íþrótt er ótrúlega fullkomin.

  26. ég var að horfa á leikinn aftur á sýn núna rétt áðan. ég ákvað að horfa á hægri bakvörðinn okkar með opnum huga. Hann var ekkert skárri en í gær :biggrin2:
    Hann átti til að mynda margar feilsendingar og tókst að senda á mótherja úr innkasti !!!! það var Carra sem rétt náði að bjarga því. það var eitt atvik sem stakk mig þó mest. það var seint í leiknum að leikmenn moskvu áttu sendingu fram, leit svo sem ekki út fyrir að vera nein hætta, josemi var með mann í bakið og steinlá(getur komið fyrir alla) og úr því kom mjög hættuleg sókn. það sem mér fannst verst var að þegar allt var yfirstaðið stóð Josemi á sama stað, ný staðinn upp og horfði niður í grasið.

    En hvað er málið.. er ekki í lagi að koma hér inn og segja það sem manni finnst?
    get ekki séð að neinn sé að rakk menn niður, í mínum huga finnst mér þetta frekar vera menn með sömu ástríðu og áhugamál að tala um knattspyrnu. það er alveg ljóst að menn verða aldrei sammála en er manni þá ekki óhætt að tjá sig hér?

    Ég er búinn að lesa þessa síðu í meira en ár, oft á dag og er þetta sú síða sem ég skoða mest. Hugsanlega besta íþróttasíða landsins að mínu mati. ástæðan er sú að hér eru menn mjög málefnalegir og virða skoðanir annarra ( fyrir utan víking vin okkar hér í vetur) :biggrin:

  27. Jú sé það í hendi mér að þið sögðuð ekki að Josemi hafi verið frábær.. tek það klárlega til baka.

  28. Sá reyndar ekki leikinn í heild en ég sá mörkin. Mér syndist þetta nú vera frekar mikil grísamörk hjá Cissé. Í fyrra markinu fékk hann boltann í sig og var þá á auðum sjó og í seinna markinu klikkaði hann í dauðafæri en skaut beint á markmanninn en var heppinn og fékk boltann akkúrat fyrir framan sig til að renna honum í netið. Tek fram að þetta var vel gert hjá honum. þ.e. hlaupin inn fyrir og dugnaðurinn þannig, en ég hefði viljað sjá hann klára seinna markið strax af öryggi. Annars frábært að sjá hann skora (markheppinn?) og síðasta markið var mjög vel undirbúið hjá Cissé. Frábært að vinna leikinn og vera ráðandi en vonandi fara þeir að spila 90 mínútur meira sannfærandi þannig að maður verði virkilega stoltur af spilamennskunni.

  29. Varðandi það hvort að Cisse hafi verið grís eða ekki þegar hann skoraði mörkin sín skiptir það í raun engu máli. Það sem skiptir máli er það að hann hefur í raun sömu hæfileika og Owen þ.e. hann kemur sér í færi og skorar mörk fyrir okkur. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna Rafa er að láta Morientes leiða sóknina einn. Frekar ætti hann að hafa hann með Cisse þar sem að hann gæti nýtt hraða Cisse til að stinga boltum í gegnum varnir andstæðinganna. Liverpool mun eiga í miklum erfiðleikum með að skora mörk í vetur ef Rafa ætlar að halda sig við þetta skipulag. Ástæðan er sú að það er einfaldlega allt of auðvelt fyrir andstæðinga okkar að verjast þessum boltum upp á Morientes sem hefur einfaldlega ekki nægan styrk til að halda varnarmönnum frá sér.

  30. Baseball tölfræði er svo sem áhugaverð, þannig, en málið er að það er ekki hægt að hafa sömu tök á fótbolta og baseball. Þetta er bara munurinn á amerískum íþróttum sem eru svona stop/start þar sem allt er klippt og skorið og svo fótbolta sem er eins og LÍFIÐ – þ.e. stanslaust í gangi, nema þegar það eru innköst. Og hornspyrnur. Og þúst, allt hitt.
    Og þá er ekkert hægt að hafa alvöru tölfræði. Ég meina, þegar ég fór í heimsókn til Gunnu frænku, fékk ég 2 kaffibolla eða 3? Hún hellti þrisvar í bollann, en í þriðja skiptið var samt svoldið í bollanum… Og þar með ruglast kaffimeðaltalið verulega… eða hvað?
    John Arne Riise… avg. .223 (mörk) .404 (hornspyrnur) .2434 (fyrirgjafir) .3387 (flott fagn)… Held ekki.
    Fótbolti gengur ekki út á meðaltöl. Heldur út á absolút hluti. Stig. Bikara. Mörk. Snilld. Þess vegna er hann fótbolti. Eins og lífið. Og Liverpool.

  31. Skil ekki Kidda en hafði gaman af samt… 🙂

    Spurning mín með tölfræði er afskaplega einföld og alveg möguleg fyrir fótbolta eins og t.d. körfuboltann í Bandaríkjunum. Við sjáum t.d. í lok hvers knattspyrnuleiks hversu mörg skot hvert lið hefur tekið, hversu mörg þeirra hittu á rammann, prósentuhlutfall yfir bolta”eign”, brot, spjöld og markaskorara, varamenn… þetta er einfalt. Litlu flóknarar er að skrá: Riise átti 3 skot, þar af tvö á mark, hann átti tvær stoðsendingar sem gáfu mörk, 6 heppnaðar sendingar (sem fer til mótherja) … o.s.frv.

    Þetta er sem sagt algerlega einfalt og mögulegt, fyrst þetta er hægt t.d. á körfuboltaleik. Og miðað við þá tölfræði sem við sjáum live á leik. Svona síður hljóta að vera til. Tölfræðin er ákveðinn mælikvarði á árangur liðs og einstaklinga! En varðandi Gunnu frænku myndi ég segja að bollarnir hafi verið þrír, ef bolli nr. 2 hefði verið meira en hálfur hefði ég sagt nei takk við þeim þriðja eða beðið Gunnu um að bíða róleg …

  32. Smá orð í belg varðandi leikmenn og frammistöðu þeirra í leiknum.

    Ég er ekki vanur því að gagnrýna menn of mikið og læt yfirleitt góðan tíma líða áður en ég fer að setja eitthvað niður á blað varðandi þá. En í þessum leik sá ég einn leikmann sem var líklega að sýna einn alversta leik sem ég hef séð hjá Liverpoolmanni í seinni tíð. Það er ekki oft sem ég hreinlega öskra á tækið vegna einhvers leikmanns.

    Eins og John Arne Riise getur nú oft á tíðum leikið frábærlega og átt heilu tímabilin þar sem hann sýnir stöðugleika, þá var algjörlega hræðilegt að horfa upp á manninn í þessum leik. Það er alveg á hreinu í mínum huga, hans leikur gerði það að verkum að mér fannst enginn hinna leikmannanna standa sig illa (eða næstum því). Ánægðastur var ég þó með Sissoko. Þvílík kaup í þessum strák. Aðlögun mæ ess. :biggrin:

Mourinho kvót

Milan