Liverpool 1 – Sunderland 0

Jæja, þetta hafðist að lokum. Okkar menn unnu fyrsta heimaleikinn í vetur, 1-0 gegn Sunderland, en voru þó langt frá því að vera eins sannfærandi og maður vonaðist eftir.

Þetta verður frekar stutt leikskýrsla, einfaldlega af því að það er ekki frá neitt mörgu að segja. En byrjum á byrjuninni; Rafael Benítez kaus að gera aðeins eina breytingu á liðinu sem náði jöfnu gegn Middlesbrough fyrir viku og byrjunarliðið var því svona:

Reina

Finnan – Carra – Hyypiä – Warnock

Cissé – Alonso – Sissoko – Zenden
Gerrard
Morientes

Á bekknum voru svo Josemi, Riise, Luis García og Milan Baros ásamt varamarkverðinum Scott Carson.

Liverpool byrjuðu leikinn betur og voru í raun betri allar 90 mínúturnar, en þó virtist eins og það vantaði einhvern kraft eða eitthvert hungur í leikmenn liðsins. Gerrard skaut í stöng eftir 3 mínútur og Morientes skallaði rétt framhjá úr dauðafæri mínútu síðar, á meðan Cissé skaut framhjá af markteig um miðjan fyrri hálfleikinn, þegar það hefði verið auðveldara að skora. Það var síðan á 24. mínútu að Xabi Alonso skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu, frábært mark hjá spænska arkitektinum okkar.

Eftir það reyndu Sunderland-menn að sækja aðeins og klóra sig inn í leikinn og voru nálægt því einu sinni, þegar boltinn hrökk greinilega í hönd Momo Sissoko inní teig Liverpool, en sem betur fer fyrir okkur sá dómarinn það ekki og dæmdi því ekki vítið.

En allavega, 1-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik reyndu okkar menn svo ákaft að búa til eitthvað meira, skora annað markið sem gæti tryggt sigurinn, en gekk í raun bara ekkert að spila boltanum sín á milli. Cissé skoraði reyndar löglegt mark á ca 65. mínútu en hann leit út fyrir að vera rangstæður og því skiljanlegt að dómarinn skyldi dæma það af – en endursýningar sýndu greinilega að vinstri bakvörður Sunderland sat eftir og því hefði markið átt að standa. Köllum það bara karma fyrir hendina hans Sissoko í fyrri hálfleik.

Á 74. mínútu gerðist svo umdeildasta atvik leiksins. Þá sótti Luis García upp hægri vænginn og barðist við bakvörð Sunderland, Julio Arca um knöttinn. García virtist ætla að hafa betur þegar Arca togaði í hann, línuvörðurinn flaggaði og dómarinn flautaði á aukaspyrnuna. Í sömu andrá kom hinn ungi Welsh aðvífandi og stökk inní García og virtist sparka örlítið til hans. Línuvörðurinn kallaði dómarann til sín og eftir smá samtal rak dómarinn Welsh útaf með beint rautt, öllum til furðu.

Í fyrstu hélt ég að dómarinn hefði verið að reka hann útaf fyrir að hafa stokkið inní García eftir að flautan gall, eða jafnvel fyrir að hafa sparkað örlítið til hans, en mér fannst þó frekar tæpt að önnur hvor af þeim sökum gæfi tilefni til að reka manninn útaf. Gult spjald hefði verið sanngjarnara. En svo, nokkrum mínútum eftir atvikið, fengum við betri mynd af því sem gerðist. Um leið og flautan gellur og Welsh er búinn að hoppa inní og fella García snýr Welsh sér að línuverðinum og lætur hin ódauðlegu orð falla: “FUCK OFF!”

Það var búið að tala um það fyrir þetta tímabil að dómarar ætluðu að taka hart á munnsöfnuði á vellinum og svo virðist sem Welsh hafi verið fyrsta fórnarlambið. Sjálfum finnst mér þetta fáránleg regla, Bretar segja “fuck off!” á vellinum svo oft að það verður nær ómögulegt að venja þá af því, en hún verður samt að standa og ef það er rétt sem mér sýndist að Welsh hafi látið þessi orð falla þá er þar með komin skýring á því hvers vegna hann fékk rautt.

Ekki það að brottreksturinn hefði nein áhrif á leikinn, síðasta hálftíma leiksins var eins og einhver lognmolla ríkti yfir vellinum. Hvorugt liðið virtist hafa áhuga á, né geta, sótt af einhverri ákefð. Þessi leikur minnti mig eiginlega meira á vináttuleik á miðju sumri heldur en deildarleik þar sem 3 stig voru í húfi.

En allavega, á endanum gall lokaflautan og ég geri mig bara feginn með sigur, hreint mark og þrjú stig í sarpinn eftir þennan leik. Liverpool eiga eftir að leika miklu betur á Anfield í vetur, og vonandi ekki mikið verr, þannig að maður þakkar fyrir það jákvæða. Við erum með 4 stig eftir 2 leiki og markatöluna 1-0. Það gæti verið betra, en það gæti líka verið verra. Þannig að í dag skulum við brosa og fagna sigri. 🙂

MAÐUR LEIKSINS: Það stóð eiginlega enginn uppúr í dag að mér fannst, liðið var allt í hlutlausum gír. Ég var hrifinn af Morientes og Zenden í fyrri hálfleik en þeir hurfu gjörsamlega eftir hlé, á meðan Finnan var svona ferskastur í vörninni. Á miðjunni voru Sissoko, Gerrard og Alonso í sérflokki og það er bara gaman að sjá betur með hverjum leiknum sem líður hversu mikil gæðakaup Momo er að reynast.

En á endanum verður einhver að vera maður leiksins og í dag á bara einn maður það skilið: XABI ALONSO. Hann bar ekkert endilega af í leik liðsins en spilaði þó vel, barðist vel og átti mikilvægar tæklingar auk þess að stjórna spilinu eins og hann einn getur. Þá kom hann með þetta töfraaugnablik einmitt þegar við þurftum þess og skoraði sigurmarkið.

Næst, CSKA Sofia á Anfield á þriðjudag og þar verða örugglega einhverjir lykilmenn hvíldir. Svo um næstu helgi mætum við CSKA Moskva í Mónakó þar sem barist verður um titilinn Meistarar Meistaranna í Evrópu 2005. Síðast þegar við mættum í þann leik tókum við Bayern Munchen í bakaríið, en það var fyrir 4 árum síðan. Vonandi verður það sama uppi á teningnum eftir viku. 🙂

12 Comments

 1. Get nú ekki tekið undir að þetta hafi verið frábært mark hjá spánverjanum. Kelvin Davis átti að verja þetta, enda markmannshornið… í rating á SkySports hjá honum stendur síðan einmitt: Will be disappointed at the goal.

  Annars fannst mér nú hættulegasta færi Sunderland manna þegar einn sóknarmanna þeirra var kominn nánast upp að marki liverpool, en ákvað að gefa boltann inn að markinu, þar sem að Steve Finnan hreinsaði, í staðinn fyrir að láta vaða á markið.

 2. Gott að vinna þennan leik og fá 3 stig. En andskotinn hafi það… við getum gert betur en þetta….

  Nýliðar á Anfield og þeir standa í hárinu á okkur, það er ekki næginlega gott en samt gott að skora og vinna leikinn.

  Cisse nýtti færin illa, Moro nýtti skalla færið illa, Gerrard virkaði áhugalaus og pirraður, Hyypia búinn að fara í 10 ljósa tíma og lita hárið! 🙂 æi maður vill bara sjá alla leikmennina gera betur því maður veit að þeir geta miklu meira…

  En þetta verður að byrja einhversstaðar og mikilvægasta var að vinna leikinn og 3 stig kominn í pokann!!!

 3. Flott comment um þetta.. flott síða :).. keep up the good work . Og já mér fannst þetta rugl að reka sunderland manninn af velli , átti það engan veginn skilið

 4. Ef hann sagði virkilega “Fuck Off” þá átti hann það skilið, jú. Það er búið að hamra þvílíkt á því að blótsyrði séu bönnuð síðustu vikurnar að hann getur bara sjálfum sér um kennt ef hann sagði þessi fleygu orð.

  Hvað mönnum finnst um regluna “Engin Blótsyrði” er síðan annað mál, en þetta er samt kunn regla og hann braut hana.

 5. þetta er svona svipað og þegar everton maðurinn cahill (minnir að það hafi verið hann…) skoraði sitt fyrsta mark í deildinni í fyrra og fagnaði með því að fara úr að ofan… hann var kominn með gullt spjald og varð fyrsta fórnarlamb gula spjaldsins fyrir að fagna með því að fara úr að ofan…
  full gróft að fjúka útaf fyrir, en það var búið að hamra á þessu…….

 6. sigur er sigur skiptir öllu máli.

  eitt til umhugsunar – líklega fær þessi síða heilmikið af heimsóknum – a.m.k. veit ég um marga sem líkar þessi umfjöllun mjög vel – en fuck off af hverju er ekki komin sér slóð á þetta – að vera undirflokkur á einhverju ego bulli í eoe – skil ekki – ekki virðingarvert fyrir klúbbinn

 7. Úff, þessi regla er rugl að mínu mati. Sjálfur spila ég fótbolta, og blóta dómaranum ef hann er að dæma eitthvað sem ég er ósáttur við. Veit ekki hvernig ég myndi bregðast við ef að ég fengi beint rautt fyrir það. 😡 :confused:

  En já, gott að taka 3 stig, hefði samt mátt vera meira sannfærandi.

 8. Mér finnst þetta hárrétt ákvörðun og einnig er ég ánægður með nú verður hart tekið á blótsyrðum. Mér fannst líka í endurtekningunni að Welsh hefði mátt fjúka útaf eða allavega fá gult spjald miðað við hvernig hann rauk í García. Sá ekki betur en olnbogaskot frá honum hitti ekki alveg og svo þetta spark. Algjört ásetningsbrot og gult amk sanngjarnt!

  Að mínu mati þá fannst mér þessi sigur bara flottur, auðvitað átti Cissé og fleiri að vera búnir að klára þetta fyrir löngu en við unnum þrátt fyrir að vera spila vel. Það einkennir góð lið og hópurinn okkar virkar miklu sterkari heldur en í fyrra.

  Mér finnst einhvern veginn meira jafnvægi í liðinu og Reina markmaður virkar svakalega traustur!

 9. Tek undir með Kristjáni varðandi leikinn.

  Við erum búnir að spila þó nokkra leiki saman og í forkeppni meistaradeildarinnar höfum við virkað betur heldur en í þessum tveimur deildarleikjum. Ég vil bara helst fá leikmannamál á hreint sem fyrst svo einbeitingin geti farið 100% í öll mótin sem eru eftir hjá okkur. Við höfum ekki fengið á okkur mark í deildinni og það er jákvætt, en við eigum (!! rík áhersla á það!!) að skora mun fleiri mörk. Ekki vil ég dæma deildina of mikið af þessum tveimur leikjum, en samt … með þessa sóknarmenn þá ætlast ég til meira af þeim. Ég tel enn að Michael Owen gæti virkað sem vítamínsprauta í sóknina, því þegar við byrjum að skora þá stoppum við ekki 🙂 !

  Varðandi reglur … þá finnst okkur örugglega margar af þeim virka strangar eða asnalegar í byrjun, en það er örugglega góð ástæða fyrir þessu. Ég tek heilshugar undir þessa reglu og þrátt fyrir að blóta mikið sjálfur, þá á þetta ekkert endilega að vera eðlilegur partur af leiknum. Þetta er skýr regla – skýrar afleiðingar. Klárt mál.

 10. Þetta var ekkert sérstakur leikur, en þetta dugði þó til að vinna. Chelsea, Arsenal og Man U hafa ekkert verið að leika vel, en hafa þó náð að vinna sína leiki.

  En það er þó áhyggjuefni hversu illa við nýtum færin. Þetta var mikið vandamál í fyrra, og ekki virðist það vera að batna núna. Cisse **átti** að skora þrennu í þessum leik og það er fullkomlega óásættanlegt að hann klúðri svona færum. Einsog ég hef áður sagt, þá lifir hann algjörlega á orðsporinu frá franska boltanum og hann hefur ekki gert neitt til að sannfæra mig um að hann sé nógu góður til að vera okkar aðalframherji. Einsog ég las í einhverri leikskýrslunni, þá hætta þessir Owen orðrómar ekki þegar að framherjarnir okkar spila svona.

  En það er líka alveg ljóst að þetta Sunderland lið var að spila fínan bolta í þessum leik og ég trúi því hreinlega ekki að þeir hafi spilað svona í fyrsta leiknum.

  >en fuck off af hverju er ekki komin sér slóð á þetta – að vera undirflokkur á einhverju ego bulli í eoe – skil ekki – ekki virðingarvert fyrir klúbbinn

  Fyrirgefðu, en hvað er vandamálið hjá þér, tantri? Við gerum þetta allt hérna ókeypis, án þess að fá eina einustu krónu fyrir. Það að skrá nýtt lén kostar aukalega 12.000 krónur og því ákváðum við að hafa þetta á minni síðu, enda legg ég nú þegar út talsverðan kostnað við að hýsa þessa síðu.

  Það er enginn að neyða þig til að heimsækja mína síðu og þessi síða hefur ekkert með hana að gera, fyrir utan það hún er hýst á sama stað. Ef það fer eitthvað í taugarnar á þér, eða ef þér finnst skrif mín á mína persónulegu síðu vera móðgun við Liverpool, þá leyfi ég mér einfaldlega að vera þér ósammála.

 11. Einnig, þá er ég sammála þér, Kristján um að Xabi hafi verið maður leiksins. En gaman líka að [Guardian völdu Sissoko sem mann leiksins](http://football.guardian.co.uk/Observer_Match_Report/0,3740,1553326,00.html)

  >Man of the match: Momo Sissoko – He did not dominate the game, but complemented Xabi Alonso in midfield and did everything simply, first time and well.The 20-year-old from Mali looks to have won over his home crowd already. His every touch was greeted with murmurs of approval. He covered the whole pitch and can only get better as he adapts to the Premiership.

 12. Kristján sagði:

  “Bretar segja ?fuck off!? á vellinum svo oft að það verður nær ómögulegt að venja þá af því”

  En ef að bretar alast upp við það að horfa á mennina sem þeir dýrka, uppáhalds knattspyrnugoðin sín, vera að segja “fuck off!” í sífellu þá á þetta aldrei eftir að breytast.

  Þið verðið að átta ykkur á að þetta eru ekki bara venjulegir strákar útí bæ að spila fótbolta með einhverju liði eins og við hérna heima. Þetta eru fyrirmyndir milljóna útum allan heim. Þá verða þeir að taka þeirri ábyrgð sem því starfinu fylgir, ekki bara að spila fótbolta, allt sem fylgir því að vera knattspyrnugoð.

  Þessi regla er náttúrlega ekki gerð til þess að láta fótboltakallana hætta að blóta, heldur krakkana sem eru að fylgjast með – og hvar er betra að byrja en á toppnum? 😉

  Ég var líka alveg viss strax og ég sá rauða spjaldið að hann hefði sagt eitthvað ljótt og þessvegna verið rekinn útaf – brotið verðskuldaði bara gult! 🙂

Byrjunarliðið komið!

Leikmannahópurinn í vetur – Kostir og gallar. (frh) – Æfingahópurinn, leikmenn í láni og aðrir starfsmenn!