Sunderland á morgun!

Þetta er Jason McAteer, og ég viðurkenni fúslega að hann kemur þessari færslu lítið við. Þegar ég var sjálfur í boltanum var McAteer einn baráttuglaðasti og mesti karakterinn í Liverpool-liðinu og hann var að vissu leyti einn af þeim leikmönnum sem mér var jafnan hlýjast til. Það var sárt að sjá mann sem blæddi Liverpool-rauðu blóði yfirgefa liðið og því fylgdist ég með honum á seinni árum ferilsins. Þar á meðal spilaði hann fyrir Sunderland í nokkur ár, og tjáði sig í pistli á .tv um leikinn á morgun sem fyrrverandi leikmaður beggja liða. Allavega, hann spáir Liverpool-sigri og nú hef ég loksins komið einni af mínum gömlu hetjum að á þessari Bloggsíðu. 😉

En hvað um það. Á morgun taka Evrópumeistarar Liverpool (rétt hjá þér Einar, þetta verður aldrei þreytt) á móti nýliðum Sunderland á Anfield í leik sem maður hreinlega getur ekki annað en verið bjartsýnn fyrir. Af hverju skyldum við Púllarar vera bjartsýnir? Ég skal útskýra það:

1. Við gerðum 0-0 jafntefli um síðasta leik í leik þar sem okkar menn gerðu nákvæmlega allt rétt nema að koma tuðrunni yfir helvítis marklínuna. Þegar Stevie Gerrard og félagar upplifa jafn pirrandi síðdegi og það sem þeir máttu þola sl. laugardag er yfirleitt aðeins eitt á dagskránni í næsta leik á eftir: markasúpa! Þannig að ég geri ráð fyrir að okkar menn verði með blóðbragð á tönnum á morgun og ætli sér að vinna STÓRT.

2. Sunderland töpuðu fyrir Charlton á heimavelli um síðustu helgi, 3-1, og sem nýliðar eru þeir eins nálægt því að vera “auðveld bráð” og hægt er að komast í þessari deild. Það þarf einfaldlega eitthvað mikið að gerast til að þeir sleppi með eitt eða fleiri stig á morgun.

3. Í þröngum, hvítum göngum á leiðinni út á völinn er lítillátlegt, rautt skilti sem á stendur: THIS IS ANFIELD – eftir ógleymanlega leiki á borð við Olympiakos, Chelsea og Arsenal heima í fyrra hefur þetta skilti nú aftur þá þýðingu sem það hafði áður fyrr.

Sem sagt, það þarf ekki snilling til að sjá hvernig ég spái á morgun. Ef við vinnum ekki heimaleiki gegn nýliðum getum við gleymt baráttunni um toppsætin tvö strax.

Þá er það spurning með byrjunarlið okkar manna – hvernig ætli Rafa stilli upp á morgun? Þrátt fyrir að hafa stillt upp 4-4-1-1 með Gerrard fyrir framan þá Momo og Xabi um síðustu helgi, og Morientes einan frammi, held ég að við sjáum hefðbundnari 4-4-2 leikaðferðina á morgun – og þá aðallega til að koma öðrum framherja að. Í heimaleikjunum er einfaldlega ekki eins mikil þörf á að vera með varnarsinnaðan múrbrjót eins og Sissoko eða Hamann fyrir aftan þá Alonso og Gerrard, þeir eiga að hafa yfirburði á morgun upp á eigin spýtur. Þannig að ég spái því að Rafa geri eina breytingu frá því um síðustu helgi – Sissoko, þrátt fyrir stórleik, setjist á tréverkið og Cissé komi hungraður inn í staðinn – og því muni liðið á morgun líta einhvern veginn svona út:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Gerrard – Alonso – Zenden

Morientes – Cissé

Þá hefur Rafa staðfest að þrátt fyrir að Lyon og Villa hafi boðið í Milan Baros verði hann í hópnum á morgun, þannig að ég geri ráð fyrir að allt verði lagt í sóknarþungann gegn Sunderland.

Sunderland-liðið verður sennilega svipað skipað og á sl. laugardag, þrátt fyrir að þeir hafi tapað gegn Charlton þá. Mick McCarthy, stjóri Sunderland, veit sem er að það er mikilvægara að róa sína menn og undirbúa þá fyrir hörð átök en að fara að hrista upp í byrjunarliðinu. Þó neyðist hann til að gera eina breytingu á liði Coca Cola Meistaranna frá því á síðasta tímabili (fáránlegur titill, þeir unnu 1. deildina, ekki einhvern Mjólkurbikar) þar sem fyrrverandi Liverpool-bakvörðurinn Stephen Wright meiddist á æfingu um daginn og getur því miður ekki verið með gegn sínum gömlu félögum. Það hefði verið gaman að sjá Wrighty snúa aftur. En allavega, Sunderland-sérfræðingar segja að líklegast komi hinn ungi Nyron Nosworthy inn í byrjunarliðið og byrji sinn fyrsta leik í Úrvalsdeild fyrir Sunderland. Byrjunarlið þeirra gæti því litið nokkurn veginn svona út:

Davis

Nosworthy – Green – Caldwell – Arca

Whitehead – Miller – Robinson – Lawrence

Gray – Stead

Liverpool-leikmaðurinn Anthony Le Tallec gekk nýverið til liðs við Sunderland á láni út þetta tímabil, en eins og reglur segja til um má hann ekki spila gegn lánsliði sínu og verður því ekki með á morgun.

Annars myndi ég telja hættulegustu menn Sunderland vera framherjana, þá Gray og Stead. Gray mun væntanlega liggja aðeins fyrir aftan, jafnvel aðeins úti vinstra megin í fimm-manna miðjupakka, með fyrrverandi Blackburn-manninn John Stead fremstan. Stead er ungur og sprækur, mjög markheppinn og einnig afbragðs góður skallamaður, þannig að þótt við séum hiklaust með betra liðið þá geta Sunderland-menn alveg hiklaust bitið frá sér.

MÍN SPÁ: Ég spái hröðum og flæðandi leik á morgun. Ég hef áhyggjur af því að Sunderland-menn fari þá leið að vera grófir og reyna að hindra flæðið í spili okkar manna með líkamlegri pressu en hef þó litlar áhyggjur af því, Alonso og Gerrard ættu alveg að geta haldið uppi ómengaðri umferðarstjórnun þrátt fyrir smá pressu. Ég held að Liverpool vinni stórt á morgun. Þessi leikur fer 4-0 fyrir Liverpool og Cissé skorar tvö, Morientes eitt og Milan Baros skorar eitt kveðjumark áður en hann yfirgefur klúbbinn eftir helgi. 🙂

Þetta verður allavega gaman, fyrsti heimaleikurinn í deildinni. Áfram Liverpool!!!

6 Comments

 1. Geri ráð fyrir að “RB” stilli Baros upp í byrjunarliðinu á morgun, til þess eins að hækka verðmiðann á honum, tilvalinn leikur til þess. BAROS BYRJAR OG SETUR 3 ! Öruggur 3 – 0 sigur.

 2. Ef við vinnum ekki heimaleiki gegn nýliðum getum við gleymt baráttunni um toppsætin tvö strax.

  Liverpool getur nú gleymt baráttunni um toppsætin tvö þótt þeir vinni þennan leik 6-0.

 3. Pétur, það er nú óþarfi að afskrifa möguleika Liverpool svona fyrir fram. Liverpool á alveg að geta gert góða atlögu að toppsætunum og hver veit nema 2.sætið verði niðurstaðan í vor.

  Ég spái 3-0 sigri; Gerrard, Móri og Cissé skorar mörkin. Við munum vaða í færum í þessum leik. 20 skot að marki, alveg lágmark.

 4. Þetta er “must win” leikur og ég er þess fullviss að við mætum afslappaðir og ákveðnir í þennan leik. Náum að skora snemma í leiknum (Moro eða Cisse) og smátt og smátt deyr baráttuandi Sunderland út.
  Setjum 2-3 mörk í viðbót í leiknum og meða markaskorar verða Gerrard og Garcia.

  Sannfærandi sigur og við erum á beinu brautinni!

 5. Ég ætla að stela tölunni frá Neikvæða-Pétri og segja 6-0! :biggrin2: Morientes og Cissé báðir með tvö, Gerrard eitt og García eitt! 😉

Rafa um Solano og Owen (uppfært)

Leikmannahópurinn í vetur – Kostir og gallar. (frh) – Sóknarmenn!