Tímabilið byrjar á morgun

Þá er biðin á enda. Sumarið búið fyrir okkur fótboltafíkla og fjörið að byrja. Það gæti ekki hugsanlega byrjað á verri stað, því Riverside í Middlesborough hefur verið einn erfiðasti útivöllur fyrir Liverpool. Liverpool hefur ekki unnið Boro á Riverside síðan árið 2002 þegar að Abel Xavier og Nicolas Anelka voru í liðinu.

Liverpool er náttúrulega búið að vera að spila fótbolta í nær allt sumar. Síðasta tímabil okkar endaði seinna og þetta tímabil byrjaði fyrr en hjá öðrum liðum og því ætti Liverpool að vera vel undirbúið fyrir þennan leik. Undirbúningstímabilið hefur verið mjög gott. Við höfum leikið 5 alvöru leiki og unnið þá alla, sem og alla æfingaleikina. Í fjórum af fimm leikjunum höfum við skorað 3 mörk. Djibril Cisse og Steven Gerrard hafa farið hamförum í markaskorun.

Bolo Zenden ætti að vera til í leikinn gegn sínum fyrrum félögum, en hann ferðaðist ekki til Búlgaríu vegna meiðsla. Hins vegar eru Dudek, Josemi, Crouch og Traore allir meiddir. Ég held að liðið gegn Boro verði nánast einsog liðið gegn Sofia með þeirri einu undantekningu að Zenden komi inn á kantinn og Riise færi sig í bakvörðinn á kostnað Warnock.

Þannig að þetta líti svona út:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

García – Gerrard – Alonso – Zenden

Morientes – Cisse

Eina hugsanlega breytingin, sem ég sé er að Rafa fari í 4-4-1 og hafi Sissoko með Gerrard og Alonso á miðjunni, á kostnað annaðhvort Nando eða Cisse. Hallast þó að fyrri tillögunni.


Boro lenti í sjöunda sæti í deildinni í fyrra, aðeins þrem stigum á eftir Liverpool. Til að byrja með þá fengum við þeirra besta leikmann (þrátt fyrir að Boro menn þræti núna fyrir að hann hafi ekki verið þeirra besti, þá kusu þeir sjálfir Zenden mann ársins í fyrra), Bolo Zenden ókeypis í sumar. Þrátt fyrir að staða liðanna í deildinni hafi verið svipuð, þá á Liverpool liðið að vera mun sterkara.

Stærstu kaup Boro í sumar voru kaupin á Yakubu frá Portsmouth, sem kom á 7,5 milljónir punda (sama upphæð og Villa eru ekki tilbúnir til að borga fyrir Milan Baros!). Yakubu lék vel fyrir Portsmouth á síðasta tímabili og var fjórði markahæsti maðurinn í deildinni (eða réttara sagt lenti hann í 4-7. sæti – jafn Lampard, Jimmy Floyd og Defoe). Þess vegna er sóknin hjá Boro orðin nokkuð sterk með Hassalbaink, Yakubu og Mark Viduka leikfæra.

Boro hefur hins vegar ekki spilað vel á undirbúningstímabilinu (hafa m.a. tapað fyrir Atletico Madrid, Espanyol og Sporting Lissabon), auk þess sem að Ugo Ehiogu hefur verið meiddur. Einnig eru uppi efasemdir hvort að Gaizka Mendieta leiki á morgun. Á góðum degi getur hann breytt ansi mörgu.


Liverpool lék **hörmulega** á útivelli í fyrra. Liðið hélt hreinu í **einum útileik** í deildinni, sem var 5-0 sigurinn gegn WBA og tapaði **11 sinnum** á útivelli. Þessi árangur er náttúrulega hreinasti brandari og alveg ljóst að það verður eitthvað að gerast. Við unnum aðeins 5 af 19 úteilkjunum í fyrra. Þeir fimm sigrar komu gegn Portsmouth, Norwich, WBA, Fulham og Charlton. EKKERT af þessum liðum endaði í einu af 10 efstu sætunum (Charlton var í 11.sæti).

Þetta verður að breytast. Og það eru fáir staðir betri til að breyta þessu en á Riverside. Þetta er staður þar sem við verðum að ná góðum úrslitum til að vera í baráttunni um titilinn í ár. Næsti leikur verður gegn Sunderland á Anfield og svo koma tveit leikir gegn Man U og Tottenham. Þannig að tímabilið byrjar ekki auðveldlega.

En við erum með betra lið en Boro og við eigum að vera miklu betur undirbúnir undir leikinn á morgun. Ég treysti því að við klárum þetta á morgun. Ég spái 0-2, með mörkum frá Garcia og Cisse. Hljómar það ekki ágætlega? 🙂

Leikurinn er kukkan 16.15 á morgun.

**Áfram Liverpool!**

2 Comments

  1. “Rafa fari í 4-4-1”

    Og spila þá bara 10 á móti 11.

    Nei ég veit að þetta voru bara mistök

    En annars ég spái leiknum 1-0 fyrir okkur. Gerrard skorar markið og rífur okkur áfram í það sem koma skal…!

Everton í Meistaradeildinni

M.O.