Maíkvöld í Istanbúl


Ég er með hausverk. Er alveg að drepast og var búinn að vera í frekar slöppu skapi í kvöld. Í stað þess að vorkenna sjálfum mér enn frekar, ákvað ég að horfa á *One Night in May*, heimildaþátt sem Sky One gerðu um kvöldið okkar í Istanbúl (það er hægt að nálgast [torrent af þættinum hér](http://www.torrentspy.com/search.asp?query=one+night+in+may&submit.x=0&submit.y=0)).

Þátturinn er algjört æði. Ég hef sjaldan upplifað jafn skrítnar tilfinningar við áhorf á sjónvarpsþátt. Ég brosti einsog fáviti, hló og táraðist til skiptis. Eftir þáttinn þá áttaði ég mig á því að sama hversu fúll maður er, sama hversu leiðinlegur fótboltinn er, sama hversu slæmar aðstæðurnar virðast vera, við Liverpool stuðningsmennmenn munum alltaf getað hugsað aftur til 25. maí í Istanbúl og byrjað að brosa á ný. Í hvert skipti sem Liverpool lendir undir á næsta tímabili munum við geta hlegið og sagt: “Þetta er ekkert miðað við Istanbúl”. Þegar við erum fúl eftir tapleik getum við bara skoðað myndir, eða skellt upptöku af leiknum í vídeó-tækið. Það er ekki hægt annað en að komast í gott skap við það.

Hversu margir brostu bara við að sjá myndina hér að ofan við komuna á Liverpool bloggið?


Eftir tvo daga byrjar nýtt tímabil í ensku deildinni. Þrátt fyrir að við höfum verið að spila leiki í mánuð, þá finnst mér núna einsog að fótboltasumrinu sé í raun að ljúka. Í allt sumar hafa minningarnar frá Meistaradeildinni á síðasta tímabili yljað manni. Ég man einsog það hafi gerst í gær þegar ég fagnaði með vinum mínum heima í stofu þegar að Gerrard skoraði gegn Olympiakos. Ég man að ég var á Players þegar Garcia skoraði gegn Juve. Ég man þegar ég þurfti að standa á Players á meðan ég horfði á Garcia skora á móti Chelsea.

Og ég man eftir [kvöldinu í Istanbúl](http://www.kop.is/gamalt/2005/06/04/21.34.16/).

Fyrir nokkrum vikum keypti ég mér DVD diskinn með mörkunum frá síðasta tímabili. Þegar ég horfi á þau mörk rifjast það ávallt upp fyrir mér hvað það er æðislega gaman að fylgjast með fótbolta. Þegar ég sá Gerrard markið gegn Olympiakos mundi ég hvað það var gaman að fagna með vinum mínum heima í stofu. Þegar ég sá Istanbúl leikinn rifjaðist það upp fyrir mér hversu yndislegt það var að vera þarna í Istanbúl á einum besta knattspyrnuleik sögunnar, meðal bestu aðdáenda í heimi.


Á laugardaginn byrjar nýtt tímabil, en við vitum auðvitað öll að við munum **aldrei** á meðan við lifum gleyma síðasta tímabili. Enginn okkar mun gleyma markvörslunni hans Dudek, eða markinu hans Smicer. Enginn mun gleyma svipnum á Gerrard þegar hann lyfti bikarnum. Við munum segja börnunum okkar frá þessu og við munum **aldrei nokkurn tímann** þreytast á að rifja upp mörkin og endurkomuna í Istanbúl. Löngu eftir að allir verða þreyttir á sögunum okkar, þá munum við halda áfram. 🙂

Við skulum vona að nýja tímabilið verði frábært fyrir uppáhaldsliðið okkar. Það er vonandi að andi Istanbúl geti fleytt okkur nær enska Meistaratitlinum.

**Áfram Liverpool!**

7 Comments

 1. Vá ég táraðist við að lesa þetta, ótrulega góð tilfinning að vera Liverpool stuðningsmaður.

 2. Skemmtileg lesning.

  En varðandi myndina. Ég skil ekki hvernig það sé nokkur leið fyrir Carra að detta ekki miðað við hvernig hann er á þessari mynd. :biggrin:

 3. Ég horfði einmitt á þennan þátt í síðustu viku og hann er hrein snilld. Hann lýsir svo vel þessum tilfinninga-rollercoaster sem leikurinn var.

  Mæli með því að allir púllarar nái sér í þennan þátt og horfi á.

 4. Geggjaður þáttur og rifjar upp hvað það var geggjað að vera þarna í Istanbul þann 25.05.2005.
  Er sammála að allir sem geta sjái þennan þátt.

  Kv.
  Sjúrður

 5. Glæsilegur pistill og svona viðeigandi degi fyrir fyrsta leik okkar manna í deildinni. Áfram Liverpool í vetur. Benitez, aðeins þú getur gert hið ótrúlega, gert okkur að meisturum, Englandsmeisturum.

 6. > Ég skil ekki hvernig það sé nokkur leið fyrir Carra að detta ekki miðað við hvernig hann er á þessari mynd.

  Nákvæmlega, ég væri alveg til í að sjá hvað gerðist svona sekúndu eftir að þessi mynd var tekin. Mesta furða að Carra hafi ekki ökklabrotnað í öllum fagnaðarlátunum. 🙂

 7. Frábær þáttur og kærar þakkir fyrir að benda á torrent skrána af þessum þætti. Gæsahúð allan tíman sem ég horfði á hann. :biggrin:

Fjórir leikmenn í spænska landsliðinu o.fl.

Zenden lofar okkur góðum leik í vetur.