Miðlungslið keppast um Baros

alt_lfc_baros_knee_150x200.jpgMilan Baros er hálfviti. Ég held að við getum nokkurn veginn staðfest það. Síðasta sumar eftir að hann varða markakóngur EM var hann í skýjunum. Ef eitthvað var, þá fannst honum Liverpool vera full lítill klúbbur fyrir sig.

Þess vegna byrjaði hann að tala um að draumur sinn [væri að spila fyrir Barcelona](http://www.kop.is/gamalt/2004/08/06/00.34.19/). Það má segja að þar hafi vandræði hans byrjað. Þetta hélt svo áfram allt tímabilið. Honum gekk illa, en ef hann var settur útúr liðinu, þá kvartaði hann yfir því. Hann er jú markakóngur EM og hlýtur því að eiga að vera númer eitt, án þess að þurfa að berjast fyrir því.

Jæja, núna virðist ósk hans vera að rætast, hann er að fara frá Liverpool. Hann hefur greinilega farið nógu mikið í taugarnar á Rafa Benitez til að gera það að verkum að Rafa gafst uppá honum og vill núna losna við hann.

Og hvaða lið standa honum þá til boða? Lið, sem eru stærri og betri en Liverpool? Neibbs. Lið einsog Barcelona? Neibbs.

Það sem honum stendur [til boða núna samkvæmt Sky Sports eru West Ham, Monaco, Aston Villa og Everton](http://skysports.planetfootball.com/list.asp?hlid=296982&cpid=24&CLID=11&lid=&title=Monaco+fear+Villa+bid&channel=football_home). Til hamingju, Milan. Heimska þín mun gera það að verkum að þú munt leika með miðlungsliði á þessu tímabili. Ef þú hefðir bara haldið kjafti og unnið vinnuna þína, þá værir þú án nokkurs vafa framherji númer 1 hjá Evrópumeisturum Liverpool.

Þetta fer svo í taugarnar hjá mér að það er að gera mig bilaðan. Uppáhaldsleikmaðurinn minn hjá Liverpool er að fara til einhvers prumpliðs bara af því að hann var svo heimskur að halda að hann væri stærri en klúbburinn. Eftir sitjum við svo með þrjá framherja, sem ég hef ekkert sérstaklega mikið álit á (þeir þurfa allavegana allir að sanna sig í mínum augum).

Það sem er pirrandi við þetta er að þetta er svo mikill óþarfi. Ef Milan hefði bara unnið sína vinnu, þá hefði þetta ekki þurft að enda svona.

11 Comments

 1. Sælir félagar!
  Ég er að mestu sammála þessu en verð þó að segja að framherjar okkar eru allra góðra gjalda verðir þó Gúmmí-Tékkinn hafi reynst innistæðulítill.
  Cisse er afburðaknattspyrnumaður og það er að- og mun koma í ljós á komandi leiktíð.
  Morientes er löngu búinn að sanna sig bæði í spænska – og Evrópuboltanum.
  Peter Crouch er vonarpeningur semhefur staðið sig vel í æfingaleikjum og undankeppninni en er meiddur eins og er og getur það sett strik í reikninginn.
  Það er því óþarfi að hnýta í þessa kalla enn sem komið er.
  Það er hinsvegar ljóst að Baros er og á að fara enda móralskt mjög veikur liðsmaður en hefur þó ótvíræða hæfileika ef hausinn er í lagi.
  Pongolle er ekki til stórræða á næstunni og Mellor er bara miðlungsleikmaðue á góðum degi.
  Það er því ljóst að Heilagur Mikkjáll á að koma heim og svo þarf Sir Rafa að fara að drífa í að kaupa “backup” fyrir Carrager og Hyypia og svo hægri kantmann sem verður að vera leikmaður á heimsmælikvarða. Ef þetta gegur eftir erum við í góðum málum hvað allar stöður á vellinum varðar og munum valda öðrum toppliðum verulegum vandræðum í vetur

 2. Algjörlega sammála Einari hér. Ég var hrifinn af Milan og hann olli mér vonbrigðum með sínu attitjúdi síðasta tímabil. Ég samhryggist Milan-aðdáendum mikið, því þetta er sannarlega heimska ef hann ætlar að fara til liðs eins og Everton eða Aston Villa.

  Spurningin hvort hann geri 1 árs eða 2 ára samning með þeim möguleika að ef hann standi sig á HM þá sé liðum frjálst að bjóða í hann… en, myndi það breyta einhverju fyrir okkur Liverpool-aðdáendur? – Nei, ég held ekki.

 3. Hvernig er það er ekkert að frétta af þessum tveimur leikmönnum sem Rafa ætlaði að bæta við fyrir helgi? Eða hefur þetta Owen mál sett allt á annann endann og hann hefur þurft að endurskoða það hvar hann getur sett peninginn og er það ekki alveg pottþétt að Baros og Dúddi eru á leið út, svona í framhjáhlaupi með Dúdda, hver verður 3. markvörður hjá okkur í vetur, veit það einhver? Það vantar alveg pottþétt eitt stórt nafn í miðvörðinn og þá verð ég persónulega nokkuð sáttur, og svo vil ég fá eitt stykki meiðslafríann vetur, við eigum það sko inni 😉

 4. Einar, ég gæti ekki verið meira sammála þér með Baros. Hann er búinn að mála sig út í horn hjá LFC vegna heimsku sinnar, eins ömurlegt og það er.

  Hins vegar er ég ekki alveg jafn svartsýnn á framherjakostina okkar eins og þú. Ég myndi orða það svona:

  Djibril Cissé verður brilljant í vetur! Ég einfaldlega efast ekki um það! Hann missti úr 6 mánuði í fyrra en skoraði samt 5 mörk það tímabil – tvennan hans gegn Villa í maí, þegar hann var í sama og engu leikformi, ætti að sýna okkur hvað hann getur gegn enskum vörnum. Þá er hann þegar kominn með þrjú alvöru mörk í ár og ágúst rétt hafinn, það er ljóst að við erum með a.m.k. einn framherja sem við getum treyst á að skori mörk.

  Morientes – hann er ekki farinn að sýna enn það sem við ætlumst til af honum, en ef maður getur leyft sér að anda rólega í nokkrar vikur í viðbót fyrir einhvern þá er það Fernando. Ferill hans er einfaldlega það stórkostlegur að mér finnst vitleysa að búast við því að hann verði ömurlegur. Hann hefur þegar skorað 3 mörk á undirbúningstímabilinu og verið almennt að spila vel, þannig að ég hef engar áhyggjur.

  Peter Crouch er mesta spurningarmerkið hingað til en það sem ég hef séð til hans í þeim þremur leikjum sem hann hefur spilað hingað til bendir til þess að þar séu mjög góð kaup á ferðinni.

  Neil Mellor er ekki heimsklassaframherji, ég held að það séu allir sammála um það. En engu að síður skorar hann mörk, og sem slíkur er hann frábær varaskeifa.

  Florent Sinama-Pongolle. Ég hlakka til að fá hann inn í liðið.

  Þannig að ég neita að örvænta… 🙂

 5. Ekki er ég viss um að Milan sé búinn að sanna sig eitthvað frekar en aðrir, hann fékki sín tækifæri og var ekki að nýta þau neitt sérstaklega en hef ég mun meiri trú á að Cisse og Moro eigi eftir að gera það, með smá fyrirvara með seinni manninn. En ég hef sama sem enga trú á Slánanum en ég vona að mér skjátlist.

 6. Monaco er nú ekki miðlungsklúbbur, og ekki gleyma því að Everton var ofar en Liverpool í deildinni í fyrra 🙂

  Annars hef ég persónulega meira álit á Neil Mellor heldur en Peter Crouch. Peter Crouch hefði ekki getað skorað þetta mark á móti Arsenal þótt að lífið lægi undir.

 7. Annars langar mig að benda á það, að ástæðan fyrir því að það eru ekki stærri klúbbar að berjast um hann, er væntanlega sú að hann er ekkert það sérstakur. Maðurinn spilaði 26 leiki í deild í fyrra og skoraði 9 mörk. Eitt af þessu var nú þrenna (sem var jú fín hjá honum)… en það þýðir að hann skoraði ekki í nema 7 leikjum af þessum 26… það kalla ég markaþurrð.

  M.a.s. Fowler og Heskey skoruðu fleiri mörk í fyrra, og það hjá lélegri liðum… og Diouf skoraði svo 9 mörk rétt eins og Baros.

 8. Já, ég veit að Monaco er ekki miðlungsklúbbur. En Monaco er svo sannarlega ekki nálægt því jafn stórt lið og Liverpool. Fyrirsögnin virkaði bara betur svona. 🙂

  Og Everton er ekkert nema miðlungsklúbbur, sem átti eitt gott ár. Alveg einsog Ipswich eða önnur lið. Eitt gott ár eftir 10 léleg gerir klúbb ekki stóran.

  Annars, þá deili ég ekki áliti þínu á Neil Mellor. Hann er ekki nógu góður til að spila reglulega.

  Og Kristján, ég er alveg sammála þér um það þetta eru allt góðir leikmenn. En það breytir því samt ekki að *allir* eiga þeir eftir að sanna sig almennilega *fyrir Liverpool.*

 9. Sælir
  Ég vil þakka fyrir góða síðu en tilefni þessara skrifa minna er að ég tel umræðuna um Baros ekki vera sanngjarna.
  Það fer ekki vel í mig þegar aðalinntak greinarskrifa er gáfnafar leikmanna, því ég efast um að pistlahöfunar hafi einhverjar upplýsingar um það.
  Baros hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér sem leikmaður og sem meira er að ég tel hann vera einn af betri framlínumönnum í allavega Evrópu í dag. Því er það mér óskiljanlegt að hugmyndir eru upp hjá Liverpool að láta hann fara.
  Hvað varðar Liverpool og þá sentera sem fjallað hefur verið um í þessum pistlum, þá er Baros með bestu tölfræðina af þeim á síðasta tímabili og við það er hægt að bæta að hann er með frábæra tölfræði hjá einu besta landsliði í heiminum í dag tékkneska landsliðinu. Það er meira en hægt er að segja um aðra leikmenn sem hafa og eru bornir saman við hann.
  Ég gæti skrifað langt mál um þessar hræringar í leikmannamálum Liverpool en læt þetta duga.
  Með kveðju,
  A.Ólafsson

 10. A. Ólafsson, það má vel vera að ég skuli ekki þekkja gáfnafar leikmanna, en maður gerir sér oft hugmyndir um gáfnafar út frá hegðun þeirra.

  Ástæðan fyrir því að Baros er á leiðinni burt er að mínu mati einungis hans hegðan. Hann hefur verið að kvarta stöðugt og þegar hann var orðaður við Barca þá stökk hann strax til og sagði hversu mikið honum langaði að spila fyrir það lið. Sama hefur verið með öll önnur lið.

  Í stað þess að segja: “Ég er hjá Liverpool og hef ekki áhuga á slúðri”, þá hefur svarið frá Baros alltaf verið: “Já, ég er vel til í að fara til liðs X, en ég get svosem alveg líka hugsað mér að vera áfram hjá Liverpool”. Það er einfaldlega ekki nógu gott. Og ef við bætum svo við vælinu hans í fjölmiðlum um að honum hafi verið skipt of oft útaf og svo framvegis.

  Baros er vitlaus af því að hann hélt að þetta röfl sitt myndi leiða til þess að stærstu lið Evrópu myndu koma og bjóða í hann. En lið einsog Barca sjá einfaldlega leikmann, sem röflar stöðugt og leikur ekkert sérstaklega vel og því hafa þau ekki áhuga á honum.

  Ef þú hefur lesið þessa síðu lengi, þá ættirðu að átta þig á því að við Kristján höfum varið Baros með kjafti og klóm og við erum með stærstu aðdáendum hans (og þá sennilega sérstaklega ég). Þess vegna finnst mér leiðinlegt að skrifa svona hluti, en atburðir og hegðan Baros gefur einfaldlega ekki annað í skyn.

Figo og Owen

Gonzalez neitað um atvinnuleyfi!