Liverpool 4 – Olympiakos 3

baros_bi.jpg Jæja, ég var einn af svona átta Púllurum eða svo sem að fóru ekki úr bænum um helgina, og sem slíkur uppfyllti ég skyldu mína og skellti mér á Players til að horfa á okkar menn sigra Olympiakos 4-3 í vináttuleik í Liechtenstein í kvöld. Þetta var kannski svipaður leikur og Wrexham-leikurinn fyrir tveimur vikum – sem vannst líka 4-3 – að því leitinu til að hann leit ekkert endilega út fyrir að ætla að verða einhver skemmtun framan af. Enda átti ég ekki von á neinum eldi og brennisteinum, ég viðurkenni fúslega að það eina sem knúði mig til að kíkja á Players í góðviðrinu var forvitni: mig langaði til að sjá Peter Crouch spila í rauðri treyju.

Ég sá Peter Crouch spila, og Cissé, Baros og Morientes. En ég kem að því síðar. Fyrst, leikurinn sjálfur. Liðið sem hóf leikinn leit svona út:

Carson

Josemi – Medjani – Hyypiä – Riise

Potter – Gerrard – Hamann – García

Cissé – Crouch

Fyrstu fimmtán mínútur þessa leiks voru hundleiðinlegar, svo ekki sé meira sagt, og það var fátt um fína drætti. Það litla skemmtilega sem gerðist fór allt í gegnum brasilíska ellismellinn Rivaldo, sem sýndi gamalkunna takta í dag og gladdi augað með flottum töktum og góðum sendingum. Olympiakos-liðið var betra framan af og það var ljóst að Liverpool-liðið átti mjög erfitt með að ná að senda 3-4 sendingar innan liðsins án þess að missa boltann.

Þá var skrýtið að sjá vörnina í dag. Hyypiä og Medjani voru mjög flatir og virtust engan veginn ná saman í miðjunni, enda ekki vanir að spila saman, á meðan þeir Josemi og Riise voru báðir sérstaklega daprir. Í þau fáu skipti sem þeir sóttu upp misstu þeir boltann og skildu eftir svæði fyrir aftan sig, sem Rivaldo var duglegur að nýta. Olympiakos hefðu getað verið komnir í 2-0 eftir hálftíma ef dómarinn hefði ekki dæmt eina kolranga rangstöðu á þá og ef þeir hefðu nýtt færin sín.

Á miðjunni var Darren Potter einna sprækastur og var duglegur að finna þá Cissé og Crouch í sókninni, á meðan hinir þrír fræknari miðjumenn okkar – þeir García, Gerrard og Hamann – voru frekar daprir. Frammi voru svo tveir bestu menn okkar í fyrri hálfleik, þeir Cissé og Peter Crouch. Cissé vann mjög vel og var út um allt – þótt hann hafi ekki átt mörg færi í dag var hann duglegur að skapa fyrir bæði Crouch og einnig eitt eða tvö góð fyrir García. Crouch var duglegur að vinna til baka og tengja við miðjuspilið, sérstaklega fannst mér flott að sjá hann eiga einn skalla eftir útspark sem fór beint upp í laust svæði á hægri kantinum fyrir Potter. Crouch virtist einfaldlega smella í spil liðsins í dag og ef leikmennirnir í kringum hann hefðu spilað eins og þeir eru vanir hefðum við eflaust skorað fleiri en eitt mark í fyrri hálfleik.

Það var á 32. mínútu að Crouch fékk boltann á miðjum vellinum. Hann lék á einn Olympiakos-mann, tók svo flott skæri til að fara framhjá öðrum og brunaði framhjá þeim þriðja. Þá var hann kominn inn í teiginn og lenti í baráttu við varnarmann um boltann – þeir kröfluðu báðir í hann og að lokum rann boltinn út í miðjan teiginn, þar sem Luis García kom aðvífandi og skaut honum í markið. 1-0 fyrir okkur og Peter Crouch var arkitektinn! 🙂

En Adam var ekki lengi í paradís. Á 40. mínútu áttu Olympiakos góða sókn upp vinstri vænginn og inn á vítateig okkar, þaðan sem einn þeirra gaf boltann út í teiginn þar sem Rivaldo stóð einn og óvaldaður og skoraði auðveldlega framhjá Carson. 1-1 í hálfleik og vörnin og miðjan sváfu á verðinum í jöfnunarmarkinu.

Rafa gerði svo sjö breytingar í seinni hálfleik, en liðið sem endaði hálfleikinn leit svona út:

Carson

Medjani – Carragher – Whitbread – Warnock

Le Tallec – Sissoko – Alonso – Zenden

Baros – Morientes

Medjani lék allan leikinn þar sem Steve Finnan er eitthvað veikur í dag. En allavega, seinni hálfleikurinn var varla hafinn þegar við vorum komnir í 4-1. Mér finnst við hæfi að vitna í fyrstu línur leikskýrslunnar á .tv:

>If Peter Crouch’s arrival on Merseyside was supposed to spell the end of the Anfield dream for Milan Baros, someone must have forgotten to tell the Czech international.

Jamm. Á 48. mínútu lék Potter boltanum innfyrir hægra megin og Baros slapp í gegn. Hann lék á markvörð Olympiakos, lék inn í teiginn og svo – öllum að óvörum – gaf hann boltann út á Morientes sem var í betra færi á vítateignum. Já, Baros gaf boltann þrátt fyrir að enginn væri í markinu! Morientes skoraði með hnitmiðuðu skoti og staðan orðin 2-1.

Tveimur mínútum síðar var staðan orðin 3-1. Zenden og Warnock léku vel saman upp vinstri vænginn og Warnock gaf góðan bolta fyrir á nærstöng. Þar var Milan Baros mættur og beygði sig niður og skallaði boltann í hliðarnetið nær, óverjandi. Olympiakos voru varla búnir að átta sig þegar Alonso eða Josemi (sá ekki hvor) sendi boltann innfyrir og Baros náði honum á undan markverðinum, sem kom út á móti. Baros lék á hann og alla leið inn í teig, þar sem hann renndi sér á boltann og náði að setja hann í netið áður en varnarmaður sem kom aðvífandi gat nokkuð að gert.

4-1 og á 10 mínútum hafði Baros skorað tvö og gert eina stoðsendingu. Í fyrri hálfleik var myndavélinni nokkrum sinnum beint að varamannabekk okkar manna og þar var ekki annað að sjá en að Morientes og Baros væru hlæjandi og hefðu það gott saman, en þeir sátu hlið við hlið. Í seinni hálfleik sá maður svo Baros spila mjög óeigingjarnan leik, vinna vel og finna samherja sína í svæði betur en ég hef lengi séð hann gera. Þá virtist hann njóta sín inni á vellinum, auk þess að vera í banastuði.

Olympiakos-menn fengu síðan vítaspyrnu er Whitbread braut á sóknarmanni þeirra og Djordjevic skoraði. Hann komst síðan innfyrir stuttu síðar og skoraði aftur, en það var ekki nóg því við unnum 4-3. Jæja, snúum okkur að því sem skiptir máli:


MILAN BAROS … á hann að fara eða ekki? Auðvitað veit maður ekkert hvað Rafa er að hugsa, en ég get ekki ímyndað mér annað en að hann hafi tekið tryggðaryfirlýsingar Baros undanfarið og frammistöðu hans á undirbúningstímabilinu til greina. Baros er núna kominn með 5 mörk og 3 stoðsendingar í 3 æfingaleikjum, sem er betri tölfræði en allir – utan Gerrard – hinir geta státað af. Morientes og Cissé eru komnir með 3 mörk hver og nú García 1, en af framherjunum virðist Baros bara vera í langbesta forminu og að spila besta fótboltann.

Ef við það bætist að hann virðist loks vera að læra að hann þarf að hugsa um liðið fyrst og fremst ef hann ætlar að vera Liverpool-leikmaður, þá finnst mér vera full ástæða til að íhuga það hvort að hann eigi ekki að fá að spila áfram hér, þar sem hann vill vera? Lesendur þessarar síðu vita vel að við Einar Örn erum miklir Baros-aðdáendur, og því ætti þessi skoðun mín ekkert að koma á óvart, en ég er hægt og bítandi aftur að snúast Baros í vil eftir að hafa afskrifað hann í vor. Eins og hann er að spila núna – og skora – finnst mér einfaldlega algjör óþarfi að selja Baros eins og staðan er í dag.

Í alvöru – hvernig getur Morientes, Cissé, Crouch, Le Tallec verið betri framherjahópur en Morientes, Cissé, Crouch, Baros, Le Tallec??? Ég bara fatta það ekki. Ég taldi þörf á að selja hann þar sem hann gæti ekki unnið með öðrum framherjum né fyrir liðið, en eins og hann er að spila á undirbúningstímabilinu er ég kominn á þá skoðun að honum sé viðbjargandi – hann virðist vera að læra það sem við vorum farin að halda að hann gæti aldrei lært: liðsvinna!

Þannig að þótt Rivaldo hafi fengið mann til að brosa í fyrri hálfleiknum og Crouch hafi staðið sig mjög vel í þessari frumraun þá er Milan Baros hiklaust minn maður leiksins. Eins og segir á .tv – hafi dagurinn í dag átt að snúast um komu hins stóra Crouch þá gleymdi greinilega einhver að segja Milan Baros frá því! 🙂

AÐ LOKUM… ekki hélduð þið að ég myndi enda þessa leikskýrslu án þess að sýna ykkur hvað allir hafa beðið eftir? Dömur mínar og herrar … má ég kynna … PETER CROUCH, Í LIVERPOOL-TREYJU:

crouch_garcia_hug.jpg

crouch_solo.jpg

crouch_solo_2.jpg

Hehe … myndin af Crouch og Luis García er ekkert annað en yndisleg! 😀 😀 😀

Næst er það FC Kaunas á þriðjudaginn í Meistaradeildinni. Baros verður væntanlega ekki notaður í þeim leik, því miður, og því verður spennandi að sjá hverja af Crouch, Morientes og Cissé Rafa velur til að byrja þann leik.

12 Comments

 1. var að horfa á markið sem hann lagði upp fyrir Garcia…og þvílíka spóaleggi hef ég ekki séð 😯

  Annars líst mér fínt á kallinn, og Baros ætti að einbeita sér meira að fótboltanum og minna að fjölmiðlunum og þá er ég sáttur með kappann.

 2. Þetta er alveg frábært…. 🙂

  Ég get ekki beðið eftir fyrsta leik í deildinni 13. ágúst. Sem betur fer er nóg af leikjum framundann í CL……. :biggrin:

  Ooooooooo hvað ég hlakka til þegur það verður dregið í þriðju umferðina. Það væri nú alveg klassi að fá Everton……. :rolleyes:

  En fyrst er það Kaunas frá Litháen…. Ég ætla nú rétt að vona að við vinnum þær viðureignir.

  Takk fyrir síðuna strákar. Vonandi finnið þið þriðja pennann. Þetta er ein af mínum uppáhaldssíðum á netinu… 🙂

 3. Bjarki, þetta var eitthversstaðar í hræðilegum gæðum, kemur á betri gæðum á morgun

 4. Nokkuð augljós ástæða fyrir því að Baros gaf boltan, þetta er æfingaleikur. 😡 :biggrin:

 5. Baros verður að vera áfram ef að hann ætlar að fara að gefa boltan líka, og líta upp annað slagið þá verður þessi leikmaður illviðráðanlegur. :biggrin2:

 6. Ég elska Baros 🙂
  En damn hvað þessi Crouch er HUGE! Bara flottur

 7. Líst vel á strákinn, virðist hafa bullandi sjálfstraust. Sem betur fer er hann mjór annars væri hann örugglega 150kg ef hann væri massaður og með þessa hæð.

Nýr Penni Óskast!

Figo áfram hjá Real Madrid