T.N.S. á morgun – seinni leikur!

lfc_al.jpg

Okkar menn halda yfir á Racecourse Ground á morgun til að spila seinni leikinn við T.N.S. frá Wales. Í ljósi þess að við unnum fyrri leikinn 3-0, þekkjum vel til á Racecourse Ground og Rafa valdi sterkan hóp fyrir morgundaginn held ég að við eigum bara að búast við meira af því sama: öruggur 3-0 sigur eða eitthvað þvílíkt.

Líklegt byrjunarlið:

Reina

Josemi – Carragher – Whitbread – Riise

García – Alonso – Gerrard – Zenden

Morientes – Cissé

MARK: Reina spilaði ekkert gegn Leverkusen á laugardag og verður því pottþétt í liðinu á morgun. Ég hefði samt ekkert á móti því að fá að sjá Carson spreyta sig, þar sem hann hefur enn ekkert fengið að spila á þessu undirbúningstímabili.

VÖRN: Steve Finnan hefur byrjað alla þrjá leiki okkar í hægri bak og hlýtur því að hvíla einhvern leik fljótlega, á meðan Whitbread hefur komið sterkur inn og gæti fengið flottan séns á morgun. Warnock meiddist lítillega á laugardag og Traoré er víst enn ekki orðinn match-fit, þannig að Riise kóverar væntanlega bakvörðinn. Carragher spilar, annars heimsækja vinir hans Rafa að næturlagi… 😉

MIÐJA: García hvíldi alveg vegna smá hnjasks í fyrri leiknum gegn T.N.S. og hann og Zenden spiluðu bara einn hálfleik gegn Leverkusen. Byrja báðir pottþétt, held ég. Þá held ég að Rafa noti sem flest tækifæri á undirbúningstímabilinu til að leyfa Alonso og Gerrard að samstilla strengi sína.

SÓKN: Tony Le Tallec er núna búinn að byrja tvo af þremur fyrstu leikjum Liverpool í framlínunni, þannig að það fer að koma tími á hann að hvíla aftur. Langar líka að sjá hvernig Cissé og Morientes stilla sig saman, fái þeir nokkra leiki til að venjast hvor öðrum.

Baros og Dudek eru að sjálfsögðu ekki með, sem hlýtur að þýða að þeir eigi sér enga framtíð hjá Liverpool eftir 1. september 2005.

MÍN SPÁ: Ég var í raun búinn að segja það áðan, en ég held að við vinnum 4-0 á morgun. Morientes og Cissé skora báðir, og svei mér þá ef það er ekki kominn tími á að García setji eitt líka.

Býst fastlega við því að við getum farið að velta fyrir okkur næstu andstæðingum um þetta leytið annað kvöld. Það þarf talsvert mikið að gerast til að Liverpool detti úr keppni í Meistaradeildinni annað kvöld, og í raun er það algjörlega ómögulegt, þá sjaldan að maður þorir að koma með slíkar yfirlýsingar!

Að lokum minni ég á að þessi leikur, sem er víst ekki jafn spennandi fyrir Sýn og æfingaleikir Chelsea, er sýndur í beinni á öllum betri ölstofum landsins. Áfram Liverpool!

11 Comments

 1. Bíddu, hvað er málið? Eina ástæðan fyrir því að Sýn eru að selja áskriftir í þessum mánuði er útaf Liverpool í Meistaradeildinni. Þeir auglýstu það vel og ég tók það náttúrulega sem að BÁÐIR leikirnir yrðu sýndir. Skandall.

  En þá mætir maður víst bara á Players.

 2. Svona er þetta bara, Einar. Þeir kusu að endursýna frekar leik Fylkis og Þróttar frá því í gær, sunnudag, en að sýna Liverpool í beinni í Meistaradeildinni.

  Ef við bara hefðum Eið Smára í okkar liði… ég spái því að íslensku stöðvarnar fari bráðum að slást um að geta sýnt frá æfingum hjá Chelsea. Svona er þetta bara.

 3. Furðulegt liðið á SÝN svo hóflega sé að orði komist! Þeir auglýsa allan næsta mánuð sem Liverpool í evrópukeppninni og sýna svo einn leik með þeim. Ég er svo virkilega sáttur að SÝN hélt ekki enska boltanum!! 😡 Ekki horfi ég á Chelsea-leiki til að sjá Eið Smára neitt sérstaklega þótt alþjóð virðist vart halda vatni vegna drengsins.

 4. Alveg er ég 100% sammála þessu hjá þér, Matti. Þessi leikur er nákvæmlega það eina, sem ég hef horft á þessari blessuðu sjónvarpsstöð allan mánuðinn.

  Þetta er einsog að auglýsa leik og sýna svo aðeins fyrri hálfleikinn. Algjörlega fáránlegt.

 5. Byrjar leikurinn ekki pottþétt kl 18:45 að íslunskum tíma…? :rolleyes:

  Lélegt hjá Sýn finnst mér að geta ekki staðið við auglýsingar.

  Ég held að það sé möguleiki að benda samkeppnisstofnun á þetta.

  Það varðar við lög að ljúga visvítandi í auglýsingum sínum…!

 6. ég er alveg sammála þér Eiki, ekki horfi ég á Chelsea leiki til þess að sjá Eið Smára !!, ég skil heldur ekkert í fólki að halda með Chelsea bara því að hann er í liðinu..!!..en tókuðu eftir því að þegar Chelsea vann deildina þá var það forsíðugrein í mogganum, en þegar Liverpool urðu EVRÓPUMEISTARAR þá var valla myndir frá leiknum né einhver stór grein í blaðinu..!!, þetta er eitthvað duló ! =/

 7. málið er að síðan Eiður fór til Chelsea hafa orðið til Chelsea-aðdáendur á Íslandi. Síðan hefur það alltaf verið að íslenskir fjölmiðlamenn eru fastir með tunguna í rassinum á Eið SMára og Arnóri föður hans 😡

Milan og Dudek ekki með

Harry Kewell frá í 6 vikur í viðbót