Ha? Gæti Ian Rush spilað fyrir TNS?

rushiethen.jpg Skrýtnasta frétt ársins. Ekki spurning, og ef satt reynist þá gæti það orðið einhver skrýtnasti leikur í sögu Liverpool FC.

Um hvað er ég að tala? Jú, frétt á opinberu síðunni segir að Ian Rush GÆTI spilað með Total Network Solutions gegn Liverpool í forkeppni Meistaradeildarinnar!

Sagan er víst sú að framkvæmdarstjóri TNS og Rushie eru víst góðir vinir, og framkvæmdarstjórinn lét hafa eftir sér að hann ætlar að reyna að plata goðsögnina til að spila þennan leik. Það myndi hjálpa TNS að stórauka áhugann á þessum leikjum, sem myndi þýða meiri athygli og pening fyrir TNS. Einnig held ég að það hljóti að kitla bæði Rushie og alla Liverpool-stuðningsmenn að sjá þessa hetju stilla sér upp einu sinni enn á Anfield … þótt það sé gegn Liverpool.

rushienow.jpg Rushie er 43ja ára í dag, og það eru níu ár síðan hann lék síðast fyrir Liverpool (í úrslitaleik FA bikarsins á Wembley, þar sem Cantona vann okkur 1-0). Hann lék í einhver tvö-þrjú tímabil eftir það en hætti svo loks og hóf að snúa sér að þjálfun og slíkum málum. Í fyrra gekk hann til liðs við þjálfaralið Gérard Houllier hjá Liverpool í örvæntingarfullri tilraun til að kenna Emile Heskey að skora mörk á ný (í alvöru, ekkert djók) og svo tók hann við framkvæmdarstjórastarfinu hjá Chester City – liðinu sem hann hóf feril sinn sem leikmaður með. Það samstarf stóð þó stutt, hann sagði af sér á síðasta ári vegna ágreinings.

Nú, á vormánuðunum stóð meistari Jason McAteer fyrir góðgerðarleik fyrir fórnarlömb flóðbylgjunnar í Asíu á annan í jólum, og þar tók Rushie þátt ásamt mörgum öðrum stórstjörnum. Á meðan Kenny Dalglish var gamall og John Barnes þybbinn sást vel í þeim leik (sem menn geta sótt á eSeason á .tv-síðunni) að Rushie er enn í fantaformi og hafði greinilega litlu gleymt fyrir framan markið. Þannig að þótt hann sé 43ja ára gamall er ekkert svo langsótt að hann geti spilað a.m.k. 70 mínútur í leik, tvo leiki í viðbót.

Þetta væri náttúrulega aldrei spurning um að fá hann til að hjálpa TNS til að vinna Liverpool. Ég held að TNS-menn átti sig á því að þeir eiga lítinn sem engan séns gegn Evrópumeisturunum … þetta væri meira bara gaman að sjá Rushie spila gegn núverandi hetjum. Ég væri allavega til í að sjá Carra reyna að dekka Rushie í 90 mínútur. Það yrði, eins og ég sagði, eitthvert skrýtnasta kvöld í sögu Liverpool að horfa á tvær goðsagnir frá tveimur kynslóðum Liverpool-hetja takast á í Evrópukeppni Meistaraliða … :confused:

3 Comments

  1. Þetta yrði alveg stórkostlega súeralíkst móment ef að 43 ára gamall Ian Rush færi að spila á móti Liverpool í stærstu keppni félagsliða.

  2. Æji ég veit það ekki, mér finnst að kallinn ætti ekki að vera skemma orðsporið sitt með því að mæta þarna háaldraður og krumpaður eftir bjórþamb og vindlareyk undanfarinn áratug :laugh:

Fyrstu kaup sumarsins: Antonio Barragan

Stelios til Liverpool?