Gonzalez, Redknapp & Reina

speedy_gonzalez.jpg Svo virðist sem ein fyrstu “kaup” sumarsins muni ganga í gegn fljótlega. Hins vegar, þá er útlit fyrir að það verði ekki José Reina, markvörður Villareal, þar sem Arsenal ætla að berjast við okkur um undirskrift kauða. Því er talið líklegt að fyrstu kaup sumarsins verði tvítugur kantmaður frá Chile. Sá heitir Mark Gonzalez Hoffman (flott nafn) og spilar fyrir Albacete á Spáni. Hann er víst hægri kantmaður, en þó virðast menn ekki alveg vera vissir.

Ég hef horft svona tvisvar á leik með Albacete í vetur (gegn Real og Barca) og ég tók ekkert eftir þessum strák. Í fyrra skiptið, gegn Real, fór hann alveg framhjá mér, og í seinna skiptið – gegn Barca í lokaumferðunum – ætlaði ég að fylgjast með honum, þar sem þá var búið að orða hann við okkur, en þá var hann orðinn meiddur.

Fregnir herma að Rafa hafi verið búinn að semja um allt sem varðar þennan strák – kaupverð, laun, o.sv.frv. – og hafi bara átt eftir að skrifa undir þegar hann meiddist í 4. síðustu umferð deildarinnar. Hann meiddist á hné, ekkert ósvipað Flo-Po gegn Watford skilst mér, og var talið að hann yrði frá út árið 2005. Því virtist um tíma sem þessi kaup hefðu gengið fyrir ofan garð og neðan.

Nú hefur hins vegar annað komið á daginn. Í anda Djibril Cissé hefur kauði þegar jafnað sig framar vonum, og er nú talið að hann geti verið orðinn leikfær aftur í október á þessu ári, a.m.k. tveimur mánuðum á undan áætlun. Og Rafa virðist hafa brennandi áhuga á kauða, þar sem nú er verið að tala um að hann ætli samt að kaupa hann – en með aðeins breyttum forsendum.

Liverpool Echo töluðu um þennan díl undir lokin á frétt um Figo um síðustu helgi:

>The deals nearest completion so far are the much publicised swoop for Villarreal keeper Jose Reina for £6m, and the purchase of Albacete’s 20-year-old winger Mark Gonzalez, most likely on an initial year loan while he recovers from cruciate knee surgery.

Þetta virðist nú vera mjög líkleg niðurstaða í þessu máli; að Gonzalez verði lánaður til okkar í ár á meðan hann nær sér af meiðslunum og sannar sig fyrir Rafa. Ef það tekst munum við nýta okkur klausu í lánssamningnum og kaupa hann á fyrirfram ákveðnu verði, sem þýðir að verðið er ákveðið nú þegar og þeir geta ekki beðið um meira fyrir hann þótt hann reynist vera næsti Ronaldinho í vetur hjá Liverpool.

Hins vegar, þá munum við geta einfaldlega skilað honum án endurgjalds ef hann finnur sig engan veginn fyrir Liverpool. Þannig að mér líst vel á þennan samning, þótt hann sé meiddur þá er hann tvítugur landsliðsmaður og Rafa virðist hafa trú á honum. Eins og ég sagði, þá hef ég ekki séð hann spila og veit því ekkert um getu kauða, en mér skilst að hann sé álíka fljótur og Cissé, sem getur ekki mögulega verið slæmt. 😉


redknapp.jpgAð lokum, þá langar mig að hylla einn uppáhalds Liverpool-leikmanninn minn: Jamie Redknapp! Þessi mikli snillingur, sem var sennilega besti miðjumaður í Englandi á tímabili um miðjan síðasta áratug – áður en meiðsli settu varanlegt strik í reikninginn – er sagður vera við það að leggja skóna á hilluna, enda sennilega orðinn frekar þreyttur á að ná aldrei að spila nema 4-5 leiki í röð áður en hann meiðist aftur.

Mér finnst ávallt sorglegt að hugsa til þess hvað Redknapp hefði getað orðið svakalega góður. Eins góður og hann var upp á sitt besta, og hann var virkilega súpergóður – fyrirliði Liverpool og leiðtogi á velli – þá hefðu sennilega engin bönd haldið honum ef ekki hefði verið fyrir meiðslin. Ég man eftir að sjá hann spila gegn Man U á Anfield í desember ’97, þegar David Beckham-æðið var að brjótast út, og ég man að ég hugsaði með mér að Redknapp væri ljósárum fremri en Beckham á knattspyrnuvellinum. En alas! … einn þeirra var í gullaldarliði síns klúbbs, hinn hefur meiðst svona 45 sinnum síðan, og því hafa örlög þessara tveggja leikmanna verið ólík.

Þið sem munið ekki eftir Redknapp, eða sáuð hann ekki upp á sitt besta fyrir Liverpool, gæti hjálpað að hugsa um Xabi Alonso að mata menn eins og Ian Rush og Robbie Fowler á sendingum. Það var ósjaldan sem maður sá Redknapp vinna boltann af vængmanni andstæðinganna, sem nánast auka-bakvörður, standa upp með hann og rekja hann áfram 10 metrana áður en hann lét eina 60-metra sendingu fljúga þvert yfir völlinn þar sem einhver eins og Steve McManaman eða Rob Jones kom fljúgandi upp vænginn.

Þá var Jamie mikill skotmaður og skoraði ófá glæsimörkin í sína tíð fyrir Liverpool – sumar neglurnar hans eru með því flottasta sem undirritaður hefur séð skorað á Anfield – en sennilega verður hans helst minnst fyrir markið sem hann skoraði gegn Blackburn vorið ’95, á sama augnabliki og Blackburn-menn tryggðu sér meistaratitilinn, og einnig fyrir að hafa átt langskotið sem Rene Higuita, markvörður Kólumbíu, varði með bakfalls-hælspyrnu sem síðan hefur orðið fræg undir nafninu “Sporðdrekinn.”

Já, fyrirliðinn okkar hann Jamie Redknapp var stórkostlegur leikmaður! Far vel Jamie, takk fyrir minningarnar, og ekki njóta þín of mikið á eftirlaunum. Jafnvel þó að þessi kona sé eiginkona þín! 😉

4 Comments

  1. Ég er ekki alveg að fíla þennan skæting hjá Arsenal mönnum að vera að elta uppi þá leikmenn, sem vilja koma til okkar. Ég vil endilega að Arsenal haldi sig við Lehman í markinu.

    Ég las grein í dag þar sem hann Gonzales okkar var kallaður hinn “chileski Beckham”. En Bruno Cheyrou var nú hinn “nýji Zidane”, þannig að ég fer ekki að æsa mig yfir síkum gælunöfnum.

  2. Ég tek undir hvert einasta orð um Jamie Redknapp. Þetta var frábær leikmaður sem hefði getað orðið einn sá allra besti.

  3. Mér finnst athyglisvert viðtal við Rafa á official síðunni í dag, þar sem hann er að kveða niður orðróm um að hann sé að reyna að fá 3 leikmenn frá Real Madrid, þá Luis Figo, Guti og Raul. Þá segir Rafa “Fólk ætti ekki að taka slúðrinu alvarlega vegna þess að helmingurinn af þessu er ekki satt.” Ok þá vil ég segja að þar sem helmingurinn af þessu er ekki réttur og þar sem ekki er hægt að skipta 3 lifandi mönnum til helminga þá er allavega einn af þessum mönnum á leiðinni til okkar, jafnvel tveir !
    Svona fer þegar að maður bíður í mikilli spennu eftir einhverjum fréttur af leikmannakaupum 😉

  4. Jamm, Hafliði. Ég er líka snillingur í því að lesa allskonar skemmtilega vitleysu útúr viðtölum og öðru þegar maður er desperate eftir einhverjum konkret fréttum af leikmannakaupum 🙂

Essien og Diouf

Til Minnis