Ferðasaga – Istanbúl

Hvar á ég að byrja?

Allt í þessari ferð uppað leiknum sjálfum er auðvitað auka atriði. Jú, við komum okkur á staðinn, keyrðum yfir Bosphorous sund, virtum fyrir okkur Istanbúl að næturlagi. Ég kom til Asíu í fyrsta skiptið, þrátt fyrir að það hefði verið í mýflugumynd. En tilgangur ferðarinnar var að sjá Liverpool og allt annað var auka atriði.

En mér finnst þó gaman að skrifa um auka atriði.

Við komum mjög seint um kvöld til Istanbúl. Eftir að hafa tékkað okkur inn kíkti ég reyndar aðeins á stemninguna uppá Taksim torgi, stutt frá hótelinu en þar voru Liverpool stuðningsmenn komnir saman og byrjaðir að syngja. Ég fann þó að ég þurfti svefn, allavegana pínu.


**Istanbúl**

 • Hagia Sophia

Að morgni leikdags ákvað ég að skoða mig aðeins um í miðbæ Instanbúl. Þrátt fyrir að tilgangur ferðarinnar haf verið fótboltaleikur, þá fannst mér það frekar slappt að vera komin alla leið til Istanbúl og skoða ekki neitt af borginni. Ég tók því með herbergisfélaga mínum leigubíl yfir í gamla miðbæinn. Við byrjuðum á Topkapi höllinni, en eyddum ekki miklum tíma þar inni. Því næst skoðuðum við [Hagia Sofia](http://en.wikipedia.org/wiki/Hagia_Sofia), sem margir telja meðal helstu undra veraldar.

Hagia Sofia var reist sem grísk rétttrúnaðarkirkja árið 537 þegar að Istanbúl var enn undir stjórn Grikkja. Á þeim tíma voru fáar ef einhverjar byggingar í heiminum, sem komust nálægt dýrð Hagia Sofia. Þegar Tyrkir sigruðu Istanbúl var Hagia Sofia breytt í mosku, en í dag er byggingin safn. Hagia Sofia er sannarlega mikilfengleg bygging.

Það er líka Sultanahmet Camii moskan ([bláa moskan](http://en.wikipedia.org/wiki/Blue_Mosque)), sem er aðeins steinsnar frá Hagia Sofia. Sú moska er enn notuð til trúariðkunar og því þurftum við að fara úr skóm og hylja fætur þegar við fórum þar inn. Bláa moskan (byggð 1616) var sett beint á móti Hagia Sofia til að sýna það að íslamskir arkitektar gætu gert jafn stórfenglegar byggingar og kristnir.

Fyrir framan bláu moskuna höfðu nokkrir Liverpool og Milan stuðningsmenn komið sér fyrir í sólinni. Við Taksim torg, þar sem við gistum, sáust engir Milan aðdáendur, en það var hins vegar nóg af þeim í gamla miðbænum. Við fengum okkur að borða á veitingastað nálægt Grand Bazar og þar vorum við einu Liverpool aðdáendurnir í hópi ítalskra Milan aðdáenda, sem sungu af krafti.


Að labba í gegnum miðbæinn í Liverpool búning (með nafn Milan Baros á bakinu) var gríðarlega skemmtileg lífsreynsla. Tyrkirnir voru vel með á nótunum og það var greinilega mikil stemning fyrir leiknum. Við mættum nokkrum hópum af skólakrökkum, þar sem allir hrópuðu annaðhvort “Hey Liverpool” eða “Milan” og ég labbaði framhjá heilu hópunum og sló á hendurnar á öllum krökkunum. Þegar við löbbuðum svo í gegnum Grand Bazar gat maður varla labbað nokkra metra án þess að einhverjir innfæddir kölluðu “Liverpool!” og brostu til manns. Þessi stemning og gestrisni Tyrkjanna bætti svo um munaði upp fyrir allt skipulagsleysið, sem við áttum eftir að lenda í.


 • Ég og Sigursteinn hjá Taksim torgi

Þrátt fyrir að rölt um miðbæinn væri skemmtilegt, þá vildi ég komast aftur í Liverpool steminguna og byrja virkilega að hita upp fyrir leikinn. Við tókum því leigubíl aftur tilbaka að Taksim torgi, þar sem hópur Liverpool aðdáenda fór ört stækkandi. Það að labba þarna inná Taksim torg um klukkan tvö á leikdegi, var nokkuð magnað. Liverpool stuðningsmenn voru útum allt. Þeir höfðu hertekið húsarunu og hengt borða fram af þökunum. Síðan stóðu þeir þar í sólinni og sungu án þess að hvíla sig allt þangað til að menn þurftu að fara á sjálfan leikinn.

Ég fór og hitti hóp Íslendinga, sem hafði komið sér fyrir stutt frá torginu. Þar komu menn saman, drukku bjór og töluðu um leikinn á milli þess sem menn minntu sjálfa sig á að þeir væru í raun að fara að horfa á Liverpool spila í úrslitum Meistaradeildarinnar!!!

Um *sjö* tímum fyrir leik var okkur sagt að það væri sniðugt að fara að drífa sig yfir á Ataturk leikvöllinn. Rútuferðin var einstök.


**Rútuferðin**

Við vorum um 7-8 Íslendingar í rútunni ásamt um 40 bretum. Okkur var pakkað í hefðbundinn strætó fyrir þessa ferð, sem átti að sögn kunnugra að taka um 45 mínútur. Á endanum tók hún nær þrjá klukkutíma. Ferðin var þó frábær hvern einasta metra. Það var sungið *allan* tímann. Ég leyfi mér að fullyrða að söngurinn hafi ekki stoppað í meira en mínútu í senn. Allt frá lögum, sem gera grín að Jose Mourinho

>Mourinho….Shhhhh! – Mourinho….Shhhhh! – He’s in Portugal, we’re in Istanbul!

til laga þar sem einstaka Liverpool leikmenn voru teknir fyrir.

>Luis Garcia – He drinks Sangria – He came from Barca, to bring us joy – He’s five foot seven – and football heaven – oh please don’t take my Luis away

Menn skiptust á að stjórna söngnum og á tímabili var Sigursteinn, formaður Liverpool klúbbsins, ansi duglegur við þá stjórnun.

 • Labbað í átt að Ataturk

Eftir fyrsta hálftímann varð svo allt fast í umferðinni. Fram að því höfðum við keyrt framhjá mörgum hverfum, þar sem innfæddir stóðu við götuna og veifuðu. Það var nánast einsog við værum í skrúðgöngu því alla leiðina stóð fólk í hátíðarskapi og veifuðu að rútunum. Frábær stemning.

Þegar við nálguðumst leikvöllinn og fórum að sjá hann í fjarska voru rúturnar nærri staðnaðar vegna umferðarteppu. Að lokum var það orðið svo að menn voru fljótari að labba en að hanga í stappaðri rútu. Því endaði það á því að síðustu 2 kílómetrana löbbuðu allir stuðningsmenn Liverpool yfir engi í átt að leikvellinum. Það var vissulega tilkomumikil sjón að sjá þetta rauða haf flæða í áttina að vellinum.

Við völlinn var búið að koma upp svæði þar sem Liverpool stuðningsmennirnir áttu að skemmta sér saman. Við misstum reyndar af skemmtiatriðunum, en vegna hungurs ákvað ég að nýta mér veitingabásinn, sem hafði verið settur upp. Ég komst hins vegar að því að Tyrkjunum þótti nóg að hafa einn kebab tein fyrir þessa 40.000 Liverpool aðdáendur, sem voru samankomnir þarna. Ég ákvað gegn öllum skynsemisröddum í hausnum á mér, að fara í biðröðina. Eftir um 45 mínútur í biðröð, þegar ég var kominn hálfa leið að matsölubásnum, þá kláraðist kebabið. Tyrkirnir dóu þó ekki ráðalausir heldur tóku upp hamborgaragrill, sem var *minna* en grillið útá svölum heima hjá mér. Þar tóku þeir við að steikja nokkra hamborgara. Það þarf vart að fjölyrða um að þetta var ekki nóg til að sætta tugi aðdáenda, sem biðu í biðröð.

Ég beið aðrar 45 mínútur, en þegar ég var kominn upp að básnum voru aðeins 30 mínútur í leik og ég var orðinn verulega stressaður. Einn Tyrkinn lét það þá útúr sér að allur maturinn væri búinn. Við það nær trylltust nokkrir aðdáendur, en heilsu Tyrkjanna var bjargað við þær fréttir að það væri til annar kassi af hamborgurum. Ég ákvað þó að lokum að ég vildi heldur sjá leikinn en fá mér frekar ógirnilegan hamborgara, þannig að ég hljóp í átt að vellinum.


**Leikurinn með stóru L-i**

Ég sat ásamt nokkrum Íslendingum í miðri stúkunni, nær þeim enda þar sem Liverpool stuðningsmennirnir voru samankomnir. Þegar ég kom inná völlinn var eitthvað óskiljanlegt opnunaratriði í gangi. Það var þó ekki fyrr en Meistaradeildarlagið var spilað að ég fékk virkilegan *sting* í magann.

Liverpool stuðningsmennirnir byrjuðu fljótlega að syngja sín lög í byrjun leiks var stemningin frábær. Það entist hins vegar í sirka 50 sekúndur.

Fyrsta markið dró frekar mikinn kraft úr mér. Ekki batnaði það þegar að Harry Kewell þurfti að fara útaf og Smicer kom inná. Ég sá ekki hvernig Liverpool ætti að brjótast útúr þessu. Smám saman fór ég þó að taka undir með hinum stuðningsmönnum Liverpool þegar að stemningin magnaðist.

En Milan voru bara svo miklu, miklu betri. Minningin úr fyrri hálfleiknum er að horfa á bakið á Kaká, þar sem hann stormaði upp völlinn og rústaði vörn Liverpool. Maður hreinlega beið eftir því að Milan myndi skora aftur. Sem þeir og gerðu. Crespo skoraði tvö mörk. Það fyrra frekar ódýrt, en það seinna var hrein snilld (hvaða snillingi hjá Chelsea finnst Didier *Drogba* betri en Hernan Crespo?).

3-0 í hálfleik og allt ómögulegt. Ég fór að ímynda mér hvernig það væri að fara heim. Hvernig það yrði að mæta í vinnuna daginn eftir heimkomuna. Það yrði sennilega einhver blanda af Man U stuðningsmönnum sem myndi gera stólpagrín að mér fyrir að hafa eytt peningum í þessa vitleysu og öðru fólki, sem myndi hreinlega vorkenna mér fyrir að hafa orðið fyrir svona miklum vonbrigðum.


 • Ég fagna í leikslok!

En þetta breyttist auðvitað allt.

Í byrjun hálfleiksins sat ég bara í sætinu mínu og hélt fyrir augun. Þetta var hrein martröð.

En þegar um 10 mínútur voru liðnar af hálfleiknum byrjuðu allt í einu einhverjir í Liverpool stúkunni að syngja *You’ll Never Walk Alone*. Þetta byrjaði frekar dauft, en smám saman tóku allir undir og þar á meðal ég. Ég stóð upp, hélt uppi treflinum og söng.

“Walk on, waaaalk ooooon, with *hope* in your heart”

Og skyndilega fannst mér vera einhver von. Einhver smá von. Þetta tímabil var búið að vera svo mikill farsi að það gat allt gerst. Allt tímabilið hafði stórum sigri verið fylgt með hræðilegum vonbrigðum. Alltaf þegar maður gladdist, þá komu vonbrigðin. Gat það ekki gerst að loksins myndi gleði fylgja í kjölfar slíkra vonbrigða?

Hamann kom inná fyrir Finnan og Rafa breytti í þriggja manna vörn. Gerrard fékk leyfi til að sækja á meðan Xabi og Didi stjórnuðu miðjunni. Og við það breyttist allt. Gerrard var frábær og auðvitað var það hann, sem hóf endurkomu Liverpool með fínu skallamarki. Hálft Liverpool liðið hvatti stuðningsmennina til að skapa meiri læti. Sem við og gerðum.

Stuttu seinna kom Vladimir Smicer af öllum mönnum og skoraði með langskoti. 3-2, allt virtist mögulegt. Ég fagnaði ekki markinu hans Gerrard af neinum krafti, en markinu hans Smicer var sko fagnað. – Svo kemst Gerrard inn fyrir og Gattuso brýtur á honum. *Vítaspyrna*. Ef það er eitthvað lið í þessum heimi, sem hefur lélegri vítanýtingu en Liverpool, þá er það lið svo sannarlega rannsóknarefni. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fagna.

Xabi tók spyrnuna, Dida varði en Xabi tók frákastið og skoraði. 3-3.

Allt varð vitlaust. Ég stökk upp, gaurinn við hliðiná mér hoppaði svo mikið að hann hrundi niður í næstu röð. Ég horfði á fólkið fyrir aftan mig og öskraði **”Við erum búnir að jafna! Ég trúúúúúúi þessu ekki!”** Og ég í alvörunni trúði þessu ekki. Ég trúði ekki að við værum að upplifa þetta. Ég var fullviss um að leikmenn Liverpool hefðu heyrt okkur syngja í hálfleik og að þá hefði vonin kviknað hjá þeim.

Ég hélt að við myndum klára þetta strax því Milan menn voru skíthræddir, en fljótlega var augljóst að Liverpool menn voru alveg búnir. Því voru síðustu mínúturnar, sem og framlengingin, nær óbærileg. Stuttu fyrir leikslok stóð besti framherji heims, Andriy Shevchenko, um fimmtíu sentimetra frá markinu okkar. Í markinu okkar var Jerzy Dudek, sem ég hef svooo oft gagnrýnt. Einhvern veginn tókst honum samt að klúðra. Ég spurði fólkið í kringum mig *”Hvernig tókst honum að verja þetta?”* Ég áttaði mig ekki á því almennilega fyrr en að ég sá þetta aftur á myndbandi. Þessi markvarsla mun gera það að verkum að í minningunni munum við gleyma öllum gömlu mistökum Dudeks.


Það að vera bjartsýnn fyrir vítaspyrnukeppni þar sem Liverpool tekur þátt, nálgast hreina firru. Liverpool getur ekki skorað úr vítum, allavegana ekki einsog önnur eðlileg lið. En einhvern veginn var ég samt pínku bjartsýnn. Markvarslan hans Dudeks gaf mér von.

Dudek rétti öllum Milan mönnunum boltann og dansaði svo einsog fáviti á línunni. Og það virkaði. Milan menn voru ein taugahrúga og klúðruðu sínum vítaspyrnum. Til að kóróna þetta skrítna kvöld var það svo *Vladimir Smicer*, sem skoraði úr síðustu vítaspyrnu Liverpool.

Þegar að Dudek varði vítaspyrnuna frá Shevchenko vissi ég ekki hvað ég átti að gera. Ég öskraði eitthvað, leit aftur fyrir mig og svo aftur á völlinn. Sá þá leikmenn Liverpool hlaupa í átt að Dudek.

Og þá áttaði ég mig á því að við vorum búnir að vinna!

Og þá fór þessi yndislega sælutilfinning um mig. Og ég fagnaði einsog ég hef aldrei áður gert. Ég stökk upp, var nærri dottinn þegar ég lenti loksins, faðmaði fólk við hliðiná mér. Öskraði, klappaði og lét einsog brjálæðingur. Mitt lið er Evrópumeistari.


**Evrópumeistarar!**

Skyndilega þá virtist vera vit í öllu. Allir þessir laugardagar, sem ég hef eytt í fýlu útí árangur Liverpool. Öll skiptin, sem ég hef reiðst yfir slæmu gengi. Öll þau skipti, sem Liverpool hefur haft áhrif á skap mitt, vinum og ættingjum mínum til ama. Þarna, á þeirri stund, þá virtist þetta vera þess virði. Allt hitt gleymdist. Við erum Evrópumeistarar. Ég var á staðnum, og því mun ég aldrei gleyma.

Við erum Evrópumeistarar. Allt annað er auka atriði. Ég mun líklega aldrei sjá annan eins fótboltaleik.


Það, sem eftir fylgdi var algjört auka atriði. Við tók þriggja tíma óbærileg rútuferð aftur að Taksim torgi. Fögnuður á torginu. Ferð uppá flugvöll snemma morguninn eftir. Fáránlegar seinkanir á fluginu og algjört skipulagsleysi á flugvellinum. Flugið til Luton, bið í London, flugið heim, mæting algjörlega örþteyttur í vinnuna daginn eftir.

Allt þetta skipti ekki nokkru máli.

Fótbolti, og þá sérstaklega gengi Liverpool, hefur sennilega alltof mikil áhrif á skap mitt. Stundum veit ég ekki af hverju ég læt þetta hafa svona mikil áhrif á mig. En það jafnast einfaldlega ekkert á við það að upplifa það þegar Liverpool sigrar titla.

Ég elska Liverpool. Mér er alveg sama þótt einhverjum finnist það skrítið að maður geti bundist liði í öðru landi svona sterkum böndum. Það fólk skilur þetta ekki og mun sennilega aldrei gera það. En mér finnst ég einfaldlega vera *órjúfanlegur partur af þessum hópi*. Á Ataturk var ég *þakklátur* fyrir að vera Liverpool aðdáandi. Þakklátur fyrir að vera partur af þessum hópi. Og mér leið einsog ég mætti ekki bregðast hlutverki mínu. Þess vegna reyndi ég að styðja mitt lið, jafnvel þrátt fyrir að mér finndist allt vera ómögulegt. Það var það minnsta, sem ég gat gert *fyrir Liverpool*.

Það kann að vera að ég geti ekki mætt á Anfield í hverri viku og geti því ekki stutt mitt lið á hverjum laugardegi. En þarna í Istanbúl fékk ég tækifærið til að styðja mína menn og ég var staðráðinn í að gera mitt allra besta. Það er heiður að vera hluti af besta aðdáendahópi í heimi. Og það er heiður að fá að fylgja besta fótboltaliði í heimi. Gengi liða kann að vera mismunandi ár frá ári, en við vitum öll hverjir eru bestir.

*Áfram Liverpool!*

6 Comments

 1. Frábær saga! Hefði viljað vera þarna maður, úff … það verður lagað strax í haust, þá fer maður á leik!

  Og já, það er yndislegt að vera Liverpool-aðdáandi í dag. 🙂

 2. Snilld…. sumarið framundan er MIKLU miklu skemmtilegra eftir þennan sigur…

  VIÐ ERUM MEISTARAR EVRÓPU!

 3. Daði: Ég keypti þetta allt í einum pakka á 140.000 (flug, hótel, miði, rútur). Að sögn var flugið frá Luton til Istanbúl dýrasti hlutinn.

 4. Frábær pistill, þetta er eins og skrifað frá mínu hjarta (þar sem ég var þarna líka 🙂 ). Þetta var algerlega klikkað af hafa verið þarna og flokkast undir algert ævintýri.

  Besti leikur ever og ruglið í Tyrkjunum gerir þetta bara þeim mun skemmtilegra. Þótt mér hafi ekki fundist það á flugvellinum eða í rútunni frá vellinum.

  Annars tók það mann viku að skríða saman, taugarnar fengu þvílíkt áfall þarna en ég komst í gegnum um það og eftir stendur besta lífsreynsla sem ég hef upplifað. Áfram Liverpool!

Raúl & Fernando

Owen og Ewing