Leikmannamarkaðurinn opnar á ný!

Jæja, þá er komið að því. Á morgun er hinn eini, sanni, fyrsti júní og það þýðir aðeins eitt: liðin í ensku Úrvalsdeildinni mega kaupa og selja leikmenn á nýjan leik!

En það eru tvær hliðar á þessum annars dásamlega degi, þegar liðið okkar má löglega kaupa leikmenn á ný og styrkja leikmannahópinn. Neikvæða hliðin er sú að fyrir hvern einn leikmann sem liðið kaupir á endanum eru svona tíu aðrir orðaðir við félagið. Sem gerir það að verkum að maður er jafnan frekar ringlaður hvað varðar framtíð Liverpool FC á sumrin. Það er engin furða að Bretarnir kalla sumarið ‘silly season’ … 😉

Ég hef tekið saman þau nöfn sem hafa þegar verið orðuð við okkur, hér koma þau og mitt álit á því hversu líklegt er að verði af þessum kaupum. Hafið í huga að þetta er aðeins mitt álit, og því allt eins líklegt að ég hafi rangt fyrir mér og rétt. En hér kemur listinn, hann skiptist í mark, vörn, miðju og sókn:

MARK: José Reina (Villareal)
Þarf í rauninni ekkert að tjá mig um þetta. Fjölmiðlar töldu hann flestir vera besta markvörð spænsku La Liga á nýafstöðnu tímabili, hann hefur alltaf verið pottþéttur þegar ég sé hann spila, og ég verð hissa ef það er ekki búið að tilkynna um kaupin á honum áður en næsta helgi rennur í hlað. Þetta er pottþétt mál, því miður Dudek!

VÖRN:

GABRIEL MILITO (Real Zaragoza)
Það er talað um kaupverð á bilinu 6-8m punda, sem er raunhæft miðað við að hann er 24ra ára miðvörður sem er fastamaður í argentínska landsliðinu. Ég væri ekkert á móti þessu, hef mikið álit á Milito, og finnst þetta í raun frekar líklegt þar sem hann er akkúrrat sú týpa sem ég sé Rafa fyrir mér vilja kaupa.

MATTHEW UPSON (Birmingham)
Ég hefði ekkert á móti þessu heldur, ungur og metnaðarfullur enskur miðvörður sem hefur reynslu í Úrvalsdeildinni og hefur spilað gegn öllum þessum liðum sem við mætum á hverju ári. Finnst þetta samt ólíklegt, ef ekki nema bara vegna þess að mér finnst ólíklegt að Birmingham láti hann fara án mikillar barátu.

JOHN O’SHEA (Manchester United)
Sko, þegar ég heyrði þennan orðróm fyrst hló ég. En svo fattaði ég eitt: John O’Shea er uppalinn Púllari. Ef þið væruð uppaldir Púllarar og fengjuð tækifæri til að spila atvinnubolta fyrir Man U – mynduð þið segja nei? Ekki ég heldur. Hins vegar sé ég því miður ekki hvað hann getur boðið okkur sem Djimi Traoré getur ekki gert betur, og yrði frekar hissa ef Rafa færi að eyða einhverjum pening í hann. Við þetta bætist sú staðreynd að enginn leikmaður hefur farið frá United til Liverpool í nærri því hálfa öld, og því finnst mér þetta vera mjööög ólíklegt.

PATRICE EVRA
Já takk! Ungur, franskur landsliðsmaður sem hefur ávallt vakið athygli mína í vinstri bakverðinum hjá Mónakó! Mér myndi finnast þetta pottþétt kaup hjá Rafa og vona að af þessu verði – og það er nú bara déskoti líklegt ef mið er tekið af því að Mónakó eru víst að eltast við Bruno Cheyrou, sem við eigum. Gætum látið hann og pening í skiptum fyrir Evra? Plís?

CÉSAR (Deportivo La Coruna)
Var orðaður við okkur í janúar-glugganum en lítið heyrst síðan, svo ég hlýt að áætla að Rafa hafi snúið sér annað. Er heldur ekkert spenntur fyrir honum eftir að hafa horft á Baros og Biscan fífla hann í útileiknum í haust – ég væri þá öllu spenntari fyrir næsta nafni…

SÉRGIO RAMOS (Sevilla)
Nítján ára, örfættur miðvörður sem er jafn hár og Sami Hyypiä, jafn fljótur og William Gallas og frábær skotmaður? JÁ TAKK!!! En … þangað til annað kemur í ljós verður þetta að teljast draumur í dós og lítið annað, einfaldlega af því að hann er svo efnilegur að við hljótum að fá samkeppni frá stóru liðunum á Spáni. En ég held í vonina…

MIÐJAN:

LUIS FIGO (Real Madríd)
Hann er 33ja ára gamall, situr á bekknum hjá Real og langar til að sanna sig í nýju landi? Eða … hann er 33ja ára gamall og langar til að fá vel borgað í hinsta sinn. Ég veit það ekki, ef hann er í einhverjum Rivaldo-pælingum þá vill ég alls ekki sjá hann. En ef hann er hungraður í að sanna sig og láta að sér kveða í nýju landi, þó ekki sé nema í tvö tímabil eða svo, þá er ég mikið meira en til. Muniði eftir Gary McAllister? Hann átti að vera útbrunninn, sjáið hvað gerðist þar! Figo gæti orðið stórkostlegur liðsauki fyrir okkur, eins lengi og hann kemur með rétta hugarfarið. Ég mun fylgjast náið með fréttum af þessu…

MIÐJUMENN HJÁ VALENCIA
Pablo Aimar, Vicénte, Ruben Baraja, Mohammed Sissoko. Alls fjórir miðjumenn Valencia sem ég hef heyrt orðaða aftur og aftur við Liverpool. Í ljósi þess að Valencia skitu á sig í deildinni í vetur og þurfa að fara í Intertoto-keppnina til að komast í Evrópu í haust, þá er ég nokkuð viss um að Rafa mun í það minnsta reyna að fá leikmenn frá sínu gamla félagi. Spurningin er bara: hvaða leikmann??? Væri til í að sjá þá alla, en myndi alveg sætta mig við Vicénte. 🙂

LUCIANO GALLETTI (Real Zaragoza)
Fyrirliði Real Zaragoza, 25 ára gamall fjölhæfur sóknar-miðjumaður sem getur spilað á báðum köntum og í holunni. Mmmmm, Luis García einhver? Ef þessi gæji gæti skilað einhverju á borð við það sem hinn fjölhæfi García hefur gert, þá gætu það verið stórkostleg kaup. Þetta er líka reyndur gæji, spilar á báðum köntunum fyrir Zaragoza og frammi fyrir Argentínu. Já takk!

SHAUN WRIGHT-PHILLIPS (Manchester City)
Fréttir síðastliðinnar helgar segja að við höfum þegar boðið 15 milljónir punda í hann, og vona ég að það sé satt, en satt best að segja þá held ég að það sé ólíklegt að hann komi til okkar, hvort sem að við bjóðum nóg í hann eða ekki. Af hverju? Út af því að fósturpabbi hans er Ian Wright, sem vill örugglega sjá strákinn spila í Arsenal-treyju, og einnig af því að José Mourinho hjá Chelsea ku hafa mikinn áhuga á honum. Og með þá samkeppni til hliðsjónar þá held ég að það sé best að maður æsi sig varlega þangað til annað kemur í ljós. Yrði samt snilld að sjá hann í rauðu treyjunni í ágúst!

DAVID PRUTTON (Southampton)
Öööö, þeir féllu og hann er 22ja ára miðjumaður sem komst ekki í liðið hjá þeim nema í nokkrum leikjum í vetur. Sem varaskeifa fyrir hina, uppá breiddina? Kannski. Sem lykilmaður í framtíðarsýn Rafa? Getoutoftown! Mjööög ólíklegt.

TOM SOARES & WAYNE ROUTLEDGE (Crystal Palace)
Palace féllu í vor og því er viðbúið að einhver reyni að næla í þessa tvo ungu, sókndjörfu, 19-ára-gömlu miðjumenn þeirra. Og þeir eru báðir hörku efnilegir, það er ekki spurning. Ef Rafa ákveður að ná í annan þeirra eða báða, þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þeir komi þar sem Palace geta varla haldið þeim í deildinni fyrir neðan. Þetta veltur allt á Rafa, en mér litist ekkert illa á annan eða báða þeirra.

OWEN HARGREAVES (Bayern München)
Hann talaði um áhuga Liverpool fyrir ári síðan, og tveimur árum síðan, og enn og aftur í síðustu viku. Mér finnst alltaf jafn líklegt að hann komi, en það virðist alltaf koma á daginn að áhuginn sé eingöngu hans megin. Nú í gær sagði Rumenigge, aðalkálfurinn hjá Bayern München, að Hargreaves yrði refsað fyrir að ‘daðra við’ Liverpool, og því held ég að þetta sé ólíklegt. Væri samt til í að fá hann.

KEVIN NOLAN (Bolton Wanderers)
Það hefur verið talað um að hann komi til okkar í skiptum fyrir El-Hadji Diouf, og í sannleika sagt er það eina leiðin til að Sam Allardyce fengist til að láta hann af hendi, en mér finnst það samt ólíklegt. Held að hann sé bara ekki sú týpa sem Rafa er að leita að á miðjunni, þótt góður sé.

JOAQUÍN (Real Betís)
Það er gott að láta sig dreyma… mig langar líka í Adriano, Ronaldinho og Andriy Schevchenko! Ef Rafa léti af þessu verða þá væri það vottur um stórkostlegt aðdráttarafl hans öðru fremur, en þetta er með því ólíklegra sem ég hef heyrt. Því miður, hann er #1 á óskalistanum mínum en það eru ,9% líkur á að við fáum hann!

GARY O’NEIL (Portsmouth)
Ungur, varnarsinnaður baráttuseggur á miðjuna. Af hverju ekki? Vildi óska þess að ég myndi eitthvað eftir honum, sem segir kannski margt um getu hans miðað við að ég hef horft á þó nokkra leiki með Portsmouth…

MARK GONZALEZ (Albacete)
Albacete féllu úr La Liga í vor og því var víst nánast búið að ganga frá kaupum á þessum gaur, sem ég hef aldrei séð spila og hef því enga skoðun á, þegar hann meiddist illa í maíbyrjun. Hann verður víst frá í rúmlega hálft ár og því verður ekkert af kaupunum á honum. Samt athyglisvert að gefa honum gaum, þar sem sögurnar segja að Rafa hafi verið búinn að klára þessi kaup og aðeins átt eftir að skrifa undir þegar kauði meiddist svona illa.

MODESTO M’BAMI (Paris St Germain)
Ég hef aðeins séð hann leika einu sinni, í haust þegar Chelsea rústuðu PSG 0-3 í París í Meistaradeildinni. Hann var hræðilegur og miðað við þann leik þá eigum við að forðast hann með öllum ráðum. Ég verð stressaður þegar leikmenn sem Lampard hefur rassskellt eru orðaðir við okkur, sem ætlum okkur að rassskella Lampard á næsta tímabili…

GUTI (Real Madríd)
Það er frekar langsóttur orðrómur í gangi um að Guti muni fara frá Real Madríd í sumar, jafnvel á frjálsri sölu, þar sem hann á ekki fast sæti í byrjunarliðinu. Þessi gaur er náttúrulega mjög góður leikmaður, en er hann í heimsklassa? Gæti hann slegið Hamann, Alonso eða Gerrard út úr liðinu hjá okkur? Ég held ekki, og því held ég að hann komi aldrei til okkar, þar sem hann vill fá að spila reglulega. Væri samt ekkert á móti því að fá hann, upp á breiddina… 🙂

MAREK MINTAL (Nürnberg)
Var þrálátlega orðaður við okkur framan af vorinu, endaði sem þriðji markahæsti leikmaður Evrópu í vetur (og hann er miðjumaður) og spilar fyrir lið sem rétt slapp við fall í Bundesligunni í vetur. Ef við viljum hann, þá er hann okkar. En eitthvað hefur hægst á slúðrinu undanfarið, eins og Rafa hafi snúið sér annað þegar ljóst var að hann átti pening til að kaupa betri miðjumann en Mintal. Ég veit það ekki, þetta gæti alveg orðið að veruleika en maður bíður frekari frétta. Hef aðeins einu sinni séð hann spila og hann var góður þá, skoraði tvö mörk og minnti mig nokkuð á Frederik Ljungberg, eða jafnvel Paul Scholes.

SÓKNIN:

DIRK KUYT (Feyenoord)
Já takk! Þessi gaur er frábær, eða hefur allavega verið það í þau skipti sem ég hef séð hann. Hann er líkamlega sterkur, grimmur og áræðinn og mjög góður skotmaður, með báðum fótum og höfðinu. Hann var markakóngur hollensku deildarinnar í ár og næst markahæstur í fyrra á eftir Kezman, og ég held að hann myndi fitta inn í liðið okkar. Þá væri Morientes stóri, klóki refurinn í boxinu og skallasérfræðingurinn, Djib væri sprengjan í holunni, Flo-Po væri léttleikandi senterinn og Kuyt væri grimmi og gráðugi potarinn. Það eina sem gæti staðið í vegi fyrir þessum kaupum er sú staðreynd að Feyenoord eru víst að heimta himinhátt verð fyrir hann, en við eigum svo sem alveg pening fyrir honum eftir velgengnina í Evrópu. 😉

ANDY JOHNSON (Crystal Palace)
Hann var frábær í vetur en samt er eitthvað aftast í höfðinu á mér sem minnir mig á Marcus Stewart hjá Ipswich og Kevin Phillips hjá Southampton. Bara af því að maður á gott tímabil og skorar helling fyrir lakara lið sem treystir eingöngu á mann, þá er ekkert sem segir að sami maður geti blómstrað í liði þar sem hann er bara einn af mörgum hetjum, og þar sem kröfurnar eru miklu, miklu meiri. Ég er í raun hvorki jákvæður né neikvæður í garð AJ – ef hann kemur þá myndi ég bara mynda mér álit byggt á því hvernig hann spilar fyrir Liverpool í framtíðinni. Telst líkleg kaup eins og staðan er í dag.

PETER CROUCH (Southampton)
Ef Rafael Benítez kaupir Peter Crouch heimta ég að hann verði rekinn. Já, ég þori að segja þessi orð! Ég vill ekki sjá hann hjá Liverpool… leiðinlegasti, asnalegasti og gagnslausasti leikmaður Englands í dag! Oj bara!

FERNANDO TORRES (Atlético Madrid)
Sjá Joaquín að ofan. Maður getur aðeins látið sig dreyma, en þetta mun aldrei gerast, sama hversu mikið hann er orðaður við okkur.


Og þar með er það komið. Rétt um þrjátíu leikmenn sem hafa verið orðaðir við Liverpool, og enn er sólarhringur í að leikmannamarkaðurinn opni. Ef við leikum okkur að getgátum þá gæti sumarið hæglega litið einhvern veginn svona út:

ÚT: Jerzy Dudek, Gregory Vignal, Bruno Cheyrou, Salif Diao, El-Hadji Diouf, Igor Biscan, Vladimir Smicer, Milan Baros.

INN: José Reina, Gabriel Milito, Patrice Evra, Luciano Galletti, Luis Figo, Gary O’Neil, Andy Johnson.

Átta leikmenn út, sjö leikmenn inn? Hver veit … rússíbanaferðin hefst á morgun, og ég veit að þetta verður svakalegt sumar! 🙂

In Rafa we trust…

18 Comments

 1. Mjög flott umfjöllun. Þetta verður spennandi sumar og ég held að það muni margt koma á óvart.

 2. Hvað meinarðu með því?

  Einfaldlega það að enginn framkvæmdastjóri með viti mundi reina að kaupa/fá útbrunninn 33 ára portúgalskann málaliða með himinhá laun sem að hefur aldrei, í þokkabót, spilað í ensku úrvalsdeildinni.

  …og ég er ekki alveg á sömu bylgjulengd og þú varðandi Luciano Galletti, Luis Figo, Gary O?Neil og Andy Johnson.

 3. Jájá, þú ert ágætur. Fyrrum knattspyrnumaður heimsins hjá FIFA á frjálsri sölu? Ég myndi ekkert hafa á móti því, og held að ég sé í meirihluta þar en þú í minnihluta.

  Hitt var síðan meira bara til gamans gert, svona raunhæf samantekt. Ef ég mætti velja hvern sem ég vildi úr þessum hópi hefði ég sagt Reina, Milito, Ramos, Vicénte, Ruben Baraja, Joaquín, Wright-Phillips, Kuyt og Ronaldinho. Ókei? 🙂

 4. Ég tel þetta ekki svo vitlausa úttekt miðað við það sem maður hefur lesið á netinu.

  Tel hins vegar töluvert miklar líkur á að við fáum leikmann frá Valencia, sérstaklega ef Baros er á leið þangað.

  Ennfremur eru ágætar líkur á því að Kuyt eða Anelka muni koma (vonandi ekki þessi Andy Johnson, hef enga trú á honum). Owen Hargreaves er einnig stór möguleiki. Ástæðan fyrir Anelka og Hargreaves er að þeir hafa báðir líst yfir miklu áhuga á að koma.

  Ég tel einnig ljóst að Reina og Milito muni koma til okkar þar sem þeir eru þráfaldlega orðaðir við okkur.

  Í lokinn sé ég góðan möguleika á að við fráum Shaun Wright-Phillips og þá sérstaklega þar sem Man City vantar pening sem og hann yrði strax lykilmaður í liðinu (Arsenal eður ei) þá tel ég að fósturfaðir hans skilji að aðalatriðið er að drengurinn komist að í toppliði og fái að spila 100%.

 5. Ég er eiginlega sammála þér með einn – tvo þarna Kristján. Ég hef séð Dirk kuyt spila nokkra leiki og þetta er hörku spilari minnti mig eiginlega svolítið á Gabriel Batistuta, það er maður sá engan stórkostlegan galla á honum, hann virtist geta allt. Ég tel að þið poolarar náið í frábæran mann þar.

  Og svo er það Figo ég yrði alveg til í að sjá hann spila í mínu liði. Þó margir segi að hann sé útbrunninn þá var það sagt fyrir EM 2004 og hann var einn besti maðurinn í keppninni. Þetta er bara spurning með hugarfarið hann virðist nefnilega ekki alltaf með það á réttum stað.

 6. Jájá, þú ert ágætur. Fyrrum knattspyrnumaður heimsins hjá FIFA á frjálsri sölu?

  Eigum við þá bara ekki að bjóða Maradona samning í leiðinni?

  Kannski eru yngri aðdáendur hrifnir af því að fá Figo en við sem að höfum séð til kappans núna upp á síðkastið viljum ekkert með hann hafa. Í þokkabót þá (að ég held) er hann búinn að gera samning við eithvert japanskt lið sem að eru tilbúnir að fallast á launakröfur kappans þannig að þessi umræða er tilgangslaus (sem betur fer).

  Málið með Gary Mac var það að hann kom upphaflega í klúbbinn sem varaskeifa og hann vissi það að hann var ekki að byrja inná í hverjum einasta leik, en það villdi svo skemmtilega til að hann brilleraði og var svo influential að hann varð fljótt fyrsti kostur á miðjuna. Figo er ekkert þannig að skapi farinn. Hann ætlast til þess að byrja sem oftast inná, enda eru sögurnar frægar er hann lenti oft í rifrildum við þjálfara hjá Real og Barca í búningsklefum og dró móral og liðsanda niður með egói sínum.

 7. Frábær úttekt, Kristján.

  Ég er reyndar líka dauðfeginn því að þú sért ekki þjálfari Liverpool. Efast um að þú hefðir gert okkur að Evrópumeisturum. 🙂

  Ef ég væri hins vegar þjálfari Liverpool, þá værum við sko í góðum málum :biggrin2:

 8. Jæja Einar? Er veðmál á leiðinni…..?

  Og ég er handviss um að ég hefði getað unnið Meistaradeildina sem þjálfari Liverpool í vetur! Ef Igor Biscan og Djimi Traoré geta unnið Meistaradeildina, þá geta það allir, ekki satt? :tongue:

 9. SWP er kröftugur hægri kantur sem okkur hefur vantað. Hann vil ég til okkar

  SWP – 15 milljónir (plús kannski leikmann)
  Sergio Ramos og Milito fyrir vörnina – Já fáum þá báða (aðrar 15 milljónir)
  Patrice Evra – ÓJÁ TAKK! (3-5 milljónir + Cheyrou)
  Eitthvað af þessum Valencia mönnum, Joaquin (ef SWP kemur ekki)
  Torres í sókina….en ok…má láta sig dreyma…..ég samt tel að þessi listi að ofan sé MJÖG HOT og ef við fáum 10% af honum yrði ég sáttur (ef frá yrðu teknir Crouch sem er ekki fótboltamaður fyrir fimm aura, Prutton sem á ekki heima í LFC)

 10. Frábær úttekt hjá þér :biggrin: Það er eiginlega klt búinn af “Silly Sission” og ég er að deyja úr spenning 😯 :biggrin:

 11. Flottur pistill as useal. Reyndar mjög ósammála með skoðun ykkar á Peter Crouch, þessi gaur er ótrúlega seigur en ég myndi ekki vilja fá hann í Liverpool. Skorar mikið og kemur hressilega á óvart hvað hann getur notað þessar staurfætur sínar.

  Ég myndi segja að Liverpool hefur ekki verið í svona góðri samningsstöðu í mörg ár. Núna vilja allir leikmenn koma til okkar og spila fyrir þennan frábæra framkvæmdastjóra og flottustu stuðningsmenn í heimi!

  Ég er líka ánægður með að þið tveir Kristján og Einar skulu vera komnir á jörðina varðandi Baros og búnir að sætta ykkur við að hann verði líklega seldur. Því miður. En hann olli mér og mörgum miklum vonbrigðum í vetur, sérstaklega seinni hluta vetrar.

  Draumur minn væri að fá Michael Ballack í strikerinn,
  SWP á hægri kantinn, Jaquín á miðjuna, Patrice Evra í vörnina og Jose Reina í markið.

  Annars kæmi mér ekkert á óvart að Rafa myndi koma með einhverjar óvæntar bombur enda virðist það vera hans stíll að segja minna og gera meira.
  YNWA!

 12. Já Svavar, það er allt útlit fyrir að Baros fari frá liðinu í sumar. Ég er samt ennþá mikill aðdáandi hans, og finnst að við megum ekki gera lítið úr því sem hann hefur gefið liðinu, sérstaklega á nýafstöðnu tímabili. En þegar maður hugsar til framtíðar þá bara sé ég hann ekki fyrir mér henta leikkerfi Rafa nógu vel, því miður.

  Og viltu fá Ballack í strækerinn? 😯 En hann er miðjumaður!

 13. Joaquín á miðjuna? Hann er kantmaður líkt og SWP. Hvorn við fáum skiptir mig ekki máli ef við fáum annan hvorn á hægri kantinn… er samt spenntari fyrir því að fá einn ungan, efnilegan (góðan) enskan leikmann í Liverpool núna.

  Gætum líka skoðað leikmenn eins og:

  Aliaksandr Hleb (Stuttgart) Sókndjarfur miðjumaður frá Hvíta-Rússlandi. Arsenal hafa líst yfir áhuga á honum. Kostar ca. 6-10 mill. punda.

  Ledley King (Tottenham) Varnarmaður frá Englandi. Gríðarlegt efni en gæti reynst of dýr.

  Vincent Kompany (Anderlecht) Varnarmaður. Þykir efnilegasti leikmaður Belgíu um þessar mundir. Er aðeins 18 ára en er nú þegar fasta maður í sínu liði. Kostar ca. 5 mill. punda.

  Philipp Lahm (FC Bayern) Hægri bakvörður. Eitt mesta efni þjóðverja. Er búinn að vera 2 tímabil í láni hjá Stuttgart. Meiddist reyndar nýlega. Gæti kostað 3-6 millj. punda.

  Stewart Downing (Middlesboro) Vinstri kantur. Var nýverið á leið í uppskurð á hnéi. Var búið að velja hann í enska landsliðið. Mikið efni. Gæti reynst dýr og óljóst hvernig hann kemur úr meiðslunum.

Didi vill vera áfram

Figo leystur undan samningi