Kominn heim

Evrópumeistarar 2005


Fyrir tæpum tveim sólarhringum stóð ég í stúkunni í Istanbúl og horfði á **mitt** lið, Liverpool, vinna AC Milan eftir að hafa verið 3-0 undir í hálfleik. Ég horfði á Dudek verja frá Shevchenko af 50 sentimetra færi. Ég horfði á Smicer skora með langskoti og ég horfði á Liverpool skora úr vítaspyrnum.

Þegar Dudek varði vítið frá Shevchenko snéri ég mér við og horfði uppí stúkuna, horfði svo niður á völlinn þar sem Liverpool menn hlupu í áttina að Dudek, sagði svo við sjálfan mig: **Þetta getur ekki verið að gerast**. Og svo fagnaði ég, einsog ég hef aldrei áður fagnað. Þvílík stund, þvílíkur staður, þvílíkt lið.


Ég þurfti að mæta í vinnuna klukkan 8 í morgun, án þess að hafa sofið að ráði síðustu daga og þurfti að sitja 4 fundi. Þrátt fyrir að vera örmagna af þreytu, þá var ég brosandi mestallan daginn. Þvílík sæla. Ég hef ekki upplifað það áður að sjá mitt lið vinna Meistaradeildina. Fyrir alla þá, sem hafa ekki enn upplifað það, þá get ég sagt að tilfinningin er góð. Yndisleg.

Ferðasagan kemur um helgina. En núna þarf ég svefn.

4 Comments

  1. Vil benda ykkur á að í dag var sett inn á fotbolti.net stutt video með lykil augnablikum úr úrslitaleiknum framreitt með kveðju frá Sýn til allra Liverpool aðdáenda.
    Ég er búinn að horfa á þetta video 4 sinnum í röð og var með gæsahúð allan tímann.
    Fallega gert af Sýnar mönnum og fotbolta.net.

    Hverjir eru beztir !!!

  2. Úff þetta myndband var æðislegt, sérstaklega þar sem ég sá ekki leikinn.

Heimkoma

Aldrei einn